Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 314. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 578  —  314. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, með síðari breytingum.

Frá minni hluta umhverfisnefndar.



    Minni hlutinn gerir athugasemdir við þann flýti sem var á meðferð málsins í nefndinni. Minni hlutinn gagnrýnir að ekki skuli hafa verið ætlaður meiri tími til að skoða málið og vill benda á að margar afar neikvæðar umsagnir hafa borist, til dæmis frá Félagi heilbrigðis- og umhverfisfulltrúa, Heilbrigðiseftirliti Kjósarsvæðis, Heilbrigðiseftirliti Norðurlands eystra, heilbrigðisnefnd Austurlands, Reykjavíkurborg o.fl.
    Minni hlutinn telur rétt að rekja brot af þeim umsögnum sem bárust.
    Í umsögn Reykjavíkurborgar, sem barst eftir að málið hafði verið tekið út úr nefndinni, koma fram athugasemdir er lúta að því að ekki skuli vera kveðið á um meðferð þeirra gagna sem verða til við úttekt faggiltra aðila, en ef gera á ráð fyrir að þeim sé skilað til heilbrigðisnefnda, sem fara með þvingunarúrræði samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, er nauðsynlegt að kveða á um skilaskyldu þeirra í lögunum. Þá er í umsögninni vakin athygli á því að reynslan af innra eftirlitinu, sem nú er framkvæmt, sé almennt góð hjá allra stærstu fyrirtækjunum, en hún sé miður góð í smáum og meðalstórum fyrirtækjum. Illa hafi gengið að fá minni fyrirtæki til að taka upp skráningar og augljóst sé að þau vilji heldur fá heimsókn heilbrigðisfulltrúa, sem fari þá yfir verkferla, húsnæði, efnanotkun o.s.frv.
    Í umsögn Félags heilbrigðis- og umhverfisfulltrúa kemur fram að í frumvarpinu sé um að ræða breytingu sem geti haft mjög víðtæk áhrif á sveitarfélögin, ekki síst í kostnaðarlegu tilliti. Félagið tekur fram að heilbrigðisfulltrúum sé gert að uppfylla menntunar- og reynslukröfur samkvæmt reglugerð og að þeir þurfi starfsleyfi frá ráðherra. Telur félagið að heilbrigðisnefndir ættu að meta þörfina fyrir að fela faggiltum skoðunaraðilum hluta eftirlits, en slík heimild hefur fram til þessa einkum snúið að rannsóknum sýna. Þá telur félagið að hætta sé á að faggiltir skoðunaraðilar geti ekki tryggt óháða úttekt vegna hagsmunatengsla við þau fyrirtæki sem þeir þjónusta. Félagið nefnir jafnframt að Umhverfisstofnun og heilbrigðiseftirlitssvæðin hafi unnið saman að samræmingu eftirlits á landinu og hafi á undanförnum árum náð miklum árangri með samræmdum starfsleyfisskilyrðum. Þá bendir félagið á að gagnrýnivert sé að ekki skuli gerð tilraun til að meta kostnaðaraukningu fyrirtækja og sveitarfélaga í ljósi þess að krafa um viðamikið innra eftirlit hljóti að vera afar íþyngjandi. Loks bendir félagið á að í ákvæði frumvarpsins vanti skilyrði um skýrsluskil til heilbrigðisnefnda, án slíkrar skyldu sé ákvæðið tilgangslítið.
    Í umsögn Heilbrigðiseftirlits Kjósarsvæðis kemur fram að með því að fela einkaaðila að sjá um hluta eftirlits sé búið til tvöfalt eftirlitskerfi, án þess að sýnt hafi verið fram á að hið samræmda eftirlit sem Umhverfisstofnun og heilbrigðiseftirlit sveitarfélaganna hafa þróað sé ekki fullnægjandi. Í umsögn heilbrigðisnefndar Austurlands kemur fram að ekki sé komin nein reynsla á það hvort skoðun faggilts aðila umfram innra eftirlit og eftirlit heilbrigðisfulltrúa skili árangri í lægri slysatíðni og auknu öryggi barna.
    Ýmsir umsagnaraðilar gera athugasemd við að ekki skuli liggja fyrir kostnaðargreining á frumvarpinu og tekur minni hlutinn undir þær athugasemdir, enda hlýtur það að vera brot á samkomulagi ríkisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga um að meta beri kostnað sveitarfélaganna af stefnumarkandi ákvörðunum ríkisvaldsins. Í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytis er eingöngu tekið fram að breytingin muni ekki valda kostnaðarauka hjá ríkissjóði.
    Minni hlutinn gagnrýnir í hve miklu flaustri málið var afgreitt frá umhverfisnefnd og telur málið af þeim sökum vanreifað. Þar að auki gefa umsagnir tilefni til að farið verði vandlega í saumana á málinu. Í ljósi þessa leggst minni hlutinn gegn samþykkt frumvarpsins á þessu stigi.
    Sigurjón Þórðarson sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 8. des. 2005.



Kolbrún Halldórsdóttir,


frsm.


Mörður Árnason.