Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 144. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 349  —  144. mál.




Nefndarálit



um frv. til fjáraukalaga fyrir árið 2005.

Frá 1. minni hluta fjárlaganefndar.



Aukin útgjöld.
    Í frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2005 er lagt til að útgjöld ríkissjóðs verði aukin um 16 milljarða kr. Nú við 2. umræðu koma enn fram tillögur frá ríkisstjórn og meiri hluta fjárlaganefndar um að auka útgjöldin, nú um 3,3 milljarða kr. Með samþykkt fyrirliggjandi frumvarps og breytingartillagna við það aukast fjárheimildir ársins því um 19,3 milljarða kr. eða um 6,5% af fjárlögum. 1. minni hluti nefndarinnar ætlar ekki við þessa umræðu að meta hvort þetta frumvarp eða breytingartillögurnar við það séu í samræmi við lög um fjárreiður ríkisins en bendir á nefndarálit sitt um frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2003 þar sem gerðar voru umtalsverðar athugasemdir varðandi viðhorf ríkisstjórnarmeirihlutans til þeirra laga. Við 1. umræðu um frumvarpið lýsti fjármálaráðherra því yfir að það væri enginn vafi á því að frumvarpið væri í samræmi við lög um fjárreiður ríkisins. Það er því ekki að sjá að rökstuddar athugasemdir hafi áhrif á viðhorf framkvæmdarvaldsins og meðan meiri hluti þingsins lætur þau viðhorf yfir sig ganga er ekki líklegt að breyting verði á. Eflaust á eftir að bætast við þetta frumvarp áður en til 3. umræðu kemur og mun þá frumvarpið verða skoðað í heild sinni út frá lögum um fjárreiður ríkisins.
    Það vekur sérstaka athygli að efnahagsforsendur fjárlaga ársins 2005 eru algjörlega brostnar. Þannig er nú t.d. spáð að einkaneysla tvöfaldist frá fyrri spám og hið sama gildir um fjárfestingu og þjóðarútgjöld.

Helstu þjóðhagsstærðir, magnbreytingar, %

Fjárlög
2005

Áætluð niðurstaða 2005 Frávik frá fjárlögum
Einkaneysla 5,0 9,5 4,5
Samneysla 2,0 2,4 0,4
Fjárfesting 18,0 28,5 10,5
Þjóðarútgjöld alls 7,5 12,8 5,3
Útflutningur vöru og þjónustu 4,0 1,4 2,6
Innflutningur vöru og þjónustu 10,5 18,2 7,7
Verg landsframleiðsla 5,0 6,0 1,0
Viðskiptajöfnuður – % af landsframleiðslu
11,0

13,3

2,3

    Sjaldan eða aldrei hafa forsendur fjárlaga beðið annað eins skipbrot og einu viðbrögð ríkisstjórnar eru skattalækkanir sem gagnast þeim einum sem mest hafa handa á milli. Sú fyrirætlan getur eins og margir hafa bent á virkað líkt og olía á eld miðað við þær efnahagsforsendur sem við búum nú við.

Auknar tekjur.
    Samkvæmt breytingartillögum við frumvarpið er gert ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs aukist enn um 11,2 milljarða kr. Annars vegar er gert ráð fyrir að skatttekjur ríkissjóðs aukist um 9,6 milljarða kr. en skattar á vöru og þjónustu hækki um 1,1 milljarð kr. Hækkun skatttekna má að stærstum hluta rekja til góðrar afkomu fyrirtækja á árinu 2005, aukins bifreiðainnflutnings og áhrifa aukinnar einkaneyslu á innheimtu virðisaukaskatts. Ætla má að tekjur ríkissjóðs séu vanáætlaðar eins og oft áður og verði meiri en gert er ráð fyrir.
    Enn á ný er bætt við kafla í söguna endalausu um embætti ríkislögreglustjóra. Þau eru fátíð fjáraukalögin þar sem ekki er minnst á embætti ríkislögreglustjóra. Að mati 1. minni hlutans er nauðsynlegt að fljótlega ljúki að sinni skipulagsbreytingum í tengslum við embætti ríkislögreglustjóra þannig að meta megi gæði starfseminnar og kostnað við hana.

Óheppilegt fordæmi.
    Fyrsti minni hluti verður að endurskoða hól það sem Alþingi fékk hjá honum við 1. umræðu fjárlaga. Því miður kemur Alþingi enn við sögu fjáraukalaga í tillögum meiri hlutans nú við 2. umræðu. Mikilvægt er að þingið sjálft, sem fer með fjárveitingavaldið og setur fjárreiðulögin, gangi á undan öðrum stofnunum ríkisins með góðu fordæmi en sé ekki ítrekað á fjáraukalögum. Sömu sögu er að segja um ýmsar aðrar af æðstu stofnunum ríkisins, m.a. embætti forseta Íslands, en forsætisráðuneytið hefur gert fjárlagatillögur um málefni þess sem ítrekað hafa ekki hrokkið fyrir útgjöldum. Þær tillögur um fjárveitingar til forsetaembættisins sem nú er að finna í fjárlögum og fjáraukalögum benda hins vegar til mikillar viðhorfsbreytingar í forsætisráðuneytinu gagnvart forsetaembættinu og er óskandi að embætti forsetans hætti nú að birtast reglulega á fjáraukalögum. Þá er enn fremur óheppilegt að ráðuneyti forsætis og fjármála séu svo tíðir gestir í fjáraukalögum sem raun ber vitni. Ráðuneyti þessi eiga fyrir hönd framkvæmdarvaldsins að hafa forustu um aðhald, aga, vandaða áætlanagerð og reglufestu og ætti því að heyra til algerra undantekninga að þau sæki um framlög á fjáraukalögum.

Lokaorð.
    Margt fleira í þessu frumvarpi væri ástæða til að gera athugasemdir við en það bíður 3. umræðu þegar heildarmynd er komin á frumvarpið. Margoft hefur verið á það bent að til þess að fjárlaganefnd hafi þá yfirsýn sem nauðsynleg er verði að tryggja að við afgreiðslu fjárlaga og fjáraukalaga liggi fyrir áætluð fjárhagsstaða stofnana við lok árs. Það ætti, ef vinnubrögð væru í lagi, að vera fylgiskjal með fjárlagafrumvarpi. Blekkingarleikur með fjárlög hefur einkennt þá ríkisstjórn sem nú situr og því miður hefur meiri hluti Alþingis ekki viljað efla eftirlitshlutverk Alþingis með framkvæmdarvaldinu. Meðan svo er má búast við marklitlum fjárlögum í fallegum búningi.

Alþingi, 15. nóv. 2005.



Helgi Hjörvar,


frsm.


Einar Már Sigurðarson.


Katrín Júlíusdóttir.