Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 576. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 837  —  576. mál.




Skýrsla



Íslandsdeildar þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál fyrir árið 2005.

I. Inngangur.
    Fyrsta ráðstefna þingmanna og fulltrúa norðurskautssvæða var haldin í Reykjavík árið 1993, en takmörkuð samvinna norðurskautsríkja hafði hafist nokkru áður þegar samþykkt var áætlun um umhverfisvernd á norðurslóðum í Rovaniemi í Finnlandi árið 1991. Ráðstefnan í Reykjavík árið 1993 markaði hins vegar upphafið að stofnun þingmannanefndar um norðurskautsmál sem sett var á laggirnar árið 1994. Nefndin er stjórnarnefnd þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál sem haldin er á tveggja ára fresti. Næsta ráðstefna verður haldin árið 2006. Á ráðstefnunni kemur saman stór hópur þingmanna frá ríkjunum við norðurskaut, sem og sérfræðingar frá ríkisstjórnum, háskólastofnunum og félagasamtökum er láta sig málefni norðursins varða. Eitt meginviðfangsefni þingmannanefndarinnar er að fylgja eftir samþykktum ráðstefnunnar og eins að fylgjast grannt með störfum Norðurskautsráðsins. Þingmannanefndin fundar að jafnaði þrisvar á ári og einn þingmaður frá hverju aðildarríki situr í nefndinni. Þjóðþing Bandaríkjanna, Kanada, Rússlands og Norðurlanda eiga fulltrúa í nefndinni og auk þess á Evrópuþingið fastan fulltrúa. Almennt má segja að helstu verkefni í norðurskautssamstarfi lúti að sjálfbærri þróun og umhverfismálum. Undanfarin ár hefur sérstök áhersla einnig verið lögð á varðveislu menningararfleifðar og lífshátta þeirra þjóðflokka er byggja landsvæðin við norðurskaut, sem og aukna efnahagslega og félagslega velferð og velmegun íbúa norðursins.
    Í fyrstu sneru verkefni þingmannanefndarinnar aðallega að ýmsum málum sem við komu stofnun Norðurskautsráðsins árið 1996, en ráðið byggist á sameiginlegri yfirlýsingu og samstarfi ríkisstjórna aðildarríkjanna átta. Nokkur samtök frumbyggja og ólíkra þjóðarbrota á norðurslóðum eiga fasta fulltrúa í ráðinu. Auk þess eiga ýmis ríki, alþjóðasamtök og frjáls félagasamtök áheyrnaraðild að ráðinu. Jafnvel þótt samstarf norðurskautsríkja eigi sér fremur stutta sögu hefur það fætt af sér margvísleg sameiginleg verkefni og stofnanir. Eftirlit með og mat á umhverfi norðurskautssvæðanna hefur frá byrjun verið forgangsverkefni ráðsins. Fjölmargar vandaðar vísindalegar rannsóknir hafa verið gerðar á vegum vinnuhópa ráðsins, m.a. um mengunarhættu, áhrif mengunar á vistkerfi norðurslóða og varðveislu líffræðilegs fjölbreytileika. Á síðari missirum hefur Norðurskautsráðið í auknum mæli sinnt verkefnum sem miða ekki eingöngu að því að vega og meta mengunarhættu, heldur leita leiða við að draga úr mengun á norðurslóðum. Þingmannanefndin hefur á undanförnum árum lagt sérstakan metnað sinn í að hafa frumkvæði að mismunandi verkefnum sem hægt er að leggja fyrir Norðurskautsráðið til framkvæmda.

