Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 288. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 512  —  288. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu.

Frá meiri hluta iðnaðarnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Helga Bjarnason frá iðnaðarráðuneytinu, Hákon Aðalsteinsson frá Orkustofnun, Davíð Egilson og Kristján Geirsson frá Umhverfisstofnun, Jón Gunnar Ottósson frá Náttúrufræðistofnun Íslands, Hjörleif B. Kvaran frá Orkuveitu Reykjavíkur, Júlíus Jónsson frá Hitaveitu Suðurnesja, Björn Pétursson og Örlyg Þórðarson frá Landsvirkjun og Tryggva Þór Haraldsson frá Rafmagnsveitum ríkisins.
    Á síðasta þingi lagði iðnaðarráðherra fram frumvarp til laga um rannsóknir og nýtingu á jarðrænum auðlindum. Var því frumvarpi ætlað að leysa af hólmi lög nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, auk þess sem því var m.a. ætlað að taka til rannsókna á vatnsaflsvirkjunum. Í meðförum Alþingis ákvað iðnaðarnefnd að fresta afgreiðslu frumvarpsins. Hins vegar lagði nefndin síðan fram nýtt frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 57/1998 þar sem kveðið var á um rannsóknir á vatnsaflsvirkjunum. Frumvarpið er nú lagt fram að nýju með þeirri breytingu að fellt er niður ákvæði til bráðabirgða.
    Í frumvarpinu er lagt til að gildissvið laganna verði víkkað þannig að lögin taki til rannsókna á vatnsafli til raforkuframleiðslu. Við þessa breytingu munu ákvæði laganna, sbr. einkum ákvæði III. kafla laganna um rannsóknir og leit, taka til slíkra rannsókna eftir því sem við á. Þá er í 2. gr. frumvarpsins gert ráð fyrir að rannsóknarleyfi samkvæmt lögunum séu veitt einum aðila með þeirri undantekningu að hafi aðilar sammælst um rannsóknir og sæki sameiginlega um rannsóknarleyfi skuli heimilt að veita þeim það sameiginlega. Í 3. gr. frumvarpsins er síðan mælt fyrir um endurkröfurétt þeirra sem fengið hafa rannsóknarleyfi og lagt í kostnað við rannsóknir en fá af einhverjum ástæðum ekki leyfi til nýtingar á viðkomandi auðlind. Gert er ráð fyrir að sá kostnaður sem endurgreiða ber sé í samræmi við rannsóknaráætlun og í beinum og efnislegum tengslum við fyrirhugaða nýtingu.
    Meiri hlutinn leggur til eina breytingu á frumvarpinu og lýtur hún að ákvæði til bráðabirgða þar sem mælt er fyrir um skipun nefndar sem skal hafa það hlutverk að gera tillögu um það með hvaða hætti verði valið á milli umsókna um rannsóknar- og nýtingarleyfi samkvæmt lögunum og marka framtíðarstefnu um nýtingu þeirra auðlinda sem lögin ná til. Nefndinni ber að skila tillögum sínum til iðnaðarráðherra í síðasta lagi 15. september 2006.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með svofelldri

BREYTINGU:

    Við bætist ákvæði til bráðabirgða sem orðist svo:
    Við gildistöku laga þessara skal iðnaðarráðherra skipa nefnd fulltrúa allra þingflokka sem sæti eiga á Alþingi. Í nefndinni skulu jafnframt eiga sæti þrír fulltrúar frá Samorku. Þá skal iðnaðarráðherra skipa tvo fulltrúa og skal annar þeirra vera formaður nefndarinnar. Hlutverk nefndarinnar er að gera tillögu um með hvaða hætti valið verði milli umsókna um rannsóknar- og nýtingarleyfi á grundvelli laga þessara og marka framtíðarstefnu um nýtingu þeirra auðlinda sem lögin ná til. Nefndin skal skila tillögum sínum í formi lagafrumvarps til iðnaðarráðherra eigi síðar en 15. september 2006.

Alþingi, 3. des. 2005.



Birkir J. Jónsson,


form., frsm.


Einar Oddur Kristjánsson.


Kjartan Ólafsson.



Sigurður Kári Kristjánsson.


Birgir Ármannsson.