Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 381. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 477  —  381. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 99/1999, um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, með síðari breytingum.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Kjartan Gunnarsson frá viðskiptaráðuneyti, Jónas Fr. Jónsson og Ragnar Hafliðason frá Fjármálaeftirlitinu, Guðjón Rúnarsson f.h. samráðsnefndar eftirlitsskyldra aðila, Vilhjálm Bjarnason frá Samtökum fjárfesta, Gísla Jafetsson frá Sambandi íslenskra sparisjóða og Andrés Magnússon frá Félagi íslenskra stórkaupmanna.
    Í frumvarpinu er m.a. lögð til breyting á álagningarhlutföllum 5. gr. laganna sem byggist á skýrslu Fjármálaeftirlitsins um áætlaðan rekstrarkostnað næsta árs. Áætlaður rekstrarkostnaður Fjármálaeftirlitsins á þessu ári nemur 309,5 millj. kr. en 410,5 millj. kr. á því næsta sem er hækkun um 101 millj. kr. eða 32,6%. Eins og fram kemur í athugasemdum við 3. gr. frumvarpsins eru álagningarhlutföll á viðskiptabanka, sparisjóði, lánafyrirtæki, verðbréfafyrirtæki og verðbréfamiðlanir lækkuð en álagningarhlutföll vegna annarra eftirlitsskyldra aðila hækkuð. Lágmarks- og fastagjöld samkvæmt frumvarpinu eru óbreytt að því undanskildu að lagt er til að fastagjald lífeyrissjóða, sem er stighækkandi eftir fjárhæð hreinnar eignar til greiðslu lífeyris, breytist, auk þess sem viðmiðunarþrepum varðandi hækkun fastagjaldsins hefur verið fjölgað. Þá er í frumvarpinu kveðið á um breytingar varðandi tímamörk við skil á áætlunum Fjármálaeftirlitsins auk nokkurra annarra atriða.
    Við umfjöllun málsins var m.a. rætt um kosti og galla þess að eftirlitsskyldir aðilar greiði eftirlitsgjaldið sjálfir. Þá komu fram athugasemdir varðandi hækkun álagningarhlutfalls á vátryggingarmiðlara.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Guðmundur Magnússon var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 3. des. 2005.



Pétur H. Blöndal,


form., frsm.


Dagný Jónsdóttir.


Ingibjörg Sólrún Gísladóttir.



Birgir Ármannsson.


Jóhanna Sigurðardóttir.


Ásta Möller.



Siv Friðleifsdóttir.