Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 463. máls.
Þskj. 690  —  463. mál.




Frumvarp til laga

um breytingu á lögum nr. 8/1996, um löggildingu nokkurra starfsheita sérfræðinga í tækni- og hönnunargreinum, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 132. löggjafarþingi 2005–2006.)




1. gr.

    Við 1. gr. laganna bætist nýr töluliður sem orðast svo: grafískra hönnuða.

2. gr.

    Við 2. gr. laganna bætist nýr málsliður sem orðast svo: Þeir sem lokið hafa BA-prófi eða meistaraprófi í grafískri hönnun frá viðurkenndum íslenskum háskóla, svo og lokaprófi í grafískri hönnun frá Myndlista- og handíðaskólanum eða Myndlistaskólanum á Akureyri, þurfa ekki heldur slíkt leyfi ráðherra.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Lagafrumvarp þetta, sem samið er í iðnaðarráðuneytinu, miðar að því að löggilda starfsheiti grafískra hönnuða með því að bæta þeim við í upptalninguna í lögum nr. 8/1996, um löggildingu nokkurra starfsheita sérfræðinga í tækni- og hönnunargreinum. Frumkvæði að samningu frumvarpsins kom frá Félagi íslenskra teiknara (FÍT) sem er fagfélag grafískra hönnuða og myndskreyta en einnig einstaklingum sem vilja efla íslenska hönnun og auka þar með verðmæti íslenskrar framleiðslu, svo og bæta auglýsingamenninguna í landinu. Mikil gróska hefur verið á flestum sviðum hönnunar hér á landi að undanförnu. Er grafísk hönnun þar engin undantekning hvort sem er á prenti eða á sviði margmiðlunar.
    Grafísk hönnun er í stuttu máli úthugsuð, tæknileg og skapandi framkvæmd. Hún er ekki bara einföld framleiðsla á myndefni heldur felur grafísk hönnun í sér greiningu, skipulagningu og framsetningu á myndrænum lausnum í verkefnum sem lúta að hvers kyns samskiptum. Verkefni grafískra hönnuða eru mjög fjölbreytt, þ.e. umbúðir, vöru- og firmamerki, peningaseðlar, frímerki, auglýsingar og margt fleira.
    Talið er æskilegt að greina með löggildingu starfsheitisins grafískur hönnuður á milli þeirra sem hafa enga eða litla menntun í grafískri hönnun en kalla sig þó grafíska hönnuði og hinna sem hafa langa háskólamenntun eða menntun á háskólastigi að baki. Koma neytendasjónarmið m.a. hér við sögu, bæði gagnvart einstaklingum og fyrirtækjum. Með löggildingu er m.a. talið að hafa megi áhrif á framkvæmd laga um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins en þau lög geyma ítarleg ákvæði um auglýsingar. Framkvæmd laganna er á verksviði Neytendastofu.
    Hvað nám snertir hafa iðnskólar og tölvuskólar á Íslandi að undanförnu boðið upp á námskeið í grafískri hönnun eins og auglýst er í námskrá þessara skóla. Grafísk hönnun er þar aðeins sem sérhæfð námskeið eða undirbúningsnám fyrir framhaldsnám á háskólastigi í greininni. Það framhaldsnám er aðeins boðið upp á í Listaháskóla Íslands og Myndlistaskólanum á Akureyri og síðan í erlendum listaháskólum. Margmiðlunarnám er orðinn vinsæll kostur en þar er þó um að ræða tölvunám sem lagt er stund á í tvö til tvö og hálft ár. Fellur það nám undir tölvumiðlun en ekki listrænar hugmyndagreinar eins og þegar um grafíska hönnun er að ræða. Stutt námskeið í grafískri hönnun sem tekur frá þremur mánuðum til eins árs jafngildir alls ekki því viðamikla námi sem grafískur hönnuður nemur á þremur námsárum í háskóla og hann er síðan krafinn um sem sérfræðingur í atvinnulífinu þar sem vinna þarf samkvæmt ýmsum lögum og reglum.
    Listaháskóli Íslands útskrifar nú grafíska hönnuði eftir þriggja til fjögurra ára háskólanám með BA-gráðu eins og erlendir listaháskólar gera reyndar einnig. Útskrifaði skólinn fyrst nemendur með slíkri prófgráðu árið 2000 en kennsla við skólann hófst árið 1999. Til að útskrifast sem grafískur hönnuður frá skólanum þurfa nemendur að taka samtals 90 einingar, 54 einingar í verklegu námi, 27 einingar í bóklegu námi og 9 einingar í tæknilegu námi.
    Rétt þykir að leggja að jöfnu við BA-próf í Listaháskóla Íslands, að því er varðar réttindi til starfsheitisins grafískur hönnuður, fullnaðarpróf í grafískri hönnun frá Myndlista- og handíðaskólanum og Myndlistaskólanum á Akureyri.
