Málefni aldraðra

Föstudaginn 09. desember 2005, kl. 16:12:33 (3089)


132. löggjafarþing — 40. fundur,  9. des. 2005.

Málefni aldraðra.

174. mál
[16:12]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég fagna því að fá staðfestan þann grun minn að hv. þm. Pétur H. Blöndal sé alls ekki sammála því frumvarpi sem hann er að mæla fyrir eða mæla með í nefndaráliti sínu og tek undir með honum að þetta frumvarp er á margan hátt óeðlilegt. Þegar þessi skattur var settur á hafði hann það markmið að standa undir sérstöku átaki við byggingu þessara hluta. Þess vegna var hann settur sem nefskattur en auðvitað væri eðlilegt að skattar til allra þessara málefna færu sömu leið og aðrir skattar og væru lagðir á eftir tekjum og að teknu tilliti til aðstæðna manna.

Við erum bara sammála um þetta ég og hv. þm. Pétur H. Blöndal og verður fróðlegt fyrir þingheim að virða fyrir sér baráttu okkar um þetta mál á næstunni. Þess vegna finnst mér hryggilegt að hann skuldi standa hér beinlínis sem framsögumaður nefndarálits sem er algerlega öndvert við raunverulegar skoðanir hans.

Hitt verð ég svo að gera athugasemd við og spyrja um en hv. þingmaður sagði að honum þætti æskilegt að meiri hluti en nú er rynni til framkvæmda og minni til rekstrarkostnaðar. Ég get ekki lesið annað út úr því en hv. þingmaður sé sammála því að hluti af þessu eigi að fara í rekstur þessara stofnana. Ég tel að það sé með öðru, en þó kannski skýrasta dæmið um það að ríkisvaldið hefur ekki staðið sig í fyrirheitinu sem það gaf þegar það setti á skatt til að ljúka átaki til að koma upp þeim byggingum sem við þurfum að koma upp með afleiðingum sem okkur eru ljósar núna, þ.e. skorti á hjúkrunarheimilum t.d. í Reykjavík en við Pétur Blöndal erum báðir fulltrúar fyrir það kjördæmi.