Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 224. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 224  —  224. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um opinbera nefnd sem vinni gegn kynbundnum launamun.

Flm.: Siv Friðleifsdóttir, Jónína Bjartmarz, Dagný Jónsdóttir,     Drífa Hjartardóttir,


Guðrún Ögmundsdóttir, Arnbjörg Sveinsdóttir, Guðjón A. Kristjánsson,


Rannveig Guðmundsdóttir, Anna Kristín Gunnarsdóttir, Magnús Stefánsson.



    Alþingi ályktar að beina því til ríkisstjórnarinnar að koma á fót þverpólitískri nefnd sem skipuð verði fulltrúum stórnmálaflokkanna ásamt fulltrúa Jafnréttisstofu og hafi það verkefni að vinna gegn kynbundnum launamun.
    Nefndin verði vistuð hjá Jafnréttisstofu og ráði til sín starfsmann sem jafnframt verði framkvæmdastjóri hennar.
    Verkefni nefndarinnar verði:
     a.      að vinna að áætlanagerð og aðgerðum til að minnka launamun kynjanna,
     b.      að vera í nánu samstarfi og samráði við hagsmunasamtök og þá aðila sem áhrif hafa á launaþróun í landinu,
     c.      að standa fyrir ráðstefnuhaldi og skoðanakönnunum og að framleiða efni til opinberrar birtingar sem stuðli að launajafnrétti kynjanna,
     d.      að kanna til hvaða aðgerða nágrannar okkar á Norðurlöndunum hafa gripið til að minnka kynbundinn launamun.
    Nefndin vinni í fimm ár og gefi út áfangaskýrslu um störf sín á miðju starfstímabilinu.

Greinargerð.


