Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 520. máls.

Þskj. 759  —  520. mál.



Frumvarp til laga

um breyting á lögreglulögum, nr. 90 13. júní 1996, og lögum um framkvæmdarvald ríkisins í héraði, nr. 92 1. júní 1989.

(Lagt fyrir Alþingi á 132. löggjafarþingi 2005–2006.)




I. KAFLI

Breyting á lögreglulögum, nr. 90 13. júní 1996.

1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. laganna, sbr. 1. gr. laga nr. 29 8. apríl 1998:
     a.      B-liður 2. mgr. orðast svo: að starfrækja lögreglurannsóknardeild og greiningardeild sem rannsakar landráð og brot gegn stjórnskipan ríkisins og æðstu stjórnvöldum þess og leggur mat á hættu á hryðjuverkum og skipulagðri glæpastarfsemi.
     b.      4. mgr. orðast svo:
                  Ríkislögreglustjóra til aðstoðar eru aðstoðarríkislögreglustjórar. Einn þeirra skal vera staðgengill ríkislögreglustjóra.

2. gr.

    6. gr. laganna ásamt fyrirsögn orðast svo:

Lögregluumdæmi og stjórn þeirra.


    Landið skiptist í 15 lögregluumdæmi. Með lögreglustjórn fara lögreglustjórar og sýslumenn sem hér segir:
     1.      Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu fer með lögreglustjórn á svæði sem nær yfir Reykjavíkurborg, Seltjarnarneskaupstað, Mosfellsbæ, Kjósarhrepp, Kópavog, Garðabæ, Hafnarfjörð og Bessastaðahrepp.
     2.      Lögreglustjórinn á Suðurnesjum, sem jafnframt er sýslumaðurinn á Keflavíkurflugvelli, fer með lögreglustjórn á svæði sem nær yfir Grindavík, Sandgerði, Gerðahrepp, Reykjanesbæ og Sveitarfélagið Voga auk þeirra svæða á Suðurnesjum sem eru varnarsvæði samkvæmt varnarsamningi Íslands og Bandaríkjanna.
     3.      Sýslumenn með aðsetur á Akranesi, í Borgarnesi, í Stykkishólmi, á Ísafirði, Blönduósi, Sauðárkróki, Akureyri, Húsavík, Seyðisfirði, Eskifirði, Hvolsvelli, í Vestmannaeyjum og á Selfossi. Með lögreglustjórn í umdæmi sýslumannsins í Búðardal fer sýslumaðurinn í Borgarnesi, með lögreglustjórn í umdæmum sýslumannanna á Patreksfirði, í Bolungarvík og á Hólmavík fer sýslumaðurinn á Ísafirði, með lögreglustjórn í umdæmum sýslumannanna á Siglufirði og Ólafsfirði fer sýslumaðurinn á Akureyri, með lögreglustjórn í umdæmi sýslumannsins á Höfn fer sýslumaðurinn á Eskifirði og með lögreglustjórn í umdæmi sýslumannsins í Vík fer sýslumaðurinn á Hvolsvelli. Umdæmi lögreglustjóra samkvæmt þessum tölulið skulu að öðru leyti ákveðin með reglugerð að fenginni umsögn viðkomandi lögreglustjóra og sveitarstjórna.
    Við embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum skulu starfa aðstoðarlögreglustjórar.
    Lögreglustjórar fara með stjórn lögregluliðs, hver í sínu umdæmi. Þeir annast daglega stjórn og rekstur lögreglunnar í umdæmi sínu og bera ábyrgð á framkvæmd lögreglustarfa innan þess. Vaktskipulag og almenn löggæsla í lögregluumdæmum á Vesturlandi, Norðurlandi, Austurlandi og Suðurlandi skal í hverjum fjórðungi samhæfð og samræmd eftir því sem við verður komið. Ráðherra setur nánari reglur um fyrirkomulag samvinnu og til hvaða umdæma hún skuli ná.
    Lögreglustjórar fara með yfirstjórn leitar- og björgunaraðgerða í landi. Um björgun sem heyrir undir skipulag almannavarna gilda sérstök lög. Ráðherra setur reglur um samstarf lögreglu og björgunarsveita.

3. gr.

    8. gr. laganna, sbr. 2. gr. laga nr. 56 1. júní 2004, ásamt fyrirsögn orðast svo:

Lögreglurannsóknir.


    Lögregla annast rannsókn brota í samráði við ákærendur.
    Við embætti eftirtalinna lögreglustjóra skulu vera sérstakar rannsóknardeildir:
       1.      lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu fyrir umdæmi hans,
       2.      lögreglustjórans á Akranesi fyrir umdæmi hans, lögreglustjórans í Borgarnesi og Stykkishólmi,
       3.      lögreglustjórans á Ísafirði fyrir umdæmi hans,
       4.      lögreglustjórans á Akureyri fyrir umdæmi hans, lögreglustjórans á Blönduósi, á Sauðárkróki og á Húsavík,
       5.      lögreglustjórans á Eskifirði fyrir umdæmi hans og lögreglustjórans á Seyðisfirði,
       6.      lögreglustjórans á Selfossi fyrir umdæmi hans og lögreglustjórans á Hvolsvelli og í Vestmannaeyjum,
       7.      lögreglustjórans á Suðurnesjum fyrir umdæmi hans.
    Ráðherra setur nánari reglur samkvæmt tillögu ríkissaksóknara um hvaða brot skuli rannsaka hjá sérstökum rannsóknardeildum skv. 2. mgr. Önnur brot skal rannsaka í því umdæmi þar sem þau eru framin, sbr. þó ákvæði a- og b-liðar 2. mgr. 5. gr. Jafnframt setur ráðherra reglur um hvernig stjórn rannsóknar skuli háttað, hvenær brot skuli rannsakað undir stjórn ríkislögreglustjóra skv. a-lið 2. mgr. 5. gr. og um rannsóknaraðstoð.
    Sá lögreglustjóri sem rannsóknardeild á undir fer með forræði á rannsókn máls sem til rannsóknar er hjá sérstakri rannsóknardeild.
    Ráðherra er heimilt að ákveða að við einstök embætti lögreglustjóra starfi, undir eftirliti ríkislögreglustjóra, greiningardeildir til að leggja mat á hættu á hryðjuverkum og skipulagðri glæpastarfsemi.
    Við embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu skal starfrækt tæknideild sem sinni vettvangsrannsóknum, samanburðarrannsóknum og öðrum slíkum rannsóknum og varðveiti fingrafarasafn lögreglu og ljósmyndasafn og haldi því við. Tæknideildin skal þjóna öllum lögregluumdæmum landsins og setur ríkislögreglustjóri nánari reglur um starfrækslu hennar.

