Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 3. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 511  —  3. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

Frá 3. minni hluta fjárlaganefndar.



    Í aðdraganda hlutafélagavæðingar Pósts og síma 1996 er viðtal við þáverandi samgönguráðherra Halldór Blöndal í BSRB-tíðindum, 4. tölublaði 8. árgangi frá 1995:
    „Póstur og sími er vel rekin stofnun, þjónustan ódýr og mjög vel er fylgst með á tæknisviðinu. Það er t.d. afar ánægjulegt að Ísland skuli vera fyrsta landið sem notar eingöngu stafrænt símakerfi og ég legg áherslu á að Póstur og sími er hluthafi í sæstrengnum milli Evrópu og Kanada, sem hefur opnað og mun í framtíðinni opna ótalda möguleika á fjarskiptasviðinu, þannig að við getum fylgst með þeirri þróun sem er í heiminum í dag.
    Á hinn bóginn geldur Póstur og sími óneitanlega þess í daglegum viðskiptum og markaðssetningu að vera opinber stofnun sem er rekin eftir fjárlögum. Póstur og sími getur t.d. ekki gerst hluthafi í hlutafélögum, þótt í smáu sé, nema slík ákvörðun hafi áður verið lögð fyrir Alþingi. Ákvarðanataka með þessum hætti er of þung í vöfum og samræmist ekki nútíma viðskiptaháttum. Þess vegna tel ég óhjákvæmilegt að breyta rekstrarformi Pósts og síma til þess að styrkja samkeppnisstöðu hans og starfsöryggi þess fólks sem þar vinnur. Ég legg áherslu á að í mínum huga kemur ekki annað til greina en að Póstur og sími verði áfram alfarið í eigu ríkisins.“
    Það er athyglisvert að lesa þessa yfirlýsingu ráðherra Pósts og síma sem gegndi stöðu forseta Alþingis þegar allar þessar fögru yfirlýsingar voru þverbrotnar, Landssíminn seldur og öryggi starfsfólks og þjónusta í uppnámi. Sömu orð eru nú notuð í umræðunni um einkavæðingu Ríkisútvarpsins, Rarik, Landsvirkjunar, Matvælastofnunar um að „aðlaga það nútímanum“.

Landssíminn átti að vera áfram þjóðareign.
    Þegar veitt var heimild á 126. löggjafarþingi til að selja allt hlutafé ríkisins í Landssíma Íslands hf. var þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs því andvígur og vildi að Landssíminn væri áfram í þjóðareign. Í nefndaráliti undirritaðs um þetta mál segir: „Fjarskiptaþjónusta er ein af grunnstoðum almannaþjónustu í landinu. Þessi þjónusta má ekki lúta þeim lögmálum markaðarins að arðsemiskrafa eiganda ein sé drifkraftur reksturs og þjónustu. Sjálfsagt er að gæta allra almennra hagkvæmni- og rekstrarsjónarmiða og gera kröfur um aukna þjónustu. Landssími Íslands á áfram að vera sameign þjóðarinnar og styrk hans á að nýta til hins ýtrasta til að byggja upp gott fjarskiptakerfi sem nær til allra landsmanna án mismununar í verði eða gæðum.“

Þjóðin var alla tíð á móti sölu Landssímans og er enn.
    Áform um sölu Landssímans voru afar umdeild, svo vægt sé til orða tekið. Reyndar sýndu skoðanakannanir hvað eftir annað að mikill meiri hluti landsmanna var andvígur sölu Símans og grunnfjarskiptakerfis hans. Þannig lýsti 61% svarenda andstöðu við söluna í Gallupkönnun í mars árið 2002. Í könnun sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gerði í febrúar 2005 kváðust rúm 70% þeirra sem afstöðu tóku andvíg sölu grunnnetsins. Ekki var mikill munur á afstöðu fólks eftir því hvort það var búsett á höfuðborgarsvæðinu eða landsbyggðinni, 68% höfuðborgarbúa voru andvíg sölunni en 75% landsbyggðarfólks. Í þjóðarpúlsi Gallups sem kynntur var í mars 2005 var meiri hluti aðspurðra andvígur sölu Símans og 76% andvíg því að selja grunnfjarskiptakerfi Símans. Þannig er ljóst að allan söluferilstímann hefur yfirgnæfandi meiri hluti þjóðarinnar verið andvígur sölu Símans og viljað að hann væri áfram í þjóðareign.
    Í samræmi við það fluttu þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs tillögu til þingsályktunar um þjóðaratkvæðagreiðslu um sölu Landsímans. Sú tillaga fékkst ekki tekin fyrir á Alþingi.
    Í skoðanakönnun Gallups frá í ágúst sl., þegar salan hafði farið fram og loforðalistinn sem fylgdi um ráðstöfun fjárins var kominn fram, reyndist áfram stærstur hluti aðspurðra sem afstöðu tóku á móti sölunni og vildi að hann væri áfram í þjóðareign. Ákvörðun um sölu Landssímans einnar mikilvægustu almannaþjónustustofnunar þjóðarinnar er skýrt dæmi um mál sem átti að fara undir dóm þjóðarinnar í allsherjar þjóðaratkvæðagreiðslu.

Hjá einkavæddum Landssíma ræður arðsemiskrafan ein ferð.
    Síminn hafði ekki fyrr verið seldur en hinir nýju eigendur sýndu hvaða hug þeir báru til viðskiptavina sinna. Lokun þjónustustöðvar á Blönduósi og Siglufirði og lokun svarstöðvar 118 á Ísafirði, allt í hagræðingarskyni, og uppsagnirnar látnar koma fyrirvaralaust og án samráðs við heimamenn, sem þó voru þeir sem áttu að njóta þjónustunnar. Það styrkir ekki samkeppnishæfni atvinnulífsins á viðkomandi svæðum að nú þarf að bíða í nokkrar vikur eftir að fá lagt fyrir nýjum síma, eins og t.d. á Skagaströnd. Meðfylgjandi eru greinar og yfirlýsingar sveitarstjórnarmanna og fleiri við hagræðingaraðgerðum hinna nýju eigenda Símans nokkrum dögum eftir að salan hafði farið fram. Skerðing þjónustu einkavædds Síma í fákeppnisumhverfi kemur þó flutningsmanni þessa nefndarálits ekki á óvart.

