Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 67. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 67  —  67. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um mat á framtíðarhorfum og mannaflaþörf í atvinnugreinum.

Flm.: Jóhanna Sigurðardóttir, Hjálmar Árnason, Ögmundur Jónasson,


Einar Már Sigurðarson, Magnús Þór Hafsteinsson, Björgvin G. Sigurðsson,
Kolbrún Halldórsdóttir, Dagný Jónsdóttir, Katrín Júlíusdóttir.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta kanna reglubundið mannaflaþörf og framtíðarhorfur í atvinnugreinum með það að markmiði að meta atvinnumöguleika námsmanna eftir námsleiðum og efla þannig ráðgjöf við nemendur í framhalds- og háskólanámi.
    Verkefnið verði samvinnuverkefni Vinnumálastofnunar og Samtaka atvinnulífsins. Samráð verði haft við náms- og starfsráðgjafa í háskólum og Félag náms- og starfsráðgjafa um tilhögun og framtíðarþróun verkefnisins.
    Félagsmálaráðherra leggi eigi síðar en á haustþingi 2006 skýrslu fyrir Alþingi um tilhögun verkefnisins og kostnað við það sem greiðist af ríkissjóði.

Greinargerð.


    Miklar breytingar hafa orðið á atvinnulífinu á undanförnum árum, ekki síst með tilliti til aukinnar tækniþróunar og alþjóðavæðingar. Samfara því hefur fjölbreytni í atvinnulífinu stöðugt vaxið og gífurlegar umbreytingar orðið á ýmsum sviðum atvinnulífsins. Frumkvöðlastarf og nýsköpun atvinnulífsins hefur átt mikinn þátt í að bæta lífskjörin og auka atvinnuöryggi landsmanna. Aukin menntun, hvort sem er í bók-, iðnaðar-, tækni- eða starfsnámi, verður sífellt mikilvægari í þekkingarsamfélagi nútímans og eykur á fjölbreytileika atvinnulífsins, skapar ný verkefni og tækifæri í atvinnuuppbyggingu og framþróun samfélagsins. Í þessari öru þróun er mikilvægt að hafa heildarsýn yfir framtíðarhorfur og mannaflaþörf í einstakum atvinnugreinum. Það hefði mikið gildi bæði fyrir atvinnulífið og skipulega uppbyggingu menntakerfisins og væri ekki síst mikilvægur stuðningur við námsmenn til að meta atvinnumöguleika með hliðsjón af námsvali.
    Með þeirri miklu breytingu sem orðið hefur á atvinnulífinu á umliðnum árum hefur námsráðgjöf innan allra háskóla farið vaxandi, en mest áhersla er þar lögð á leiðbeiningar í náminu og að sinna margvíslegum sérþörfum nemenda. Sú námsráðgjöf sem er til staðar er auðvitað ákaflega mikilvæg til að leiðbeina nemendum og einnig sú veigamikla kynning á námsleiðum sem háskóladeildir standa fyrir í framhaldsskólunum. Mikilvægt er að framhaldsskólanemendur hafi haft tækifæri til að ígrunda vel náms- og starfsval sitt þegar kemur að háskólanámi. Félag náms- og starfsráðgjafa hafa lagt áherslu á að innan framhaldsskólans vanti meira svigrúm til að sinna náms- og starfsvali, en það gæti einmitt verið liður í námsferli framhaldsskólastigsins að kynna mannaflaþörf og framtíðarhorfur í ýmsum starfsgreinum.
    Einnig má benda á að gerðar hafa verið skýrslur um tekjur eftir atvinnugreinum. Mikið hefur þó skort á allar tölfræðilegar upplýsingar um framtíðarhorfur í mismunandi starfsgreinum. Alla heildaryfirsýn og samvinnu við samtök atvinnulífsins vantar og skort hefur að skipulega hafi verið farið í að þróa líkan eða leggja mat á framtíðarhorfur í einstökum starfsgreinum sem hugsanlega væri hægt að endurmeta með ákveðnu millibili með tilliti til framboðs og eftirspurnar á vinnumarkaði bæði innan lands og utan.
    Skortur á framtíðarsýn í hverri atvinnugrein gerir það að verkum að fólk sem stendur frammi fyrir námsvali getur ekki gert sér ljósa grein fyrir atvinnumöguleikum sínum að námi loknu né heldur á hvaða starfssviðum menntun þeirra getur nýst og færni komið að gagni. Ljóst er að slík framtíðarsýn væri mikill fengur fyrir þá sem ætla að velja sér nám eða starf, sem og fyrir atvinnulífið og þjóðfélagið í heild. Með aðgengilegum upplýsingum um þarfir atvinnulífsins fyrir menntað vinnuafl væri stuðlað að meira jafnvægi á eftirspurn í ýmsar atvinnugreinar og menntun og mannauður nýttist þannig betur, bæði fyrir námsmenn og þjóðarbúið í heild. Upplýsingar um mannaflaþörfina eru afar mikilvægar og mundu leiða til þess að öll náms- og starfsráðgjöf skilaði meiri árangri og yrði markvissari. Upplýsingar og ráðgjöf sem byggðust á spá um þróun mannaflaþarfar í einstökum atvinnugreinum mundu gagnast til að beina menntuðu vinnuafli í þær greinar þar sem mest er þörf fyrir það í framtíðinni.