II. Skipan Íslandsdeildar þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál.
    Fyrri hluta árs 2005 var Íslandsdeild skipuð þeim Einari K. Guðfinnssyni, formanni, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Magnúsi Stefánssyni, varaformanni, þingflokki Framsóknarflokks, og Þórunni Sveinbjarnardóttur, þingflokki Samfylkingarinnar. Varamenn voru Sigurður Kári Kristjánsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Guðrún Ögmundsdóttir, þingflokki Samfylkingarinnar, og Dagný Jónsdóttir, þingflokki Framsóknarflokks. Hinn 3. október 2005 voru eftirtaldir þingmenn kjörnir til setu í Íslandsdeildinni: Sigurður Kári Kristjánsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Björgvin G. Sigurðsson, þingflokki Samfylkingarinnar, og Magnús Stefánsson, þingflokki Framsóknarflokks. Varamenn voru kjörnir Drífa Hjartardóttir, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Valdimar L. Friðriksson, þingflokki Samfylkingarinnar, og Dagný Jónsdóttir, þingflokki Framsóknarflokks. Á fyrsta fundi nefndarinnar á 132. þingi var Sigurður Kári kjörinn formaður og Magnús Stefánsson varaformaður. Formaður situr fyrir hönd Íslandsdeildar í þingmannanefndinni, en í forföllum hans situr varaformaður fundi nefndarinnar. Öll Íslandsdeildin sækir ráðstefnuna sem haldin er á tveggja ára fresti. Íslandsdeild kemur saman eftir þörfum og þá gerir formaður grein fyrir starfi þingmannanefndarinnar og fær hún jafnframt upplýsingar um starf Norðurskautsráðsins. Ritari Íslandsdeildar var Guðfríður Lilja Grétarsdóttir alþjóðaritari. Ritari Íslandsdeildar sá einnig um allan skrifstofurekstur og framkvæmdastjórn þingmannanefndarinnar á árinu.

III.    Áherslur í málefnastarfi og helstu verkefni þingmannanefndar um norðurskautsmál á árinu 2005.
    Þingmannanefnd um norðurskautsmál hefur lagt áherslu á að fylgja eftir skýrslu um loftslagsbreytingar á norðurslóðum sem birt var á fundi Norðurskautsráðsins í nóvember árið 2004. Skýrslan er fyrsta svæðisbundna allsherjarrannsókn á loftslagsbreytingum sem birt hefur verið eftir að samningur Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar var gerður. Í skýrslunni kemur fram að miklar loftslagsbreytingar hafa orðið á norðurskautssvæðum síðustu áratugi og að loftslag fer ört hlýnandi. Spáð er enn örari þróun í þessa átt á næstu áratugum og stórfelldum áhrifum á náttúru, dýralíf og mannlíf. Norðurslóðir einkennast af viðkvæmum vistkerfum og ljóst þykir að þróunin við norðurskaut sé eins konar fyrirboði þess sem mun gerast annars staðar í heiminum. Í sameiginlegri yfirlýsingu ráðherra Norðurskautsráðsins sem birt var í nóvember 2004 var því lýst yfir að loftslagsbreytingar hefðu í för með sér margvíslega vá fyrir lífshætti og viðurværi íbúa norðurslóða, sem og hættu fyrir tilteknar dýra- og