Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 585. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 860  —  585. mál.




Skýrsla



Íslandsdeildar NATO-þingsins fyrir árið 2005.

1.     Inngangur.
    Starfsemi NATO-þingsins árið 2005 einkenndist öðru fremur af umræðu um samskiptin yfir Atlantsála, baráttuna gegn hryðjuverkum og breytingar á hlutverki bandalagsins sem hefur m.a. beint sjónum sínum í auknum mæli að viðbrögðum við náttúruhamförum. Með breyttu hlutverki NATO hafa sveitir á vegum bandalagsins sinnt verkefnum víða utan hefðbundins athafnasvæðis bandalagsins, m.a. bæði í Afganistan og í Afríku. Á næstu árum má búast við að þessi þróun haldi áfram.
    Umræðuefni NATO-þingsins taka að sjálfsögðu mið af þessu breytta hlutverki NATO og þeim vandamálum sem komu upp í samstarfi aðildarþjóðanna í kjölfar Íraksstríðsins árið 2003. Forseti NATO-þingsins hefur á undanförnum missirum tekið að sér aukin verkefni í ljósi breyttra áherslna bandalagsins, en ýmsir hafa varað við því að forsetinn skyggi á málefnanefndir þingsins sem hafa hingað til verið leiðandi í málefnastarfi þess. Auk þess hefur nokkrum ríkjum í Norður-Afríku og fyrir botni Miðjarðarhafs nú verið veitt svokölluð Miðjarðarhafsaukaaðild að þinginu sem sýnir aukinn áhuga og metnað þess til að koma á bættum samskiptum við ríkin á suðurlandamærum sambandsins. Árið 2005 bötnuðu samskipti aðildarríkja NATO-þingsins verulega en þau höfðu versnað verulega í tengslum við stríðið í Írak. Aukið samstarf aðildarríkjanna á ýmsum öðrum sviðum, t.d. í tengslum við málefni Afganistans, á hlut í bættum samskiptum þeirra undanfarin missiri. Skiptar skoðanir eru þó enn milli aðildarríkjanna, sérstaklega yfir Atlantsála, um hvernig skuli bregðast við ógninni vegna alþjóðlegra hryðjuverka og hvernig hvetja skuli til lýðræðisumbóta í Miðausturlöndum.
    Íslandsdeild NATO-þingsins var að venju mjög virk árið 2005. Þar bar hæst stjórnarfund þingsins sem haldinn var í Reykjavík í apríl. Fundurinn þótti takast mjög vel en þar var mikið rætt um samskipti NATO og NATO-þingsins við ríki á jaðri bandalagsins, bæði til austurs og suðurs. Íslandsdeildin tók einnig þátt í öðrum helstu fundum þingsins ásamt því að sækja nefndarfundi í málefnanefndum. Af öðru markverðu í starfi deildarinnar má nefna að á árinu hefur hún staðið að undirbúningi ársfundar þingsins sem verður í Reykjavík haustið 2007.

2. NATO- þingið.
    NATO-þingið er þingmannasamtök sem hafa allt frá árinu 1954 verið vettvangur þingmanna aðildarríkja NATO til að ræða sameiginleg hagsmunamál og áhyggjuefni. Fram til ársins 1999 bar þingið heitið Norður-Atlantshafsþingið, en heitir síðan NATO-þingið. Á síðustu árum hefur aðildar- og aukaaðildarríkjum á þinginu fjölgað ört og hefur starfssvið þess því verið víkkað til móts við þær breytingar sem orðið hafa í ríkjum sem áður tilheyrðu Sovétríkjunum og í ríkjum Mið- og Austur-Evrópu. Þá gætir aukinna samskipta NATO-þingsins við ríki í norðanverðri Afríku og fyrir botni Miðjarðarhafs með tilkomu Miðjarðarhafshópsins svonefnda. Níu lýðræðisríki úr hópi fyrrverandi kommúnistaríkja hafa nú aukaaðild að þinginu (auk hlutlausu Evrópuríkjanna fjögurra Austurríkis, Sviss, Svíþjóðar og Finnlands) sem þýðir að þau geta tekið þátt í störfum og umræðum á þinginu sem beinast í auknum mæli að öryggismálum Evrópu í heild, efnahagslegum og pólitískum vandamálum í ríkjum Mið- og Austur-Evrópu og hinu hnattræna öryggiskerfi. Með Rose Roth áætluninni styður þingið nú einnig við þróun þingbundins lýðræðis í ríkjum álfunnar og nálægum ríkjum.

