Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 353. máls.
Prentað upp.

Þskj. 387  —  353. mál.
Leiðréttur texti.




Frumvarp til laga

um breytingu á lögum nr. 38 15. maí 1990,
um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 132. löggjafarþingi 2005–2006.)




1. gr.

    Orðin „og 9. gr. a“ í 1. tölul. 3. mgr. 7. gr. laganna falla brott.

2. gr.

    9. gr. a laganna fellur brott.

3. gr.

    Lög þessi taka þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Í upphafi fiskveiðiárs 2006/2007 skal úthluta aflahlutdeild í þorski þeim fiskiskipum sem réttur skv. 9. gr. a er bundinn við 28. október 2005. Reiknigrunnur hvers úthlutunarréttar nemur meðaltali þess aflamarks sem úthlutað hefur verið á grundvelli viðkomandi réttar á fiskveiðiárunum 1999/2000–2005/2006, að báðum árum meðtöldum. Þó skal skerða meðaltalið hlutfallslega miðað við lækkun leyfilegs heildarafla í þorski milli fiskveiðiáranna 1999/2000 og 2005/2006. Aflahlutdeild hvers fiskiskips er síðan reiknuð út frá reiknigrunni þess sem hlutfall af úthlutuðu aflamarki fiskveiðiársins 2005/2006 í þorski. Heimilt er ráðherra að setja nánari reglur um framkvæmd þessa ákvæðis, þar á meðal um flutning réttar milli fiskiskipa. Að lokinni þessari úthlutun skal aflahlutdeild allra fiskiskipa í þorski endurreiknuð með hliðsjón af þeim breytingum sem af þessari úthlutun leiðir.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með ákvæði III til bráðabirgða við lög nr. 1 14. janúar 1999 og 4. gr. laga nr. 9 16. mars 1999, um breytingu á lögum nr. 38 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, var ákveðið að árlega skuli á fiskveiðiárunum 1999/2000–2005/2006 úthluta 3.000 lestum af óslægðum þorski til fiskiskipa sem aflahlutdeild höfðu 1. desember 1998 og eru minni en 200 brúttótonn, enda hefðu þau landað þorskafla á fiskveiðiárinu 1996/1997 eða 1997/1998. Aflaheimildir þessar eru dregnar frá leyfðum heildarafla í þorski áður en heildaraflaheimildum er skipt á grundvelli aflahlutdeildar. Úthlutun til einstakra báta er miðuð við heildaraflamark þeirra í þorskígildum talið. Við úthlutun skal miða við aflahlutdeildarstöðu þeirra 1. desember 1998, úthlutað heildaraflamark fiskveiðiársins 1998/1999 og verðmætastuðla á því fiskveiðiári, þó þannig að enginn bátur fái meira en 100% aukningu í þorskaflamarki og enginn hærri úthlutun en 10 lestir miðað við óslægðan fisk. Aldrei skal þó úthlutun leiða til þess að heildaraflaheimildir einstakra skipa verði meiri en 450 þorskígildislestir samtals. Í ákvæðinu er enn fremur kveðið á um heimild til flutnings réttar til úthlutunar og að heimilt sé að úthluta samkvæmt sömu reglum til fiskiskipa sem komið hafa í stað annarra á tilteknu tímabili.
    Aflaheimildum samkvæmt ofangreindri grein hefur verið úthlutað árlega síðan á fiskveiðiárinu 1999/2000. Í upphafi áttu 497 fiskiskip rétt til úthlutunar og þar af voru 234 fiskiskip með hámarksúthlutun en aðrir með minna. Hámarksúthlutun til hvers skips er 10 lestir af óslægðum þorski sem gera 8,4 lestir af slægðum fiski. Fjöldi úthlutunarrétta er óbreyttur frá upphafi en það tekur nokkrum breytingum milli fiskveiðiára hvernig úthlutun skiptist milli fiskiskipa. Hafa 40 úthlutunarréttir aldrei gefið úthlutun og er skýringin annaðhvort sú að skip hafa aflaheimildir yfir 450 þorskígildislestum eða engar aflaheimildir í þorski. Með lögum nr. 85 15. maí 2002 var síðan ákveðið að fyrrgreint ákvæði félli ekki niður í lok fiskveiðiársins 2005/2006 heldur yrði varanlegt og var það flutt inn í megintexta sem 9. gr. a.