Að reyna að kaupa sé vinsældir.
    „Ekki er hægt að áfellast þá fyrir að gleðjast, forsvarsmenn aðskiljanlegrar starfsemi sem eygja að fá hlutdeild í söluandvirði Símans. Málatilbúnaður ríkisstjórnarinnar í þessu samhengi er hins vegar ekki geðfelldur. Minnir á þegar reynt er að kaupa menn til fylgis við óvinsælar ákvarðanir. Sala Símans er nefnilega óvinsæl. Fólk skynjaði að þar væri ekki búhyggindum fyrir að fara. Ítrekað kom fram í skoðanakönnunum að yfirgnæfandi meiri hluti þjóðarinnar var andvígur sölunni, þótt Vinstri hreyfingin – grænt framboð væri eini stjórnmálaflokkurinn sem berðist gegn einkavæðingunni á öllum stigum ferlisins.
    Þegar þjóðin er hins vegar nú spurð hvort hún vilji styrkja geðfatlaða eða bæta vegasamgöngur, efla hag Árnastofnunar eða Landhelgisgæslunnar, þá svara menn því almennt að slíkum ráðstöfunum séu þeir fylgjandi. Þetta segir sig nánast sjálft. En á þetta reynir ríksstjórnin að spila,“ segir Ögmundur Jónasson, formaður þingflokks Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í grein í Morgunblaðinu 13. september sl., sbr. meðfylgjandi fylgiskjal.

Málatilbúningur ótrúverðugur.
    Frumvarpi um ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf. var mælt fyrir á Alþingi 5. október sl. og vísað til fjárlaganefndar. Málið kom fyrst á dagskrá fjárlaganefndar 2. desember en þá komu fulltrúar forsætisráðuneytis á fund nefndarinnar til að skýra frumvarpið.
    Þrátt fyrir beiðni undirritaðs fékkst frumvarpinu ekki vísað til umsagnar ýmissa aðila í samfélaginu eins og venja er til. Með hliðsjón af því hversu umdeild salan var hefði enn frekar átt að vanda til þeirrar vinnu. Þá hafa komið í ljós mjög skiptar skoðanir í samfélaginu á vali einstakra verkefna og forgangsröðun. Og þá jafnframt hvort með þessu einfalda lagafrumvarpi með hæpna stjórnsýslulega stöðu sé verið að taka ákvarðanir um framkvæmdir og tilhögun þeirra sem eðlilegra væri að taka annars staðar og að loknum vönduðum undirbúningi. Má þar nefna Sundabraut og hátæknisjúkrahús. Meðfylgjandi fylgiskjöl sýna að skiptar skoðanir eru um þau mál.

Fjárlög eru sérlögum æðri hvað varðar ráðstöfun fjár.
    Í 21. gr. fjárreiðulaga segir svo: „Þegar er Alþingi kemur saman að hausti skal fjármálaráðherra leggja fram frumvarp til fjárlaga sem nái yfir fjárreiður aðila í A-, B- og C-hluta á næsta fjárlagaári. Frumvarpið skal vera á rekstrargrunni sbr. 1. gr., en einnig skal gerð grein fyrir áætluðum sjóðshreyfingum. Þannig skal fyrir fram leitað heimilda til greiðslna úr ríkissjóði, eftirgjafar krafna og til að gera hvers konar samninga um fjárhagslegar skuldbindingar fyrir ríkissjóð og ríkisstofnanir.“
    Þarna, og reyndar víðar í fjárreiðulögum, er skýrt kveðið á um að það er í raun í fjárlögum á hverjum tíma sem kveðið er á um fjármagn til einstakra stofnana og verkefna á vegum ríkisins.
    Nærtækt er að benda á þingsályktun um vegáætlun sem samþykkt er af þinginu til nokkurra ára með sundurgreindum fjárupphæðum á einstakar framkvæmdir. Í fjárlögum ársins er síðan ákveðið hvert fjármagnið er. Ekki verður séð að þetta frumvarp þó að lögum verði, hafi í raun neina aðra stjórnsýslulega stöðu en þingsályktun sem lýsir vilja þingsins á þeim tíma til ákveðinna aðgerða en bindur það ekki. Það gera hins vegar fjárlögin. Eðlilegra hefði því verið að flutt væri þingsályktunartillaga en ekki lagafrumvarp um ráðstöfun á söluandvirði Símans, ekki síst í ljósi þess að meginhluta fjárins á að verja til framkvæmda að nokkrum árum liðnum, þ.e. 2007–2010.
    Þótt hægt sé að taka undir mikilvægi flestra þessara verkefna sem ætlunin er að verja söluandvirði Landssímans til skal á það bent að meginákvæði þess koma ekki til framkvæmda fyrr en að tveimur til fimm árum liðnum og verða þá eðlilega háð forgangsröðun og stöðu fjármála á þeim tíma.

Í eigu þjóðarinnar hefði Landssíminn skilað mestum ábata til almennings.
    Almannaþjónusta eins og fjarskipti er forsenda fyrir samkeppnishæfri búsetu og atvinnulífi um allt land. Síminn er tengdur inn á hvert heimili í landinu. Landssíminn hefur skilað milljörðum kr. í ríkissjóð á undanförnum árum. Enginn góður bóndi mundi selja bestu kúna úr fjósinu.
    Nú verður sú fjarskiptaþjónusta sem ekki uppfyllir stífustu arðsemiskröfur fyrirtækis á fákeppnismarkaði að vera komin upp á náð sérstakra fjárveitinga ríkissjóðs.
    Þegar frá líður hygg ég að mörgum landshlutanum, sveitabæjunum og sjávarþorpunum þyki þeir verða afskiptir og hafðir útundan í fákeppni einkavæddra fjarskipta. Þar verða engar samfélagsskyldur eða tilfinningar með nærsamfélaginu. Þetta hafa íbúar Blönduóss, Siglufjarðar og Ísafjarðar þegar fengið að reyna. Nú verður það krafan um hámarksarð fjármagnsins sem ein ræður för.
    Vísað er til nefndarálits 2. minni hluta samgöngunefndar (JBjarn) um frumvarp til laga um sölu ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf. (707. mál á 126. löggjafarþingi, þskj. 1316), frumvarps til laga um frestun á sölu ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf. (4. mál á 131. löggjafarþingi) og tillögu til þingsályktunar (JBjarn o.fl.) um þjóðaratkvæðagreiðslu um sölu Landssímans (729. mál á 131. löggjafarþingi).
    Sala Símans er vitlausasta einkavæðing þessarar ríkisstjórnar.

Alþingi, 5. des. 2005.



Jón Bjarnason.





Fylgiskjal I.


Jón Bjarnason:


Einkavæddur Landssími sýnir klærnar.


(Fréttablaðið, 24. september 2005.)



