Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 222. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 762  —  222. mál.




Breytingartillögur



við frv. til l. um breyt. á höfundalögum, nr. 73/1972, með síðari breytingum.

Frá menntamálanefnd.



     1.      Í stað orðsins „má“ í fyrri efnismálslið 3. gr. komi: skal.
     2.      Á eftir 5. gr. komi ný grein sem orðist svo:
             19. gr. laganna orðast svo:
             Heimil er eftirgerð og dreifing eintaka af verkum sem út hafa verið gefin þegar slík eintök eru sérstaklega ætluð til nota fyrir blinda, sjónskerta, heyrnarlausa, lestrarhamlaða eða aðra þá sem vegna fötlunar eru ófærir um að lesa prentað mál. Ákvæði þetta gildir ekki ef eftirgerðin eða dreifingin fer fram í fjárhagslegum tilgangi.
             Heimildin í 1. mgr. gildir ekki um eftirgerð hljóðupptöku og heimilar ekki dreifingu eintaka með útláni eða leigu til almennings.
             Sá sem eignast hefur eintak sem aðrir hafa gert samkvæmt heimildinni í 1. mgr. má gera sams konar eintök eftir því eintaki sem hann fékk, ef það er nauðsynlegt til þess að hann geti notað eintakið eftir tilgangi sínum, þar á meðal öryggisafrit. Slík eintök má ekki nota í öðrum tilgangi. Rétturinn til þess að nota þau fellur niður ef eintak sem fengið var samkvæmt heimild 1. mgr. er birt. Síðastgreint ákvæði gildir þó ekki ef opinberar stofnanir eða aðrar félagslegar stofnanir sem starfa í almannaþágu lána eða leigja slík eintök.
             Heimilt er með hljóðupptöku að gera eintök af bókmenntaverkum til þess að lána þau blindum, sjónskertum, lestrarhömluðum og öðrum sem ófærir eru um að lesa venjulegar bækur, enda séu eintökin ekki gerð í fjárhagslegum tilgangi. Höfundar eiga rétt á sanngjörnum bótum vegna slíkrar eintakagerðar.
     3.      8. gr. orðist svo:
                 Eftirfarandi breytingar verða á 46. gr. laganna:
                  a.      Í stað orðanna „1. og 2. mgr. 24. gr.“ í fyrri málslið 2. mgr. kemur: 24. gr.
                  b.      Síðari málsliður 2. mgr. fellur brott.
     4.      Á eftir 13. gr. komi ný grein sem orðist svo:
              Í stað orðsins „fimm“ í 1. málsl. 58. gr. laganna kemur: sjö.