4. gr.

    Í stað orðsins „vararíkislögreglustjóri“ í 1. mgr. 9. gr. laganna kemur: aðstoðarríkislögreglustjórar; og í stað orðanna „varalögreglustjórinn í Reykjavík“ í sömu málsgrein kemur: aðstoðarlögreglustjórar á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum.

5. gr.

    28. gr. laganna, sbr. 31. gr. laga nr. 83 27. maí 1997 og 5. gr. laga nr. 29 8. apríl 1998, ásamt fyrirsögn orðast svo:

Veiting starfa í lögreglu.


    Ráðherra skipar til fimm ára í senn ríkislögreglustjóra, aðstoðarríkislögreglustjóra, lögreglustjóra og aðstoðarlögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum.
    Ríkislögreglustjóri, aðstoðarríkislögreglustjórar og lögreglustjórar skulu fullnægja sömu almennu hæfisskilyrðum og sýslumenn til skipunar í embætti.
    Aðstoðarlögreglustjóri skal fullnægja sömu skilyrðum og lögreglustjórar til skipunar í embætti, en eftirtalin skilyrði gilda um menntun og starfsreynslu aðstoðarlögreglustjóra:
     a.      hefur lokið fullnaðarprófi í lögfræði með embættis- eða meistaraprófi, eða háskólaprófi í þeirri grein sem metið verður jafngilt, eða lokið námi frá Lögregluskóla ríkisins svo og stjórnunarnámi eða öðru sambærilegu námi;
     b.      hefur í þrjú ár gegnt lögfræðistörfum að aðalstarfi eða verið stjórnandi innan lögreglunnar, en leggja má saman starfstíma í þessum greinum.
    Ráðherra skipar yfirlögregluþjóna og aðstoðaryfirlögregluþjóna til fimm ára í senn. Ríkislögreglustjóri skipar aðra lögreglumenn til fimm ára í senn. Hver sá sem skipaður er til lögreglustarfa skal hafa lokið prófi frá Lögregluskóla ríkisins. Ráðherra setur í reglugerð nánari fyrirmæli um starfsstig innan lögreglunnar.
    Ríkislögreglustjóri getur heimilað lögreglustjórum að ráða mann tímabundið til lögreglustarfa vegna orlofstöku, veikinda- eða slysaforfalla eða tímabundinna leyfa lögreglumanna þó að hann hafi ekki lokið prófi frá Lögregluskóla ríkisins, enda fullnægi hann skilyrðum 2. mgr. 38. gr. laganna og enginn með próf frá Lögregluskóla ríkisins er tiltækur í stöðuna.

6. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 38. gr. laganna, sbr. 1. gr. laga nr. 49 16. maí 2000 og 5. gr. laga nr. 56 6. maí 2002:
     a.      2. mgr. orðast svo:
              Lögreglumannsefni skulu fullnægja eftirtöldum almennum skilyrðum:
              a.      vera íslenskir ríkisborgarar, 20–40 ára,
              b.      hafa ekki gerst brotleg við refsilög; þetta gildir þó ekki ef brot er smávægilegt eða langt um liðið frá því að það var framið,
              c.      vera andlega og líkamlega heilbrigð og standast læknisskoðun trúnaðarlæknis samkvæmt fyrirliggjandi kröfum,
              d.      hafa lokið a.m.k. tveggja ára almennu framhaldsnámi eða öðru sambærilegu námi með fullnægjandi árangri eða starfsþjálfun sem jafna má til slíks náms, hafa gott vald á íslensku og ensku, hafa almenn ökuréttindi til bifreiðaaksturs og vera synd,
              e.      standast inntökupróf samkvæmt kröfum valnefndar með áherslu á íslensku og þrek.
     b.      Við greinina bætist ný málsgrein er orðast svo:
              Valnefnd er heimilt að setja sér verklagsreglur þar sem fram koma þau viðmið sem stuðst er við þegar meta á skilyrði skv. b- og c-lið 2. mgr. og um val á nemum í lögregluskólann.

II. KAFLI

     Breyting á lögum um framkvæmdarvald ríkisins í héraði, nr. 92 1. júní 1989.

7. gr.

    2. gr. laganna orðast svo:
    Landið skiptist í 25 stjórnsýsluumdæmi auk Reykjavíkurumdæmis, sem nær yfir Reykjavíkurborg, Seltjarnarneskaupstað, Mosfellsbæ og Kjósarhrepp. Aðsetur sýslumanna eru sem hér segir: 1. Reykjavík, 2. Akranes, 3. Borgarnes, 4. Stykkishólmur, 5. Búðardalur, 6. Patreksfjörður, 7. Bolungarvík, 8. Ísafjörður, 9. Hólmavík, 10. Blönduós, 11. Sauðárkrókur, 12. Siglufjörður, 13. Ólafsfjörður, 14. Akureyri, 15. Húsavík, 16. Seyðisfjörður, 17. Eskifjörður, 18. Höfn, 19. Vík, 20. Hvolsvöllur, 21. Vestmannaeyjar, 22. Selfoss, 23. Reykjanesbær, 24. Keflavíkurflugvöllur, 25. Hafnarfjörður, 26. Kópavogur. Umdæmi sýslumanna skv. 2.–26. tölul. skulu ákveðin með reglugerð að fenginni umsögn viðkomandi sýslumanna og sveitarstjórna.
    Eigi má fækka stjórnsýsluumdæmum eða taka upp ný nema með lögum.

8. gr.