    Nú er það arðsemiskrafan og gróðinn til nýrra eigenda, sem ræður för í rekstri fyrirtækisins en ekki skyldurnar við samfélagi. Einkavæðing almannaþjónustunnar bitnar ávallt harðast á landsbyggðinni.
    Miðvikudaginn 21. sept. komu fulltrúar nýrra eigenda Landssímans (Símans) til Blönduóss þar sem starfsmönnum fyrirtækisins var tilkynnt að þeim væri sagt upp störfum og starfstöðinni lokað frá og með 1. nóv. nk. Áfram var haldið til Siglufjarðar með sama boðskap, uppsögn og lokun. Nú er það arðsemiskrafan og gróðinn til nýrra eigenda sem ræður för í rekstri fyrirtækisins en ekki skyldurnar við samfélagið. Einkavæðing almannaþjónustunnar bitnar ávallt harðast á landsbyggðinni. En það eru ekki aðeins störfin og nærþjónustan sem tapast heldur hverfur mikilvægur hlekkur í samþættu tæknisamfélagi, sem staðir eins og Blönduós og Siglufjörður eru mjög viðkvæmir fyrir.
    Aðalfundur nýs fyrirtækis um Símann var haldinn síðasta laugardag og ný stjórn kosin. Og nýja stjórnin bíður ekki boðanna. Fyrst lá leiðin til Blönduóss. Hér var þrem starfsmönnum meða áratuga starfsaldur sagt upp og lokað. Á Blönduósi hefur um áratugi verið rekin þjónustustöð Landssímans, sem hefur sinnt allri símavinnu í Austur-Húnavatnssýslu og þjónustað símnotendur með nýlagningu og viðhaldi síma og annars fjarskiptabúnaðar. Þá hafa starfsmennirnir einnig sinnt eftirliti með sendistöðvum útvarps og sjónvarps á svæðinu. Á Siglufirði endurtók sagan sig en þar var tveim tæknimönnum sagt upp og starfstöðinni lokað. Er nú einangrun á Siglufirði og fábreytni starfa næg fyrir. Með lokun þessara stöðva verður atvinnulífið fáskrúðugra eftir. Starfsmenn með sérhæfða menntun á þessum stöðum hlaupa ekki svo glatt í önnur störf á sínu sviði. Nærþjónusta af þessu tagi skiptir gríðarlega miklu máli fyrir íbúana og atvinnulífið og styrkir samkeppnishæfni byggðarlagsins og fyrirtækjanna, að ekki sé minnst á öryggið sem er af því að hafa þjónustuna nærri. Bilanir verða oft helst þegar síst skyldi. Lokun stöðvanna er mikið alvörumál fyrir þessi byggðarlög.
    Landsíminn hefur nú verið einkavæddur og seldur. Mikill meiri hluti þjóðarinnar var andvígur þessari sölu, vildi að þjóðin ætti Símann. Ljóst er að Síminn verður hér eftir fyrst og fremst rekinn sem gróðafyrirtæki en ekki þjónustustofnun og það munu landsmenn fá að reyna á næstu dögum, misserum og árum. Vinstri grænir vöruðu við sölunni. Síminn er grunnþjónusta sem á að vera í opinberri eigu og styrk fyrirtækisins átti að nota til að byggja upp öflugt fjarskiptakerfi þar sem íbúar alls landsins sætu við sama borð óháð búsetu. Reynsla annarra þjóða af einkavæðingu fjarskipta þýðir lækkað þjónustustig í dreifbýli og hærra verð. Ekki var Síminn rekstrarbaggi, hann skilaði mörgum milljörðum króna í arð til ríkisins árlega.
    Hvað segja nú einkavæðingarflokkarnir?
    Nú er Síminn seldur og mörgum finnst stoða lítið að mótmæla. En ég skora á sveitarstjórnir íbúa og fyrirtæki í Austur-Húnavatnssýslu og á Siglufirði að mótmæla þessari aðför að þjónustustofnun Símans á þessum stöðum og krefjast þess að sú ákvörðun verði dregin til baka og tæknistörfin tryggð áfram í heimabyggð.



Fylgiskjal II.


Hörð mótmæli vegna lokunar.


(Morgunblaðið, 28. september 2005.)


    Bæjarstjórn Blönduósbæjar mótmælir harðlega þeirri ákvörðun nýrra eigenda Símans að leggja niður starfsstöðina á Blönduósi. „Það hefur sýnt sig að næg verkefni eru fyrir hendi á svæðinu í fjarskiptamálum og lýsir bæjarstjórn yfir áhyggjum með að þjónustustig Símans á svæðinu versni og uppfylli ekki þær kröfur sem nútímasamfélag gerir,“ segir í ályktun frá bæjarstjórn Blönduósbæjar.
    Hún skorar því á stjórnendur Símans að ákvörðunin um lokun starfsstöðvarinnar verði endurskoðuð.
    Jafnframt vill bæjarstjórn benda á að einkavæðing ríkisfyrirtækja hefur komið hvað verst niður á störfum á landsbyggðinni og krefur stjórnvöld um tafarlausar aðgerðir í atvinnumálum á svæðinu í samvinnu við heimamenn.



Fylgiskjal III.


Sætta sig ekki við skerta þjónustu.


(     Morgunblaðið, 30. september 2005.)



    Bæjarráð Siglufjarðar samþykkti á fundi sínum í vikunni ályktun þar sem fram kemur að ráðið mótmæli harðlega þeirri ákvörðun Símans að leggja niður starfsstöð fyrirtækisins á Siglufirði og segja upp tveimur starfsmönnum. „Ljóst er að með aðgerðum þessum eru forsendur samnings, er Siglufjarðarkaupstaður hefur nýlega gert við Símann um þjónustu, brostnar af hálfu kaupstaðarins,“ segir í ályktun bæjarráðs. Fram kemur einnig að Siglufjörður geti verið einangraður staður „og gríðarlega mikilvægt er að á staðnum séu aðilar sem geta sinnt fyrirtækjum og einstaklingum varðandi fjarskiptamál. Siglfirðingar munu ekki sætta sig við þá skerðingu á þjónustu og öryggi sem þessi ákvörðun hefur í för með sér og munu bæjaryfirvöld leita allra leiða til þess að úr þessum þáttum verði bætt.

Fylgiskjal IV.


Heimskuleg ákvörðun sem ætti að endurskoða.


(Bæjarins besta, 28. október 2005.)



