Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 387. máls.
Þskj. 469  —  387. mál.




Frumvarp til laga

um stofnun Matvælarannsókna hf.

(Lagt fyrir Alþingi á 132. löggjafarþingi 2005–2006.)




1. gr.

    Ríkisstjórninni er heimilt að stofna hlutafélag, sem nefnist Matvælarannsóknir hf., um rekstur Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins, Matvælarannsókna Keldnaholti, sbr. samstarfssamning milli Iðntæknistofnunar og Landbúnaðarháskólans, og rannsóknastofu Umhverfisstofnunar.
    Við stofnun félagsins skal allt hlutafé þess vera í eigu íslenska ríkisins og stofnfé ákveðið í fjárlögum.

2. gr.

    Tilgangur félagsins er að sinna rannsóknum og nýsköpun á sviði matvæla í þágu atvinnulífsins, lýðheilsu og matvælaöryggis og fjármálalegri umsýslu á grundvelli laga og reglugerða sem um þetta gilda, svo og að reka aðra skylda starfsemi.
    Tilgangi og verkefnum félagsins skal nánar lýst í samþykktum þess. Heimilt er félaginu að stofna nýtt félag eða félög sem verði í eigu þess til að annast ákveðna þætti starfseminnar. Þá skal því einnig heimilt að standa að stofnun og gerast eignaraðili að öðrum félögum og fyrirtækjum.
    Félaginu er heimilt að gera samninga við aðra aðila til að ná tilgangi sínum á sem hagkvæmastan hátt skv. 1. mgr.

3. gr.

    Ákvæði laga um hlutafélög gilda um félagið ef ekki er kveðið á um annað í lögum þessum.

4. gr.

    Stjórn félagsins skal skipuð sjö mönnum. Þeir skulu kosnir á aðalfundi ár hvert. Sjávarútvegsráðherra fer með eignarhlut ríkissjóðs í félaginu.

5. gr.

    Þegar starfsemi Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins, Matvælarannsókna Keldnaholti og rannsóknastofu Umhverfisstofnunar verður lögð niður, sbr. 1. gr., fer um réttindi og skyldur starfsmanna þeirra eftir lögum nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, með síðari breytingum, og lögum nr. 72/2002, um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, eftir því sem við á. Félagið skal bjóða störf öllum starfsmönnum framangreindra ríkisstofnana.
    Um biðlaunarétt, sem kann að hafa fylgt störfum í framangreindum ríkisstofnunum, gilda ákvæði laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

6. gr.

    Starfsmaður Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins, Matvælarannsókna Keldnaholti eða rannsóknastofu Umhverfisstofnunar, sem hefur áunnið sér rétt til lífeyrisgreiðslna skv. 24. gr. laga nr. 1/1997, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, og ræðst til starfa hjá hlutafélaginu með minnst þriggja mánaða uppsagnarfresti í hálft starf eða meira getur ekki hafið töku lífeyris fyrr en hann lætur af því starfi.

7. gr.

    Matvælarannsóknum hf. er skylt að halda uppi tilskilinni öryggisþjónustu á sviði matvælarannsókna í þágu landsmanna sem nánar er skilgreind í samningi við félagið. Félaginu er skylt að framkvæma rannsóknir vegna matvælaeftirlits á vegum hins opinbera eftir því sem nánar kveður á í samningi.

8. gr.

    Félagið skal hefja rekstur 1. ágúst 2006.

9. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2006.

10. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á lögum nr. 64/1965, um rannsóknir í þágu atvinnuveganna, með síðari breytingum:
     a.      Orðin „Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins“ í 1. mgr. 9. gr. falla brott.
     b.      IV. kafli, Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, 19.–28 gr., fellur brott.
    Orðin „Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins“ í 5. gr. laga nr. 33/2004, um varnir gegn mengun hafs og stranda, falla brott.

Ákvæði til bráðabirgða.


I.


    Á stofnfundi félagsins, sem haldinn skal fyrir 1. febrúar 2006, skipar sjávarútvegsráðherra félaginu stjórn sem starfar fram að fyrsta aðalfundi, sbr. 4. gr.

II.


    Sjávarútvegsráðherra skipar nefnd þriggja óvilhallra manna þar sem sitji a.m.k. einn löggiltur endurskoðandi. Hlutverk nefndarinnar er að meta eignir og skuldir sem tengjast rekstri Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins, Matvælarannsókna Keldnaholti og rannsóknastofu Umhverfisstofnunar og færðar verða samkvæmt ákvörðun hlutaðeigandi ráðherra til félagsins. Niðurstöður nefndarinnar skulu liggja fyrir eigi síðar en 20. júlí 2006.

III.


    Stjórn Matvælarannsókna hf. annast undirbúning og nauðsynlegar aðgerðir vegna starfsemi félagsins.

IV.


    Þrátt fyrir ákvæði 8. gr. er heimilt að viðhalda Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins sem lögaðila án starfsemi vegna uppgjörs og aðildar að samningum sem ákvörðun hefur verið tekin um fyrir 1. ágúst 2006.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Forsætisráðherra skipaði hinn 6. júní 2005 starfshóp sem var falið að undirbúa sameiningu matvælarannsókna í eina stofnun. Starfshópnum var einnig ætlað að undirbúa frumvarp til laga um breytingu á lögum um rannsóknir í þágu atvinnuveganna þar sem m.a. væri kveðið á um rekstrarform og stjórn sameiginlegrar matvælarannsóknastofnunar, tengsl hennar við háskólana og aðkomu samtaka atvinnulífsins að slíkri stofnun.
    Starfshópnum var m.a. falið að taka mið af eftirfarandi atriðum:
     .      Markmið stofnunarinnar verði m.a. að efla alþjóðlega samkeppnishæfni íslenskrar matvælaframleiðslu, stuðla að hollustu og öryggi matvæla og styðja við vísindastarfsemi háskólastofnana og sinna samfélagslegum skyldum gagnvart einstökum atvinnugreinum.
     .      Verksvið stofnunarinnar nái yfir rannsóknir, þróun og framleiðslu og meðferð matvæla frá hráefni, óháð uppruna þess, til neytendavöru með hagkvæmni framleiðslunnar og gæði og hollustu vörunnar í fyrirrúmi.
     .      Kanna að hvaða leyti starfsemi matvælarannsókna geti verið rekin á markaðslegum forsendum, kosti þess að rekstrarform stofnunarinnar verði hlutafélag og möguleika á aðkomu atvinnulífsins að stofnuninni.
     .      Stofnunin búi við sem mest rekstrarlegt sjálfstæði, henni verði sett stjórn sem marki stefnu og starfsemi stofnunarinnar og beri faglega og fjárhagslega ábyrgð á starfseminni gagnvart eigendum. Sjávarútvegsráðherra skipi stjórn stofnunarinnar en landbúnaðarráðherra, umhverfisráðherra og iðnaðarráðherra tilnefni fulltrúa í stjórnina.
     .      Framlag ríkisins til stofnunarinnar taki mið af samningi sem gerður verði við stofnunina og sjávarútvegsráðuneyti, landbúnaðarráðuneyti, iðnaðarráðuneyti, umhverfisráðuneyti og fjármálaráðuneyti komi að. Gengið er út frá því að núverandi fjárframlag á fjárlögum til þeirra stofnana og verkefna sem renna inn í sameinaða matvælastofnun flytjist til hinnar nýju stofnunar og verði hluti af fyrrnefndum samningi.
     .      Gert er ráð fyrir að vísindasamstarf stofnunarinnar við háskóla í landinu verði á grundvelli samnings við þá háskóla sem þess óska.
    Halldór Árnason, skrifstofustjóri í forsætisráðuneyti, var formaður starfshópsins. Aðrir í starfshópnum voru Ingimar Sigurðsson skrifstofustjóri, tilnefndur af umhverfisráðherra, Leifur Eysteinsson viðskiptafræðingur, tilnefndur af fjármálaráðherra, Sveinn Þorgrímsson skrifstofustjóri, tilnefndur af iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Vilhjálmur Egilsson ráðuneytisstjóri, tilnefndur af sjávarútvegsráðherra, og Þorsteinn Tómasson skrifstofustjóri, tilnefndur af landbúnaðarráðherra. Matthías Imsland, deildarsérfræðingur í iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti, starfaði með hópnum.
    Nefndin skilaði forsætisráðherra drögum að lagafrumvarpi um stofnun Matvælarannsókna hf. ásamt greinargerð sem er samhljóða því frumvarpi sem hér er lagt fram og greinargerð sem því fylgir.

