Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 191. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 523  —  191. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um fjarskiptasjóð.

Frá samgöngunefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sigurberg Björnsson, Unni Gunnarsdóttur, Karl Alvarsson og Bergþór Ólason frá samgönguráðuneyti, Hrafnkel V. Gíslason og Sigurjón Ingvason frá Póst- og fjarskiptastofnun, Dóru Sif Tynes og Eirík S. Jóhannesson frá Dagsbrún, Arnþór Halldórsson og Ragnar Aðalsteinsson frá Hive, Jónatan Svavarsson frá Orkuveitu Reykjavíkur og Pál Ásgrímsson frá Símanum.
    Með frumvarpinu er skotið stoðum undir ályktun Alþingis um stefnu í fjarskiptamálum fyrir árin 2005–2010 sem samþykkt var 11. maí sl. Lagt er til að stofnaður verði sérstakur sjóður til að ráðstafa fjármunum til framkvæmda á þessu sviði. Þá er lagt til að setja sjóðnum stjórn og skipulag. Gerð er tillaga um að sjóðurinn heyri stjórnskipulega undir samgönguráðuneytið.
    Ríkissjóður leggur sjóðnum til stofnfé að fjárhæð 2.500 millj. kr., en stjórn sjóðsins ákveður greiðslu fjárins til einstakra verkefna í samræmi við fjarskiptaáætlun og ákvæði fjarskiptalaga.
    Nefndin leggur áherslu á að sjóðurinn standi straum af kostnaði við nauðsynlega uppbyggingu fjarskiptakerfis hér á landi og þá sé fyrst og fremst miðað við stofnkostnað en ekki þjónustu. Þá leggur nefndin áherslu á að við úthlutun úr sjóðnum skuli gæta að samkeppnissjónarmiðum og að verklag við úthlutun sé skýrt.
    Nefndin leggur til eina breytingu á frumvarpinu og lýtur hún að því að efnisákvæði 7. gr. frumvarpsins eru gerð ítarlegri. Mikilvægt er að skýrt sé kveðið á um að sá kostnaður sem Póst- og fjarskiptastofnun mun bera vegna verkefna sem henni verða falin verði greiddur úr fjarskiptasjóði.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með svofelldri

BREYTINGU:

    7. gr. orðist svo:
    Fjarskiptasjóður ber allan kostnað af starfsemi sinni og allan kostnað Póst- og fjarskiptastofnunar af starfsemi sem tengist verkefnum sjóðsins.

    Jón Bjarnason sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er hann samþykkur áliti þessu með fyrirvara sem lýtur að sölu Símans.
    Magnús Stefánsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.


Alþingi, 2. des. 2005.

Guðmundur Hallvarðsson,
form., frsm.
Hjálmar Árnason.
Anna Kristín Gunnarsdóttir.

Kjartan Ólafsson.
Kristján L. Möller.
Sigurrós Þorgrímsdóttir.

Guðjón A. Kristjánsson,
með fyrirvara.
Þórunn Sveinbjarnardóttir.