gróðurtegundir. Í sérstöku stefnumótunarskjali skuldbundu ráðherrar sig til að framfylgja tilteknum aðgerðum til að stemma stigu við frekari loftslagsbreytingum. Ráðherrarnir skuldbundu sig einnig til að aðstoða íbúa norðurslóða með skipulögðum hætti við að aðlagast þessum breytingum og leita leiða til að þróa og nýta endurnýtanlega orkugjafa, svo sem vetni. Þingmannanefndin hefur fylgst vel með þróun þessara mála og eftirfylgni við yfirlýsingu ráðherra Norðurskautsráðsins.
    Nefndin hefur unnið undirbúningsvinnu við að kanna möguleikana á lagalegum sáttmála um umhverfi og náttúru norðurskauts, í svipuðum anda og suðurskautssáttmálinn sem um árabil hefur verið í gildi. Sáttmáli um umhverfi og náttúru norðurskauts er mun flóknara fyrirbæri en suðurskautssáttmálinn, en hugmyndin að slíkum sáttmála er að hluta til komin vegna spurninga um hversu litlar kvaðir skuldbindingar og samþykktir Norðurskautsráðsins leggja á aðildarríkin. Ýmsir vilja mun strangari reglur um eftirfylgni og framkvæmd ályktana, en erfitt getur reynst að koma slíku í gegn þar eð öll aðildarríkin verða að samþykkja framfylgd ályktana. Með því að leggja vinnu í að kanna möguleikann á gerð norðurskautssáttmála er þingmannanefndin því að hreyfa við nokkuð viðkvæmu málefni innan norðurskautssamstarfsins, sem vakið hefur eftirtekt. Einnig hefur mikið verið rætt um olíuboranir á norðurslóðum, en ljóst er að nýting olíu- og gasauðlinda á norðurslóðum mun margfaldast í komandi framtíð, sérstaklega í Norður-Rússlandi. Ýmsir hafa áhyggjur af þeim umhverfisspjöllum og mengun sem þetta kann að hafa í för með sér, og hefur þingmannanefndin stutt gerð skýrslu um þessi mál sem kanna á mismunandi áhrif slíkra umleitana á vistkerfi norðurslóða.
    Meðal annarra mála sem komið hafa til umræðu á fundum þingmannanefndarinnar er áframhaldandi eftirfylgni við skýrslu um sjálfbæra mannlífsþróun á norðurslóðum sem birt var í nóvember árið 2004, en nefndin átti ríkan þátt í að því verkefni var hrint af stað á sínum tíma. Einnig hafa málefni sem tengjast upplýsingatækni á norðurskautssvæðum, þar á meðal fjarkennsla og fjarlækningar, verið tekin fyrir, en nefndin hefur um langa hríð verið því fylgjandi að Norðurskautsráðið geri úttekt á þeim málum. Mikill sigur vannst í þeim málaflokki þegar upplýsingatækni var gerð að einu af forgangsverkefnum Norðurskautsráðsins undir formennsku Íslands 2002–2004. Háskóli norðurslóða fangaði einnig athygli þingmannanefndarinnar á árinu. Nefndarmenn hafa hvatt til eindregins stuðnings norðurskautsríkjanna við skólann og unnið að því að fjárhagslegur rekstur skólans til lengri tíma verði tryggður. Þá hefur nefndin unnið að undirbúningi að þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál sem haldin verður í Kiruna í Svíþjóð í byrjun ágúst 2006.

