Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 213. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Prentað upp.

Þskj. 213  —  213. mál.
Flutningsmenn.




    Tillaga til þingsályktunar



um styrki til foreldra sem ættleiða börn frá útlöndum.

Flm.: Guðrún Ögmundsdóttir, Ágúst Ólafur Ágústsson, Dagný Jónsdóttir,


Kolbrún Halldórsdóttir, Katrín Júlíusdóttir, Björgvin G. Sigurðsson,
Jónína Bjartmarz, Rannveig Guðmundsdóttir, Jóhanna Sigurðardóttir.


    Alþingi ályktar að fela heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra að setja reglur um styrki til foreldra sem ættleiða börn frá útlöndum. Styrkupphæðir og reglur taki mið af því sem gerist annars staðar á Norðurlöndum. Styrkir verði greiddir eftir komu barns til landsins og verði jafnframt skattfrjálsir. Tryggingastofnun ríkisins hafi milligöngu um greiðslu styrkjanna, eins og um annan kostnað við meðgöngu og fæðingu sé að ræða, og sjái jafnframt um nánari útfærslu á styrkjum þessum.


Greinargerð.

    Mál þetta var flutt á 130. löggjafarþingi, það var flutt aftur á 131. þingi og er nú lagt fram að nýju. Breytingar voru gerðar við síðustu framlagningu og var sú veigamesta að lagt var til að Tryggingastofnun ríkisins sæi um ferðastyrki vegna ættleiðingar frá útlöndum en ekki dómsmálaráðuneyti eins og var í fyrri tillögu. Þessi breyting er í samræmi við umsagnir sem bárust um málið á 130. löggjafarþingi og til samræmis við aðra styrki og kostnað Tryggingastofnunar ríkisins varðandi meðgöngu og fæðingu. Því er eðlilegt að þetta verði með sama hætti varðandi þennan hóp foreldra og barna þeirra.
    Það er ljóst að ekki geta allir eignast börn á hefðbundinn hátt. Ástæður þessa geta verið margvíslegar en eru oftast tengdar ófrjósemi. Ekki þarf að fara mörgum orðum um það hvaða áhrif það getur haft á fólk sem á sér engan draum heitari en að eignast börn. Undanfarin ár hafa læknavísindin hjálpað mjög mörgum til barneigna með glasafrjóvgun. Sú aðferð dugar þó ekki öllum, og oft lukkast hún ekki. Kostur þeirra fjölskyldna þar sem svo háttar til er að ættleiða barn. Í einhverjum tilvikum er um að ræða ættleiðingar barna sem fædd eru á Íslandi en afar fá slík tilvik eru á ári hverju. Jafnframt eiga sumir kost á að taka fósturbörn en það er langt í frá að allir foreldrar treysti sér í það þar sem oft er um að ræða þung og erfið barnaverndarmál. Í mun fleiri tilvikum hefur verið um að ræða ættleiðingu frá útlöndum. Á undanförnum árum og áratugum hafa allmargar íslenskar fjölskyldur nýtt sér þann möguleika. Sem dæmi má nefna að allmörg börn voru á sínum tíma ættleidd frá Sri Lanka og Indónesíu og undanfarið hafa fjölmörg börn verið ættleidd frá Indlandi. Nýlega gafst kostur á ættleiðingu frá Kína. Þau lönd sem nú eru formleg tengsl við í þessu sambandi eru Indland, Kína, Kólumbía og Taíland. Mikilvægt er líka að reyna að leita fleiri leiða til ættleiðingar. Ættleidd hafa verið á bilinu 15–24 börn á ári að jafnaði, alls um 400 börn.
    Kostnaður við ættleiðingu er mismunandi eftir löndum. Greiða þarf uppihald barnsins, lögfræði- og dómskostnað og ferðakostnað en væntanlegir kjörforeldrar fara oftast sjálfir til að sækja barn sitt. Þó býður félagið Íslensk ættleiðing upp á þjónustu á þessu sviði ef væntanlegir kjörforeldrar treysta sér ekki í slík ferðalög. Ekki er fjarri lagi að ætla að lágmarkskostnaður sé um 1 millj. kr. fyrir hverja fjölskyldu/einstakling vegna þessa. Þá fjármuni þurfa foreldrar að reiða fram á skömmum tíma. Mikilvægt er því að gefa kost á ferðastyrkjum til þess að tryggja að fólk úr öllum þjóðfélagshópum, en ekki einungis hinir efnameiri, hafi möguleika á því að ættleiða börn að utan.