    Einar Kristinn Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra og þingmaður Norðvesturkjördæmis, er verulega ósáttur við hugmyndir fyrirtækisins Já um að leggja niður starfstöð fyrirtækisins á Ísafirði. „Ég heyrði þetta síðdegis í gær og varð hneykslaður, sár og reiður. Ég hafði samband við framkvæmdastjóra fyrirtækisins og skoraði á hana að taka þessa heimskulegu ákvörðun til baka. Svo heimskuleg er þessi ákvörðun að mér datt helst í hug að hún hefði verið tekin á fundi hjá Vinstri-grænum til þess eins að koma höggi á einkavæðingarferlið. Ég hreinlega trúi því ekki að hún verði látin standa. Það vita allir að þjónustuver sem þessi eru til úti í heimi þar sem starfsemin fer fram utan borgarsamfélagsins þar sem kostnaðurinn er mestur. Því er stórfurðulegt að ákveða að leggja niður starfsemina á Ísafirði. Ef forsvarmenn fyrirtækisins halda að það sé hagkvæmt, ættu þeir að fara út í heim og segja þeim sem þar reka fyrirtæki að þeir séu á villigötum,“ segir Einar Kristinn.
    „Þessi ákvörðun er þvert á þau vinnubrögð sem alls staðar eru viðhöfð. Þetta er hneykslanlegt athæfi sem er ekki til góðs fyrir fyrirtækið. Okkur sem unnið höfum að því að færa störf út á land líður núna eins og við höfum fengið kjaftshögg frá þessu fyrirtæki. Og þetta kemur í ofanálag við ákvörðun Símans um að draga úr þeirri þjónustu sem það fyrirtæki var með á Blönduósi, ákvörðun sem einnig var mjög misráðin,“ segir Einar Kristinn, en eins og kunnugt er stofnaði Síminn Já í sumar utan um símaskrá og upplýsinganúmerið 118.
    Aðspurður hvort ráðherrar og þingmenn hafi nokkuð um aðgerðir fyrirtækisins að segja þar sem Síminn hefur verið seldur úr höndum ríkisins, segir Einar Kristinn að eigendur fyrirtækja ráði að sjálfsögðu þeirra örlögum. „Þess vegna geta menn aðeins sagt sína skoðun á málinu og skorað á forsvarsmenn fyrirtækisins að endurskoða þessa ákvörðun. En þó að fyrirtæki sé einkavætt geta menn ekki ætlast til að stjórnmálamenn hætti að hafa á því skoðanir, þó svo að þeir hafi ekki lengur yfir því húsbóndavald,“ segir Einar Kristinn Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra og þingmaður Norðvesturkjördæmis.



Fylgiskjal V.


„Of seint að iðrast eftir dauðann.“


(Bæjarins besta, 28. október 2005.)



    Jón Bjarnason, þingmaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í Norðvesturkjördæmi, segir að það þurfi ekki að koma á óvart að ákveðið var að loka starfstöð Já, dótturfyrirtækis Símans, á Ísafirði frá og með áramótum. Fimm missa atvinnu sína við þessa lokun. Hann segir að það hafi verið augljóst hvert myndi stefna eftir að Síminn var seldur úr höndum ríkisins. „Það hefur verið reynslan í öðrum löndum að þegar fjarskipti eru einkavædd er fyrst skorin niður þjónusta um landið og hún verður dýrari. Daginn eftir að Síminn var seldur var lokað mikilvægum þjónustueiningum á Blönduósi og Siglufirði, þar sem vel menntaðir tæknimenn misstu vinnuna. Nú loka þeir á Ísafirði. Þetta sýnir bara að þetta fyrirtæki hefur enga samfélagstilfinningu heldur gera menn eins og þeim sýnist og hugsa bara um arðinn. Ég er mjög vonsvikinn og í raun hissa á stjórn fyrirtækisins, því ekkert er jú dýrmætara en viðskiptavild. Mér sýnist þessir menn ekkert ráða við reksturinn, annað hvort það eða þá að græðgin hefur hreinlega borið þá ofurliði,“ segir Jón.
    Hann segir áhugaverð orð þeirra stjórnarþingmanna, Einars Kristins Guðfinnssonar og Kristins H. Gunnarssonar, sem báðir hafa látið þung orð falla vegna fyrirhugaðrar lokunar. „Þetta minnir mig á söguna af gamla manninum sem fór til Helvítis og líkaði illa vistin, en Kölski minnti hann þá á að það væri of seint að iðrast eftir dauðann. Ég held að menn ættu bara að hafa þetta í huga við næstu einkavæðingu,“ segir Jón Bjarnason, þingmaður vinstri- grænna í Norðvesturkjördæmi.



Fylgiskjal VI.


Ögmundur Jónasson:

Ríkisstjórnin reynir að kaupa sér vinsældir.


(Morgunblaðið, 13. september 2005.)



    Ekki er hægt að áfellast þá fyrir að gleðjast, forsvarsmenn aðskiljanlegrar starfsemi, sem eygja að fá hlutdeild í söluandvirði Símans. Málatilbúnaður ríkisstjórnarinnar í þessu samhengi er hins vegar ekki geðfelldur. Minnir á þegar reynt er að kaupa menn til fylgis við óvinsælar ákvarðanir. Sala Símans var nefnilega óvinsæl. Fólk skynjaði að þar væri ekki búhyggindum fyrir að fara. Ítrekað kom fram í skoðanakönnunum, að yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar var andvígur sölunni, þótt Vinstri hreyfingin – grænt framboð væri eini stjórnmálaflokkurinn sem berðist gegn einkavæðingunni á öllum stigum ferlisins.
    Þegar þjóðin er hins vegar nú spurð hvort hún vilji styrkja geðfatlaða, eða bæta vegasamgöngur, efla hag Árnastofnunar eða Landhelgisgæslunnar, þá svara menn því almennt að slíkum ráðstöfunum séu þeir fylgjandi. Þetta segir sig nánast sjálft. En á þetta reynir ríkisstjórnin að spila.
    Á undanförnum dögum höfum við orðið vitni að ótrúlegu sjónarspili. Ríkisstjórnin kemur færandi hendi með hvern milljarðinn á fætur öðrum og stærir sig óspart af afrekum sínum. Með sölu Símans hefur hún hins vegar engin afrek unnið, og enn síður er það afrek að ráðstafa söluandvirðinu. Það er eftirleikurinn sem er erfiðari. Staðreyndin er að sjálfsögðu sú, að frá þjóðinni hefur verið seld mikil gullkvörn. Hún er seld einu sinni. Síðan er það búið spil. Gullkvörnin heldur hins vegar áfram að mala en nú fyrir nýja eigendur.
    Síminn er geysilega stöndugt fyrirtæki. Í fyrra greiddi fyrirtækið í skatta um hálfan milljarð króna. Skatttekjur ríkisins af Símanum blikna hins vegar þegar arðgreiðslurnar eru annars vegar. Síminn hefur verið gerður upp með rúmlega tveggja milljarða kr. hagnaði undanfarin ár eftir skatta. Síminn hefur því skilað miklu í ríkissjóð. Hann hefur greitt 30% arð af liðlega 7 milljarða kr. hlutafé að nafnvirði, sem gerði t.d. á síðasta ári 2.110 millj. kr. og af því fékk ríkið 99%. Á þessu ári námu arðgreiðslurnar rúmum 6 milljörðum eða 6.330 millj. kr., allt peningar sem runnu í ríkissjóð.
    En þetta segir ekki alla söguna. Það segir kannski enn meiri sögu að Síminn skilaði frá rekstri í fyrra 7.400 millj. kr. tæpum. Rekstrarhagnaður samstæðunnar fyrir afskriftir voru nákvæmlega 7.381 millj. kr. Veltufé frá rekstri var 6.800 millj. kr.
    Þarna er því geysileg fjármunamyndun á ferðinni og hrikalegt til þess að hugsa að ríkisstjórnin skuli hafa tekið frá þjóðinni slíka gullkú.
    En þetta verður svo gott fyrir neytendur er þá svarað á móti. En er það svo? Ég held að mjög hollt sé að minna á, að áður en Síminn var gerður að hlutafélagi á tíunda áratugnum, voru símtöl hér á landi ódýrari en nokkurs staðar á byggðu bóli. Landssími Íslands var í fremstu röð símastofnana í heiminum hvað varðar tækni, þjónustu og verðlagningu. Þetta er óvefengjanleg staðreynd. Eins má ætla að símkostnaður eigi enn eftir að lækka með betri tækni. Forsenda þeirrar staðhæfingar að markaðsvæðingin muni koma neytendum til góða er væntanlega sú, að til staðar sé, eða verði til, samkeppnismarkaður. Er líklegt að svo verði? Síminn hefur yfirburði og mikið forskot fram yfir alla hugsanlega samkeppnisaðila. Auðvitað á tíminn eftir að leiða í ljós hver framvindan verður. En eins og sakir standa verður ekki annað séð en að hér stefni í einokun, í besta falli fákeppni.
    Ég efast um að nokkur maður trúi því að kaupendur Símans séu í góðgerðarstarfsemi; þeir hafi einfaldlega ekkert haft við 66,7 milljaðra að gera og hafi viljað setja þá í uppbyggingu í þágu samfélagsins? Nei, þeir ætla að græða á Símanum. Auðvitað ætla þeir að ná hverri einustu krónu til baka frá notendum þjónustunnar og gott betur. Við munum borga brúsann, 66,7 milljarða auk arðs að lágmarki 15 til 25% ofan í vasa hinna nýju eigenda.
    Þetta eru vangaveltur, sem ekki eiga upp á pallborðið hjá ríkisstjórninni. Ég vona hins vegar, að kjósendur sjái í gegnum málatilbúnað hennar. Við eigum nefnilega ekki að láta ríkisstjórnir komast upp með að kaupa sér vinsældir á fölskum forsendum.