1. Aðdragandi.
    Í stefnu Vísinda- og tækniráðs, sem samþykkt var árið 2003, er megináhersla lögð á að treysta menningarlega og efnahagslega stöðu Íslands í alþjóðlegu samkeppnisumhverfi þannig að efnahagur og lífsgæði Íslendinga skipi þeim áfram í fremstu röð meðal þjóða. Enn fremur er lögð áhersla á sjálfbæra nýtingu auðlinda, aukna verðmætasköpun, bætt heilsufar og félagslegt öryggi.
    Á grundvelli stefnu Vísinda- og tækniráðs hafa stjórnvöld lagt áherslu á eftirfarandi verkefni á kjörtímabilinu:
     .      Auka úthlutunarfé opinberra samkeppnissjóða og samhæfa starfsemi þeirra.
     .      Byggja upp og efla fjölbreyttar háskólarannsóknir á Íslandi.
     .      Endurskilgreina skipulag og starfshætti opinberra rannsóknastofnana.
    Forsætisráðherra ákvað 22. mars 2004 að skipa starfshóp undir forustu Halldórs Árnasonar skrifstofustjóra til að endurskilgreina skipulag og starfshætti opinberra rannsóknastofnana. Markmiðið væri að sameina krafta þeirra og tengja starfsemi þeirra betur við háskólana og atvinnulífið í landinu. Sá starfshópur skilaði fyrstu tillögum 24. maí 2004. Þar var m.a. lagt til að könnuð yrði möguleg samþætting eða sameining matvælarannsókna í eina stofnun eða fyrirtæki.
    Vísinda- og tækniráð tók undir þessa tillögu vorið 2004 og 5. ágúst sama ár skipaði forsætisráðherra nefnd undir forustu Þorkels Sigurlaugssonar framkvæmdastjóra sem átti að kanna mögulega samþættingu eða sameiningu matvælarannsókna í eina stofnun. Almenn markmið slíkrar sameiningar væru aukin gæði rannsókna, hagræðing, samræmd vinnubrögð og betri þjónusta við sjávarútveg, landbúnað og annan matvælaiðnað.
    Nefndin skilaði forsætisráðherra niðurstöðu 3. nóvember 2004. Helstu tillögur hennar voru:
     1.      Matvælarannsóknir á Íslandi fari að mestu fram hjá einni öflugri stofnun, Matvælarannsóknastofnun Íslands. Lagt er til að Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, matvælarannsóknir Rannsóknastofnunar landbúnaðarins og Iðntæknistofnunar Íslands (MATRA) og rannsóknastofa Umhverfisstofnunar renni inn í þessa nýju stofnun. Gert er ráð fyrir virkri aðkomu viðkomandi ráðuneyta og aðila atvinnulífs á sviði matvælaframleiðslu í stjórn hennar. Stofnunin taki mið af stefnu stjórnvalda í málefnum matvælarannsókna og verði starfrækt á ábyrgð ríkisins og samtaka atvinnulífsins á þessu sviði. Athugaðir verði möguleikar þess að stofnunin verði rekin sem sjálfseignarstofnun eða hlutafélag.
     2.      Höfuðstöðvar Matvælarannsóknastofnunar Íslands verði í Reykjavík en öflugt rannsóknarsetur á hennar vegum verði byggt upp við Háskólann á Akureyri. Náin tengsl verði einnig við Landbúnaðarháskóla Íslands, Háskóla Íslands og Tækniháskóla Íslands. Tengslin verði efld með sameiginlegri starfsaðstöðu, nýtingu starfskrafta, rannsóknartengdu framhaldsnámi, auk verkefnasamstarfs og þátttöku í vaxandi alþjóðasamstarfi á sviði matvælarannsókna.
     3.      Stjórnvöld leiti eftir því við samtök atvinnulífsins að skipuð verði viðræðunefnd um nánari útfærslu og undirbúning samnings um málið. Samhliða fari fram undirbúningur að nauðsynlegri breytingu á lögum um rannsóknir í þágu atvinnuveganna.
    Starfsnefndir Vísinda- og tækniráðs fóru yfir tillögur þessar og hvöttu til þess að Matvælarannsóknastofnun Íslands og háskólar sem sinntu kennslu og rannsóknum í líf- og heil- brigðisvísindum, raunvísindum, verk- og tæknifræði, lýðheilsu- og næringarfræði mynduðu samstarfsklasa á alþjóðlegan mælikvarða þar sem hver eining héldi sjálfstæði og sérhæfingu, jafnframt því sem allt samstarf þeirra efldist. Með náinni samvinnu við háskóla um kennslu og rannsóknir skapast öflugur vettvangur rannsókna og þróunar á sviðinu.
    Vísinda- og tækniráð tók í desember 2004 undir álit starfshópsins að matvælarannsóknir á Íslandi fari að mestu fram hjá einni sjálfstæðri og öflugri stofnun sem hafi margþætt tengsl við háskóla í landinu. Jafnframt beindi ráðið því til forsætisráðherra að skipa starfshóp til að undirbúa sameiningu matvælarannsókna í eina stofnun og frumvarp til laga um breytingu á lögum um rannsóknir í þágu atvinnuveganna. Þar yrði m.a. kveðið á um rekstrarform og stjórn sameiginlegrar matvælarannsóknastofnunar, tengsl hennar við háskólana og aðkomu samtaka atvinnulífsins að slíkri stofnun.

2. Mikilvægi matvælaframleiðslu fyrir Ísland.
    Íslendingar eru afar háðir matvælaframleiðslu, bæði til eigin neyslu og til útflutnings. Beint eða óbeint er matvælaframleiðsla langumsvifamesta svið íslensks atvinnulífs og vinnumarkaðar.
    Mikilvægi matvælaiðnaðar og tengdra greina í íslensku efnahagslífi má marka af eftirfarandi hagtölum:
     .      Útflutningsverðmæti sjávarafurða, landbúnaðarafurða og annarra matvæla nam um 126 milljörðum kr. árið 2004, eða um 62,3 % af öllum vöruútflutningi.
     .      Árið 2004 voru nálægt 3,4% starfa í landinu í landbúnaði, 2,9% við fiskveiðar, 3,5% í fiskvinnslu og um 3% í öðrum matvælaiðnaði, eða nærri 12,7% af öllum störfum í landinu á því ári, eða um 20.000 störf.
     .      Útflutningur á tæknivörum, sem tengjast sjávarútvegi og matvælavinnslu, nam um 5 milljörðum kr., eða 2,5% af verðmæti alls vöruútflutnings.
     .      Innkaup á matvælum er stærsti liðurinn í útgjöldum heimilanna að verðmæti 66,8 milljarðar kr. á árinu 2003, eða 15,2% af einkaneyslu í landinu, og að verðmæti 87,8 milljarðar kr., eða 18,9% ef áfengi og tóbak er meðtalið.
    Auk þess hefur matvælaiðnaður umtalsverð áhrif á flutninga, verslun og aðra þjónustu. Þar eru áhrif sjávarútvegs og fiskvinnslu sýnu mest. Framleiðsla tækja og búnaðar til matvælavinnslu er ört vaxandi grein og sömuleiðis eru umsvif íslenskra fyrirtækja erlendis mikil þótt ekki komi þau nema að litlu leyti fram í íslenskum hagtölum. Þetta hvoru tveggja byggist að sjálfsögðu á reynslu og þekkingu sem áunnist hefur heima fyrir. Matvælaframleiðsla er einn af mikilvægustu atvinnuvegum þjóðarinnar og hefur verið vettvangur nýsköpunar og nýrra tækifæra í alþjóðlegum viðskiptum og er líklegt að svo verði á komandi árum. Nýsköpun í atvinnulífinu er mikilvæg forsenda hagvaxtar og bættrar samkeppnisstöðu Íslands. Framleiðendur tækja fyrir matvælaiðnað sækja talsvert af þekkingu og reynslu til matvælaframleiðslu hér á landi og fyrirtækin verja umtalsverðum fjármunum til rannsókna og þróunar nýrrar tækni og aðferða við matvælavinnslu. Hátæknifyrirtæki á þessu sviði þróa tæki og vinnuaðferðir fyrir margar greinar matvælaiðnaðar, bæði á sviði frumvinnslu og fullvinnslu afurða úr landbúnaði jafnt sem sjávarfangi.
    Matvælarannsóknir eru að stórum hluta óháðar uppruna hráefnis. Sem dæmi um náið samspil milli tækjabúnaðar og matvælavinnslu má nefna að stærðarflokkun, skurður, rekjanleiki og pökkun matvæla eru að verða grundvallaratriði fyrir matvælafyrirtæki til að halda samkeppnisstöðu og geta keppt við ódýrt vinnuafl í ýmsum löndum. Áhersla á matvælarannsóknir er því mikilvæg forsenda hagvaxtar og viðunandi launa hér á landi.
    Ísland er matvælaframleiðsluland og því er afar mikilvægt að hafa yfir að ráða fullkomnustu þekkingu á því sviði. Það á við um frumframleiðslu, úrvinnslu, framleiðslu tækjabúnaðar og alþjóðleg viðskipti með matvæli, þ.m.t. gæslu öryggis og gæða í öllu framleiðslu- og viðskiptaferlinu frá uppruna hráefnis til afhendingar hjá neytendum vörunnar. Síðastnefnda atriðið verður sífellt mikilvægara í alþjóðlegum viðskiptum þar sem vaxandi kröfur til verndar lýðheilsu eru bundnar í alþjóðlegum samningum og reglum um viðskipti með matvæli. Áreiðanleiki og skjótvirkur rekjanleiki vöru og haldgóðar upplýsingar um efnainnihald getur ráðið úrslitum fyrir samkeppnisstöðu íslenskrar matvælaframleiðslu. Gildir það hvort sem um er að ræða fiskmeti, landbúnaðarafurðir eða aðrar unnar matvælaafurðir.

3. Matvæli og þekking – hlutverk hins opinbera.
    Þekkingarstarf á sviði matvæla er hagsmunamál fyrir íslenska þjóð. Þeir hagsmunir snúa beint að heilsu og fæðuöryggi þjóðarinnar og ekki síður að atvinnu- og viðskiptahagsmunum í útflutningi og samkeppni við erlenda aðila. Hið opinbera hefur hlutverki að gegna á þessu sviði, eins og fjallað verður um í stuttu máli hér á eftir.

3.1 Matvælaöryggi.
    Samkvæmt lögum nr. 93/1995, um matvæli, ber íslenska ríkinu að tryggja, svo sem kostur er, gæði, öryggi og hollustu matvæla og að merkingar og aðrar upplýsingar um þau séu réttar og fullnægjandi. Þessu skal ná með fræðslu og upplýsingamiðlun, rannsóknum og eftirliti.
    Því er mikilvægt að stjórnvöld geri ráðstafanir svo að aðstaða, þekking og reynsla sé til staðar til að sinna verkefnum sem stuðla að öryggi matvæla.
    Nauðsynlegt er að opinberir eftirlitsaðilar geti gengið að mæliþjónustu vísri, og þá sérstaklega er varðar öryggismælingar. Þar má nefna mælingar vegna matarsjúkdóma, ekki síst bráðatilfella, sem búast má við að komi upp með reglulegu millibili. Til þess að hið opinbera geti sinnt hlutverki sínu á þessu sviði þarf þjónusta á sviði matvælarannsókna að vera þannig að heilbrigðiseftirlitið og heilbrigðisþjónustan geti gengið að því vísu að njóta ávallt forgangs þegar nauðsyn krefur. Forgangsþjónusta á þessu sviði gerir sérstakar kröfur til búnaðar og starfsfólks.
    Hin síðari ár hafa komið upp allmörg bráðatilfelli sem rekja má til sýklamengunar í matvælum og sem bregðast hefur þurft við í skyndingu. Aðgerðir hafa m.a. beinst að því að greina ýmsar tegundir sýkla í matvælum og leggja á ráðin um rannsóknir til að fá sem fyrst yfirsýn yfir hættuna og þegar því er náð að vakta virkni aðgerða.
    Umhverfisstofnun sem yfirumsjónaraðili matvælaeftirlits þarf að hafa aðgang að öryggisþjónustu hjá rannsóknastofu sem gefur henni forgang þegar bráðatilvik koma upp. Landfræðileg einangrun Íslands með tilheyrandi fjarlægð við erlenda rannsókna- og öryggisþjónustu gerir það að verkum að tryggja þarf að þessi þjónusta og sérfræðiþekking henni tengd sé til staðar í landinu. Ef svo er ekki eru verulegar líkur á að aðgerðir verði ómarkvissar og að almenningur missi tiltrú á að stjórnvöld séu fær um að takast á við bráðar matareitranir og matarsýkingar.
    Landbúnaðarstofnun sinnir margvíslegum stjórnsýsluverkefnum sem eru skyld þeim sem Umhverfisstofnun annast og þarfnast hliðstæðrar efna- og örverurannsókna, svo sem vegna fóðureftirlits, dýraheilsu og fleiri þátta. Einnig hefur heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga og Fiskistofa þörf fyrir hliðstæða þjónustu.