    Mikilvægt er líka að hafa í huga að á sama tíma og þátttaka ríkisins mundi koma til hvað varðar kostnað við ættleiðingar sem sjálfsagður og eðlilegur hluti samtryggingar og velferðar, er hún jafnframt framlag okkar til þess að bæta aðstæður barna í fátækum löndum, sem annars bíður í mörgum tilvikum ekki annað en sár fátækt og stofnanavist til langframa. Þannig leggjum við af mörkum þann mikilvæga skerf að bæta hag margra barna sem búa við erfiðar aðstæður, þótt það liggi ekki endilega til grundvallar óskum foreldra um að ættleiða börn frá útlöndum, þar ræður fyrst og fremst þráin eftir að eignast barn og annast það sem sitt eigið.
    Á 128. löggjafarþingi lagði fyrsti flutningsmaður fram fyrirspurn um ættleiðingar frá útlöndum og hvernig þeim væri háttað annars staðar á Norðurlöndum. Eftirfarandi kom m.a. fram í svari dómsmálaráðherra:
     a.      Að samkvæmt upplýsingum frá félaginu Íslenskri ættleiðingu eiga kjörforeldrar sem fá börn til ættleiðingar frá öðrum löndum ekki kost á styrkjum vegna ættleiðingarinnar úr ríkissjóði.
     b.      Að samkvæmt upplýsingum sem gefnar eru á heimasíðum ættleiðingarfélaga í Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð, svo og samkvæmt upplýsingum frá Íslenskri ættleiðingu, fá kjörforeldrar barna sem ættleidd eru frá öðrum ríkjum fjárstyrki vegna ættleiðinganna fyrir hvert barn sem hér segir:
        Danmörk:     Árið 2001: 36.154 danskar kr.
                                 Árið 2003: 38.138 danskar kr.
        Finnland:     Árið 2003: 1.900–4.500 evrur eftir því frá hvaða landi barnið er ættleitt.
        Noregur:     Árið 2002: 22.500 norskar kr.
                                 Árið 2003: 23.400 norskar kr.
        Svíþjóð:     Árið 2002: 40.000 sænskar kr. (í október).
    Hér er því um að ræða styrki sem nema 170–400 þús. ísl. kr. eftir því hvaðan er ættleitt.
    Jafnframt var spurt um ýmsar skattaívilnanir og hvort slíkir möguleikar væru fyrir hendi hér.
    Í svari ríkisskattstjóra kemur eftirfarandi fram:
    „1. Í skattalöggjöf og skattframkvæmd er réttarstaða ættleiddra barna öldungis sú sama og barna sem fæðast inn í fjölskyldu.
    Þannig eru greiddar barnabætur til kjörforeldra frá og með því ári þegar ættleiðing á sér stað og til fulls 16 ára aldurs barnsins.
    Reglur um ívilnun í skatti á grundvelli þeirra ákvæða 66. gr. laga nr. 75/1981 [nú l. nr. 90/2003] er varða börn taka til ættleiddra barna á sama hátt og annarra barna, þ.e. ef barn er háð langvinnum sjúkdómi eða fötlun eða foreldri ber kostnað vegna náms þess eftir að það nær 16 ára aldri.
    Ekki er nein heimild í lögum til að taka tillit til kostnaðar vegna ættleiðingar barns erlendis frá.
    Gerð var sérstök athugun á viðhorfum skattyfirvalda til slíkra mála og á skattframkvæmd þeirra fyrir nokkrum árum. Liggur fyrir álit umboðsmanns Alþingis vegna þessa. Var það niðurstaðan að skattaívilnun væri ekki veitt á grundvelli þess að foreldrar bæru kostnað við ættleiðingu. Slíkt samrýmdist ekki lögum. Fram kom við umrædda athugun að til voru dæmi úr skattframkvæmd um hið gagnstæða þannig að skattstjóri virtist hafa ívilnað í skattstofnum vegna ættleiðingar en talið var að þar hefði ekki rétt verið staðið að málum.