IV. Fundir þingmannanefndar 2005.
    Þingmannanefndin hélt þrjá fundi á árinu. Einar K. Guðfinnsson sat fyrir hönd Íslandsdeildar fund nefndarinnar í Washington D.C. í byrjun mars og í Pétursborg um miðjan júní. Magnús Stefánsson sótti fund nefndarinnar fyrir hönd Íslandsdeildar í Ósló í lok september. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, ritari nefndarinnar, sótti fundina ásamt þingmönnunum. Að aftan er gerð stutt grein fyrir þeim þremur fundum þar sem þingmannanefndin öll kom saman á árinu, en auk þessara funda voru haldnir vinnuhópafundar um tiltekin málefni. Formaður og ritari nefndarinnar sóttu einnig ráðstefnur og héldu erindi fyrir hönd þingmannanefndarinnar á alþjóðlegum vettvangi.

i.    Fundur þingmannanefndar um norðurskautsmál haldinn í Washington D.C. dagana 1.–2. mars 2005. Einar K. Guðfinnsson sótti fundinn fyrir hönd Íslandsdeildar, ásamt ritara.
    Dagskrá þingmannanefndar um norðurskautsmál í Washington D.C. var margþætt og samanstóð af röð heimsókna og funda í bandaríska þinginu. Dagskráin hófst með fundi þingmannanefndar um norðurskautsmál. Formaður tilkynnti þá um nýjan fulltrúa sem bæst hefur í þingmannahóp nefndarinnar, en það er öldungadeildarþingmaðurinn Lisa Murkowski frá Alaska. Góður rómur var gerður að þátttöku Murkowski, en um nokkra hríð hefur enginn bandarískur þingmaður haft formlega aðkomu að störfum nefndarinnar. Unnið hefur verið að því hörðum höndum innan nefndarinnar að fá Murkowski til starfa á þessum vettvangi og þótti mikill sigur unninn að það hefði nú tekist. Þetta voru því nokkur tímamót eftir langa fjarveru bandarískra þingmanna í norðurskautssamstarfinu.
    Það var hins vegar hinn rússneski formaður embættismannanefndar Norðurskautsráðsins, Vitaly Churkin, sem var fyrstur á mælendaskrá. Þetta var í fyrsta sinn sem Churkin ávarpar nefndina frá því að Rússar tóku við formennsku í Norðurskautsráðinu, en nokkur gustur hefur staðið um formanninn. Churkin gerði ítarlega grein fyrir helstu áherslum Rússa í forustuhlutverkinu til næstu tveggja ára. Churkin sagði Rússa mundu halda áfram að styrkja eftirlit með þróun umhverfismála á norðurslóðum, og ítrekaði sérstaklega mikilvægi þess að forvarnir og viðbrögð við hugsanlegum umhverfisslysum, svo sem olíuleka, yrðu samhæfð landanna á milli. Churkin sagði þennan þátt hafa setið eftir innan norðurskautssamstarfsins og það væri ætlun Rússa að gera forvörnum við umhverfisslysum hærra undir höfði en áður hefði verið gert. Churkin sagði einnig að Rússar mundu halda áfram því góða starfi sem formennska Íslands í Norðurskautsráðinu hefði skilið eftir, en sú arfleifð væri afar rík og af mörgu að taka. Þar væri einna mest um vert að styrkja enn frekar stoðir efnahagslegra, menningarlegra og félagslegra þátta í starfi Norðurskautsráðsins, í stað þess að einblína á umhverfismál eingöngu. Í þessu samhengi væri eftirfylgni