3.2 Menntun og grunnrannsóknir.
    Ríkinu ber skylda til að bjóða fólki tækifæri til að búa sig undir ýmis störf í atvinnulífinu eða frekara nám. Í því skyni rekur ríkið framhaldsskóla og háskóla eða styrkir skólarekstur á vegum einkaaðila. Í háskólum eru jafnframt stundaðar rannsóknir sem tengjast kennslunni bæði beint og óbeint, sérstaklega framhaldsnámi. Þá rekur ríkið margar rannsóknastofnanir, bæði sem sjálfstæðar stofnanir og stofnanir innan háskólanna, auk þess sem einkaaðilar reka nokkrar rannsóknastofur. Rannsóknastofnanirnar eru í nánu samstarfi við háskóla og fyrirtæki um rannsóknarverkefni og við háskólana um nám og kennslu nemenda. Meðal annars sjá starfsmenn þeirra um hluta af kennslunni í háskólunum og nemendur í framhaldsnámi taka þátt í verkefnum þeirra. Á þennan hátt meðal annars starfa háskólarnir, rannsóknastofnanirnar og fyrirtækin saman að því að búa til og miðla þekkingu.
    Grunnrannsóknir fela í sér tilraunir eða fræðilega vinnu sem er innt af hendi með það í huga að afla nýrrar þekkingar á meginundirstöðum fyrirbæra og atburða sem unnt er að skoða án þess að hafa alltaf tiltekna hagnýtingu eða notkun í huga. Með grunnrannsóknum er verið að greina eiginleika, formgerðir og tengsl í þeim tilgangi að setja fram og prófa tilgátur, kenningar eða lögmál. Rannsóknirnar geta tekið langan tíma og skilað óvissri niðurstöðu. Af þeim sökum leggja einstök fyrirtæki ógjarnan fram háar fjárhæðir til slíkra rannsókna þar sem beinn hagur þeirra er oft óljós og takmarkaður. Grunnrannsóknir hafa hins vegar þjóðhagslega þýðingu sé horft til framtíðar, t.d. vegna brýnna samfélagslegra viðfangsefna og sem aflgjafar framfara. Rannsóknir eru að stórum hluta fjármagnaðar með beinum fjárstuðningi ríkisins til stofnana en einnig leggur ríkið fé í rannsóknasjóði sem þeir sem standa fyrir rannsóknum sækja um styrki í. Stefna stjórnvalda er að efla rannsóknasjóði, sérstaklega þar sem samkeppni um rannsóknarfé á grundvelli vel skilgreindra verkefna og hæfra umsækjenda er talin bæta árangur á þessu sviði.

3.3 Lýðheilsa.
    Aukið heilbrigði er þjóðarhagur. Miklu skiptir að stefnumótun og aðgerðir stjórnvalda á sviði lýðheilsu séu byggðar á bestu þekkingu á hverjum tíma. Öflun þeirrar þekkingar kallar á menntun, þróun og rannsóknir á sviði lýðheilsu og beitingu viðurkenndra aðferða við mat á árangri aðgerða. Lögbundið hlutverk manneldisráðs skv. 7. gr. laga nr. 18/2003, um Lýðheilsustöð, er að stuðla að heilsusamlegu mataræði þjóðarinnar í samræmi við manneldismarkmið. Ráðið vinnur að samræmingu rannsókna og fræðslu á sviði manneldisfræði í samráði við skóla, heilsugæslu og stofnanir á sviði matvælaeftirlits.

4. Matvælarannsóknir á Íslandi.
    Matvælarannsóknir sem kostaðar eru af hinu opinbera fara einkum fram hjá Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, Matvælarannsóknum Keldnaholti og rannsóknastofu Umhverfisstofnunar. Hér á eftir verður stuttlega gerð grein fyrir þessari starfsemi. Auk þessa er unnið að mikilvægum rannsóknum á vegum háskóla, annarra rannsóknastofnana og fyrirtækja, einatt í samstarfi við ofangreindar rannsóknastofnanir.

4.1 Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins.
    Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins (Rf) er rannsókna- og þjónustustofnun fyrir sjávarútveginn og annan matvælaiðnað og starfar samkvæmt lögum nr. 64/1965. Lögbundið hlutverk Rf er að stunda rannsóknir, framkvæma prófanir, veita ráðgjöf og miðla upplýsingum til stjórnvalda, hagsmunaaðila í sjávarútvegi og neytenda. Stefna Rf er að auka verðmæti sjávarfangs með rannsóknum, þróunarvinnu, miðlun þekkingar og ráðgjöf og vera þannig þekkingarbrú á milli atvinnulífsins og háskóla hér á landi sem og erlendis.
    Hjá Rf eru 56 starfsmenn, þar af 35 sérfræðingar, 10 í þjónustumælingum, forstjóri, fjármálastjóri, sérfræðingur í markaðsmálum, starfsmaður í símasvörun, starfsmaður í tölvumálum og sex í almennum tæknimálum. Tekjur Rf byggjast á fjárveitingum ríkisins og sértekjum sem aflað er hjá innlendum og erlendum samkeppnissjóðum, svo og með verkefnum sem fyrirtæki greiða til. Ríkisframlag Rf fyrir árið 2005 er áætlað 197 millj. kr., 176 millj. kr. eru áætlaðar í rannsóknartekjur og 77 millj. kr. í sértekjur, samtals 450 millj. kr.
    Höfuðstöðvar Rf eru í Reykjavík þar sem stærsti hluti rannsókna fer fram. Húsnæði Rf þar, sem er í eigu ríkisins, er 2.118 fm en það er ekki talið ákjósanlegt til frambúðar. Stofnunin er einnig með vaxandi rannsóknarstarfsemi á Akureyri í um 300 fm húsnæði með 20–25 ára óuppsegjanlegan leigusamning. Í Vestmannaeyjum er útibú þar sem stundaðar eru rannsóknir í um 30 fm leiguhúsnæði sem er uppsegjanlegt. Á Ísafirði eru stundaðar rannsóknir í um 150 fm húsnæði, þar af notar Rf 25 fm, framleigir 125 fm og gildir leigusamningur til 2009, óuppsegjanlegur á leigutíma. Í Neskaupstað fara fram þjónustumælingar í um 150 fm húsnæði og gildir leigusamningur til 2011, óuppsegjanlegur.
    Þjónusta Rf á sviði faggiltra örveru- og efnagreininga er veitt á samkeppnisgrundvelli af fjárhagslega aðgreindri deild innan stofnunarinnar. Þessi þjónusta var veitt á mörgum stöðum á landinu en hún hefur dregist saman á síðustu árum og er nú veitt á tveimur stöðum. Aftur á móti hefur Rf lagt á síðustu árum aukna áherslu á að auka vægi rannsókna og nýsköpunar innan stofnunarinnar. Vegna þessa er vaxandi samstarf við háskóla, bæði hérlendis og erlendis, og hefur Rf gert samstarfssamninga við flesta háskólana í landinu, oft um sameiginlega ráðningu starfsmanna. Auk þess hefur Rf séð um kennslu og umsjón með námi fyrir Sjávarútvegsskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna á sviði gæða, vinnslu og öryggi sjávarfangs.
    Flest verkefni Rf eru unnin í samstarfi við fyrirtæki. Gerður hefur verið formlegur samningur við eitt fyrirtæki um beina samvinnu um þróun og rannsóknir og eru fleiri í farvatninu. Rf hefur lagt áherslu á eftirfarandi fjögur fagsvið: líftækni, öryggi og heilnæmi, kældar afurðir og fiskeldi. Sérfræðisvið Rf eru vinnslutækni, líftækni, efna- og eðliseiginleikar matvæla, örverur, aðskotaefni, gæði, rekjanleiki, öryggi sjávarfangs, fóður og fóðurtækni í fiskeldi og umhverfisrannsóknir.

4.2 Matvælarannsóknir Keldnaholti.
    Matvælarannsóknir Keldnaholti (MATRA) hafa verið starfræktar frá árinu 1998 í samstarfi Landbúnaðarháskóla Íslands (áður Rannsóknastofnun landbúnaðarins) og Iðntæknistofnun Íslands (ITÍ). MATRA hagnýtir búnað og starfsemi beggja stofnananna. Starfsemin skiptist í þrjá meginþætti: rannsóknir og þróun á sviði matvælatækni, ráðgjöf og þjónustuverkefni. Sem dæmi má nefna efnisval, vinnsluferla og samsetningu matvæla og rekstur gagnagrunns um efnainnihald matvæla.
    Markmið með starfsemi MATRA er þríþætt: Í fyrsta lagi að auka þekkingu og tækni í íslenskum matvælaiðnaði, í öðru lagi að efla tengsl æðri menntastofnana við atvinnulífið með því að bjóða námsmönnum í framhaldsnámi að vinna við rannsóknarverkefni sem tengjast þörfum matvælaiðnaðarins og í þriðja lagi að efla tengsl við erlendar stofnanir, skóla og fyrirtæki með þátttöku í alþjóðlegum verkefnum og með því að bjóða sérfræðingum og erlendum námsmönnum í framhaldsnámi upp á rannsóknaaðstöðu.
    MATRA er með 299 fm aðstöðu í húsakynnum ITÍ þar sem starfa átta sérfræðingar í sjö og hálfu stöðugildi. MATRA fær ýmsa þjónustu frá ITÍ og Landbúnaðarháskólanum er lýtur að húsnæði og rekstri svo sem tölvuþjónustu, hita, rafmagni, síma, ræstingu og kynningarmálum. Tekjur MATRA árið 2005 eru áætlaðar 51 millj. kr., þar af eru 16 millj. kr. framlag frá Landbúnaðarháskólanum og ITÍ en um 35 millj. kr. sértekjur frá innlendum og erlendum rannsóknasjóðum. MATRA greiðir ekki fyrir húsnæði og þjónustu sem Landbúnaðarháskólinn og ITÍ láta í té og er því ríkisframlagið í raun hærra sem þessu nemur.
    Mikilvægur þáttur í starfseminni er samstarf við marga sérfræðinga innan Landbúnaðarháskólans, einkum á sviði lífeðlisfræði, fóðurfræði og erfðafræði. Flest verkefni eru unnin í samstarfi við fyrirtæki. MATRA á einnig samstarf við erlenda háskóla og rannsóknastofnanir um verkefni sem fjármögnuð eru úr erlendum sjóðum.
    Starfsmenn MATRA búa einkum yfir faglegri þekkingu á eðliseiginleikum matvæla, vöruþróun, nýrri framleiðslutækni og efnainnihaldi matvæla. Slík þekking er mikilvæg til að hámarka gæði matvæla í þágu atvinnulífs og neytenda.