    2. Lausleg athugun af hálfu ríkisskattstjóra á lögum og reglum í nágrannaríkjunum sem varða skattaleg viðhorf til ættleiðingar leiðir í ljós að þar virðast ekki vera fyrir hendi heimildir til að taka tillit til kostnaðar vegna ættleiðingar við ákvörðun skatta. Uppbygging skattkerfanna á Norðurlöndunum er nokkuð svipuð frá landi til lands og virtust skattaleg viðhorf keimlík því sem áður greinir um reglur á Íslandi. Á það er að líta í þessu samhengi að félagsleg kerfi í öðrum norrænum ríkjum eru nokkuð frábrugðin hinu íslenska að því er varðar tilvik sem snerta félagslegar greiðslur, bætur, styrki, niðurgreiðslu og þátttöku í kostnaði. Hugsanlegt er að í einhverjum tilvikum taki hið opinbera þátt í að hliðra til fyrir ættleiðingum í formi slíkrar fyrirgreiðslu. Skattlagning þannig tekna og tekjuígildis frá félagslegum aðilum til fjölskyldna er síðan með ýmsu móti í þessum ríkjum. Í fljótu bragði var þó ekki fundið að gert væri ráð fyrir sérmeðferð einhverra bóta er tengdust ættleiðingum.“
    Af framansögðu má vera ljóst að við skerum okkur úr hvað varðar ferðastyrki til foreldra sem ættleiða börn frá útlöndum. Finnar hafa nýlega gengið frá reglum um slíka styrki og þá erum við ein Norðurlandaþjóða eftir. Því er brýnt að heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra setji sem allra fyrst reglur þar að lútandi. Mikilvægt er að þær séu skýrar og gegnsæjar.
    Ýmis verkalýðsfélög hafa látið sig þetta mál varða og sum stéttarfélög greiða styrki í tengslum við ættleiðingar, þó ekki þannig að um samræmdar reglur sé að ræða milli hinna ýmsu félaga.
    Nýlega ályktaði Verkalýðsfélag Húsavíkur eftirfarandi og sendi jafnframt eftirfarandi bréf til alþingismanna:
    „Um leið og Verkalýðsfélag Húsavíkur óskar nýkjörnum þingmönnum velfarnaðar í starfi á komandi árum vill félagið benda á ályktun og greinargerð um stöðu fólks sem ættleiða vill börn og samþykkt var á síðasta aðalfundi félagsins. Með ályktuninni vonast félagið til að hægt verði að opna augu ráðamanna fyrir því óréttlæti sem viðgengst gagnvart þeim sem vilja ættleiða börn. Í flestum tilvikum er um að ræða verulega háar fjárhæðir sem fólk, ekki síst verkafólk, á mjög erfitt með að standa straum af. Það er von félagsins að þingmenn taki málið upp á Alþingi í haust með það að markmiði að jafna aðstöðu fólks í þessari stöðu, við aðstöðu þeirra sem eignast börn eftir hefðbundnari leiðum.“
    Ályktunin var svohljóðandi:
    „Aðalfundur Verkalýðsfélags Húsavíkur hvetur stjórnmálaflokkana sem bjóða fram til Alþingis og væntanlega alþingismenn til að tryggja að bætt verði aðstaða fólks sem leitast við að ættleiða börn frá útlöndum. Heilbrigðiskerfið tekur þátt í margvíslegum kostnaði vegna barneigna – eins og eðlilegt er – en engar ívilnanir eru veittar því fólki sem leitar eftir að ættleiða barn frá útlöndum eins og gert er í nágrannalöndunum. Þó er ljóst að því fylgir umtalsverður kostnaður og ekki á færi láglaunafólks að fara þessa leið. Þátttaka almannatrygginga í kostnaði við ættleiðingar frá útlöndum hlýtur að eiga að vera sjálfsagður hluti velferðarkerfis – ef það á að rísa undir nafni.
    Um leið skorar félagið á önnur verkalýðsfélög og Alþýðusamband Íslands að beita sér í málinu og jafna jafnframt rétt fólks til greiðslu úr sjúkrasjóðum, hvort sem um er að ræða tæknifrjóvgun eða ættleiðingu frá útlöndum.
    Þannig samþykkt á aðalfundi Verkalýðsfélags Húsavíkur 2. maí 2003.“
    Á 131. löggjafarþingi náðist ekki að mæla fyrir málinuá nýjan leik en á 130. löggjafarþingi bárust eftirfarandi umsagnir um málið og góður stuðningur við það. Eru þær látnar fylgja hér með þar sem þar er m.a. að finna góðar og gagnlegar tillögur um framhaldsvinnu málsins ef samþykkt verður.


Fylgiskjal.


Umsagnir um tillögu til þingsályktunar um styrki til foreldra
sem ættleiða börn frá útlöndum (85. mál á 130. löggjafarþingi).


Umsögn Alþýðusambands Íslands.
(20. mars 2004.)


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Umsögn Íslenskrar ættleiðingar.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Umsögn ríkisskattstjóra.
(20. febrúar 2004.)


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.