Málefni aldraðra

Föstudaginn 09. desember 2005, kl. 16:21:35 (3092)


132. löggjafarþing — 40. fundur,  9. des. 2005.

Málefni aldraðra.

174. mál
[16:21]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Fyrirvari minn við þetta nefndarálit um Framkvæmdasjóð aldraðra, þ.e. að framlagið verði hækkað um 5,87%, á ekki við um þessa hækkun heldur um sjóðinn sem slíkan. Hann var hugsaður sem tímabundinn skattur og á þeim tíma, eins og er í dag þá var mikið átak fram undan að fjölga hjúkrunar- og dvalarheimilum og koma þeim málum í viðeigandi horf. Sjóðurinn fór í byrjun alveg óskiptur til bygginga og uppbyggingar hjúkrunar- og dvalarheimila en það liðu ekki mörg ár þar til var farið að taka hluta af fénu í rekstur og er svo enn í dag þó að stefnt sé að því að draga alfarið úr því hlutfalli og beina öllum Framkvæmdasjóðnum í uppbyggingu dvalar- og hjúkrunarheimila. Þetta er í sjálfu sér óréttlátur skattur, þetta er framtíðarverkefni, þetta er ekkert átaksverkefni og að því þarf að vinna rétt eins og að uppbyggingu sjúkrahúsa eða hjúkrunarþjónustu. Þetta er verkefni til langrar framtíðar sem stuðlar að uppbyggingu hjúkrunar- og dvalarheimila og annarrar þjónustu sem snýr að öldruðum og þá í annarri mynd en eingöngu hjúkrunarheimili og dvalarheimili. Það eru ný rekstrarform eða nýjar úrlausnir sem líta dagsins ljós með fjölbreyttari þjónustu sem hægt væri að beina uppbyggingunni inn á en það er í raun og veru annað mál. En það er réttlátara að taka framkvæmdafé af skatttekjum, eins og úr ríkissjóði, þar sem skatturinn fer þá eftir tekjum einstaklinga þannig að þeir sem efnaðri eru greiði meira.

Vinstri hreyfingin – grænt framboð flutti breytingartillögu við afgreiðslu fjárlaga. Við lögðum til að 200 millj. kr. yrði varið sérstaklega til uppbyggingar hjúkrunarheimila, þar er brýn neyð eins og hér hefur komið fram og því lögðum við þetta til. Eins höfum við alltaf mótmælt því að rekstrarfé sé tekið úr þessum sjóði. Breytingartillaga Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs var felld og ég tel það miður, og eins að það skuli þá ekki alfarið við þessar aðstæður hætt við þá áætlan að taka hluta af Framkvæmdasjóðnum í rekstur. En svona er þetta. Við leggjumst ekki gegn þessari hækkun en hvetjum til þess að framkvæmdir til uppbyggingar hjúkrunarþjónustu fyrir dvalarheimili aldraðra verði fjármagnaðar með öðrum hætti.