4.3 Rannsóknastofa Umhverfisstofnunar.
    Rannsóknastofa Umhverfisstofnunar (RUST) er fjárhagslega sjálfstætt svið innan stofnunarinnar skýrt aðgreint frá stjórnsýslusviðum hennar. RUST tók við starfsemi Matvælarannsókna ríkisins sem starfrækt var samkvæmt lögum nr. 74/1977. Fram til ársins 1978 annaðist Rf þessa þjónustu fyrir heilbrigðisráðuneytið og opinbert heilbrigðiseftirlit í landinu. Rekstur rannsóknastofunnar hefur ekki verið lögbundinn en hlutverk hennar er einkum að sinna matvælarannsóknum fyrir opinbert umhverfis- og heilbrigðiseftirlit í landinu með áherslu á matvælaöryggi og heilnæmi neysluvatns. Starfsmenn eru tólf í ellefu og hálfu stöðugildi, örverufræðingar, líffræðingar, matvælafræðingar, efnafræðingur og sex rannsóknarmenn. Tekjur eru áætlaðar 68 millj. kr. árið 2005 og þar af eru 35 millj. kr. samkvæmt samningi við Umhverfisstofnun sem RUST veitir þjónustu og ráðgjöf sem tengist lögbundnu yfirumsjónarhlutverki stofnunarinnar gagnvart heilbrigðiseftirliti í landinu, eftirliti með innflutningi matvæla og ráðgjöf við stjórnvöld. RUST leigir tækjabúnað og kaupir skrifstofuþjónustu af Umhverfisstofnun. RUST annast örveru- og efnafræðilegar mælingar og rannsóknir á sviði matvæla-, neyslu- og nauðsynjavara, m.a. í lyfjaiðnaði og vegna mengunar. Stór hluti þeirra aðferða sem notaðar eru við örverurannsóknir á matvælum og vatni eru nú faggiltar og stefnt er að því að aðrar algengar þjónustumælingar sem rannsóknastofan býður upp á verði faggiltar á næstu árum. RUST leigir búnað af Umhverfisstofnun en húsnæðið sem er 641 fm að stærð er í eigu ríkisins og er leigan fyrir það greidd Landspítala – Háskólasjúkrahúsi.
    Efnarannsóknir hafa sérstaklega beinst að varnarefnum í grænmeti og ávöxtum, m.a. til að uppfylla skyldur opinberra aðila samkvæmt EES-samningnum. Jafnframt veitir stofan upplýsingar, fræðslu og ráðgjöf til stjórnvalda, opinberra eftirlitsaðila, fyrirtækja og almennings. Þá veitir hún öðrum starfssviðum Umhverfisstofnunar sérfræðiþjónustu. Hún er virkur þátttakandi í alþjóðlegu samstarfi, ekki síst norrænu, og hefur haft áhrif á aðferðafræði við örverurannsóknir, svo sem á salmonellu og kampýlóbakter.
    Auk þess að veita opinberu heilbrigðiseftirliti í landinu þjónustu á sviði örveru- og efnarannsókna hefur rannsóknastofan selt fyrirtækjum samsvarandi þjónustu.

4.4 Samantekt.
    Í töflunni hér á eftir er yfirlit yfir fjölda starfa, stærð húsnæðis og áætlaðar tekjur umræddra þriggja rannsóknastofnana á árinu 2005:

Fjöldi starfa, húsnæði og tekjur 2005.



Fjárhæðir í millj. kr. Rf MATRA RUST Samtals
Fjöldi starfsmanna 56 8 12 76
Húsnæði, fermetrar 2.593 299 641 3.533
Ríkisframlag 197 16 0 213
Sértekjur 253 35 68 356
Samtals tekjur 450 51 68 569

4.5 Aðrar rannsóknir sem tengjast matvælarannsóknum.
    Starfsemi Rf, MATRA og RUST er nátengd rannsóknum og fræðimennsku sem fram fer hjá öðrum opinberum aðilum. Þá er gert ráð fyrir að sameinuð matvælarannsóknastofa veiti háskólum og rannsóknastofum þjónustu á fræðasviði matvæla á grundvelli samninga sem hljóti að skila þeim öflugra og betra starfi.
    Í Háskóla Íslands (HÍ) er boðið upp á nám í matvæla- og næringarfræði sem eru þverfaglegar vísindagreinar sem byggðar eru á grunni raunvísinda og verkfræði. Markmið námsins er að veita menntun á sviði matvælafræða. Matvælafræðiskor HÍ hefur náið samstarf við ýmsar stofnanir, atvinnulíf og erlenda háskóla. Nýlega gerðu HÍ og Landspítali – Háskólasjúkrahús með sér samkomulag um starfsemi Rannsóknastofu í næringarfræði. Matvælarannsóknir hafa verið stundaðar við Háskólann á Akureyri frá árinu 1990. Þá eru stundaðar rannsóknir við Landbúnaðarháskóla Íslands er lúta að meðferð, ræktun og nýtingu lands, búfjár og ferskvatnsdýra til framleiðslu á matvælum og til annarrar atvinnu- og verðmætasköpunar. Tilraunastöðin að Keldum vinnur að ýmiss konar rannsóknum er tengjast beint matvælum, bæði grunn- og þjónusturannsóknum, en meginverkefni Tilraunastöðvarinnar eru á sviði líffærameinafræði, örverufræði, ónæmisfræði, sníkjudýrafræði, lífefnafræði og sameindalíffræði. Þá fara fram innan Landspítala – Háskólasjúkrahúss örveru- og sýklarannsóknir.
    Auk framangreindra aðila stendur ríkið fyrir ýmiss konar starfsemi sem nýtir niðurstöður matvælarannsókna og býr yfir upplýsingum sem geta haft áhrif á val rannsóknarverkefna. Hér er fyrst og fremst átt við opinbera eftirlitsaðila á sviði matvæla og umhverfis og þá sem vinna að bættri lýðheilsu í landinu.

5. Ávinningur af sameiningu stofnana.
    Sameining matvælarannsókna á vegum hins opinbera hefur verið til umræðu í langan tíma og hafa margar nefndir fjallað um málið og lagt til að unnið yrði að sameiningu en samt hefur málið ekki komist í höfn.
    Það fyrirkomulag að skipuleggja rannsóknastofnanir á vegum ríkisins þannig að hver um sig þjóni tiltekinni atvinnugrein eða afmörkuðum verkefnum byggist á viðhorfum sem voru við lýði á sjöunda áratugnum. Reynslan sýnir að þetta getur valdið tvíverknaði og dregið úr heildarárangri. Örar breytingar á ytri skilyrðum og hnattrænu viðskiptaumhverfi Íslands kallar á breytingar til að styrkja stoðir þessa mikilvæga þáttar íslensks atvinnulífs. Tilgangurinn með sameiningu matvælarannsóknastofa á vegum ríkisins er að forðast tvíverknað með því að styrkja stjórnun og bæta nýtingu fjármagns, tækjabúnaðar og þekkingar og treysta stoðir atvinnulífs á þessu mikilvæga sviði.
    Fátt mælir gegn sameiningu Rf, MATRA og RUST og mætti gjarnan ganga lengra og sameina fleiri rannsóknastofur á sviði matvæla. Niðurstaðan er sú að sameina nú starfsemi þessara þriggja rannsóknastofa og leggja til skipulag sem stuðlar að sem mestum sveigjanleika í rekstri hinnar sameinuðu rannsóknastofu sem gæti leitt til þess að frekari sameining yrði fýsileg og einföld í framkvæmd.
    Með sameiningu Rf, MATRA og RUST verður til sterk eining, bæði fjárhagslega og faglega, sem gæti þjónað háskólum og atvinnulífi betur en núverandi stofnanir gera. Má þar nefna ýmis atriði:
     .      Samnýting starfsmanna og búnaðar stuðlar að hagkvæmni og bættri aðstöðu til rannsókna. Verk- og fagþekking starfsmanna stofnananna er náskyld. Auk þess er tækjabúnaður að töluverðu leyti sambærilegur. Talið er að búnaður, þekking og starfskraftar gætu nýst betur í stærri einingu og skilað sér í sterkari faglegri starfsemi.
     .      Samhæfð stjórnun bætir viðbragð. Vaxandi kröfur og hraði í samfélaginu gera það að verkum að bregðast verður hratt við ógnunum. Með breyttum neysluvenjum Íslendinga þarf að takast á við ný vandamál.
     .      Nýsköpun eykst. Aukið samstarf vísindamanna með fagþekkingu á mismunandi sviðum stuðlar að aukinni nýsköpun.
     .      Stoðþjónusta verður betri. Í stórri rekstrareiningu er hægt að skipuleggja stoðþjónustu með öðrum hætti en í lítilli og einfaldara verður að taka í notkun besta fáanlega tækjabúnað.
     .      Betri forsendur fyrir uppbyggingu þekkingar. Rannsóknaraðferðir eru tiltölulega óháðar því hvert hráefnið er. Það er ekki grundvallarmunur á því að rannsaka innihald, geymsluþol eða gæði fisks, kjúklings, kjöts, mjólkurafurða eða gosdrykkja, svo dæmi séu nefnd. Uppbygging sérfræðiþekkingar á einum stað samnýtist fyrirtækjum í mismunandi atvinnugreinum.
     .      Bolmagn eykst til að takast á við stærri og fjölbreyttari verkefni með þátttöku innlendra og erlendra aðila. Stór rannsóknastofa sem býr yfir yfirgripsmeiri þekkingu en lítil getur veitt atvinnulífi og neytendum betri þjónustu en litlar rannsóknastofur.
     .      Betri miðlun upplýsinga til almennings, stofnana og fyrirtækja. Fleiri tækifæri verða til að miðla þekkingu og upplýsingum, t.d. með öflugri heimasíðu, útgáfu og ráðstefnuhaldi.
     .      Aukin þátttaka í alþjóðlegu samstarfi. Breiðari sérfræðiþekking eykur möguleika á þátttöku í sérfræðinefndum á vegum ESB eða annarra alþjóðlegra samtaka og hefur þannig áhrif á verkefnaval stofnunar sem er í þágu íslenskra hagsmuna.
     .      Bætt þjónusta við háskóla. Rannsóknastofa með yfirgripsmeiri þekkingu getur veitt háskólum um allt land betri þjónustu. Góð tengsl við háskóla sem bjóða nám á sviði matvæla skiptir miklu fyrir eflingu matvælarannsókna. Stór rannsóknastofa hefur meiri burði en lítil til að taka þátt í að þróa rannsóknartengt framhaldsnám með háskólunum.
     .      Aukin þátttaka í þróun staðla og aðferðafræði. Stór rannsóknastofa hefur meiri möguleika en lítil á að verða það sem kallað er „national reference laboratory“ og taka þátt í alþjóðlegri umræðu um þróun staðla og mælitækni fyrir ýmsar efna- og örverugreiningar þ.m.t. greiningar á sjúkdómsvaldandi örverum í matvælum. Þetta hefur vaxandi þýðingu fyrir alþjóðleg viðskipti með matvæli og viðbrögð við kröfum þrýstihópa eða atvikum sem vekja ótta hjá neytendum.
6. Samkeppni á sviði matvælarannsókna.
    Eitt af markmiðum ríkisstjórnarinnar er að tryggja að öflug samkeppni ríki á sem flestum sviðum atvinnulífsins til hagsbóta fyrir neytendur. Stórt skref var stigið til að efla samkeppni með samkeppnislögum sem hafa það markmið að efla virka samkeppni í viðskiptum og þar með vinna að hagkvæmri nýtingu framleiðsluþátta þjóðfélagsins. Lögin taka til hvers konar atvinnustarfsemi, svo sem framleiðslu, verslunar og þjónustu, án tillits til þess hvort hún er rekin af einstaklingum, félögum, opinberum aðilum eða öðrum. Þær rannsóknastofur, sem lagt er til að verði sameinaðar, hafa allar staðið í samkeppnisrekstri að einhverju leyti. Samkeppnisyfirvöld geta gripið til ýmissa ráða til að bregðast við athöfnum opinberra aðila sem kunna að hafa skaðleg áhrif á samkeppni. Meðal annars skal þess gætt að samkeppnisrekstur sé ekki niðurgreiddur af starfsemi sem nýtur einkaleyfis eða verndar, svo sem beinna framlaga úr ríkissjóði.
    Nokkur samkeppni er á milli aðila sem starfa við matvælarannsóknir, aðallega þó á sviði mælingaþjónustu og ráðgjafar. Hér á eftir verður fjallað í stuttu máli um þrjú einkafyrirtæki sem eru að hluta til á sama markaði og Rf, MATRA og RUST.
     Rannsóknarþjónustan Sýni ehf. býður upp á ráðgjöf og þjónustu við matvælafyrirtæki og fóðurframleiðendur. Boðið er upp á örverumælingar, t.d. vegna mats á ferskleika, efnagreiningar vegna krafna um næringargildismerkingar, aðstoð við uppsetningu og viðhald innra eftirlits, hreinlætiseftirlit og ýmiss konar fræðslu og námskeið fyrir starfsfólk í matvæla- og fóðuriðnaði. Hjá Sýni eru 15 starfsmenn.
    Rannsóknarþjónustan Sýni ehf. starfrækir einu einkareknu prófunarstofuna á þessu sviði sem fengið hefur faggildingu samkvæmt IST EN ISO/IEC 17025 staðlinum fyrir algengustu efna- og örveruprófanir.
     Agar ehf. á Ísafirði tók til starfa fyrir ári er fyrirtækið tók við útibúi Rf á Ísafirði. Nú eru tveir starfsmenn hjá Agar ehf. og helstu verkefni eru á sviði þjónustumælinga fyrir aðila á Vestfjörðum í nánu samstarfi við Rf.
     Promat ehf. á Akureyri var stofnað fyrir rúmu ári þegar fyrirtækið tók við útibúi Rf á Akureyri. Hjá því eru fjórir starfsmenn í þremur stöðugildum. Helstu verkefni eru þjónustumælingar fyrir aðila á Norðurlandi.
    Samkeppni milli fyrirtækja er talin stuðla að hagkvæmum rekstri og sanngjörnu verði samhliða góðri þjónustu við notendur. Sýni, Agar og Promat eiga í samkeppni við rannsóknastofur ríkisins. Almennt er litið svo á að ríkið eigi ekki að halda úti rekstri í samkeppni við einkaaðila. Fjölmargar kvartanir og kærur hafa borist samkeppnisyfirvöldum vegna starfsemi matvælarannsóknastofa ríkisins og hefur verið brugðist við ábendingum samkeppnisyfirvalda m.a. með því að aðgreina samkeppnishluta rekstrarins fjárhagslega. Þrátt fyrir það er óleystur ágreiningur um hvort samkeppnisreksturinn njóti opinbers stuðnings eða ekki.
    Mikilvægt er að búa þannig um hnútana að rannsóknastofan, sem verður til með sameiningu Rf, MATRA og RUST, geti boðið fjölbreytta þjónustu og að ekki verði efast um að hún starfi á almennum markaði á sömu forsendum og önnur fyrirtæki er stunda matvælarannsóknir. Heilbrigð samkeppni mun efla matvælarannsóknir á Íslandi og stuðla að skilvirkari starfsemi, að mati starfshópsins.