    3. gr. laganna orðast svo:
    Með þau verkefni sem sýslumönnum eru falin í öðrum umdæmum fara lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu, lögreglustjórinn á Suðurnesjum, tollstjórinn í Reykjavík og sýslumennirnir í Hafnarfirði, á Keflavíkurflugvelli, í Kópavogi, í Reykjanesbæ og í Reykjavík sem hér segir:
       1.      Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu og lögreglustjórinn á Suðurnesjum fara með lögreglustjórn, þar á meðal útlendingaeftirlit, ásamt störfum sem þeim eða lögreglustjórum eru almennt falin með fyrirmælum einstakra laga, hvor í sínu umdæmi.
       2.      Tollstjórinn í Reykjavík fer með tollstjórn, innheimtu tekna ríkissjóðs, að því leyti sem hún er ekki sérstaklega falin öðrum, og lögskráningu skipshafna, auk starfa samkvæmt fyrirmælum einstakra laga.
       3.      Með önnur störf en þau sem falla innan marka 1. og 2. tölul. fer sýslumaðurinn í Reykjavík í sínu umdæmi. Með önnur störf en þau sem falla innan marka 1. tölul. fara sýslumennirnir í Hafnarfirði, á Keflavíkurflugvelli, í Kópavogi og í Reykjanesbæ, hver í sínu umdæmi.
    Um lögreglustjórn í umdæmum sýslumannanna í Búðardal, á Patreksfirði, í Bolungarvík, á Hólmavík, Siglufirði, Ólafsfirði, Höfn og í Vík fer samkvæmt lögreglulögum.
    Dómsmálaráðherra og utanríkisráðherra setja sér sameiginlegar leiðbeinandi reglur um meðferð og úrlausn mála sem varða verksvið lögreglustjórans á Suðurnesjum og sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli. Skulu reglur þessar birtar.
    Dómsmálaráðherra sker að öðru leyti úr um hvaða verkefni heyri undir einstök embætti skv. 1. mgr.

III. KAFLI

Gildistaka o.fl.

9. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2007, fyrir utan ákvæði til bráðabirgða sem öðlast þegar gildi.

10. gr.

    Við gildistöku laga þessara breytast eftirfarandi lagaákvæði:
     a.      Í stað orðanna „vararíkislögreglustjóri, lögreglustjórinn og varalögreglustjórinn í Reykjavík“ í 7. tölul. 1. mgr. 22. gr. laga nr. 70 11. júní 1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, kemur: aðstoðarríkislögreglustjórar, lögreglustjórar og aðstoðarlögreglustjórar.
     b.      Í stað orðanna „lögreglustjórinn í Reykjavík“ í 3. mgr. 2. gr. laga nr. 43 24. mars 2003, um björgunarsveitir og björgunarsveitarmenn, kemur: lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu, lögreglustjórinn á Suðurnesjum.

Ákvæði til bráðabirgða.


    Starfsmenn lögregluembættanna á höfuðborgarsvæðinu skulu hafa forgang að störfum hjá embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Þeir skulu við þann flutning njóta áunninna réttinda sinna.
    Dómsmálaráðherra skal eigi síðar en 1. júlí 2006 skipa lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu. Hlutverk hans er að undirbúa stofnun lögregluembættis á höfuðborgarsvæðinu. Skal hann í því starfi hafa samráð við sveitarfélög á svæðinu.
    Dómsmálaráðherra skal jafnframt skipa nefnd til ráðgjafar við stofnun nýs embættis á höfuðborgarsvæðinu og flutning starfsmanna til þess. Ráðherra skipar formann nefndarinnar án tilnefningar en aðrir nefndarmenn skulu tilnefndir af Landssambandi lögreglumanna, Stéttarfélagi í almannaþjónustu, Stéttarfélagi lögfræðinga í ríkisþjónustu og þremur fulltrúum starfsmanna embættanna þriggja á höfuðborgarsvæðinu.
    Dómsmálaráðherra skipar enn fremur nefnd þriggja manna til að fylgjast með endurskipulagningu lögregluumdæma. Skal hún skila ráðherra eigi síðar en einu ári frá gildistöku laganna greinargerð um breytingarnar þar sem sérstök áhersla verður lögð á að meta með hvaða hætti markmið um aukna og eflda löggæslu hafa náð fram að ganga.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu á grundvelli hugmynda sem lengi hafa verið á döfinni meðal lögreglumanna og sýslumanna. Dóms- og kirkjumálaráðherra Björn Bjarnason beitti sér fyrir viðamiklu starfi til að undirbúa þær breytingar sem liggja að baki frumvarpinu og í því ferli hefur verið leitast við að kalla fram sjónarmið sem flestra, eins og lýst verður nánar hér síðar í þessum almennu athugasemdum. Við gerð frumvarpsins var haft samráð við réttarfarsnefnd og tekið mið af ábendingum hennar.
    Meginmarkmið þessara breytinga er að bæta og efla löggæslu í landinu. Þær eru því eðlilegt næsta skref eftir að ákvörðun var tekin í ársbyrjun 2004 um að stórefla sérsveit lögreglunnar og færa stjórn hennar frá einstökum lögreglustjórum undir stjórn ríkislögreglustjóra. Á þessu ári er verið að stíga síðasta skrefið við framkvæmd þeirrar áætlunar.
    Fyrir utan það sem í þessu frumvarpi getur er einnig unnið að því í samræmi við skýrslu um nýskipan lögreglumála frá því í janúar 2005 að breyta skipan ákæruvaldsins og laga hana að nýjum og breyttum kröfum. Réttarfarsnefnd hefur sent dóms- og kirkjumálaráðuneytinu tillögur sínar að nýjum lögum um meðferð sakamála og verða tillögur sem þar er að finna lagðar til grundvallar við endurskoðun ákvæða um ákæruvaldið auk þess sem tekið er mið af hugmyndum sem Bogi Nilsson ríkissaksóknari hefur kynnt.
    Í þessu frumvarpi sem hér er flutt er að finna ákvæði sem lúta einungis að skipulagi lögreglunnar og er þar bæði litið til innra skipulags og hins ytra.
    Að því er innra skipulag varðar er sérstök ástæða að nefna tillöguna í 1. gr. frumvarpsins um nýja deild, greiningardeild, sem starfi innan vébanda embættis ríkislögreglustjóra og heimilt verði að starfrækja við embætti annarra lögreglustjóra samkvæmt ákvörðun ráðherra. Deildin endurspeglar þróun hjá lögregluembættum nágrannalandanna og auðveldar þar með íslenskum lögregluyfirvöldum samstarf við slíkar deildir annars staðar, það er að segja lögregludeildir sem gegna því hlutverki að greina og meta hættu á afbrotum, sem oftast teygja sig til margra landa og kennd eru við skipulagða eða alþjóðlega glæpastarfsemi og hryðjuverk.
    Lagaákvæði um greiningardeild tryggja að þannig sé um hnúta búið hér að þeir sem falið er að gæta öryggis borgaranna hafi sambærilegar lögheimildir og starfsbræður þeirra erlendis til að sinna störfum sínum. Með ákvæðinu um greiningardeild við embætti ríkislögreglustjóra er verið að leggja lögregluyfirvöldum til tæki sem síðan verður beitt í samræmi við heimildir í lögum um meðferð sakamála.
    Gerðar eru tillögur um breytingar á inntökuskilyrðum nýnema í Lögregluskóla ríkisins, í samræmi við tillögur valnefndar skólans. Nánari útskýringar er að finna í athugasemdum við einstakar greinar hér á eftir.