    Í frumvarpi þessu er lagt til að fallið verði frá sérreglum varðandi úthlutun á 3.000 lestum af þorski skv. 9. gr. a laganna og fiskiskipum sem þessarar úthlutunar hafa notið verði í staðinn úthlutað aflahlutdeild frá og með fiskveiðiárinu 2006/2007 samkvæmt ákvæði til bráðabirgða. Við útreikning þeirrar aflahlutdeildar verði reiknigrunnur hvers úthlutunarréttar meðaltal þess aflamarks sem úthlutað hefur verið á grundvelli viðkomandi réttar á fiskveiðiárunum 1999/2000–2005/2006, að báðum árum meðtöldum, þó þannig að skerða skal meðaltalið hlutfallslega miðað við lækkun leyfilegs heildarafla í þorski milli fiskveiðiáranna 1999/2000 og 2005/2006. Leyfilegt aflamark í þorski var á fiskveiðiárinu 1999/2000 250 þús. lestir en er á yfirstandandi fiskveiðiári 198 þús. lestir og þykir rétt að miða við fyrrnefnda árið þegar fyrst kom til úthlununar samkvæmt þessu ákvæði. Aflahlutdeild hvers fiskiskips er síðan reiknuð út frá reiknigrunni þess sem hlutfall af úthlutuðu aflamarki fiskveiðiársins 2005/2006 í þorski. Ræðst það síðan af leyfilegum heildarafla í þorski á fiskveiðiárinu 2006/2007 hvað aflahlutdeildin gefur á því ári.
    Ástæða þess að þessi breyting er lögð til er sú að sérstök úthlutun sem byggist ekki á aflahlutdeild heldur öðrum forsendum skapar óhagræði án þess að séð verði, eftir að fallið var frá að hafa ákvæðið tímabundið, að það hafi lengur nokkurn sérstakan tilgang. Eins og áður segir þarf aflamarksstaða fiskiskips að vera með ákveðnum hætti um hver fiskveiðiáramót til þessa að rétturinn nýtist að fullu. Hjá nokkrum hluta skipanna hefur það leitt til þess að aflaheimildir eru ýmist fluttar af skipum eða á til þess að þau verði í heppilegri aflmarksstöðu um fiskveiðiáramótin. Þá hafa þröngar reglur um flutning þessa réttar milli skipa valdið óhagræði, m.a við endurnýjun skipa og sameiningu aflaheimilda. Þykir því ástæða til þess að einfalda fiskveiðistjórnarkerfið og gera þá breytingu sem hér er lögð til. Rétt er að árétta að þetta raskar ekki þorskveiðiaflaheimildum einstakra fiskiskipa þar sem þessi sérstaka úthlutun hefur ávallt verið dregin frá leyfilegu heildaraflamarki í þorski fyrir úthlutun á grundvelli aflahlutdeildar en fellur nú inn í hina almennu úthlutun.
    Þá segir í ákvæðinu að ráðherra sé heimilt að setja nánari reglur um framkvæmd ákvæðisins, þar á meðal um flutning réttar milli fiskiskipa, en nauðsyn ber til að hafa slíka heimild til loka fiskveiðiárs 2005/2006 þegar breytingin tæki gildi. Loks er ljóst að þegar þessi breyting tekur gildi þarf að endurreikna aflahlutdeild allra fiskiskipa í þorski með hliðsjón af þeim breytingum sem af þessari úthlutun aflahlutdeildar leiðir.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 38 15. maí 1990,
um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

    Í frumvarpinu er lagt til að fallið verði frá sérstakri úthlutun á 3.000 lestum af þorski til tiltekinna báta og að hlutdeild þeirra í þorskaflanum verði aukin að sama skapi frá og með fiskveiðiárinu 2005/2006. Að mati fjármálaráðuneytisins og að fengnum upplýsingum frá sjávarútvegsráðuneytinu hefur þessi breyting á lögunum ekki áhrif á kostnað ríkissjóðs.