6.1 Kaup ríkisins á rannsóknaþjónustu og ríkisstyrkir.
    Ef ríkið hættir að reka matvælarannsóknastofur innan A-hluta ríkisins þarf það að kaupa þjónustu af slíkum aðilum á viðskiptalegum forsendum eða veita styrki til starfsemi og verkefna sem nauðsynlega þarf að halda úti.
    Um slík viðskipti og gilda meðal annars lög um opinber innkaup og ákvæði fjárreiðulaga um samninga til langs tíma, en styrkveitingar þurfa að vera í samræmi við reglur um ríkisstyrki á Evrópska efnahagssvæðinu. Því þarf að styrkja hlutverk ráðuneyta og stjórnsýslustofnana sem kaupanda að þjónustu. Hér á eftir verður fjallað um helstu reglur sem um þetta gilda.
    Ríkið þarf sem kaupandi þjónustu á sviði matvælarannsókna að skilgreina þau verkefni og þjónustu sem það vill að unnin séu á kostnað skattgreiðenda. Í mörgum tilvikum er um að ræða verkefni og þjónustu sem æskilegt er að raska sem minnst eða þarf að vinna við í nokkur ár og þess vegna er talið best að gera um slíkt samninga til nokkurra ára. Auk þess þarf að halda viðskiptakostnaði vegna kaupanna í lágmarki. Í 30. gr. fjárreiðulaga, nr. 88/1997, er heimild til að gera samninga til langs tíma um þjónustuverkefni enda uppfylli þeir ákveðnar kröfur. Í reglugerð nr. 262/1999 eru settar ítarlegri kröfur um samningsgerðina og efni samninga. Nánari leiðbeiningar eru í handbók um þjónustusamninga sem fjármálaráðuneytið gaf út í janúar 2005.
    Stór hluti af rannsóknarverkefnum er fjármagnaður með styrkjum úr innlendum og erlendum samkeppnissjóðum. Margir þessara sjóða fjármagna einungis viðbótarkostnað við verkefni en ekki allan kostnað við þau. Umsækjendur um styrki þurfa í slíkum tilvikum að leggja fram mótframlag sem getur numið um helmingi af áætluðum heildarkostnaði verkefnisins. Ríkið leggur háskólum og rannsóknastofnunum sem það rekur til þetta grunnframlag. Grunnframlög, sem veitt eru ríkisaðilum, eru ákveðin í fjárlögum og engar almennar reglur gilda um þau. Á hinn bóginn lúta framlög til fyrirtækja ákveðnum skilyrðum samkvæmt reglum sem gilda á Evrópska efnahagssvæðinu. Breyti ríkið rekstrarformi matvælarannsóknastofnana sinna með því að færa þær út fyrir A-hluta ríkisins þarf því að gera sérstakar ráðstafanir til að tryggja að kerfisbreytingin sem slík komi ekki í veg fyrir að hægt verði að uppfylla kröfu um mótframlag. Til greina kemur að setja grunnframlög í sjóð sem veiti mótframlög vegna rannsóknarverkefna á sviði matvæla sem hljóta styrki úr samkeppnissjóðum enda fái umsækjandi ekki grunnframlag með öðrum hætti frá ríkinu.
    Eins og fram kom í kafla 3.1 ber íslenska ríkinu, samkvæmt lögum nr. 93/1995, um matvæli, að tryggja sem kostur er gæði, öryggi og hollustu matvæla. Hér er um er að ræða þjónustu í almannaþágu í skilningi EES-samningsins (Services of General Interest). Almennt hlutverk og nauðsyn skilgreindrar opinberrar þjónustu í almannaþágu er viðurkennt í EES- samningnum. Lykilákvæði í þeim efnum er í 2. mgr. 59. gr. EES-samningsins sem hljóðar svo: „Reglur samnings þessa, einkum reglurnar um samkeppni, gilda um fyrirtæki sem falið er að veita þjónustu er hefur almenna efnahagslega þýðingu eða eru í eðli sínu fjáröflunareinkasölur, að því marki sem beiting þeirra kemur ekki í veg fyrir að þau geti að lögum eða í raun leyst af hendi þau sérstöku verkefni sem þeim eru falin. Þróun viðskipta má ekki raska í þeim mæli að það stríði gegn hagsmunum samningsaðilanna.“
    Evrópudómstóllinn hefur úrskurðað í dómi sínum í máli Altmark Trans GmbH 1 að „þegar líta verður á ríkisráðstöfun sem uppbót fyrir þjónustu, sem þiggjandi fyrirtæki veitir, til að leysa af hendi almenna þjónustuskyldu, þannig að þessi fyrirtæki njóti ekki raunverulegs fjárhagslegs ávinnings og ráðstöfunin hafi því ekki þau áhrif að ívilna þeim í samkeppni á kostnað samkeppnisaðila heyrir slík ráðstöfun ekki undir 1. mgr. 92. gr. [nú 1. mgr. 87. gr.] EB- sáttmálans“.
    Samkvæmt Altmark-dómi Evrópudómstólsins er ekki um ólögmæta ríkisaðstoð að ræða í slíkum tilvikum. Hins vegar verður, samkvæmt dómnum, að fullnægja fjórum skilyrðum til að slíkt ríkisframlag sleppi við að vera flokkað sem ólögmæt ríkisaðstoð:
              „ Í fyrsta lagi verður hið þiggjandi fyrirtæki í raun að gegna almennum þjónustuskyldum og þær skyldur verða að vera skýrt skilgreindar,
               í öðru lagi verða breyturnar, sem lagðar eru til grundvallar útreikningi á uppbótinni, að vera ákvarðaðar fyrir fram á hlutlægan og gagnsæjan hátt, til að koma í veg fyrir að hún veiti efnahagslegan ávinning sem gæti ívilnað hinu þiggjandi fyrirtæki á kostnað samkeppnisaðila,
               í þriðja lagi getur uppbótin ekki verið hærri en sú fjárhæð sem nægir til greiðslu alls eða hluta þess kostnaðar sem framkvæmd almennrar þjónustuskyldu hefur í för með sér þar sem tekið er tillit til viðeigandi tekna og hæfilegs hagnaðar sem fæst fyrir framkvæmd þjónustuskyldunnar,
               í fjórða lagi, þegar fyrirtækið sem gegna á almennu þjónustuskyldunni, í sérstöku tilviki, er ekki valið í opinberu innkaupaferli þar sem hægt væri að velja þann bjóðanda sem gæti veitt þjónustuna með minnstum kostnaði fyrir samfélagið, verður að tilgreina fjárhæð uppbótarinnar á grunni greiningar á kostnaði sem dæmigert fyrirtæki, vel rekið og nægilega vel útbúið flutningatækjum til að geta staðið undir almennu þjónustuskyldunni, hefði stofnað til við framkvæmd þjónustuskyldunnar þar sem tekið er tillit til viðeigandi tekna og hæfilegs hagnaðar sem fást fyrir framkvæmd þjónustuskyldunnar.“
    Ríkisstuðningur, sem fullnægir ofangreindum skilyrðum, flokkast því ekki undir ríkisaðstoð samkvæmt merkingu 1. mgr. 61. gr. EES-samningsins og þarf ekki að tilkynna sem slíkan til Eftirlitsstofnunar EFTA.