við vinnu á sviði upplýsingatækni og sjálfbærrar mannlífsþróunar mikilvæg. Einnig væri mikils um vert að fylgjast vel með opnun siglingaleiða í norðurhöfum og nýta tækifærin sem við það skapast. Churkin sagði einnig frá stórri alþjóðlegri ráðstefnu í Pétursborg í júní þar sem þingmönnum nefndarinnar var sérstaklega boðið að vera með innlegg og erindi um málefni norðurslóða. Einar K. Guðfinnsson spurði Churkin frekar út í áherslur Rússa á eftirfylgni við skýrslu um sjálfbæra mannlífsþróun á norðurslóðum, en Rússar hafa sætt nokkurri gagnrýni fyrir að virðast ekki ætla að fylgja skýrslunni eftir með kraftmiklum hætti. Churkin sagði að efni skýrslunnar yrði sérstaklega tekið fyrir undir formennsku Rússa á næstunni og ítrekaði mikilvægi þess að niðurstöðum hennar væri fylgt eftir.
    Drue Pearce, sérfræðingur á sviði olíuborana, tók því næst til máls og gerði grein fyrir áhrifum olíuborana í Alaska, nýjustu tækni og erfiðustu átakapunktum í umræðunni um lögmæti olíuborana á viðkvæmum landsvæðum. Pearce sagði margt hafa breyst í þessum efnum á undanförnum árum og að langtum meira tillit væri tekið til umhverfismála og náttúruverndar heldur en áður. Hún sagði að nú ríkti einhugur í Alaska um að auðlindanýting yrði að fara fram á sjálfbærum grunni, en að málin væru oft einfölduð í öfgakenndum málflutningi bæði af hálfu umhverfissinna sem og þeirra sem vilja opna ný svæði fyrir olíuboranir. Mikil umræða hefur á undanförnum árum átt sér stað innan bandaríska þingsins um hvort opna eigi stórt friðland í Alaska fyrir olíuborunum og hefur málið vakið feiknahörð viðbrögð úr ýmsum áttum. Pearce sagði mikinn meiri hluta Alaskabúa vera fylgjandi frekari olíuborunum á sem flestum stöðum til eflingar lífsskilyrðum, og staðhæfði að ný tækni við olíuboranir gerði öll umhverfisspjöll langtum takmarkaðri en áður. Þar að auki væri mun meira lagt upp úr nánu samráði við alla íbúa þess svæðis þar sem bora á eftir olíu og um leið væri meira fjármagn veitt í að rannsaka og þróa endurnýtanlega orku. Pearce sagði að með nýjustu tækni og upplýsingaflæði væri vel mögulegt að samtvinna virðingu fyrir náttúrunni og stórtækar olíuboranir.
    Að erindi Pearce loknu gerði Ben Ellis, forstöðumaður Rannsóknastofnunar Norðursins í Alaska, grein fyrir vinnu Norðurskautsráðsins á sviði upplýsingatækni. Þetta er málaflokkur sem þingmannanefndin hefur í langan tíma haft til meðferðar og átti þátt í að koma á dagskrá hjá Norðurskautsráðinu, sem nú undirbýr hugsanlega úttekt á upplýsingatækni á norðurslóðum. Ellis sagði mikla vinnu vera fyrir höndum við að fá yfirsýn yfir margvísleg ólík verkefni á þessu sviði og mikilvægt væri að forðast tvíverknað. Hann sagði að með stuðningi þingmannanefndarinnar væri vonast til að Norðurskautsráðið samþykkti að gera heildstæða úttekt á þessum málaflokki þar sem hægt væri að ákvarða frekara samstarf landanna. Í umræðum eftir erindi Ellis tók Einar K. Guðfinnsson undir þau sjónarmið að mikilvægt væri að halda áfram þessu starfi innan Norðurskautsráðsins og að þingmannanefndinni bæri skylda til að fylgja verkefninu vel eftir.