    Við undirbúning þessarar tillögu var m.a. leitað til námsráðgjafar Háskóla Íslands en þar hefur starfsfólk gegnum árin sárlega fundið fyrir skorti á upplýsingum um þróun vinnumarkaðarins. Á það var m.a. bent að hvergi væri til á einum stað upplýsingar um hversu margir eru starfandi í einstökum atvinnugreinum og hverjar þarfirnar yrðu eftir einhvern tiltekinn tíma í einstökum atvinnugreinum, en val einstaklinga um framhaldsnám væri nátengt starfsupplýsingum og þekkingu á vinnumarkaðnum. Fram til þessa hafi einstaklingar ekki getað reitt sig á áreiðanlegar upplýsingar heldur frekar fylgt tilfinningu um hvort og hvar yrði þörf fyrir þeirra þekkingu í framtíðinni. Námsráðgjöf Háskóla Íslands taldi því brýnt að láta kanna reglubundið mannaflaþörf og framtíðarhorfur í hinum ýmsu atvinnugreinum.
    Á vegum OECD hefur sérstök áhersla verið lögð á starfsráðgjöf og stefnumörkun á því sviði. Í handbók OECD um starfsráðgjöf kemur m.a. fram að í sumum löndum séu starfsupplýsingar hvorki nægilega yfirgripsmiklar né vandaðar. Það komi í veg fyrir að fólk geti tekið vel ígrundaðar ákvarðanir er varða starfsferil þeirra. Víða í starfsgreinum sé skortur á sérhæfðu vinnuafli og í mörgum tilfellum viti fólk ekki um manneklu eða skort á starfsfólki í einhverjum atvinnugreinum. Í upplýsingum OECD um starfsráðgjöf er lögð áhersla á að upplýsingar liggi ávallt fyrir um störf á vinnumarkaði í því skyni að nýta þær til leiðbeiningar við starfsval.
    Þar er líka lögð áhersla á að skoða hvernig samstarf opinberra aðila og einkafyrirtækja geti komið að notum við gerð starfsupplýsinga og hvert sé hlutverk aðila vinnumarkaðarins í þróun og framboði á slíkum upplýsingum. Í handbók OECD er bent á árangursríkar leiðir til að þróa starfsráðgjöf og mat á mannaflaþörf í atvinnugreinum og bent á Holland sem dæmi en þar hefur verið gerður gagnagrunnur sem inniheldur áætlaða eftirspurn eftir vinnuafli í 2.500 starfsgreinum og hann tengdur viðeigandi námi eða starfsþjálfun.
    Einnig er bent á að hægt sé að þróa eða aðlaga staðla fyrir starfsupplýsingar í hverju landi og tengja saman evrópskar eða alþjóðlegar starfsupplýsingar við innlendar upplýsingar um framtíðarhorfur og mannaflaþörf í atvinnugreinum. Gögn frá 29 Evrópulöndum sýna einnig að ráðgjöf og markvissar upplýsingar um starfsval eru að aukast og einsýnt að það gagnist ekki aðeins einstaklingunum sjálfum heldur þjóðfélaginu í heild. Ráðgjöfin sé því mjög góð leið til að ná fram ákveðnum markmiðum í almannaþágu. Í því sambandi er bent á að markviss ráðgjöf sem byggist á framtíðarhorfum í atvinnugreinum geri menntun og þjálfun skilvirkari og tengi betur saman menntun og atvinnu, bæði á innlendum vettvangi og um alla Evrópu. Þessi jákvæða þróun opni augu fólks fyrir nýjum möguleikum og geri því kleift að taka vel ígrundaðar ákvarðanir, sem skili sér í bættum lífskjörum. Þessi leið stuðli að jafnvægi í framboði og eftirspurn eftir vinnuafli og bæti þannig stöðugleika á vinnumarkaði og nýtist í baráttunni við atvinnuleysi og auki hreyfanleika á vinnumarkaðnum. Þannig megi bæta afköst og skilvirkni vinnumarkaðarins, auk þess að nýtast vel við vinnumarkaðsaðgerðir hins opinbera, m.a. í því skyni að efla menntun og þjálfun þeirra hópa sem lakast standa á vinnumarkaðnum.
    Loks er ástæða til að nefna sem rökstuðning fyrir gagnsemi þessarar tillögu, komist hún til framkvæmda, að Evrópusambandið hefur lagt mikla áherslu á ráðgjöf um nám og starfsval og haldið því fram að slík ráðgjöf væri lykill að framþróun fyrir einstaklinginn og samfélagið í heild. Í ályktun frá námsstefnu Félags náms- og starfsráðgjafa frá maí á þessu ári kemur líka fram að víða um heim sé litið á markvissa náms- og starfsráðgjöf sem lykil að framþróun í mennta- og vinnumarkaðsmálum, almenningi til heilla. Jafnframt kemur fram í ályktuninni að stórefla þurfi vinnumarkaðsrannsóknir til að spá fyrir um framtíðarþróun og þörf fyrir vinnuafl.