7. Stofnun Matvælarannsókna hf.
    Samkvæmt frumvarpinu er lagt til að stofnað verði hlutafélagið Matvælarannsóknir hf. sem geti leyst af hendi verkefni sem nú eru hjá Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, rannsóknastofu Umhverfisstofnunar og Matvælarannsóknum Keldnaholti.
    Hlutverk félagsins verði að stunda rannsóknir og þróunarstarf sem miðar að því að auka samkeppnishæfni íslensks matvælaiðnaðar, auka arðsemi fyrirtækja í matvælaframleiðslu, stuðla að nýsköpun í íslenskum matvælaiðnaði, bæta þekkingu og fagmennsku og stuðla að auknum gæðum, öryggi, heilnæmi og hollustu matvæla. Þetta gerist með rannsóknum, þróunarvinnu, prófunum, miðlun þekkingar og ráðgjöf í samvinnu við fyrirtæki og háskóla hér á landi og erlendis. Félaginu er þannig ætlað að vera þekkingarbrú á milli atvinnulífsins og háskóla.
    Meðal verkefna nýrrar stjórnar og stjórnenda Matvælarannsókna hf. verður að:
     .      skilgreina betur framtíðarsýn félagsins,
     .      skilgreina þau verkefni á sviði matvælarannsókna sem brýnt er að félagið sinni,
     .      útfæra og efla samstarf við aðra rannsóknaaðila, háskólastofnanir og atvinnulíf,
     .      huga að framtíðaruppbyggingu starfseminnar og húsnæðismálum,
     .      tryggja fjárhagslegan grundvöll starfseminnar til framtíðar.
    Stofnun sérstaks félags nú er fyrsta skrefið til þess að samhæfa og samtvinna verkefni sem nú eru unnin víðs vegar í samfélaginu. Eitt af verkefnum nýrrar stjórnar og stjórnenda fyrirtækisins verður að kanna mögulega samvinnu eða sameiningu annarra stofnana eða starfsemi við fyrirtækið. Meðal annars verði horft til starfsemi Tilraunastöðvarinnar á Keldum og Rannsóknastofu í næringarfræðum.

7.1 Hlutafélagaformið.
    Rannsóknastofnanir ríkisins, og reyndar fleiri ríkisstofnanir, hafa um langt skeið óskað eftir því að fá meira svigrúm til athafna en reglur um ríkisrekstur gera ráð fyrir. Starfsumhverfi ríkisstofnana einkennist af vaxandi kröfum um árangur og aðlögunarhæfni, hröðum breytingum á tækni og aðstæðum, náinni samvinnu um úrlausn verkefna við aðra aðila og samkeppni um gott starfsfólk. Margar ríkisstofnanir, ekki síst rannsóknastofnanir, afla töluverðra tekna með sölu á þjónustu og úr rannsóknasjóðum í samkeppni við aðra. Tekjuöflunin getur því verið háð mikilli óvissu og mikilvægt að geta mætt sveiflum í tekjum án tafar, hvort sem þarf að takast á við aukin verkefni eða brest í tekjum. Með því að reka matvælarannsóknir í formi hlutafélags eykst svigrúm stjórnenda félagsins til að taka sjálfstæðar ákvarðanir frá því sem nú er.
    Stjórnendur hjá A-hluta ríkisaðila eru háðir meiri takmörkunum í rekstri en stjórnendur fyrirtækja með annað rekstrarform. Helstu ástæðurnar eru þær að ríkið ber ótakmarkaða ábyrgð á rekstri sem það stendur fyrir. Stjórnendur ríkisstofnana ráðstafa tekjum sem aflað er með skattheimtu og ríkið hefur ákveðnar skyldur í þágu samfélagsins sem skilgreindar eru í lögum. Ríkisaðilar geta því ekki tekið að sér hvaða verkefni sem er og einkaaðilar geta eingöngu í takmörkuðum mæli farið inn á verksvið ríkisins og keppt við það. Sem dæmi má nefna að samkvæmt lögum um starfsmenn ríkisins gilda aðrar reglur um ráðningu, uppsagnir, launamál og ýmis réttindi ríkisstarfsmanna en í atvinnulífinu almennt. Í lögum og reglum um fjármál ríkisaðila gilda m.a. aðrar reglur um bókhald, endurskoðun reikninga, lántökur og aðrar skuldbindingar til margra ára, innkaup, húsbyggingar, eignakaup og þátttöku í hlutafélögum en gilda almennt um fyrirtæki. Þá er innra stjórnkerfi flestra eða allra ríkisstofnana bundið í lögum, reglugerðum eða háð samþykki ráðherra. Að lokum má nefna að skipting ábyrgðar milli forstöðumanna stofnana og stjórna ríkisstofnana á rekstri er að mörgu leyti óskýr.
    Almennt er það eitt af markmiðum hlutafélaga að reksturinn skili afgangi, að minnsta kosti til lengri tíma litið, þótt ekki sé víst að það takist fyrstu árin eftir stofnun félags þegar uppbyggingarstarf er gjarnan hvað mest. Gera þarf sams konar kröfu til hlutafélags í eigu ríkisins um arðsaman rekstur og gerðar eru til fyrirtækja á sama markaði.
    Hlutafélög eru skattskyld af tekjum sínum og eignum en ríkisstofnanir, sem reknar eru fyrir skattfé, eru það hins vegar ekki. Þó eru undanþegin félög sem verja hagnaði sínum einungis til almenningsheilla og hafa það að einasta markmiði samkvæmt samþykktum sínum. Ríkisstofnanir eru virðisaukaskattsskyldar eins og hlutafélög að því leyti sem þær selja vörur eða skattskylda þjónustu í samkeppni við atvinnufyrirtæki.
    Til greina kom sá möguleiki að reka sameinaðar matvælarannsóknastofur í formi sjálfseignarstofnunar. Niðurstaða athugunar var sú að auðveldara yrði að fá fleiri aðila til að taka þátt í hlutafélagi þegar fram í sækir en í sjálfseignarstofnun. Þannig mætti sjá t.d. Samtök atvinnulífsins, öflug matvælafyrirtæki eða háskóla gerast eignaraðila að Matvælarannsóknum hf. Sú áhætta hefur oft verið nefnd að sjálfseignarstofnun gæti orðið munaðarlaus vegna þess að stofnunin á sig sjálf eftir að stofnframlag er greitt. Sjálfseignarstofnanir eiga almennt mun erfiðara með að fá aukin stofnframlög en hlutafélög að auka hlutafé sitt eða breikka hópinn sem leggur þeim til fé. Þær þurfa því jafnvel að reiða sig mun meira á að reksturinn sé arðsamur en hlutafélög sé ætlunin að færa út kvíarnar.
    Með hlutafélagi í stað ríkisstofnunar breytast tengslin við ríkisvaldið/ráðuneyti. Starfsemin verður sjálfstæðari og stjórnin hefur skýrara hlutverk sem gefur aukna möguleika á tengslum, m.a. við atvinnulífið.
    Kostir þess að reka hlutafélag um matvælarannsóknir eru:
     .      Hlutafélagsformið er þrautreynt og fastmótað.
     .      Eigendur bera meiri ábyrgð á stjórnun og eignarhaldi.
     .      Stjórn félagsins ber skýrari ábyrgð.
     .      Sveigjanleiki í rekstri er meiri en hjá ríkisfyrirtæki til að nýta tækifæri sem gefast og aðlagast breytingum í umhverfinu.
     .      Möguleiki á auknum tengslum við háskóla, fyrirtæki o.fl.

7.2 Geta til að annast verkefni fyrir stjórnvöld.
    Nauðsynlegt er talið að Matvælarannsóknir hf. beri skýra skyldu til að sinna rannsóknum fyrir ríkið á sviði matvælaöryggis. Samkvæmt gildandi lögum hvílir þessi skylda ekki á neinum aðila. Umhverfisstofnun, sem fer með yfirumsjón með matvælaeftirliti, mun ekki lengur reka slíka þjónustu á eigin vegum og er því háð rannsóknastofum annarra.
    Eins og áður er komið fram er íslenska hagkerfið mjög háð matvælaframleiðslu og matvæli standa undir stórum hluta gjaldeyristekna þjóðarbúsins. Kröfur yfirvalda, kaupenda og neytenda um öryggi, heilnæmi og rekjanleika matvæla verða sífellt meiri. Þessar kröfur þarf að uppfylla til að tryggja útflutningstekjur íslenskra matvæla til framtíðar. Líta verður svo á að það sé hlutverk ríkisins að sjá til þess að aðgangur sé að nauðsynlegri þekkingu og aðbúnaði á þessu sviði. Með því að hlutafélag komi í stað ríkisstofnana er sú krafa gerð til ríkisvaldsins að það skilgreini með ítarlegri hætti en hingað til þau verkefni og þjónustu á sviði matvælarannsókna sem nauðsyn er að sinna með tilliti til þessara hagsmuna. Hlutverk ríkisins breytist þannig frá því að skammta fé til rannsóknastofnana yfir í það að tileinka sér hlutverk upplýsts verkkaupa.

7.3 Geta til að þjónusta háskóla.
    Íslenskir háskólar hafa í auknum mæli lagt áherslu á rannsóknartengt framhaldsnám. Samstarf rannsóknastofnana og háskólanna hefur verið töluvert og vaxandi enda er mikilvægt að tengja saman rannsóknir í atvinnulífinu og í háskólunum með sem sterkustum böndum. Mikilvægt er að Matvælarannsóknir hf. og háskólarnir efli samstarf sitt og auki með því ávinning beggja, t.d. með sameiginlegum starfsmönnum þar sem starfsmaður stundar rannsóknir hjá félaginu samhliða kennslu í háskóla. Einnig er mikilvægt að gefa nemendum í rannsóknartengdu framhaldsnámi tækifæri til að stunda rannsóknir innan félagsins og læra þannig af reynslu og þekkingu starfsmanna en jafnframt koma inn með ferskar hugmyndir. Þannig fá skólar og nemendur aðgang að þekkingu og tækjum en félagið aðgang að hugmyndaríkum nemendum sem bera gjarnan með sér nýjar og ferskar hugmyndir.
    Það getur sömuleiðis þjónað hagsmunum bæði háskólanna og Matvælarannsókna hf. að fjárfesta saman í dýrum aðbúnaði og tækjum til að bæta nýtingu fjárfestinga.