    George Newton, forstöðumaður Rannsóknastofnunar Bandaríkjanna á sviði norðurskautsmála (US Arctic Research Commission) gaf að lokum yfirlit yfir helstu störf stofnunarinnar. Stofnunin vinnur yfirgripsmikið starf og er ráðgefandi bæði fyrir forseta Bandaríkjanna og bandaríska þingið. Ýmsir fræði- og vísindamenn stofnunarinnar hafa átt samstarf við þingmannanefndina.
    Að loknum fundi nefndarinnar fóru fram fundir í kanadíska sendiráðinu þar sem fjölmargir fulltrúar bandaríska þingsins gerðu grein fyrir vinnu innan þingsins sem varðar loftslagsbreytingar. Þeir sögðu að villandi væri að einblína eingöngu á Kyoto-sáttmálann. Fjölmörg lönd sem skrifað hefðu undir sáttmálann stæðu ekki við hann og tilgangslaust væri að gagnrýna stöðugt Bandaríkin fyrir að vilja ekki skrifa undir það sem fólk vissi að þau gætu ekki staðið við. Önnur ríki virtust hins vegar ekki eiga í erfiðleikum með að skrifa stöðugt undir sáttmála sem þau ætluðu síðan greinilega engan veginn að framfylgja, því væri öðrum stundum nær að líta í eigin barm. Nokkur hiti var í fundarmönnum þegar þetta var rætt og sitt sýndist hverjum. Það er hins vegar ljóst að mikil vinna er í gangi innan bandaríska þingsins sem snýr að lagaumhverfi og samhæfðum viðbrögðum við loftslagsbreytingum, þrátt fyrir að engin von sé um að skrifað verði undir Kyoto-sáttmálann. Lisa Murkowski lagði áherslu á að ekki væri hægt að segja nákvæmlega hvað ylli loftslagsbreytingum, þótt vissulega væru þær staðreynd, og því ætti að fara varlega í að vera með stórar yfirlýsingar um ástæður loftslagsbreytinga nú, frekari rannsókna væri þörf. Aðrir lögðu áherslu á að nauðsynlegt væri að grípa þegar í stað til aðgerða gegn loftslagsbreytingum og fulltrúar bandarískra þingmanna gerðu grein fyrir mismunandi lagaákvæðum í bígerð. Þingmannanefndin átti einnig sérstakan fund með Lisu Murkowski og ráðgjöfum hennar í bandaríska þinginu, en Murkowski staðfesti einlægan ásetning sinn um að vera virk í starfi nefndarinnar. Hún ítrekaði þó að bandarískir þingmenn ynnu á öðrum forsendum í alþjóðastarfi heldur en evrópskir þingmenn, það væri t.d. mun meiri vandkvæðum bundið að ferðast mikið á fundi erlendis og ekki eins einfalt og fyrir Norðurlandabúa. Hún bað því fólk um að sýna skilning á því ef hún gæti ekki komist á alla fundi, en sagðist vinna heilshugar að málefnum norðurslóða innan öldungadeildar bandaríska þingsins og senda fulltrúa á fund nefndarinnar í sinn stað þegar því væri við komið. Murkowski benti á að hún hefði m.a. nýverið borið fram fyrirspurnir til Condoleezu Rice um málefni norðurslóða, og Rice hefði staðfest virka þátttöku Bandaríkjamanna innan Norðurskautsráðsins.

