Málefni aldraðra

Föstudaginn 09. desember 2005, kl. 16:08:43 (3086)


132. löggjafarþing — 40. fundur,  9. des. 2005.

Málefni aldraðra.

174. mál
[16:08]
Hlusta

Frsm. heilbr.- og trn. (Pétur H. Blöndal) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 125/1999, um málefni aldraðra, með síðari breytingum, frá hv. heilbrigðis- og trygginganefnd.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ólaf Ólafsson, Borgþór S. Kjærnested og Helga Hjálmsson frá Landssambandi eldri borgara, Stefaníu Björnsdóttur, Ásgeir Guðmundsson og Einar Árnason frá félagi eldri borgara í Reykjavík.

Með frumvarpinu er lagt til að gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra verði hækkað um 5,87%, um 337 kr. á hvern gjaldanda, úr 5.738 kr. í 6.075 kr. Í athugasemdum sem fylgja frumvarpinu kemur fram að hækkunin sé í samræmi við áætlaðar verðlagsbreytingar og að gert sé ráð fyrir að byggingarvísitala hækki um 5,87% frá verðlagi í desember 2003 til desember 2004. Sú hækkun liggur hins vegar fyrir og þarf því ekki að áætla hana.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir nefndarálitið rita hv. þm. Ásta Möller, Magnús Stefánsson, Pétur H. Blöndal, Ásta R. Jóhannesdóttir með fyrirvara, Drífa Hjartardóttir, Þuríður Backman með fyrirvara, Birkir J. Jónsson og Guðrún Ögmundsdóttir með fyrirvara.