Aðdragandi.
    Hinn 4. nóvember 2003 skipaði Björn Bjarnason dóms- og kirkjumálaráðherra verkefnisstjórn sem í sátu Stefán Eiríksson skrifstofustjóri, formaður, Ragnheiður Ríkharðsdóttir bæjarstjóri og Skúli Magnússon héraðsdómari. Í skipunarbréfi hennar kemur fram að dómsmálaráðherra hafi ákveðið að beita sér fyrir breytingum á umdæmaskipan við löggæslu og innra starfi lögreglunnar, án þess að fækka sýslumönnum. Verkefnisstjórn fékk tvíþætt meginhlutverk, í fyrsta lagi að koma með hugmyndir að nýju skipulagi sem hefði að markmiði að styrkja og efla starfsemi lögreglu og sýslumanna auk þess að bæta nýtingu þeirra fjármuna sem til sýslumannsembætta væri varið og í öðru lagi að móta löggæsluáætlun til næstu ára, þar sem kynnt væri forgangsröð við úrlausn verkefna og sett mælanleg markmið fyrir löggæsluna. Jafnframt var verkefnisstjórninni falið að meta reynslu af lögreglulögunum og því skipulagi og verkaskiptingu sem þá kom til sögunnar; hafa til hliðsjónar þá vinnu við gerð reiknilíkans fyrir rekstur sýslumannsembætta sem unnin hefði verið; taka afstöðu til sjónarmiða sem fram hefðu komið um ákæruvaldið o.fl.
    Í skipunarbréfi nefndarinnar var sérstaklega tíundað að með tillögum hennar yrði haft að leiðarljósi að löggæsla og ákæruvald ættu í fullu tré við þá sem gerðust brotlegir við lögin, og stæðu þeim helst feti framar. Vikið var sérstaklega að vaxandi umfangi efnahagsbrota og beitingu rafrænna aðferða við framkvæmd þeirra brota og áréttað að þörf fyrir sérmenntað fólk til rannsókna á nýjum tegundum afbrota yrði sífellt meiri. Þá var lögð á það áhersla í skipunarbréfinu að menntun, búnaður og tæki lögreglu yrðu að vera í samræmi við markmið og kröfur á hverjum tíma og þjálfun sveita lögreglumanna ætti að taka mið af verkefnum og áhættu sem þeir yrðu oft að taka í mikilvægum störfum sínum.

Skýrsla verkefnisstjórnar.
    Verkefnisstjórn skilaði ráðherra ítarlegri skýrslu sinni í janúar 2005. Skýrslunni fylgdu hugmyndir og tillögur fjögurra sérfróðra manna um skipulag lögreglunnar.
    Í skýrslu verkefnisstjórnar er í fyrsta lagi gefið greinargott yfirlit yfir núverandi stöðu mála. Skýrt er frá breytingum á skipulagi löggæslumála síðustu ár og mat lagt á þær. Í öðru lagi eru gerðar tillögur að efnisatriðum í löggæsluáætlun til næstu ára, þ.e. hvaða meginatriði ættu að ráða störfum lögreglu á Íslandi. Í þriðja lagi er í skýrslunni rakið með hvaða hætti ætti að styrkja og efla löggæslu í landinu til að ná settum markmiðum.
    Meginniðurstaða verkefnisstjórnarinnar var að vegna smæðar ættu mörg lögreglulið erfitt með að sinna lögbundnu hlutverki sínu. Stærri umdæmi og sameining liða efldi styrk lögreglu og gerði henni betur kleift en ella að sinna erfiðum verkefnum. Lagði verkefnisstjórn til að flest lögregluumdæmi yrðu stækkuð til muna og þau yrðu fimm til sjö talsins. Væri þessi leið ekki fær ætti að stuðla að stóraukinni samvinnu og samstarfi einstakra lögregluembætta.
    Skýrsla verkefnisstjórnar vakti verulegar umræður meðal sýslumanna og lögreglumanna. Landssamband lögreglumanna fagnaði skýrslunni og tillögunum, enda hafði landssambandið lengi barist fyrir því að ráðist yrði í stækkun lögregluumdæma. Sýslumannafélagið efndi til sérstaks félagsfundar um efni skýrslunnar og ályktaði um stækkun lögregluumdæma. Lagði sýslumannafélagið til að lögregluumdæmi yrðu stækkuð og þeim fækkað, þau yrðu 12–16 talsins.

Framkvæmdanefnd.
    Í maí 2005 skipaði dóms- og kirkjumálaráðherra þriggja manna framkvæmdanefnd sem í sátu Stefán Eiríksson, formaður, Kjartan Þorkelsson sýslumaður og Óskar Bjartmarz, þáverandi formaður Landssambands lögreglumanna. Henni var falið að útfæra nánar tillögur verkefnisstjórnar í samræmi við niðurstöður umræðna um þær á vettvangi lögreglumanna og sýslumanna. Skyldi framkvæmdanefndin móta tillögur um fjölda, stærð og stjórn lögregluumdæma. Í skipunarbréfi dómsmálaráðherra var lögð áhersla á að markmiðið með stækkun lögregluumdæma væri að auka og efla þjónustu lögreglu við íbúa landsins, styrkja ætti lögreglu á öllum sviðum, bæði almenna löggæslu og rannsóknir sakamála. Í því fælist m.a. að unnt yrði að halda úti sólarhringsvakt lögreglu víðast hvar á landinu og öflugum rannsóknardeildum sem sinntu rannsóknum flókinna mála alls staðar á landinu.
    Framkvæmdanefndin skilaði tillögum um breytingar á skipulagi löggæslu í lok október 2005. Lagt var til að lögregluumdæmi í landinu yrðu fimmtán talsins, þar af sjö sem ábyrgð bæru á rannsókn og saksókn stórra og flókinna mála. Þessi embætti skyldu einnig bera ábyrgð á því að samræma vaktkerfi lögregluembætta á sínu starfssvæði, í þeim tilgangi að tryggja aukna og sýnilegri löggæslu en áður. Framkvæmdanefndin taldi að með þessari skipan yrðu rannsóknir sakamála betri, markvissari og öflugri alls staðar á landinu, sýnileg löggæsla mundi aukast og unnt yrði að halda úti sólarhringsvöktum lögreglu víðar á landinu en nú er.

