Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 382. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 857  —  382. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um ráðstöfun fjár úr Verkefnasjóði sjávarútvegsins.

Frá minni hluta sjávarútvegsnefndar.



    Samkvæmt lögum nr. 27/2005, um breytingu á lögum nr. 152/1996 um breytingu á lögum nr. 92/1994, um Þróunarsjóð sjávarútvegsins, með síðari breytingum, var ákveðið að fjármunir Þróunarsjóðs sjávarútvegsins skyldu renna til Verkefnasjóðs sjávarútvegsins og andvirði þeirra varið til hafrannsókna. Ekki lágu fyrir endanlegir útreikningar á því hversu miklir fjármunirnir gætu verið, en í umræðum kom fram að um gæti verið að ræða a.m.k. 500–600 millj. kr.
    Nefndin var sammála um að ekki væri eðlilegt að skilyrða þá fjármuni sem um ræðir með þeim hætti að þeir rynnu einungis til hafrannsókna á vegum Hafrannsóknastofnunarinnar, heldur væri eðlilegt að gera þá breytingu að fjármunirnir rynnu til hafrannsókna á samkeppnisgrunni. Í nefndaráliti meiri hluta sjávarútvegsnefndar um frumvarpið sem varð að lögum nr. 27/2005 (þskj. 991, 387. mál 131. löggjafarþings) segir:
    „Gerir frumvarpið ráð fyrir að eignir sjóðsins umfram skuldir renni til Verkefnasjóðs sjávarútvegsins og andvirði þeirra verði varið til hafrannsókna á vegum Hafrannsóknastofnunarinnar. Meiri hluti nefndarinnar er fylgjandi efni frumvarpsins en telur þó ástæðulaust að áskilja í lögunum að andvirði sjóðsins skuli varið til hafrannsókna á vegum Hafrannsóknastofnunarinnar heldur verði jafnframt heimilt að ráðstafa því til hafrannsókna á vegum annarra aðila í samræmi við almennar reglur um ráðstöfun fjármuna úr Verkefnasjóði sjávarútvegsins.“
    Minni hlutinn hefur tekið undir það sjónarmið sem fram kemur í fyrrgreindu áliti meiri hluta sjávarútvegsnefndar frá því í mars 2005 og hefur litið þannig á að féð sem um ræðir eigi að koma til viðbótar því fé sem árlega er sett til hafrannsókna. Minni hlutinn lýsir undrun sinni á þeim sinnaskiptum meiri hlutans sem fram koma við umfjöllun um frumvarp þetta.
    Frumvarpið sem hér um ræðir gerir ráð fyrir að nú skuli ákvörðuninni sem tekin var með lögum nr. 27/2005 breytt í þá veru að 660 millj. kr. skuli renna úr Verkefnasjóði sjávarútvegsins í ríkissjóð. Í athugasemdum við frumvarpið kemur fram að tilgangur þess sé að færa umrætt fé úr Verkefnasjóðnum í ríkissjóð og þaðan skuli það renna í fjárlögum næstu ára til Hafrannsóknastofnunarinnar til aukinna rannsókna á hennar vegum. Einungis er gert ráð fyrir að 25 millj. kr. verði varið til samkeppnisrannsókna. Þessi breyting þýðir í raun að fjármunir Þróunarsjóðsins sem áður höfðu runnið í Verkefnasjóð sjávarútvegsins eru teknir í ríkissjóð í þeim tilgangi að greiða fyrir auknar rannsóknir Hafrannsóknastofnunarinnar, sem allir eru sammála um að séu nauðsynlegar, í stað þess að fjármögnun slíkra rannsókna sé tryggð í fjárlögum.
    Minni hlutinn telur nauðsynlegt að verja umtalsvert meira fé til hafrannsókna en gert hefur verið og hefur oft lýst furðu sinni á þeirri stefnu ríkisstjórnarinnar að skera fé til rannsókna á auðlindum hafsins svo við nögl að ekki sé unnt að halda úti nauðsynlegum grunnrannsóknum á hafinu og lífríki þess. Minni hlutinn taldi að það fé sem kom úr Þróunarsjóði sjávarútvegsins og rann í Verkefnasjóðinn væri löngu tímabær viðbót við rannsóknafé á þessu sviði og jafnframt væri opnað fyrir rannsóknir annarra aðila en Hafrannsóknastofnunarinnar. Nú liggur fyrir af hálfu meiri hlutans sú stefnubreyting að svo sé ekki og fjármunir Verkefnasjóðsins skuli gerðir upptækir í ríkissjóð.
    Minni hlutinn leggst gegn samþykkt frumvarpsins og hefur jafnframt lengi bent á nauðsyn þess að setja nýjar reglur um með hvaða hætti er skipað í stjórn Verkefnasjóðs sjávarútvegsins. Það geti varla samrýmst góðum stjórnsýslureglum að sjávarútvegsráðherra skipi einungis undirmenn sína í ráðuneytinu í stjórn sjóðsins og hafi þannig í raun einn um það að segja hvernig hundruðum milljóna af fé sjóðsins er ráðstafað. Nauðsynlegt er að breyta þeim reglum sem um sjóðinn gilda um leið og mikilvægt er að sjóðurinn haldi því fé sem honum var ætlað frá Þróunarsjóði sjávarútvegsins.

Alþingi, 1. mars 2006.



Jón Gunnarsson,


frsm.


Jóhann Ársælsson.


Kristján L. Möller.



Magnús Þór Hafsteinsson.