7.4 Geta til að þjónusta atvinnulífið.
    Uppbygging starfsemi Matvælarannsókna hf. þarf að stefna að því að efla samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs með því að stunda rannsóknir og miðla þekkingu sem hefur hagnýtt gildi. Auk þess að hafa aðgang að rannsóknum og þekkingu þurfa framleiðslufyrirtæki aðgang að ýmsum gagnagrunnum, m.a. til þess að geta forgangsraðað aðgerðum sem auka öryggi afurða þeirra. Flest íslensk framleiðslufyrirtæki eru það smá að þau geta ekki lagt í mikinn kostnað til þess að byggja upp þá þekkingu og gagnasafn sem þarf til slíks.
    Þá er jafnframt mikilvægt að fyrirtæki og ríkið geti leitað til óháðs aðila með góða faglega þekkingu þegar upp koma vandamál í sölu- og markaðsmálum og fengið túlkun og mat á gögnum.

7.5 Fyrirhugað skipulag á starfsemi.
    Það er hlutverk stjórnar og stjórnenda félagsins að ákvarða innra skipulag starfseminnar og marka félaginu stefnu.
    Hér að framan hefur verið dregin upp mynd af félagi sem getur fengist við margvísleg viðfangsefni sem tengjast framleiðslu, þróun og viðskiptum með matvæli.
    Til að skýra fyrirhugaða starfsemi félagsins er sett fram dæmi um hugsanlegt skipulag starfseminnar. Þar er gert ráð fyrir að starfseminni verði skipt upp í tvö meginsvið, annars vegar rannsókna- og þróunarsvið og hins vegar stoðsvið. Uppsetning skipulags Matvælarannsókna hf. miðast við þá starfsemi sem nú er stunduð í Rf, MATRA og RUST ásamt því að taka mið af reynslu svipaðra stofnana í Noregi og Svíþjóð, þ.e. SIK – Institutet för Livsmedel och Bioteknik AB í Svíþjóð og Matforsk AS í Noregi.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Stoðsvið gæti skipst í tvær einingar, rannsóknastofu og rekstur, en rannsókna- og þróunarsviði í eftirfarandi fjórar einingar:

    Afurðir:
     .      Markaðs- og neytendaprófanir.
     .      Gæði.
     .      Nýjar afurðir.
     .      Eiginleikar og bygging.
     .      Skynmat og bragð.
     .      Markfæði, heilsufæði og lífvirk efni.
     .      Eiginleikar og nýting hráefnis.
     .      Veita og leita að markaðsupplýsingum.
    Vinnsluferlar:
     .      Þrifavæn hönnun.
     .      Nýir ferlar.
     .      Flutningar.
     .      Líftækni.
     .      Vinnsla og þróun matvæla.
     .      Endurbættir ferlar (breyta ferlum).
     .      Hermun og bestun ferla (bæta ferla).
    Umhverfi:
     .      Umhverfisvæn framleiðsla.
     .      Sjálfbær nýting hráefnis.
     .      Líftímagreining.
    Öryggi og heilnæmi:
     .      Hreinlæti og þrif.
     .      Auk- og aðskotaefni.
     .      Vöktun og gagnasöfnun.
     .      Gagnagrunnar og upplýsingaveita.
     .      Áhættugreining.
     .      Næring og hollusta.

7.6 Starfsmannamál.
    Breytingar á rekstrarformi ríkisfyrirtækja hafa veruleg áhrif á starfsmannamál. Lög nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins (starfsmannalög), taka ekki til starfsmanna sem starfa hjá félögum einkaréttarlegs eðlis, jafnvel þótt þau séu að öllu leyti í eigu ríkisins. Starfsmenn Matvælarannsókna hf. munu ekki heyra undir þá kjarasamninga sem ríkið á aðild að.
    Í 5. mgr. bráðabirgðaákvæðis starfsmannalaganna stendur: „Sé starf lagt niður á starfsmaður, sem skipaður hefur verið eða ráðinn í þjónustu ríkisins fyrir gildistöku laga þessara og fallið hefur undir lög nr. 38/1954, en telst ekki embættismaður skv. 22. gr. laga þessara, rétt til bóta er nemi launum í sex mánuði, ef hann hefur verið í þjónustu ríkisins skemur en í 15 ár, en ella í tólf mánuði. Að öðru leyti gilda um bótarétt og bótafjárhæð ákvæði 34. gr.“
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að Matvælarannsóknir hf. bjóði öllum starfsmönnum Rf, MATRA og RUST störf. Ástæðan er sú að starfsemin byggist á þekkingu og færni þessara starfsmanna. Þetta eykur rétt starfsmanna Rf, MATRA og RUST sem missa störf þegar þau verða lögð niður og leggur sérstakar kvaðir á félagið.
    Fyrrverandi ríkisstarfsmenn geta almennt ekki átt áframhaldandi aðild að Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins (LSR) eftir að þeir eru komnir í starf hjá öðrum launagreiðanda en ríkinu. Starfsmenn í B-deild LSR eiga þó rétt á áframhaldandi aðild sem einstaklingar, sbr. 2. mgr. 30. gr. laga nr. 1/1997. Viðkomandi einstaklingar bera þá ábyrgð á greiðslum til sjóðsins, þ.e. 4% eigin iðgjaldi og 6% mótframlagi félagsins. Ríkissjóður ber bakábyrgð á skuldbindingum deildarinnar að því leyti sem vaxtatekjur hrökkva ekki til. Þá geta starfsmenn í A-deild LSR, með samþykki stjórnar lífeyrissjóðsins, fengið áframhaldandi aðild enda liggi fyrir samþykki félagsins fyrir aðildinni og skuldbindingum sem henni fylgja. Í þessum tilvikum er það skilyrði að viðkomandi sé félagsmaður í aðildarfélagi BHM, BSRB, KÍ eða öðrum félögum utan bandalaga sem semja á grundvelli laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Í skilyrðinu um félagsaðild felst ekki krafa um að viðkomandi fái laun samkvæmt kjarasamningi þessara stéttarfélaga.
    Að lokum er lagt til að komið verði í veg fyrir að starfsmenn Rf, MATRA og RUST, sem eiga aðild að B-deild LSR og nýta rétt sinn til að þiggja starf hjá Matvælarannsóknum hf., geti nýtt sér rétt til að hefja töku lífeyris meðan þeir eru fastráðnir hjá félaginu. Ef ekki er sett sérstakt lagaákvæði þar um geta starfsmenn, sem þetta á við, hafið töku lífeyris samhliða starfi sínu hjá félaginu. Slíkt er í ósamræmi við það sem almennt gildir um sjóðfélaga í B- deild er starfa hjá ríkinu.

7.7 Stofnfé.
    Lögð er áhersla á að fyrirtækið verði stofnað í rekstrarhæfu formi, þ.e. að það sé nægjanlega stöndugt til að geta gert ráðstafanir til að sameina starfsemina undir einu þaki og staðið undir eðlilegri endurnýjun á tækjabúnaði. Lagt er til að stofnhlutafé fyrirtækisins taki mið af því. Miðað við áætlaða húsrýmisþörf, eðlilega lausafjárstöðu og 45–50% eiginfjárhlutfall má lauslega áætla að stofnhlutafé ríkisins þurfi að vera 350–400 millj. kr.

8. Nauðsynleg lagasetning.
    Ríkið getur stofnað hlutafélag með því annaðhvort að óska eftir heimild í fjárlögum eða með sérstakri lagasetningu um hlutafélagið sem skal stofna. Sérstök lagasetning á við þegar nauðsynlegt er að víkja frá lögum um hlutafélög, svo sem til þess að leggja á það sérstakar skyldur eða veita því meiri rétt en almennt gildir. Í þeim tilvikum sem hlutafélag tekur við af ríkisstofnun með lögbundið hlutverk þarf að gera viðeigandi breytingar á lögum um stofnunina.
    Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins er sjálfstæð ríkisstofnun sem starfar samkvæmt lögum 64/1965, um rannsóknir í þágu atvinnuveganna. Rannsóknastofa Umhverfisstofnunar starfar innan lagaramma Umhverfisstofnunar og MATRA er samstarfsvettvangur sem ekki hefur sérstakar lagastoðir. Stofnun Matvælarannsókna hf. kallar því á breytingu á áðurnefndum lögum nr. 64/1965.
    Vegna aðgengis að gögnum, gagnaskilaskyldu og öryggisþjónustu er lagt til að umhverfisráðherra leggi fram frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 93/1995, um matvæli, til þess að tryggja að Umhverfisstofnun hafi ávallt undir höndum tiltækar upplýsingar um niðurstöður úr sýnatökum heilbrigðisnefnda sveitarfélaganna. Helgast það af því að rannsóknastofa Umhverfisstofnunar verður hluti af Matvælarannsóknum hf. hér eftir en ekki hluti af starfsemi Umhverfisstofnunar.
    Í þessu skyni er lagt til að 22. gr. laga um matvæli orðist svo:
    „Heilbrigðisnefnd hefur undir yfirumsjón Umhverfisstofnunar opinbert eftirlit með framleiðslu og dreifingu matvæla, að svo miklu leyti sem það er ekki falið öðrum aðilum. Umhverfisstofnun skráir nauðsynlegar upplýsingar um framleiðslu og dreifingu matvæla vegna matvælaeftirlitsins. Umhverfisstofnun skal hafa aðgang að niðurstöðum úr sýnatökum heilbrigðisnefnda sveitarfélaganna. Þá er ráðherra heimilt að fela stofnuninni eftirlit með afmörkuðum þáttum.“

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Lögð er áhersla á að félagið verði stofnað í rekstrarhæfu formi, þ.e. að það sé nægjanlega stöndugt til að geta gert ráðstafanir til að sameina starfsemina undir einu þaki og staðið undir eðlilegri endurnýjun á tækjabúnaði. Lagt er til að stofnhlutafé fyrirtækisins taki mið af því. Miðað við áætlaða húsrýmisþörf, eðlilega lausafjárstöðu og 45–50% eiginfjárhlutfall má lauslega áætla að stofnhlutafé ríkisins þurfi að vera 350–400 millj. kr.

Um 2. gr.


    Gert er ráð fyrir að nýtt félag komi til með að þjóna háskólunum í landinu, atvinnulífinu og hinu opinbera. Stefnt er að gerð samstarfssamninga við þessa aðila.

