Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 382. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 834  —  382. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um ráðstöfun fjár úr Verkefnasjóði sjávarútvegsins.

Frá meiri hluta sjávarútvegsnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Arndísi Steinþórsdóttur og Jón B. Jónasson frá sjávarútvegsráðuneyti, Örn Pálsson frá Landssambandi smábátaeigenda og Friðrik J. Arngrímsson frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna. Nefndinni bárust umsagnir frá Vélstjórafélagi Íslands, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Samtökum fiskvinnslustöðva, Sjómannasambandi Íslands, Félagi íslenskra náttúrufræðinga, Hafrannsóknastofnuninni, Háskólanum á Akureyri, Landssambandi smábátaeigenda og Líffræðistofnun Háskóla Íslands.
    Í frumvarpinu er lagt til að 660 millj. kr. af því fé sem Verkefnasjóður sjávarútvegsins fékk við sölu á eignum Þróunarsjóðs sjávarútvegsins renni í ríkissjóð. Í athugasemdum við frumvarpið segir m.a.: „Fé þessu skal varið til hafrannsókna og er því við það miðað að hafrannsóknir verði efldar og fé sem varið er til hafrannsókna aukið. Annars vegar er lagt til að í fjárlögum ársins 2006 verði rammi fjárveitinga Hafrannsóknastofnunarinnar hækkaður um 50 millj. kr. og um 100 millj. kr. frá og með fjárlögum ársins 2007. Enn fremur er gert ráð fyrir að reglum um úthlutun úr Verkefnasjóði sjávarútvegsins verði breytt þannig að á árinu 2006 muni a.m.k. 25 millj. kr. af því fé sem Verkefnasjóðurinn hefur til úthlutunar verða varið til hafrannsókna á samkeppnisgrundvelli. Auglýst verður eftir umsóknum um styrki til hafrannsókna og geta allir sótt um styrk til sjóðsins. Faghópur mun fjalla um umsóknir og meta þær með hliðsjón af vísindalegu gildi rannsóknaverkefnanna.“
    Meiri hlutinn fagnar umræddum áformum og telur brýnt að Hafrannsóknastofnuninni verði veittar 100 millj. kr. til frambúðar frá og með árinu 2007. Þá lýsir meiri hlutinn yfir þeim vilja sínum að á árinu 2006 verði miðað við að sú fjárhæð sem gert er ráð fyrir að verði varið til sérstakra styrkja til hafrannsókna á samkeppnisgrundvelli, að lágmarki 25 millj. kr., verði allt að 40 millj. kr.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 1. mars 2006.



Guðjón Hjörleifsson,


form., frsm.


Kristinn H. Gunnarsson.


Arnbjörg Sveinsdóttir.



Guðlaugur Þór Þórðarson.


Birkir J. Jónsson.