Fylgiskjal VII.


Kostnaðarsöm bið?


(Morgunblaðið, 30. júlí 2005.)



    Eins og fram kom í Morgunblaðinu á fimmtudag bíða tvö til þrjú hundruð manns eftir hjartaþræðingu á Landspítala – háskólasjúkrahúsi. Þrátt fyrir aukin afköst og aukafjárveitingu frá heilbrigðis- og tryggingaráðuneytinu hefur ekki tekist að stytta biðlistann, þar sem eftirspurn eftir þessum aðgerðum hefur aukist jafnt og þétt. Samkvæmt þessum tölum má gera ráð fyrir að meðalbiðtími eftir hjartaþræðingu sé þrír til fjórir mánuðir, en biðtíminn getur farið allt upp í fimm til sex mánuði. Fólk þarf að sætta sig við þessa löngu bið, þrátt fyrir að Gestur Þorgeirsson, yfirlæknir hjartadeildar Landspítala – háskólasjúkrahúss segi að læknum spítalans finnist „í sjálfu sér ekkert óeðlilegt að menn þurfi að bíða í 1–2 mánuði eftir hjartaþræðingu þegar ekki er um tilfelli að ræða sem liggur á, en við viljum ekki að biðtíminn sé mikið lengri en það.“
    Einn til tveir mánuðir eru langur tími í lífi fólks sem er veikt og bíður þess að fá bót meina sinna. Einhverjir mánuðir í viðbót – umfram það sem læknar telja ráðlegt að bíða samkvæmt því sem Gestur segir – geta valdið fólki verulegri streitu. Frekara heilsutjón á meðan á þessari löngu bið stendur hlýtur að vera umhugsunarefni fyrir heilbrigðisyfirvöld, enda slæmt ef ekki er skapað svigrúm til að sinna fólki fyrr en veikindi þess er hægt að skilgreina sem „bráðatilvik“. Hér eru ekki einungis að veði þau verðmæti sem felast í góðri heilsu, heldur einnig verðmætur tími fólks, fjarvistir frá vinnu, tími aðstandenda og þeirra sem annast um sjúklinginn er bíður – og þannig mætti lengi telja. Ef illa fer meðan á biðtímanum stendur getur jafnvel hugsast að sjúklingurinn þurfi á erfiðari og áhættusamari aðgerð að halda, sem þar að auki er kostnaðarsamari og krefst meiri endurhæfingar.
    Sá sparnaður sem felst í því loka vegna sumarleyfa á Landspítala – háskólasjúkrahúsi í tilvikum eins og þessum er því orðinn vafasamur. Líklegt er að hann leiði einfaldlega til aukins kostnaðar annars staðar, sem samfélagið þarf samt sem áður að bera. Hvað aðgerðir á borð við hjartaþræðingar varðar virðist sem einfaldasta og ódýrasta leiðin til að veita þá þjónustu sem íslensku heilbrigðiskerfi ber skylda til að sinna, sé sú að taka sjúklingana inn jafnóðum og aðgerða er þörf; þegar allt kemur til alls hlýtur biðin eftir þjónustu að vera kostnaðarsamari heldur en góð þjónusta.



Fylgiskjal VIII.


Lýður Árnason:

Er ykkur virkilega alvara?!


(Morgunblaðið, 19. nóvember 2005.)