Um 3. gr.


    Hlutafélag í eigu ríkisins hefur litla sem enga sérstöðu umfram önnur hlutafélög. Verkefni, sem Rf, MATRA og RUST hafa annast fyrir ríkið, svo sem rannsóknir í almannaþágu, öryggisþjónusta o.fl., þarf að skilgreina og bjóða út á almennum markaði. Matvælarannsóknir hf. eiga að hafa alla burði til að bjóða í þau verk þegar þau verða auglýst.

Um 4. gr.


    Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, sem heyrir undir sjávarútvegsráðuneyti, er langstærsta stofnunin sem lögð verður niður við stofnun Matvælarannsókna hf. Það þykir því eðlilegt að sjávarútvegsráðherra fari með eignarhlut ríkissjóðs í félaginu.
    Gert er ráð fyrir því að stjórn verði þannig samsett að tveir fulltrúar séu skipaðir af sjávarútvegsráðherra án tilnefningar, einn fulltrúi tilnefndur af landbúnaðarráðherra, einn fulltrúi tilnefndur af umhverfisráðherra, einn fulltrúi tilnefndur af iðnaðarráðherra, einn fulltrúi tilnefndur af Samtökum atvinnulífsins og einn fulltrúi tilnefndur sameiginlega af Háskóla Íslands, Háskólanum á Akureyri, Háskólanum í Reykjavík og Landbúnaðarháskóla Íslands.

Um 5. gr.


    Þegar starfsemi Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins, Matvælarannsókna Keldnaholti og rannsóknastofu Umhverfisstofnunar verður lögð niður, sbr. 1. gr., fer um réttindi og skyldur starfsmanna þeirra eftir lögum nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, með síðari breytingum, og lögum nr. 72/2002, um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum. Gert er ráð fyrir að öllum núverandi starfsmönnum fyrrgreindra stofnana verði boðið starf hjá hinu nýja fyrirtæki. Um biðlaunarétt þeirra fer eftir lögum nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

Um 6. gr.


    Í greininni er fjallað um þá starfsmenn sem hafa áunnið sér lífeyrisrétt í B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og ráðast til starfa hjá hlutafélaginu með minnst þriggja mánaða uppsagnarfresti í hálft starf eða meira. Lagt er til að sama regla gildi um þessa starfsmenn og almennt gildir um sjóðfélaga í B-deild lífeyrissjóðsins. Réttur til töku lífeyris úr B-deild er bundinn við starfslok viðkomandi, þ.e. starfslok úr því starfi sem veitt hefur aðild að deildinni. Sjá nánar 1. mgr. 24. gr. laga nr. 1/1997. Lagt er til að sambærileg regla gildi um sjóðfélaga B-deildar sem þiggja störf hjá hlutafélaginu.

Um 7. gr.


    Samkvæmt lögum nr. 93/1995, um matvæli, ber íslenska ríkinu að tryggja, svo sem kostur er, gæði, öryggi og hollustu matvæla og að merkingar og aðrar upplýsingar um þau séu réttar og fullnægjandi. Þessu skal ná með fræðslu og upplýsingamiðlun, rannsóknum og eftirliti. Því er mikilvægt að stjórnvöld tryggi að þekking og reynsla sé til staðar til að sinna þeim verkefnum sem staðar eru varðandi öryggi matvæla. Þar sem Umhverfisstofnun mun ekki reka rannsóknastofu þarf að vera lögbundið að hægt verði að ganga að forgangsöryggisþjónustu vísri þegar nauðsyn krefur, t.d. vegna almannaheilla.

Um 8. og 9. gr.


    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.

Um 10. gr.     


    Með lögum um stofnun Matvælarannsókna hf. falla úr gildi ákvæði um starfsemi Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins í lögum nr. 64/1965, um rannsóknir í þágu atvinnuveganna, með síðari breytingum.

Um ákvæði til bráðabirgða.


    Mikilvægt er að skipa félaginu stjórn hið fyrsta til að undirbúa starfsemi félagsins sem á að hefjast 1. ágúst 2006. Gert er ráð fyrir að stjórnin ráði hið fyrsta í starf forstjóra sem í samráði við hana undirbúi starfsemi félagsins, gangi frá ráðningarmálum starfsmanna og hugi að framtíðaruppbyggingu félagsins.
    Gert er ráð fyrir að hlutaðeigandi ráðherra taki ákvörðun um þær eignir og skuldir sem tengjast rekstri Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins, Matvælarannsókna Keldnaholti og rannsóknastofu Umhverfisstofnunar og færðar verða til félagsins. Þessar eignir og skuldir verða hluti af stofnfé félagsins skv. 2. mgr. 1. gr. Verðmæti þeirra verður metið af þriggja manna nefnd endurskoðanda og tveggja sérfræðinga á viðkomandi fræðasviði sem sjávarútvegsráðherra skipar.
    Með lögum um stofnun Matvælarannsókna hf. falla úr gildi ákvæði laga um starfsemi Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins. Viðhalda þarf stofnuninni áfram sem lögaðila án starfsemi til að efna samninga stofnunarinnar sem gerðir hafa verið eða gerðir verða fram til 1. ágúst 2006.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um stofnun Matvælarannsókna hf.


    Í frumvarpinu er lagt til að stofnað verði einkahlutafélag í eigu ríkisins um rekstur Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins, rannsóknastofu Umhverfisstofnunar og Matvælarannsókna Keldnaholti, sem jafnframt verða lagðar niður. Hlutverk félagsins verði að sinna nýsköpun, öryggisþjónustu og fræðslu á sviði matvælarannsókna.
    Rannsóknastofa Umhverfisstofnunar er sjálfstæð fjárhagsdeild innan Umhverfisstofnunar. Bókfært eigið fé hennar var neikvætt um 0,6 m.kr. í árslok 2004. Matvælarannsóknir Keldnaholti eru reknar innan Iðntæknistofnunar Íslands samkvæmt samningi við Landbúnaðarháskóla Íslands og eru ekki með sjálfstæðan ársreikning. Eignir, skuldir og skuldbindingar þessara rannsóknastofa falla á framangreindar stofnanir þegar þær verða lagðar niður. Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins er sjálfstæð ríkisstofnun samkvæmt lögum og renna eignir hennar og skuldbindingar til ríkisins. Bókfært eigið fé hennar var 20,2 m.kr. í árslok 2004 og þá eru undanskildar eignir sem hafa verið gjaldfærðar og eru á eignaskrá.
    Lagt er til að skipuð verði nefnd til að meta eignir og skuldir sem tengjast rekstri rannsóknastofanna sem renna saman í Matvælarannsóknir hf. og verða færðar til félagsins sem stofnfé samkvæmt ákvörðun hlutaðeigandi ráðherra. Gert er ráð fyrir að þannig verði staðið að matinu að niðurstaðan hafi ekki áhrif á kostnað ríkisins.
    Samkvæmt frumvarpinu skal stofnfé félagsins ákveðið í fjárlögum. Stofnfé samanstendur af þeim nettó eignum sem lagðar verða til félagsins samkvæmt ákvörðun ráðherra og greiðslu á sérstöku hlutafjárframlagi. Ekki er gerð tillaga í frumvarpinu um upphæð þess, en í athugasemdum er áætlað að það þurfi að vera 350–450 m.kr. Stofnframlagið verður bókfært sem eign ríkisins og mun því ekki teljast til útgjalda samkvæmt bókhaldsreglum ríkisins þótt hlutafjárframlagið verði greitt úr ríkisjóði að fenginni heimild í fjárlögum.
    Samkvæmt greinargerð með frumvarpinu er áætlað að beinar fjárveitingar ríkisins til reksturs áðurnefndra rannsóknastofa nemi 212,4 m.kr. á yfirstandandi ári. Að auki er talið að þær afli 355,8 m.kr. sértekna með sölu á þjónustu til stofnana sem að þeim standa, annarra opinberra stofnana og til fyrirtækja og með því að afla styrkja hjá innlendum og erlendum rannsóknasjóðum. Rannsóknastofurnar hafa verið undanþegnar því að greiða virðisaukaskatt í ríkissjóð nema vegna sölu á þjónustu sem veitt er í samkeppni. Af þessum sökum hafa þær haft takmarkaða möguleika til að fá endurgreiddan virðisaukaskatt af aðföngum til rekstrarins. Samþykkt frumvarpsins mun leiða til breytinga á þessu sviði en ekki eru forsendur til að áætla áhrif þeirra á ríkissjóð.
    Samkvæmt greinargerð með frumvarpinu er gert ráð fyrir að ríkissjóður haldi áfram að verja fé til þeirra verkefna sem rannsóknastofurnar hafa annast og að Matvælarannsóknir keppi við aðra um verkefnin. Ætla má að einhver kostnaður fylgi því að bjóða út verkefni, koma á verksamningum og hafa eftirlit með framkvæmd þeirra. Á móti kemur að þess er vænst að verkefni verði betur skilgreind en áður og skili því betri árangri. Fjármálaráðuneytið gerir ekki ráð fyrir að breytingin hafi áhrif á fjárveitingar.
    Frumvarpið felur í sér að öll störf verða lögð niður hjá rannsóknastofunum sem sameinast í félaginu, en þau eru áætluð 76, og er því skylt að bjóða öllum starfsmönnum rannsóknastofanna önnur störf. Hluti starfsmanna á rétt á sex eða tólf mánaða biðlaunum þegar störf þeirra verða lögð niður í samræmi við bráðabirgðaákvæði laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Áætlað er að réttur starfsmanna til biðlauna svari til 45,5 ársverka sem gæti kostað ríkissjóð allt að 140 m.kr. Ekki er unnt að meta hversu mikil útgjöld lenda á ríkinu vegna þessara réttinda, en hér er giskað á að þau geti orðið 10–25 m.kr. Miðað er við að biðlaunin verði greidd af framlögum til þeirra rannsóknastofa sem verða lagðar niður að því leyti sem eigið fé þeirra hrekkur ekki til.
    Niðurstaða þessa kostnaðarmats er í fyrsta lagi að gert er ráð fyrir að ríkið leggi Matvælarannsóknum hf. til stofnframlag þótt upphæðin liggi ekki fyrir. Í öðru lagi gætu breytingarnar haft einhver áhrif á tekjur ríkisins af virðisaukaskatti. Í þriðja og síðasta lagi er líklegt að frumvarpið leiði til einhvers biðlaunakostnaðar og er giskað á 10–25 m.kr. þótt óvissa um fjárhæð sé afar mikil.
Neðanmálsgrein: 1
    1     Mál C-280/00 Altmark Trans GmbH, Regierungspräsidium Magdeburg v Nahverkehrsgesellschaft Altmark GmbH [2003], Dómasafn EB I-7747, frá og með 89. mgr.