ii.    Fundur þingmannanefndar um norðurskautsmál haldinn í Pétursborg dagana 13.–14. júní 2005. Einar K. Guðfinnsson sótti fundinn fyrir hönd Íslandsdeildar, ásamt ritara.
    Í upphafi fundar flutti gestgjafinn, Mikhail Nikolaev, erindi um framtíðarsýn sína á norðurskautssamstarfið og lagði fram tillögur að breytingum. Nikolaev kom inn í nefndina sem nýr fulltrúi Rússa á þingmannaráðstefnunni í Nuuk í ágúst 2004 og hefur vakið mikla eftirtekt fyrir málflutning sinn. Að þessu sinni fjallaði Nikolaev á ítarlegan hátt um starfsemi ólíkra samtaka á norðurslóðum og taldi vanta mikið upp á eftirfylgni og framkvæmd ríkisstjórna á ráðherrasamþykktum. Hann sagði þingmenn bera ábyrgð á að málefni norðurslóða héldust á dagskrá stærri alþjóðlegra stofnana, en mikil vinna væri fyrir höndum í þeim efnum þar eð norðurskautssvæðin gleymdust alltof oft í umræðunni á alþjóðlegum vettvangi. Nikolaev sagði nauðsynlegt að koma á samhæfðari og skilvirkari skipan mála í þessum efnum og lagði til að stofnað yrði sameiginlegt þing norðurslóða, þar sem þingmenn kæmu saman með reglubundnari hætti og fylgdu ályktunum sínum fastar eftir. Ýmsir þingmenn nefndarinnar tóku til máls eftir að erindi Nikolaev lauk. Einar K. Guðfinnsson sagði að þótt vissulega væri hægt að taka undir orð Nikolaev um að löndin yrðu að finna enn skilvirkari leiðir við að gæta hagsmuna norðurslóða þá leyfði hann sér að efast um að stofnun sérstaks þings væri rétta leiðin til þess. Nú þegar væri komin hefð fyrir ákveðnu vinnulagi sem sátt ríkti um, og samþykkt um enn eina stofnun yrði miklum vandkvæðum bundið. Runar Patriksson, Simo Rundgren og Lene Jensen tóku undir orð Einars og töldu sig ekki geta stutt grundvallarhugmyndir Nikolaevs í þessum efnum. Megintillögur Nikolaevs voru því ekki samþykktar, en þó átti ein hugmynda hans hljómgrunn, sem var að boða til sérstaks fundar þingforseta norðurskautsríkjanna.
    Vitaly Churkin gerði grein fyrir samþykktum embættismannanefndar Norðurskautsráðsins í apríl sl. Þar var samþykkt að setja á stofn lítinn hóp sem á að fylgjast með því hvernig eftirfylgni við samþykktir ráðherra um loftslagsmál er háttað. Á fundinum var einnig samþykkt að setja á laggirnar sérstakan sjóð innan Norðurskautsráðsins til styrktar rannsóknaverkefnum hjá vinnuhópum ráðsins. Stofnun sjóðsins er eitt af þeim verkefnum sem Íslendingar unnu sérstaklega að þegar Ísland gegndi formennsku í Norðurskautsráðinu, en fjármögnun verkefna innan ráðsins hefur verið ýmsum vandkvæðum bundin. Einar K. Guðfinnsson fagnaði því að stofnun sjóðsins hefði verið samþykkt og spurði í framhaldinu nánar út í vinnu Rússa við Alþjóðlega norðurskautsárið 2007–2008 (International Polar Year). Churkin sagði aðkomu Norðurskautsráðsins að skipulagsvinnu við Norðurskautsárið ekki vera nægilega kraftmikla en ráðið væri þó ráðgefandi aðili og hefði óformlega aðkomu að skipulagningu Norðurskautsársins. Þetta væri stór og mikill viðburður þar sem fjöldi vísindamanna um allan heim kæmi fram með ný rannsóknaverkefni á málefnum norðurslóða.
    Runar Patriksson tók þá til máls og kynnti lauslega hugmyndir og vinnu við næstu þingmannaráðstefnu sem haldin verður í Kiruna í Svíþjóð í ágúst. Nefndarmenn ræddu mismunandi efni og hugsanlega uppbyggingu ráðstefnunnar, en ýmsar hugmyndir eru uppi um að breyta nokkuð hinu hefðbundna fyrirkomulagi ráðstefnunnar til að greiða enn frekar fyrir líflegum skoðanaskiptum þingmanna. Nefndarmenn komust að lokum að samkomulagi um að taka til nánari skoðunar fjögur málefni á ráðstefnunni: Norðurskautsárið 2007–2008, upplýsingatækni á norðurslóðum, opnun siglingaleiða í norðurhöfum og lagalegan alþjóðlegan sáttmála um málefni norðurskauts. Nefndarmenn samþykktu að vinna frekar að þessum málaflokkum og ákveða endanlega uppröðun og fyrirkomulag á næsta fundi.
    Sérstakir gestir rússnesku gestgjafa nefndarinnar tóku þá til máls. Prófessor Viktor Kruzhalin fjallaði um samstarf háskóla á norðurslóðum og prófessor Alexander Brinken fjallaði um takmörk sjálfbærrar þróunar á norðurskautssvæðum. Að lokum gerðu nefndarmenn grein fyrir þróun mála innan eigin þjóðþinga í efnisflokkum er varða norðurskautssvæði. Rannveig Guðmundsdóttir, áheyrnarfulltrúi Norðurlandaráðs í nefndinni, sagði frá fundum forsætisnefndar Norðurlandaráðs um loftslagsbreytingar og skýrslu um sjálfbæra mannlífsþróun á norðurslóðum, en Norðurlandaráð hefur gefið þessum málum æ meiri gaum að undanförnu. Einar K. Guðfinnsson gerði m.a. grein fyrir fundum sínum með fulltrúum utanríkisráðuneytisins um vinnu og verkefni Norðurskautsráðsins.

