Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 285. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 465  —  285. mál.




Nefndarálit



um till. til þál.um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 123/2003, um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn.

Frá utanríkismálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Grétar Má Sigurðsson, Ernu S. Hallgrímsdóttur, Nínu Björk Jónsdóttur og Ólöfu Hrefnu Kristjánsdóttur frá utanríkisráðuneyti og Sigríði Auði Arnardóttur frá umhverfisráðuneyti.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES- nefndarinnar nr. 123/2003 frá 26. september 2003, um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/4/EB frá 28. janúar 2003 um almennan aðgang að upplýsingum um umhverfismál og niðurfellingu á tilskipun ráðsins 90/313/EBE.
    Samkvæmt ákvæðum tilskipunarinnar geta allir einstaklingar og lögaðilar óskað eftir aðgangi að upplýsingum um umhverfismál sem opinber yfirvöld ráða yfir eða eru geymdar fyrir þeirra hönd án þess að þurfa að sýna fram á að þeir hafi hagsmuna að gæta. Efnisákvæði tilskipunarinnar taka mið af þeim hluta Árósasamningsins frá 25. júní 1998 sem varðar aðgang almennings að upplýsingum um umhverfismál.
    Umhverfisráðherra hefur lagt fram lagafrumvarp til að innleiða tilskipunina í íslenskan rétt (þskj. 300, 221. mál) og er það nú til meðferðar í umhverfisnefnd Alþingis.
    Steingrímur J. Sigfússon ritar undir álitið með fyrirvara.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.

Alþingi, 23. nóv. 2005.



Halldór Blöndal,


form., frsm.


Ágúst Ólafur Ágústsson.


Siv Friðleifsdóttir.



Drífa Hjartardóttir.


Margrét Frímannsdóttir.


Steingrímur J. Sigfússon


með fyrirvara.



Jónína Bjartmarz.