    Rak í rogastans um daginn þegar ég sá hátæknilegan arkitektúr á landspítalalóðinni, glæstar hallir og umgjörð sem líkja má við sjálfan aldingarðinn. Er ráðamönnum þessa lands virkilega alvara með byggingu hátæknisjúkrahúss?
    Vita ráðamenn ekki að hátæknisjúkrahús er þegar til og hefur verið lengi? Vandi okkar Íslendinga liggur ekki í þekkingar- eða tækniskorti heldur allt of stórri yfirbyggingu Landspítalans og víðu verksviði. Háskólasjúkrahúsið þarf ekki meiri samþjöppun heldur þvert á móti úthreinsun.
    Gerum okkur grein fyrir því að flöskuháls heilbrigðisgeirans er ekki fólk með flókna sjúkdóma. Vandinn er elli, geðsjúkdómar, fíkniefni, hræðsla og leti. Þetta eru verkefnin sem bíða og hátæknisjúkrahús leysir ekkert þeirra.
    Förum því hina leiðina og léttum byrði háskólasjúkrahússins, sköpum því svigrúm svo spítalinn standi undir nafni. Opnum hliðin fyrir nýjum einingum og minni, gefum einstaklingsframtakinu byr undir báða vængi og hverfum frá þeirri miðstýringu sem nú ríkir. Með því myndi ábyrgð aukast og kostnaðarvitund, fjölbreyttari rekstrarform sæju dagsins ljós og þau bestu lifa áfram.
    Á meðan eldri borgarar liggja hver um annan þveran á ríkisstofnunum, fíklum blandað saman, gömlum sem ungum, og allir settir undir sama hatt, geðveikum úthýst, deildum lokað og mannekla viðvarandi finnst mér ótækt að bjóða þjóðinni upp á óráðshjal eins manns sem þetta hátæknisjúkrahús svo sannarlega er.
    Ég þykist líka vita að eldri borgurum, fíklum og geðveikum verði í kot vísað á nýju hátæknisjúkrahúsi, þeir sem eiga sjónvarp fá kannski að fylgjast með ráðamönnum liggja úr sér í sínum prívat svítum og skyldi einhver eiga tvö sjónvörp getur hann líka fylgst með skrautfuglunum í nýju tónlistarhúsi sem brátt rís.
    Framámenn sjúkrahúsanna og stjórnendur eru sterkar málpípur og kynda auðveldlega stóra elda, þörfin sjálf er hins vegar mjóróma og nær sjaldnast til himins. Ég hvet þingmenn eindregið til að staldra við og íhuga þessi mál áður en lengra er haldið.



Fylgiskjal IX.


Guðjón Baldursson:

Hátæknisjúkrahús nei takk.


(Morgunblaðið, 30. nóvember 2005.)



    Ráðamenn heilbrigðismála ætla að reisa sér minnisvarða, hátæknisjúkrahús. Verja á 18 milljörðum, sem fengust fyrir sölu á Símanum, í þetta musteri. Ákvörðun var tekin skömmu eftir að fv. forsætisráðherra var lagður inn á spítala. Þótt byggingin sé umdeild voru starfsmenn LSH voru ekki spurðir álits. Í skoðanakönnun sem birtist nýlega voru 50% aðspurðra andvíg þessari byggingu. Þó eru heilbrigðismál það sem flestir setja á oddinn þegar spurt er hvernig verja skuli fjármunum ríkissjóðs. Vert væri fyrir þá sem valdið hafa að staldra við og kíkja á áttavitann áður en lengra er haldið. Silli og Valdi auglýstu á sínum tíma „Af ávöxtunum skuluð þér þekkja þá“. Það mætti heimfæra upp á fyrrgreinda ráðamenn. Við spyrjum að leikslokum.
    Yfirbygging LSH hefur vaxið hraðar en aðrir þættir spítalans. Píramídalagað stjórnkerfið einkennist af hverri silkihúfunni upp af annarri. Ef til byggingar hátæknisjúkrahúss kemur má ætla að það þurfi enn fleiri stjórnendur. Eitt forgangsverka núverandi ráðamanna ætti að vera að beita niðurskurðarhnífnum á þessu sviði.
    Á stofu 4 á slysadeildinni fer vatn að renna úr krana á stofunni ef hurð er skellt fast. Þetta er ekki hátækniundur heldur eitt fjölmargra dæma um úr sér gengið húsnæði þar sem aðstaða til þess að sinna sjúku og slösuðu fólki er ekki viðunandi. Þetta er samt ekki vandamálið. Það er ekki skortur á húsnæði né tækjum eða öðrum búnaði. Vandamálið er stjórnunarlegs eðlis þar sem stjórn heilbrigðismála og stjórn LSH hafa brugðist þeim loforðum að bæta lágtækniþjónustu við sjúklinga: að fjölga hjúkrunarrýmum fyrir aldraða og langveika og bæta félagslega aðstoð og heimahjúkrun þeirra, að stuðla að því að sem flestir fái að búa heima eins lengi og kostur er. Á bráðadeildir sjúkrahúsanna leitar fólk með margs háttar krankleika sem krefst vistunar á sjúkradeild. Oft fylgja með önnur heilsufarsleg og félagsleg vandamál sem ekki krefjast vistunarrýmis á bráðadeild. Mikill tími og mannafli fer í að finna þessum sjúklingum pláss á spítalanum og þeir eru því „fyrir“, fluttir hreppaflutningum milli deilda, oft látnir liggja á gangi. Þessir sjúklingar sem oft eru af eldri kynslóð eru útskrifaðir heim eins fljótt og hægt er, reynt að „losna við“ þá, oft í mikið óöryggi. Þeim er sagt að heilsugæslan muni sjá þeim fyrir heimahjúkrun en hún er engan veginn í stakk búin til þess að sinna þessari þjónustu, bæði vantar fé og mannafla.
    Loforðin hafa verið fögur, en verkin ekki talað. Afleiðing svika stjórnvalda og stjórnunar LSH er sú að á sjúkrahúsinu liggja tugir aldraðra og langveikra sjúklinga vegna úrræðaleysis. Vandamálið er því fráflæði frá spítalanum. Þeir sjúklingar sem ekki eru í þörf fyrir bráðaþjónustu eiga ekki í önnur hús að venda. Þeir eiga heima utan sjúkrahúss eins og t.d. í hjúkrunarrýmum eða heima þar sem þeirra þörfum er sinnt og þeir geta fundið sig örugga.
    Rætt hefur verið um að heilsugæslan geti sinnt hluta þessa vanda. Staðreyndin er hins vegar sú að heilsugæslan er á brauðfótum. Þúsundir hafa engan heimilislækni, viðtalstími við lækni fæst eftir dúk og disk. Læknavaktin, sem er tilkomin af nauðsyn, sinnir þessu fólki, þar fær maður „aktu-taktu“-þjónustu. Fólk fer á slysadeildina með vandamál sem eiga þar alls ekki heima. Þessi þjónusta er dýr fyrir alla. Fólk leitar til sérfræðinga á stofu, s.s. hjartalækna, gigtarlækna, meltingarfæralækna, barnalækna o.s.frv. Sérfræðiþjónusta á stofum er vel rekin en á undir högg að sækja vegna karps um kaup og kjör við TR. Heilsugæslan er ófær um að sinna sínu hlutverki, þjónustan er á hraða skjaldbökunnar. Síendurtekin loforð heilbrigðisráðherra um að leyfa heimilislæknum að reka sínar stofur sjálfir hafa verið svikin eða sett á ís. Heilsugæslan getur sinnt kvefi, vöðvabólgu og félagslegum vandamálum, miklu lengra nær þjónusta hennar ekki.
    Kynslóðin sem fæddist milli heimsstyrjalda á miklu betri kjör skilið en að vera sett til hliðar eða troðið í rúm á gangi á yfirfullum sjúkradeildum „háskólasjúkrahússins“. Millistríðsárakynslóðin skóp mikið til þann auð sem fékkst fyrir sölu Símans. Skylda okkar er að verja þessum auði í þeirra þágu, ekki eftir 10–15 ár, heldur núna. Þessi kynslóð kom okkur úr sauðskinnsskóm í goretex-skóna, úr torfkofum í glæst híbýli nútímans, frá örbirgð til allsnægta. Hvers á þetta fólk að gjalda? Loforð og fagurgalar forkólfa heilbrigðismála hafa ekkert vægi í raunveruleikanum þar sem verkin hafa ekki talað.
    Ef „hátæknisjúkrahúsið“ rís og tekur við hlutverki Hringbrautarhjáleigunnar og Fossvogskotsins er sú kynslóð, sem við eigum hvað mest að þakka, að stórum hluta gengin á vit feðra sinna. Má ég biðja um virðingu og þjónustu við aldraða og langveika núna, lágtækniheilsuþjónustu en ekki hátæknisjúkrahús. Og munið: það er ekki hægt að millifæra peninga á bankareikning í Himnaríki.
    Ráðamenn heilbrigðismála: hættið að tala og skipa í nefndir, standið upp, brettið upp ermar, látið verkin tala núna.