iii.    Fundur þingmannanefndar um norðurskautsmál haldinn í Ósló 30. september 2005. Magnús Stefánsson sótti fundinn fyrir hönd Íslandsdeildar, ásamt ritara.
    
Í byrjun fundar gerðu nefndarmenn grein fyrir helstu þáttum starfsins heima fyrir og þróun mála innan landsdeilda nefndarinnar. Magnús Stefánsson talaði fyrir hönd Íslandsdeildar og greindi frá umfjöllun um loftslagsbreytingar og sjálfbæra þróun sem ætti sér stað heima fyrir og snerti á ýmsum þeim þáttum sem nefndin ynni að. Magnús bar fundinum sérstaka kveðju frá Einari K. Guðfinnssyni sem nú væri búinn að kveðja nefndina þar eð hann væri orðinn ráðherra. Magnús vakti athygli á því að frá upphafi hefur hver einasti formaður Íslandsdeildar þingmannanefndar um norðurskautsmál fengið ráðherratign. Góður rómur var gerður að greinargerð Magnúsar og sögðu nokkrir þingmenn ljóst að það hlyti að vera keppikefli margra íslenskra þingmanna að verða formenn Íslandsdeildar. Peter Adams frá Kanada sagði margt jákvætt vera að gerast innan kanadíska þingsins hvað varðaði viðhorf og fjármagnsstreymi til málefna norðurslóða. Mun meiri áhugi væri nú á norðurskautssvæðum Kanada og mörgum rannsóknarverkefnum hefði verið ýtt úr vör að undanförnu. Kanadastjórn hefði auk þess nýverið komist að samkomulagi við Rússa um að vinna saman að hreinsun gamalla kjarnorkukafbáta. Miklum fjármunum yrði varið til þeirrar samvinnu. Rannveig Guðmundsdóttir lýsti yfirgripsmiklu starfi Norðurlandaráðs. Hún sagði norrænu ráðherranefndina nýlega hafa fjallað um menningarverðmæti norðurskautssvæða og fleiri þætti mannlífs á norðurslóðum. Rannveig ítrekaði hið aukna vægi sem þessi mál fengju nú innan Norðurlandaráðs og benti á að á næsta Norðurlandaráðsþingi í Reykjavík yrði þingmannanefndinni sérstaklega boðið til umræðna um framtíð samstarfs norðurskautsríkja.
    Diana Wallis, þingkona á Evrópuþinginu, tók næst til máls og fjallaði um norðlægu vídd Evrópusambandsins. Wallis sagði ýmsar blikur á lofti í þessum efnum og hvatti nefndarmenn eindregið til að láta í sér heyra um málefnið. Þetta væri sérlega áríðandi núna þar eð ráðherrafundur væri á næsta leiti þar sem framtíð hinnar norðlægu víddar yrði vörðuð. Wallis rakti sögu og tilurð norðlægu víddarinnar innan Evrópusambandsins og hvernig umhverfið allt hefði gjörbreyst á síðustu árum. Wallis sagði m.a. miklar umræður og átök vera um hvernig skilgreina ætti norðlægu víddina landfræðilega, og hvaða lönd og svæði ættu að vera inni í þeirri skilgreiningu. Wallis lagði áherslu á að berjast þyrfti fyrir víðari skilgreiningu á hinni norðlægu vídd svo hún tæki til stærri svæða í stað þess að Evrópusambandið leiddist æ lengra í þá átt að einblína á tiltekna nágranna í austri. Wallis sagði skilgreiningu á tengslum Evrópusambandsins við Rússland flækja málin enn frekar, þar eð ný hugtök væru innleidd um mismunandi nágrannalönd Evrópusambandsins. Wallis taldi brýnt að þingmannanefnd um norðurskautsmál gæti komist að sameiginlegri afstöðu um hina norðlægu vídd með öðrum stofnunum á norðurslóðum.
    Samantha Smith flutti erindi um möguleikana á því að aðildarlöndin stæðu saman að eins konar lagalegum sáttmála norðurslóða, sem kvæði á um tilteknar skuldbindingar í umhverfismálum og öðrum málaflokkum. Smith sagði að einungis væri hægt að bregðast við loftslagsbreytingum með sameiginlegu átaki allra, og því gæti slíkur sáttmáli komið að góðum notum. Loftslagsbreytingar væru þegar farnar að hafa stórfelld félags-, menningar- og efnahagsleg áhrif á þjóðflokka norðursins, umhverfi og náttúru, en alltof lítið væri að gert. Þingmannaráðstefnan í Nuuk 2004 beindi þeim tilmælum til þingmannanefndarinnar að kanna möguleikana á sáttmála norðurskautsins, sem tæki sér m.a. að fyrirmynd sams konar sáttmála um umhverfi suðurskautsins frá árinu 1959. Smith benti á að undirbúningsvinnu að slíku yrði að vinna í þjóðþingum heima fyrir og hvatti nefndarmenn til að athuga þessi mál vel. Ýmsar spurningar voru bornar fram um efnið, m.a. hversu raunhæft væri að ætla að slíkur sáttmáli yrði gerður, ekki síst með tilliti til þess hversu oft væri erfitt að fá öll aðildarlöndin til að samþykkja sameiginlegar ályktanir Norðurskautsráðsins í erfiðum málum, svo sem um viðbrögð við loftslagsbreytingum.
    Að lokum flutti Per Sander Dövle erindi um skýrslu um olíuboranir á norðurslóðum, en ljóst þykir að í náinni framtíð muni æ meira vera leitað inn á norðurskautssvæði sem uppsprettu olíu- og gasauðlinda. Dövle benti á að slíkt gæti hafi alvarlegar afleiðingar þar eð vistkerfi norðurslóða væri einkar viðkvæmt og því þyrfti að rannsaka þessa þætti vel og meta afleiðingar slíkra mannvirkja í umhverfinu. Þingmannanefndin ákvað á sínum tíma að styðja gerð þessarar skýrslu og mun því fylgja þessum málaflokki sérstaklega eftir.

Alþingi, 26. febr. 2006.



Sigurður Kári Kristjánsson,


form.


Magnús Stefánsson,


varaform.
Björgvin G. Sigurðsson

.