Kynning.
    Dóms- og kirkjumálaráðherra fól framkvæmdanefndinni að kynna tillögur sínar með því að efna til funda um land allt með lögreglustjórum, lögreglumönnum og sveitarstjórnarmönnum þar sem hlustað væri eftir sjónarmiðum og viðhorfum heimamanna til þeirra.
    Nefndin efndi til funda á sjö stöðum á landinu á tímabilinu frá 7.–17. nóvember 2005 og sóttu á fjórða hundrað manns fundina. Þar voru tillögur nefndarinnar kynntar og síðan kallað eftir sjónarmiðum fundarmanna, athugasemdum og viðhorfum að öðru leyti. Jafnframt var fundarmönnum og öðrum gefinn kostur á því að koma á framfæri við nefndina skriflegum athugasemdum og tillögum. Nokkrir aðilar óskuðu eftir sérstökum fundi með nefndinni eða formanni hennar. Var orðið við þeim óskum og tillögur nefndarinnar voru nánar ræddar og kynntar.
    Að lokinni fundalotunni skilaði nefndin ráðherra framhaldsskýrslu með nokkrum breytingum á upphaflegum tillögum sínum, í samræmi við athugasemdir og sjónarmið sem fram höfðu komið í framangreindu kynningarferli.

Ákvörðun ráðherra.
    Hinn 3. janúar 2006 kynnti ráðherra ríkisstjórn drög að ákvörðun sinni um nýskipan lögreglumála og þau mál sem henni tengjast með vísan til skýrslu verkefnisstjórnar og þess sem gerst hefði í meðferð málsins frá hausti 2004. Hér í þessu frumvarpi er að finna tillögur að nauðsynlegum lagabreytingum vegna áforma um endurskipulagningu löggæslu. Síðar verður lagt fram frumvarp til laga um ákæruvald.
    Meginatriði frumvarpsins eru þessi:
     1.      Við embætti ríkislögreglustjóra starfi greiningardeild sem rannsakar landráð og brot gegn stjórnskipan ríkisins og æðstu stjórnvöldum þess og leggur mat á áhættu vegna hryðjuverka og af skipulagðri glæpastarfsemi. Dómsmálaráðherra verði heimilt að stofna greiningardeild við önnur embætti lögreglustjóra, ef sérstök rök standa til þess.
     2.      Lögregluumdæmi í landinu verði 15 talsins (innan sviga þau núverandi umdæmi sem bætast við fyrrnefnt umdæmi); Akranes, Borgarnes (Búðardalur), Stykkishólmur, Ísafjörður (Patreksfjörður, Bolungarvík og Hólmavík), Blönduós, Sauðárkrókur, Akureyri (Siglufjörður og Ólafsfjörður), Húsavík, Seyðisfjörður, Eskifjörður (Höfn), Hvolsvöllur (Vík), Vestmannaeyjar, Selfoss, Suðurnes (Keflavík og Keflavíkurflugvöllur) og sameinað embætti á höfuðborgarsvæðinu (Reykjavík, Kópavogur og Hafnarfjörður).
     3.      Af þessum 15 embættum verða sérstakar rannsóknardeildir starfræktar við sjö embætti, á Akranesi, Ísafirði, Akureyri, Eskifirði, Selfossi, Suðurnesjum og sameinað embætti á höfuðborgarsvæðinu. Lögreglustjórar þessara embætti stuðli að samræmdu vaktkerfi lögreglumanna innan síns umdæmis og næstu umdæma.
     4.      Lögreglustöðvum verður ekki lokað vegna breytinga á lögregluumdæmum og sérstaklega er áformað að ákveðið verði í reglugerð að lögregluvarðstofur utan aðalstöðvar lögreglu skuli vera í Búðardal, á Patreksfirði, Hólmavík, Bolungarvík, Siglufirði, Ólafsfirði, Höfn, Kirkjubæjarklaustri og Vík auk þeirra staða sem nú eru tilgreindir í reglugerð um stjórnsýsluumdæmi sýslumanna. Þeir staðir eru Ólafsvík, Grundarfjörður, Dalvík, Raufarhöfn, Þórshöfn, Vopnafjörður, Egilsstaðir, Fáskrúðsfjörður og Grindavík.
     5.      Nýtt embætti lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu taki við löggæsluverkefnum lögreglustjórans í Reykjavík og sýslumannanna í Hafnarfirði og Kópavogi.
     6.      Lögregluembættin tvö í Keflavík og Keflavíkurflugvelli verði sameinuð undir einni stjórn lögreglustjórans á Suðurnesjum, sem jafnframt er sýslumaðurinn á Keflavíkurflugvelli. Með sýslumannsverkefni sem í dag heyra undir sýslumanninn í Keflavík fari sýslumaðurinn í Reykjanesbæ. Umdæmi lögreglustjórans á Suðurnesjum og sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli mun heyra undir utanríkisráðuneytið, að því er varnarsvæðin á Suðurnesjum varðar, en að öðru leyti undir dómsmálaráðuneytið. Til þess að auka gegnsæi stjórnsýslunnar og fyrirbyggja skörun valdmarka milli ráðuneytanna er kveðið á um það í frumvarpinu að ráðuneytin setji sér sameiginlegar leiðbeinandi reglur um meðferð og úrlausn mála sem varða verksvið lögreglustjórans á Suðurnesjum og sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli. Sú framsetning sækir fyrirmynd sína til 2. mgr. 3. gr. laga um Póst- og fjarskiptastofnun, nr. 69/2003.