Fylgiskjal X.


Allir kostir verði lagðir upp á borð.


(Morgunblaðið 2. desember 2005)



    Borgarráð samþykkti einróma á fundi sínum í gærmorgun að fara þess á leit við Alþingi að binda ekki fjárveitingu Sundabrautar ákveðnum skilyrðum en í greinargerð með frumvarpi til laga um ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands er lagt til að fé verði veitt til lagningar Sundabrautar. Sú ákvörðun tekur hins vegar mið af því að svokölluð innri leið, sem talin er ódýrari, verði valin.
    Stefán Jón Hafstein, formaður borgarráðs, bendir á að í úrskurði umhverfisráðherra segi að hafa skuli víðtækt samráð um þá leið sem farin verði en til þess sé nauðsynlegt að ekki sé búið að binda kostina skilyrðum, þ.e. innri og ytri leið, og verði báðir að vera uppi á borði og skoðaðir samtímis.
    Stefán segir að eins og málin líti út í dag virðist innri leiðin vera ódýrari en hún sé þó mun óhentugri út frá öllum skipulagslegum forsendum. Þó svo að ytri leiðin sé að öllum líkindum dýrari þá sé munur upp á nokkra milljarða ekki svo stórkostlegur þegar til lengri tíma sé litið og skipulagshagsmuna borgarinnar á móti.
    Í bókun borgarráðs kemur fram að næstu skef verði að taka hratt og vel og nauðsynlegt sé að fylgja eftir niðurstöðu umhverfisráðherra með öflugu samráði framkvæmdaaðila og íbúa. Af hálfu Reykjavíkurborgar liggur fyrir tillaga um að samráðshópur verði skipaður fulltrúum framkvæmdasviðs, skipulags- og byggingasviðs, umhverfissviðs, íbúasamtökum Grafarvogs og Laugardals auk fulltrúa Faxaflóahafna og Vegagerðarinnar.
    Stefán Jón segir að næsta skref ætti að vera að Alþingi tæki skilyrðinguna út og hægt væri að leggja upp á borðið á næstu vikum hvor kosturinn sé álitlegri svo hægt sé að vinna út frá því í samráðsferlinu sem verið sé að fara í.



Fylgiskjal XI.


Jón Bjarnason:

Þjóðin greiði atkvæði um Símann.


(Morgunblaðið, 16. apríl 2005.)



    Fyrirhuguð sala Landssímans er afar umdeild í þjóðfélaginu svo vægt sé til orða tekið. Skoðanakannanir hafa hvað eftir annað sýnt að meirihluti landsmanna er andvígur sölu Símans með grunnnetinu. Þannig lýsti 61% svarenda andstöðu við söluna í Gallup-könnun í mars árið 2002. Í könnun sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gerði í febrúar 2005 kváðust rúm 70% þeirra sem afstöðu tóku andvíg sölu grunnnetsins. Ekki var mikill munur á afstöðu fólks eftir því hvort það var búsett á höfuðborgarsvæðinu eða á landsbyggðinni; 68% höfuðborgarbúa voru andvíg sölunni en 75% landsbyggðarfólks. Í Þjóðarpúlsi Gallup, sem kynntur var í mars 2005, var meirihluti aðspurðra andvígur sölu fyrirtækisins og 76% á móti því að selja grunnfjarskiptakerfi Símans. Greinilegt er að meirihluti landsmanna er á móti því að Landssíminn verði seldur og mikill meirihluti er andvígur sölu grunnfjarskiptakerfisins. Svo virðist sem einkavæðingarnefnd vinni að sölu Símans á vegum ríkisstjórnarinnar en í óþökk meiri hluta kjósenda.

Mikil andstaða við söluna.
    Þær miklu undirtektir sem hugmyndin um að stofna stórt almenningshlutafélag til að kaupa stóran hlut í Símanum hefur fengið, undirstrika gremju fólks í garð ríkisstjórnarinnar vegna fyrirhugaðrar einkavæðingar. Ekki verður betur séð en að fólki þyki skömminni skárra að kaupa fyrirtækið af sjálfu sér en að sjá á eftir því í hendur fáeinna aðila sem kynnu síðar meir að selja sína hluti á mun hærra verði.
    Í því sambandi er vert að rifja upp málflutning ráðherranna þegar síðast var gerð tilraun til að selja Símann. Þá var lögð áhersla á það að bjóða almenningi og starfsfólki dágóðan hlut á viðráðanlegum kjörum áður en farið væri að selja stærri hluti til fjárfesta og fyrirtækja. Rökin voru þau að ekki þætti rétt að kapphlaup svokallaðra kjölfestufjárfesta, sem þá áttu að bítast um 25% hlut, væri notað til að skrúfa upp það kaupverð sem almenningi væri boðið. Þá mótmælti almenningur sölu Símans og keypti ekki hlutabréf. Nú á að fara þá leið sem sömu mönnum þótti ótæk fyrir fáum árum og aftur mótmælir þjóðin og vill heldur kaupa Símann af sjálfri sér en fórna honum til óskyldra eins og ríkisstjórnin ætlar sér.