    Kynbundinn launamunur er ranglæti sem ekki er hægt að líða í nútímasamfélagi.
    Reglulega hafa einstaklingar og samtök, sérstaklega meðal kvenna, vakið athygli á ranglæti gagnvart konum. Á svokölluðum Kvennafrídegi árið 1975 lögðu konur niður vinnu til að sýna fram á verðmæti vinnuframlags kvenna fyrir íslenskt efnahagslíf og héldu fjöldafund til að krefjast jafnréttis. Nú, 30 árum seinna, ríkir enn mismunun gagnvart konum. Hinn 24. október nk. munu konur því leggja niður störf til að sækja fjöldafund og krefjast jafnréttis enn á ný.
    Um langt skeið hefur verið ljóst að ekki ríkir launajafnrétti milli kynjanna á Íslandi. Í rannsóknum og launakönnunum hefur margítrekað verið sýnt fram á að kynbundinn launamunur á Íslandi er á bilinu 7,5–18%. Margar launakannanir hafa einnig sýnt að kynbundinn launamunur er meiri hérlendis en í nágrannalöndum okkar.
    Kynbundinn launamunur hefur verið til umræðu lengi. Fyrstu lög um jöfn laun karla og kvenna í tilteknum starfsstéttum voru sett árið 1945 og árið 1961 voru samþykkt á Alþingi lög um launajöfnuð karla og kvenna. 1975 litu fyrstu jafnréttislögin dagsins ljós og nýjasta endurskoðun þeirra laga er frá árinu 2000. Ríkisstjórnin hefur sömuleiðis gert jafnréttisáætlanir, þá fyrstu 1986. Núgildandi jafnréttisáætlun var samþykkt á síðasta ári en þar segir „Markmið ríkisstjórnarinnar er að uppræta launamun kynjanna þannig að jafnrétti náist á þessu sviði.“
    Í 65. gr. stjórnarskrárinnar er mælt fyrir um að allir skuli vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis og að konur og karlar skuli njóta jafns réttar í hvívetna. Engu síður er það staðreynd að kynbundinn launamunur er fyrir hendi þegar borin eru saman laun fyrir sambærileg og jafnverðmæt störf. Kerfisbundinn launamunur hefur verið viðvarandi um árabil og lítil teikn á lofti um breytingar. Með kynbundnum launamun er farið á svig við jafnréttisákvæði stjórnarskrárinnar og enn fremur við lög nr. 96/2000, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.
    Heildaratvinnutekjur kvenna eru að jafnaði um 60% af atvinnutekjum karla en ef tekið er tillit til vinnutíma þá er hlutfallið komið í 79%. Ástæða þess að margar konur stunda launavinnu í skemmri tíma en karlar er tengd barneignum og fjölskylduábyrgð. Þegar tekið hefur verið tillit til þeirra þátta sem teljast „eðlilegir“ skýringarþættir á mismunandi launum stendur eftir kynbundinn launamunur upp á 7,5–18%.
    Í samræmdri könnun sem gerð var í sex Evrópulöndum árið 2002 og dr. Þorgerður Einarsdóttir, lektor í kynjafræði við Háskóla Íslands, hafði umsjón með hér á landi, kemur í ljós að hér er kynbundinn launamunur á almenna vinnumarkaðnum meiri en á hinum opinbera. Þetta er í samræmi við annars vegar launakannanir sem Félagsvísindastofnun hefur gert fyrir Verslunarmannafélag Reykjavíkur og hins vegar launakannanir Reykjavíkurborgar. Þetta skýrist að hluta til af því að kjaraákvarðanir eru í meira mæli einstaklingsbundnar á almennum vinnumarkaði en algengara er að miðstýrðir kjarasamningar séu hafðir til viðmiðunar á opinbera vinnumarkaðnum. Starfsfólki á almennum vinnumarkaði fer fjölgandi og sífellt algengara er að samið sé um laun á einstaklingsgrundvelli.
    Niðurstaða launakönnunar sem nefnd um efnahagsleg völd kvenna lét gera í samvinnu við Jafnréttisstofu Íslands sýndi eins og aðrar kannanir að aðgerða er þörf.
    Á heimasíðu forsætisráðuneytisins er gerð grein fyrir helstu niðurstöðum könnunarinnar og þar segir m.a.: „Meginniðurstaða launakönnunarinnar var að konur hefðu 72% af launum karla fyrir jafnlangan vinnudag. Könnunin sýnir að skýra má 21–24% af þessum launamun með ólíkum starfsvettvangi, starfi, menntun og ráðningarfyrirkomulagi kynjanna. Það sem eftir stendur (7,5–11% launamunur) stafar af því að hjónaband, barneignir og fleira hefur önnur áhrif á laun kvenna en karla. Föst dagvinnulaun karla eru t.d. 4–5% hærri en ella ef þeir eru í sambúð eða hjúskap en sambúð hefur lítil áhrif á laun kvenna.“ Í þessari sömu skýrslu kemur einnig fram að hlutur kvenna í stjórnunarstöðum er ákaflega rýr. Um þessar mundir er hlutfall kvenna í æðstu stjórnunarstöðum hjá ríkinu um 20% og einungis 4% framkvæmdastjóra stærstu fyrirtækja landsins eru kvenkyns.
    Launamunur kynjanna er flókið fyrirbæri og hafa margir þættir, missýnilegir, áhrif á hann. Þættir sem áhrif hafa á kynbundinn launamun eru t.d. misjöfn viðhorf til hlutverkaskiptingar kynjanna, flokkun hluta vinnumarkaðarins í karla- og kvennastörf, misjafnt aðgengi kynjanna að stjórnunarstöðum í fyrirtækjum, launaleynd og misjöfn fjölskylduábyrgð kynjanna.
    Engar töfralausnir eru til sem eytt geta launamun kynjanna hratt og örugglega. Aðgerðir á borð við ný fæðingarorlofslög, sem réttu hlut karla í fæðingarorlofi, vitundarvakning og viðhorfsbreytingar, m.a. vegna herferða gegn launamun kynjanna á vegum samtaka launafólks, og almennar framfarir í jafnréttismálum, ásamt fleiri þáttum, ættu að hafa jákvæð áhrif, þ.e. kynbundinn launamunur ætti að minnka. Flestar rannsóknir sýna þó að sú hefur ekki verið raunin, svo neinu nemi, hin seinni ár. Vegna þessa er brýnt að staðið verði fyrir átaki til að minnka launamun kynjanna.