Efling sýslumannsembætta.
    Samhliða breytingum á skipulagi löggæslu hefur dóms- og kirkjumálaráðherra kynnt áform um að efla og styrkja lítil sýslumannsembætti með flutningi verkefna og starfa frá ráðuneytum og stofnunum til embættanna.
    Nú þegar er unnið að því að koma á fót Innheimtumiðstöð sekta og sakarkostnaðar við sýslumannsembættið á Blönduósi og mun reynslan vegna þess flutnings nýtast vel við færslu frekari verkefna til sýslumannsembætta á landsbyggðinni.
    Önnur verkefni sem kynnt hafa verið til flutnings af dóms- og kirkjumálaráðuneytinu eru:
     1.      Miðstöð ættleiðinga.
     2.      Sjóðir og skipulagsskrár.
     3.      Miðstöð fasteignasölueftirlits.
     4.      Útgáfa Lögbirtingablaðs.
     5.      Málefni bótanefndar.
     6.      Málefni skjalaþýðenda.
     7.      Miðstöð eftirlits með útfararþjónustu.
     8.      Miðstöð happdrættiseftirlits.
    Líklegt er að heildarkostnaður við flutning þessara verkefna og fjölgun starfa á landsbyggðinni nemi um 50 millj. kr. á ársgrundvelli. Í flestum tilvikum kallar flutningur þessara verkefna á lagabreytingar og annan undirbúning.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í 5. gr. lögreglulaga er fjallað um hlutverk ríkislögreglustjóra og í 2. mgr. þeirrar greinar er gerð grein fyrir þeim sérstöku verkefnum sem ríkislögreglustjóra ber að hafa með höndum. Skv. b-lið 2. mgr. skal ríkislögreglustjóri starfrækja lögreglurannsóknardeild sem rannsakar landráð og brot gegn stjórnskipan ríkisins og æðstu stjórnvöldum þess og aðstoðar auk þess lögreglustjóra við rannsókn alvarlegra brota. Þær breytingar sem lagðar eru til hér eru annars vegar þær að ekki verði mælt sérstaklega fyrir um að deildin skuli vera öðrum lögregluembættum til aðstoðar við rannsóknir alvarlegra brota. Með hliðsjón af þeim breytingum sem gert er ráð fyrir í frumvarpi þessu varðandi rannsóknir stærri og flóknari mála hjá sjö rannsóknardeildum minnkar þörf fyrir rannsóknaraðstoð og þar af leiðandi þörfin fyrir að mæla sérstaklega fyrir um það sem hlutverk ríkislögreglustjóra að veita slíka aðstoð. Þess í stað verði mælt fyrir um að dómsmálaráðherra setji nánari reglur um slíka rannsóknaraðstoð, sem eftir atvikum kæmi frá þeim lögregluembættum þar sem fyrir hendi er mest sérþekking á því sviði sem um ræðir hverju sinni. Hins vegar er lagt til að lögreglurannsóknardeild sem rannsakar brot á borð við landráð og brot gegn stjórnskipan ríkisins og stjórnvöldum þess skuli jafnframt vera greiningardeild sem hafi það hlutverk að vinna áhættumat vegna hryðjuverka og af skipulagðri glæpastarfsemi eða öðru sem ógnað getur öryggi ríkisins. Jafnframt er gert ráð fyrir í 3. gr. frumvarpsins að slíkar greiningardeildir skuli starfræktar hjá öðrum lögregluembættum samkvæmt ákvörðun dómsmálaráðherra. Sú ógn sem stafar af alþjóðlegri og skipulagðri glæpastarfsemi hefur vaxið hratt á undanförnum árum auk þess sem ógn af völdum hryðjuverka er sýnileg eins og nýlegar hryðjuverkaárásir bera með sér. Mikilvægt er að lögreglan, sem gegnir því hlutverki að gæta að öryggi ríkisins og borgara þess, afli og vinni úr upplýsingum og greini hættu sem tengist fíkniefnabrotum, skipulagðri glæpastarfsemi og hryðjuverkum eða öðru varðandi öryggi ríkisins. Um rannsóknaraðferðir og starfsheimildir greiningardeilda fer samkvæmt lögum um meðferð sakamála.
    Lögð er til breyting á 4. mgr. og vísast til athugasemda með 5. gr. í því sambandi.

Um 2. gr.


    Hér eru lagðar til breytingar á 6. gr. lögreglulaga sem fjallar um lögregluumdæmi og stjórn þeirra. Meginbreytingin sem lögð er til í þessari grein er að lögregluumdæmum í landinu verði fækkað úr 26 í 15. Um nánari rökstuðning fyrir þessari breytingu vísast til almennra athugasemda hér að framan.
    Þá er lögð til sú breyting að starfsheiti varalögreglustjóra í Reykjavík verði breytt í aðstoðarlögreglustjóra og jafnframt að mögulegt verði í samræmi við skipurit viðkomandi embættis að þeir verði fleiri en einn. Þá er gert ráð fyrir að aðstoðarlögreglustjórar starfi við embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum. Nánar er fjallað um þessa breytingu í umfjöllun hér á eftir um 5. gr. frumvarpsins.
    Lagt er til að tvær síðustu málsgreinar 6. gr. falli á brott, þar sem er að finna heimildir til setningar lögreglustjóra í sérstökum tilvikum. Ekki er þörf á sérstökum ákvæðum um þetta efni í lögreglulögum þar sem heimildir til setningar vegna vanhæfis eða vegna tímabundins leyfis lögreglustjóra er að finna í öðrum lögum.
    Að öðru leyti er ákvæði þetta í samræmi við núgildandi ákvæði 6. gr. Þó er sérstaklega tilgreint í 3. mgr. að vaktskipulag og almenn löggæsla í lögregluumdæmunum á Vesturlandi, Norðurlandi, Austurlandi og Suðurlandi verði samhæfð í hverjum fjórðungi og samræmd eftir því sem við verði komið. Markmiðið með því er að auka og efla sýnilega almenna löggæslu. Með því að mæla sérstaklega fyrir um þessa skyldu í lögum og jafnframt að veita dómsmálaráðherra heimild til að setja nánari reglur um fyrirkomulag samvinnu og til hvaða umdæma hún skuli ná er þetta markmið undirstrikað.

Um 3. gr.