Óvissa um framtíð fjarskiptamála.
    Sala Símans yrði stærsta einstaka einkavæðing sem orðið hefur í almannaþjónustu á Íslandi, hún er að öllum líkindum óafturkræf og myndi án efa setja framtíðarfyrirkomulag fjarskiptaþjónustu á stórum svæðum landsins í mikla óvissu. Við landsmönnum blasir samruni fjarskiptafyrirtækja og fjölmiðla svo búast má við því að hefðbundin fjarskiptaþjónusta við almenning verði ekki forgangsmál hjá slíkum samsteypum. Þar verður í sumum tilvikum eftir of litlu að slægjast fyrir fjármálamenn sem leggja ofurkapp á að hafa hámarksarð af hlutabréfum sínum.
    Mörgum spurningum er ósvarað varðandi það hvernig fara skuli með grunnfjarskiptakerfi Símans, svokallað grunnnet, sem ætlunin er að selja með fyrirtækinu. Þeim hefur verið drepið á dreif með fullyrðingum um að það sé tæknilega ómögulegt að ákvarða hversu stór hluti gagnaflutningskerfis Landssímans skuli teljast til grunnnetsins enda er það verkefni sem stjórnmálamenn verða að takast á við. Skilgreining á grunnnetinu er með öðrum orðum pólitísk en ekki tæknileg og ætti þar af leiðandi ekki að vera stórkostlegur vandi fyrir þá sem hafa á annað borð þor til að takast á við málið.

Landsmenn hafi sjálfir síðasta orðið.
    Ærnar ástæður eru til að frekari framvinda málsins verði ráðin í lýðræðislegri atkvæðagreiðslu sem allir atkvæðisbærir landsmenn geti tekið þátt í. Landssíminn er að nær öllu leyti í sameign allra landsmanna þar eð hið opinbera fer með 98% hlutafjár í fyrirtækinu. Því eru enn forsendur til að endurskoða söluáformin og búa þannig um rekstur Landssímans til framtíðar að hann geti haldið áfram að veita öllum landsmönnum góða fjarskiptaþjónustu og stuðla að sem jafnastri stöðu allra byggðarlaga á því sviði.
    Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafa lagt fram á Alþingi tillögu um að efnt verði til þjóðaratkvæðagreiðslu um málið og ríkisstjórnin verði bundin af niðurstöðunni. Þannig má tryggja að vilji landsmanna komi afdráttarlaust fram og ráði raunverulega för þegar kemur að því að ákveða hvað gera skuli við Landssímann.



Fylgiskjal XII.


Jón Bjarnason:


Þjóðin vildi fá að eiga Landssímann.


(Morgunblaðið, 8. september 2005.)



    Senn er Landssími Íslands allur. Almannaþjónustu, sem hefur verið í sameign þjóðarinnar og stolt hennar í hartnær 100 ár, hefur nú verið fórnað á altari einkavæðingar og markaðsbrasks.
    Allar skoðanakannanir sem gerðar hafa verið á undanförnum árum hafa sýnt að mikill meiri hluti þjóðarinnar var andvígur sölu Símans. Hefur sú andstaða vaxið frekar en hitt. Gallupkönnun í mars 2002 sýndi að 61% þjóðarinnar var afar andvígt sölu Landssímans.
    Könnun Félagsvísindastofnunar í febrúar 2005 sýndi að 70% þjóðarinnar voru andvíg sölu grunnfjarskiptakerfis Símans. Og í þjóðarpúlsi Gallups í mars 2005 voru 76% þjóðarinnar andvíg sölu á grunnfjarskiptakerfi þjóðarinnar, Landssímanum.
    Og þrátt fyrir að salan hafi farið fram og umræðan látin snúast um öll þau vanræktu góðverk sem á að vinna fyrir söluandvirðið er enn stærstur hluti aðspurðra andvígur sölunni samkvæmt nýjum þjóðarpúlsi Gallups.
    Staðfestist þar með enn frekar stefna vinstri-grænna í þessu máli sem lögðust alfarið gegn sölunni og kröfðust þjóðaratkvæðagreiðslu um þessa stærstu einkavæðingu almannaþjónustu á Íslandi.

Vitlausasta einkavæðing þessarar ríkisstjórnar.
    Almannaþjónusta eins og fjarskipti er forsenda fyrir samkeppnishæfri búsetu og atvinnulífi um allt land. Síminn er tengdur inn á hvert heimili í landinu. Landssíminn hefur skilað drjúgum arði í ríkissjóð, milli 6 og 7 milljörðum kr. á sl. ári. Sala Símans er ein vitlausasta einkavæðing þessarar ríkisstjórnar.
    Enginn góður bóndi myndi selja bestu kúna úr fjósinu.
    Ríkisstjórnin hælist nú um að sala Landssímans klúðraðist 2001 því síðan hafi hann hækkað í verði um 30 milljarða og auk þess skilað um 10 milljarða arði í ríkissjóð á sl. 3 árum.
    Hver yrði nú hagnaðurinn næstu árin ef við hefðum borið gæfu til að eiga hann áfram? Ríkisstjórnin montar sig af háu söluverði, 67 milljörðum kr. En samkvæmt arðsemisspá munu nýir eigendur fá kaupverðið greitt á næstu 10–12 árum. Flestir munu nú kalla þetta gjöf en ekki sölu.

Félagshyggja Framsóknarflokksins týnd og tröllum gefin.
    Stefna vinstri-grænna hefur ávallt verið skýr í þessu máli: Grunnfjarskiptakerfið á að vera í sameign þjóðarinnar þannig að hægt sé að tryggja jafnrétti í verði og gæðum þessarar þjónustu um allt land.
    Það átti að beita styrk Landssímans til að koma upp gsm-þjónustu um alla helstu vegi og byggðir landsins.
    Nú verður sú fjarskiptaþjónusta sem ekki uppfyllir stífustu arðsemiskröfur fyrirtækis á markaði að vera komin upp á náð sérstakra fjárveitinga ríkisins. Þegar frá líður hygg ég að mörgum landshlutanum, sveitabænum, sjávarþorpinu þyki þeir verða afskiptir og hafðir útundan í fákeppni einkavæddra fjarskipta. Þar ræður krafan um hámarksarð ein för.
    Hvernig líður nú hinum almenna kjósanda Framsóknarflokksins að horfa upp á blinda einkavæðingu flokksforystunnar? Samkvæmt öllum skoðanakönnunum voru um 70% kjósenda flokksins við síðustu kosningar andvígir sölu Landssímans.

Blessuð sé minning Landssíma Íslands.
    Þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs krafðist þjóðaratkvæðagreiðslu um sölu Landssímans.
    Ríkisstjórnarflokkarnir þorðu það ekki. Þeim var mikið í mun að einkavæða Landssímann og afhenda hann fjármálamarkaðnum.
    Í einkavæðingaræðinu er ekkert heilagt og hin dýru samfélagsgildi falla nú fyrir borð hvert af öðru.
    Þjóðin hefur sýnt í skoðanakönnunum að hún vill annað.
    Sú þarf einnig að verða raunin í næstu kosningum.