Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 344. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 545  —  344. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 30/2004, um vátryggingarsamninga.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sigmar Ármannson frá Sambandi íslenskra tryggingafélaga, Hrafnhildi Stefánsdóttur frá Samtökum atvinnulífsins og Halldór Grönvold frá Alþýðusambandi Íslands.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um vátryggingarsamninga sem munu taka gildi 1. janúar næstkomandi. Um er að ræða leiðréttingar á tilvísunum milli ákvæða (3. gr. og 120. gr.), efnisbreytingar á ákvæðum í því skyni að gera skýrari greinarmun á milli svonefndra heilsutrygginga án uppsagnarréttar (sjúkdómatrygginga) annars vegar og hreinna áhættulíftrygginga hins vegar (85. gr. og 86. gr.) og loks árétting um rétt eftirlifandi maka til greiðslu vátryggingarfjárhæðar (100. gr.).
    Við athugun nefndarinnar á málinu kom í ljós að gildissvið 61. gr. laganna sem fjallar um persónutryggingar þykir fullvíðtækt, einkum með tilliti til kjarasamninga launþega á vinnumarkaði. Slysatryggingar launþega munu falla undir ákvæði laganna um hóptryggingar en slíkar tryggingar hafa hingað til verið, og verða áfram, tryggðar með kjarasamningum aðila á vinnumarkaði. Framkvæmd kjarasamningsbundinna trygginga hefur þótt einföld í framkvæmd og haft í för með sér tiltölulega lítinn kostnað við umsýslu og er því ekki ástæða til að hrófla við þeim. Nefndin leggur því til að undanþáguákvæði 4. mgr. 61. gr. laganna verði víkkað og látið ná til persónutrygginga launþega samkvæmt kjarasamningum.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með svofelldri

BREYTINGU:



    Á eftir 1. gr. komi ný grein sem orðist svo:
    Við 4. mgr. 61. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þá gilda ákvæði um hópvátryggingar í þessum hluta laganna ekki um persónutryggingar launþega samkvæmt kjarasamningum.

Alþingi, 7. des. 2005.



Pétur H. Blöndal,


form., frsm.


Ingibjörg Sólrún Gísladóttir.


Dagný Jónsdóttir.



Birgir Ármansson.


Kristján L. Möller.


Ásta Möller.



Ögmundur Jónasson.


Siv Friðleifsdóttir.


Lúðvík Bergvinsson.