    Í greininni eru lagðar til breytingar á 8. gr. lögreglulaga sem fjallar um lögreglurannsóknir. Meginbreytingin felst í því að tilgreint verði við hvaða embætti skuli starfræktar sérstakar rannsóknardeildir og jafnframt til hvaða lögregluumdæma starfsemi þeirra nái. Eins og nánar er rakið í almennum athugasemdum með frumvarpi þessu, sem og í tillögum verkefnisstjórnar og framkvæmdanefndar um nýskipan lögreglumála, er mikilvægt að efla og styrkja rannsóknir lögreglu á sakamálum. Með því að færa rannsóknir stærri og flóknari mála í hendur færri rannsóknardeilda skapast meiri og betri möguleikar til að byggja upp nauðsynlega þekkingu og sérhæfingu á sviði rannsókna sakamála og efla þannig og styrkja þennan mikilvæga þátt í starfsemi lögreglunnar, og um leið styrkja og bæta þjónustu hennar um land allt.
    Gert er ráð fyrir í 3. mgr. að dómsmálaráðherra setji nánari reglur samkvæmt tillögu ríkissaksóknara um það hvaða brot skuli rannsaka hjá sérstökum rannsóknardeildum. Eðlilegt þykir að í þeim reglum verði við það miðað að brot á borð við manndráp, kynferðisbrot, alvarlegar líkamsárásir, alvarleg fíkniefnabrot og alvarleg auðgunarbrot skuli rannsaka hjá slíkum rannsóknardeildum, svo og önnur alvarleg hegningarlagabrot og sérrefsilagabrot sem kalla á þekkingu og/eða sérhæfingu. Í 3. mgr. er einnig lögð til sú breyting að dómsmálaráðherra setji reglur um rannsóknaraðstoð sem feli í sér að hún geti komið frá fleiri embættum en embætti ríkislögreglustjóra, sbr. umfjöllun um 1. gr. hér að framan.
    Í 4. mgr. er sérstaklega tekið fram að sá lögreglustjóri sem rannsóknardeild á undir fari með forræði á rannsókn máls sem til rannsóknar er hjá rannsóknardeild viðkomandi embættis, í samræmi við þær reglur sem settar verða á grunni 3. mgr. Er þetta sérstaklega tekið fram til að taka af öll tvímæli um það hvaða lögreglustjóri skuli taka ákvarðanir í sambandi við rannsóknir mála, þar á meðal leita úrskurðar dómstóls um þvingunarráðstafanir o.s.frv.

Um 4. gr.


    Um skýringar vísast til nánari umfjöllunar um 3. og 5. gr.

Um 5. gr.


    Í greininni eru lagðar til breytingar á 28. gr. laganna. Meginbreytingin er sú sem að framan greinir, að heiti varalögreglustjóra verði breytt í aðstoðarlögreglustjóra og jafnframt gefinn kostur á að fleiri en einn aðstoðarlögreglustjóri starfi hjá stærstu lögregluembættunum. Sambærileg breyting verði gerð á heiti vararíkislögreglustjóra. Eftir sem áður er eðlilegt að ákveðið verði hver af viðkomandi aðstoðarlögreglustjórum gegni hlutverki staðgengils lögreglustjóra.
    Einnig er gert ráð fyrir breytingum á menntunar- og starfsreynslukröfum til þeirra sem gegna embætti aðstoðarlögreglustjóra til að gefa lögreglumönnum með grunn- og framhaldsmenntun frá Lögregluskóla ríkisins eða aðra sambærilega framhaldsmenntun á sviði stjórnunar og að minnsta kosti þriggja ára starfsreynslu sem stjórnendum innan lögreglunnar færi á að gegna þeim stöðum. Mikil breyting hefur orðið á menntunarmálum lögreglumanna á síðustu árum, m.a. með stjórnunarnámi undanfarin ár í samvinnu við Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands. Einnig er nokkuð um það að lögreglumenn hafi sótt sér framhaldsmenntun í lögreglufræðum til sérhæfðra erlendra háskóla og menntastofnana. Eðlilegt er með hliðsjón af þeirri eflingu að unnt verði að ráða vel menntaða og reynslumikla lögreglumenn til æðstu stjórnunarstarfa innan lögreglunnar án þess að dregið sé úr mikilvægi og þýðingu lögfræðimenntunar í því samhengi. Skv. 2. mgr. 6. gr. laga um framkvæmdarvald ríkisins í héraði skal sá sem gegnir stöðu staðgengils sýslumanns fullnægja hæfisskilyrðum til skipunar í sýslumannsembætti. Í samræmi við það skal sá aðstoðarlögreglustjóra sem gegna skal hlutverki staðgengils lögreglustjóra fullnægja hæfisskilyrðum til skipunar í embætti lögreglustjóra.

Um 6. gr.


    Lagðar eru til breytingar á inntökuskilyrðum nýnema við Lögregluskóla ríkisins í samræmi við tillögur valnefndar skólans. Í fyrsta lagi er lagt til að aldurshámarkið verði 40 ár í stað 35 ára nú. Valnefnd er samkvæmt gildandi lögum heimilt að víkja frá aldursskilyrðum við sérstakar aðstæður og í því ljósi er ekki gert ráð fyrir að þessi breyting hafi veruleg áhrif.
    Í öðru lagi er lögð til breyting á kröfum um tungumálakunnáttu. Gerð verði krafa um að umsækjendur hafi gott vald á íslensku og ensku eins og samkvæmt gildandi lögum, en þar er jafnframt gerð krafa um kunnáttu í einu Norðurlandamáli. Lagt er til að það skilyrði verði fellt niður.
    Í þriðja lagi er gert ráð fyrir að lögreglumannsefni standist inntökupróf samkvæmt skilyrðum valnefndar í stað skólanefndar. Skólanefnd og hlutverk hennar er ekki nánar skilgreint í lögreglulögum en hún er ráðgefandi nefnd samkvæmt gildandi reglugerð um Lögregluskóla ríkisins. Eðlilegt er að valnefnd, sem ber ábyrgð á inntöku nýnema í lögregluskólann, beri jafnframt ábyrgð á þeim kröfum sem gerðar eru í inntöku prófum.
    Loks er lagt til að valnefnd verði veitt heimild til að setja nánari reglur um andlegt og líkamlegt heilbrigði svo og um tímaramma og önnur viðmið varðandi brot á refsilögum sem inntökuskilyrði. Jafnframt er lagt til að valnefnd setji verklagsreglur um val á nemum í lögregluskólann. Valnefnd hefur undanfarin ár sett reglur um störf sín og er eðlilegt að þær reglur fái skýra stoð í lögum.