    Myndlista- og handíðaskólinn miðar stofnun sína við árið 1939 þegar Lúðvíg Guðmundsson stofnaði Handíðaskólann. Skólinn fékk heitið Myndlista- og handíðaskólinn 1964 þegar fyrstu heildarlög um skólann voru samþykkt en þar var hann felldur inn í fræðslukerfi ríkisins. Gísli B. Björnsson hafði stofnað deild fyrir grafíska hönnun í Handíðaskólanum 1962. Kennsla í þeirri grein fór síðan fram í Handíðaskólanum 1962-1964 og Myndlista- og handíðaskólanum 1964–1999 þegar Listaháskóli Íslands var stofnaður. Var námið á háskólastigi, fjögur ár, og er talið sambærilegt við nám í Listaháskóla Íslands þótt prófgráðan héti ekki BA-próf. Myndlista- og handíðaskóli Íslands útskrifaði alls um 300 nema í grafískri hönnun. Gert er ráð fyrir því í frumvarpinu að þeir einstaklingar fái einnig rétt til að bera starfsheitið grafískur hönnuður.
    Myndlistaskólinn á Akureyri var stofnaður árið 1974 en hefur útskrifað nemendur á háskólastigi í grafískri hönnun frá árinu 1995. Skólinn útskrifar nemendur að loknu þriggja ára námi. Námseiningar eru 90. Til að hefja nám í grafískri hönnun þarf umsækjandi að hafa lokið viðurkenndu fornámi og standast þær kröfur sem inntökunefnd gerir til hæfni í undirstöðugreinum. Prófskírteini Myndlistaskólans á Akureyri eru víða metin til jafns við BA/BFA-gráðu og námið er lánshæft hjá LÍN. Skólinn hefur stöðu listaháskóla í norrænu og evrópsku samstarfi. Gert er ráð fyrir því í frumvarpinu að þeir sem lokið hafa prófi í grafískri hönnun frá Myndlistaskólanum á Akureyri fái rétt til að bera starfsheitið grafískur hönnuður.
    Gert er ráð fyrir því í frumvarpinu þegar í upphafi að meistarapróf í grafískri hönnun frá viðurkenndum íslenskum háskóla nægi til að mega nota starfsheitið þótt ekki sé að svo stöddu möguleiki á að fá slíka prófgráðu hér á landi.
    Gengið er út frá því að þeir sem mega nota starfsheitið grafískur hönnuður á grundvelli náms frá viðurkenndum íslenskum skólum samkvæmt frumvarpinu sæki ekki um löggildingu starfsheitis til ráðuneytis og eigi ekki heimtingu á löggildingarskjali frá því þar eð um sjálfkrafa löggildingu yrði að ræða.
    Gert er ráð fyrir að Félag íslenskra teiknara (FÍT) í samstarfi við Félag grafískra teiknara (FGT) verði umsagnaraðili um erindi þegar menn hafa ekki sjálfkrafa rétt á grundvelli laganna til að bera starfsheitið grafískur hönnuður. Mun félagið setja sér reglur um lágmarksnám vegna starfsheitisins í samvinnu við iðnaðarráðuneytið. Félagið var stofnað árið 1953. Stofnendur þess voru Atli Már Árnason, Ágústa Pétursdóttir Snæland, Ásgeir Júlíusson, Halldór Pétursson, Jörundur Pálsson, Stefán Jónsson og Tryggvi Magnússon. Félagið er, eins og áður segir, fagfélag grafískra hönnuða og myndskreyta, og voru félagsmenn um 270 í lok 2005. Megintilgangur félagsins er að efla samstöðu félagsmanna og viðhalda faglegum metnaði auk þess að kynna almenningi grafíska hönnun og mikilvægi hennar. Félagið beitir sér m.a. fyrir því að félagsmenn virði samkeppnisreglur og höfundarétt.
    Félagið er aðili að Hönnunarvettvangi, Myndstefi, Alþjóðaráði samtaka um grafíska hönnun (International Council of Graphic Design Associations – ICOGRADA) og Evrópufélagi listrænna stjórnenda (Art Directors Club of Europe – ADCE).
    Þess má geta hér að Félag grafískra teiknara (FGT) er stéttarfélag teiknara. Það hét áður Félag auglýsingateiknara. Grafískir hönnuðir eru innan vébanda Félags grafískra teiknara en það er undirfélag í Félagi bókagerðarmanna. Félagið var stofnað árið 1972 og er fjöldi félagsmanna í árslok 2005 rúmlega 90. FGT gerir kjarasamning fyrir hönd þeirra sem eru launþegar á auglýsingastofum og í prentsmiðjum.
    Verði frumvarpið að lögum leiðir það til þess að þeir sem hafa enga menntun í grafískri hönnun eða minni menntun en gert er ráð fyrir til löggildingar á starfsheitinu grafískur hönnuður verða að nota önnur nöfn en grafískur hönnuður. Í því sambandi skal bent á að í ýmsum lögum er fjallað um hönnuði án þess að einkaréttur sé á því nafni eða öðrum nöfnum þar sem hönnuður kemur fyrir í nafninu án þess að um lögverndað starfsheiti sé að ræða. Hér má nefna 1. gr. laga nr. 46/2001, um hönnun, og 47.–50. gr. skipulags- og byggingarlaga, nr. 73/1997. Um ýmsa kosti er því að ræða fyrir þessa aðila varðandi val á starfsheiti.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 8/1996,
um löggildingu nokkurra starfsheita sérfræðinga í tækni- og hönnunargreinum,
með síðari breytingum.

    Markmiðið með frumvarpinu er að löggilda starfsheitið grafískur hönnuður. Að mati fjármálaráðuneytisins hefur frumvarpið ekki áhrif á útgjöld ríkisins verði það óbreytt að lögum.