Um 7. gr.


    Í greininni eru lagðar til breytingar á 2. gr. laga um framkvæmdarvald ríkisins í héraði í samræmi við þær breytingar sem felast í nýskipan lögregluumdæma og gerð er nánari grein fyrir hér að framan.

Um 8. gr.


    Í greininni eru lagðar til breytingar á 3. gr. laga um framkvæmdarvald ríkisins í héraði og tengjast þær alfarið áformum um breytta skipan lögregluumdæma.

Um 9. og 10. gr.


    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.

Um ákvæði til bráðabirgða.


    Í 1. mgr. er mælt fyrir um forgangsrétt starfsmanna lögregluembættanna þriggja á höfuðborgarsvæðinu til starfa hjá nýju embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, og jafnframt að þeir skuli við flutning til starfa hjá nýju embætti njóta áunninna réttinda sinna. Með þessu móti er tryggt að þeir aðilar sem gegna tilgreindum stöðum hjá embættunum þremur standi framar öðrum þegar kemur að stofnun og skipulagningu nýs embættis sem og að þeir glati ekki áunnum réttindum sínum við tilfærslu í starfi þegar lögin koma til framkvæmda.
    Í 2. mgr. er mælt fyrir um að dómsmálaráðherra skuli eigi síðar en 1. júlí 2006 skipa lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu. Hlutverk hans er að undirbúa stofnun embættisins. Er þar átt við alla þætti þess, þar á meðal gerð skipurits fyrir embættið sem staðfesta skal af dómsmálaráðherra, flutning starfsmanna eftir atvikum samkvæmt ákvörðun dómsmálaráðherra eða ríkislögreglustjóra hvað varðar þá sem undir skipunarvald þeirra heyra lögum samkvæmt o.s.frv.
    Í 3. mgr. er mælt fyrir um að skipuð skuli nefnd til ráðgjafar við stofnun nýs embættis á höfuðborgarsvæðinu og flutning starfsmanna til þess. Gert er ráð fyrir því að viðkomandi stéttarfélög eigi fulltrúa í nefndinni auk fulltrúa starfsmanna frá hverju embættanna þriggja.
    Í 4. mgr. er loks gert ráð fyrir því að þriggja manna nefnd hafi það hlutverk að fylgjast með framkvæmd breytinganna í heild sinni og skila skýrslu til ráðherra um það hvernig til hafi tekist með þær breytingar sem hér eru lagðar til og með hvaða hætti þau markmið sem að var stefnt um aukna og eflda löggæslu hafi náð fram að ganga.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögreglulögum, nr. 90/1996,


og lögum nr. 92/1989, um framkvæmdarvald ríkisins í héraði.


    Í frumvarpinu er lagt til að gerðar verði breytingar á umdæmaskipan lögreglu hér á landi og á verkaskiptingu milli einstakra sýslumannsembætta. Jafnframt felst í þessum breytingum að nýtt embætti á höfuðborgarsvæðinu taki við löggæsluverkefnum tveggja sýslumanna og lögreglustjórans í Reykjavík. Einnig er gert ráð fyrir því að löggæsla á Suðurnesjum verði sameinuð undir einni stjórn. Áfram er þó fyrirhugað að tvö embætti starfi á Suðurnesjum eins og nú er en að verkaskipting milli þeirra verði önnur. Þá felur frumvarpið í sér að löggæsla og meðferð ákæruvalds færist frá átta minnstu embættunum, þ.e. sýslumannsembættunum í Búðardal, Patreksfirði, Bolungarvík, Hólmavík, Siglufirði, Ólafsfirði, Höfn í Hornafirði og Vík í Mýrdal, auk embætta sýslumannanna í Hafnarfirði og Kópavogi. Áfram er gert ráð fyrir að þessi embætti starfi sem sýslumannsembætti og til þess að styrkja starfsemi þeirra frekar er á vegum dómsmálaráðuneytisins unnið að athugun á því að flytja margvísleg verkefni til þeirra. Markmiðið með þessum breytingum er að renna styrkari stoðum undir starf löggæslunnar og bæta þjónustu hennar við samfélagið.
    Stærsti þátturinn í þessum breytingum er að koma á fót nýrri löggæslustofnun á höfuðborgarsvæðinu og leggja samtímis niður þrjú embætti löggæslu í Hafnarfirði og Kópavogi og lögreglustjórans í Reykjavík. Til að kostnaður í tengslum við biðlaunarétt verði í lágmarki er kveðið á um það í frumvarpinu að starfsmenn lögregluembættanna þriggja njóti forgangs til starfa hjá nýja embættinu. Mögulegum viðbótarkostnaði af þessu tilefni er ætlunin að mæta innan núverandi fjárveitinga til embættanna þriggja. Einnig er gert ráð fyrir því í upphafi að starfsemi lögregluliðanna þriggja verði áfram í núverandi húsnæði.
    Útgangspunkturinn í þessum breytingum er að forgangsraða betur þeim fjármunum sem varið er til löggæslumála samkvæmt núverandi útgjaldaramma ráðuneytisins í fjárlögum. Verði frumvarpið að lögum er því ekki gert ráð fyrir auknum framlögum til þessara verkefna heldur kalla breytingarnar á tilflutning fjárveitinga á milli embætta í samræmi við nánari útfærslu á þessum áformum. Kostnaður sýslumannsembætta af löggæslu er sérgreindur í fjárveitingum og reikningshaldi og á því að liggja ljóst fyrir hvaða fjárheimildir þarf að flytja á milli með verkefnunum. Þá á eftir að fara fram frekari kostnaðargreining og áætlanagerð varðandi ýmsar skipulagsbreytingar og rekstrarhagræðingu sem breytt skipan löggæslumála kann að gefa kost á. Talið er að unnt verði að nýta betur fjárveitingar til málaflokksins á ýmsa vegu en ætlunin er að öllum ávinningi af slíkri hagræðingu verði varið til að efla og bæta starfsemi löggæslunnar.