a.    Hlutverk og starfssvið þingsins.
    Í Atlantshafssáttmálanum 1949 var ekki gert ráð fyrir þinglegri ráðgjafarsamkundu en með tímanum jókst skilningur manna á því að nauðsyn væri á einhvers konar skipulegu samstarfi þjóðþinga í tengslum við og til stuðnings Atlantshafsbandalaginu (NATO). Þingið hefur því enga formlega stöðu innan bandalagsins en smám saman hefur komist á náin og virk samvinna stofnananna. Meginhlutverk þingsins er að upplýsa þingmenn og efla samstöðu þjóðþinga á milli. Þingið gerir þingmönnum aðildarríkja bandalagsins kleift að koma á framfæri áhugamálum og áhyggjuefnum ríkja sinna og skiptast á viðhorfum til mikilvægra sameiginlegra hagsmunamála. Fulltrúar á þingið eru kjörnir af þjóðþingum með aðferðum sem þau ákveða sjálf. Þar endurspeglast því afar breitt svið pólitískra skoðana. Þingið kemur saman tvisvar á ári, til vorfundar og ársfundar að hausti. Fundir eru haldnir í aðildar- og aukaaðildarríkjunum til skiptis í boði þjóðþinganna.
    Starfsemi þingsins fer að mestu fram í fimm málefnanefndum, stjórnmálanefnd, varnar- og öryggismálanefnd, félagsmálanefnd, efnahagsnefnd, og vísinda- og tækninefnd. Auk þess fer mikið starf fram á vegum Miðjarðarhafshópsins sem þó hefur ekki stöðu formlegrar málefnanefndar. Þessar nefndir og hópar eru bæði vinnuhópar og meginvettvangur umræðna. Þær rannsaka og fjalla um samtímamál er koma upp á starfssviði þeirra. Óski nefnd þess að gera ítarlega rannsókn á tilteknu máli getur hún kosið undirnefnd eða komið á fót vinnuhópi til að afla um það upplýsinga. Nefndarálit eru oftast sett fram í formi tillagna, yfirlýsinga eða ályktana sem nefndin samþykkir og þingið greiðir síðan atkvæði um. Tillögum er beint til Norður- Atlantshafsráðsins og í þeim er hvatt til tiltekinna aðgerða en ályktunum þingsins er beint til ríkisstjórna aðildarríkjanna.
    Þótt þingið sé óháð Atlantshafsbandalaginu hafa samskipti þingsins við bandalagið smám saman tekið á sig fastara form og meðal formlegra samskipta má nefna formlegt svar við tillögum þingsins af hálfu framkvæmdastjóra bandalagsins fyrir hönd Atlantshafsráðsins, ávarp framkvæmdastjóra bandalagsins á vorfundum og ársfundum þingsins, aukafundi nefnda í Brussel í febrúarmánuði ár hvert til að greiða fyrir samskiptum við starfsmenn og embættismenn NATO, SHAPE (Supreme Headquarters Allied Powers in Europe – æðstu bækistöðvar bandamanna í Evrópu) og einnig Evrópusambandsins, og loks fundi forustumanna í þinginu og Atlantshafsráðinu til gagnkvæmra skoðanaskipta.

b.    Aukaaðild og samskiptin við ríkin í austri.
    Eins og Atlantshafsbandalagið sjálft hefur þingið endurskoðað hlutverk sitt í ljósi mikilla breytinga á alþjóðavettvangi. Þótt enginn vafi leiki á þörf fyrir bandalagið og hið einstæða samband sem það felur í sér milli þjóða beggja vegna Atlantsála er þörf fyrir breytingar til aðlögunar að nýjum aðstæðum. Umfram allt kallar þetta á fyrirkomulag í öryggismálum sem byggist á samvinnu og umræðum fremur en árekstrum. Við upphaf tíunda áratugarins var þjóðþingum nokkurra Austur-Evrópuþjóða veitt aukaaðild að þinginu. Með aðild margra þessara ríkja að NATO og NATO-þinginu hefur enn fleiri ríkjum, m.a. á Kákasussvæðinu, verið veitt aukaaðild. Auk þess hefur á undanförnum árum verið lögð aukin áhersla á samskipti ríkjanna við Miðjarðarhafið og hefur nokkrum ríkjum í Norður-Afríku og Miðausturlöndum verið veitt svokölluð Miðjarðarhafsaðild, m.a. var Máritaníu, Alsír, Jórdaníu og Ísrael veitt slík aðild árið 2005 og heimastjórnarþingi Palestínu var veitt áheyrnaraðild.

c.    Fulltrúar á NATO-þinginu og framkvæmdastjórar þess.
    Á NATO-þinginu eiga sæti 248 þingmenn frá aðildarríkjunum 26. Fjöldi fulltrúa frá hverju landi ræðst að mestu af fólksfjölda. Stærsta sendinefndin er sú bandaríska með 36 þingmenn en Ísland er í hópi þeirra smæstu með þrjá þingmenn frá öldungadeild og fulltrúadeild bandaríska þingsins. Auk fulltrúanna má hvert þjóðþing tilnefna jafnmarga varamenn sem mega taka þátt í öllum störfum þingsins en hafa ekki atkvæðisrétt. Ráðherrar í ríkisstjórnum mega ekki vera fulltrúar á NATO-þinginu. Alls eiga 59 þingmenn frá 13 aukaaðildarríkjum sæti á NATO-þinginu og taka þeir þátt í nefndarfundum, utan funda stjórnarnefndar, og þingfundum en hafa ekki atkvæðisrétt. Þeir hafa þó rétt til þess að leggja fram breytingartillögur.
    Framkvæmdastjórar þingsins eru sjö og eru fimm þeirra kjörnir ár hvert af fulltrúum á þingfundi (forseti og fimm varaforsetar). Sjöundi embættismaðurinn er gjaldkerinn en hann kýs stjórnarnefndin annað hvert ár. NATO-þinginu er stjórnað af stjórnarnefnd en í henni eiga sæti formenn allra landsdeilda aðildarríkja NATO, forseti, varaforsetar, gjaldkeri og nefndarformenn.

d.    Fjármögnun.
    Starfsemi þingsins er fjármögnuð með framlögum þjóðþinga eða ríkisstjórna aðildarríkja. Framlög eru reiknuð á grundvelli þeirra viðmiða sem notuð eru við gerð fjárhagsáætlunar NATO um annan kostnað en herkostnað. Til að standa straum af hluta kostnaðar við árlegt þinghald greiðir NATO einnig framlag til þingsins ár hvert.

3.     Íslandsdeild NATO-þingsins.
    Í upphafi árs 2005 skipuðu Íslandsdeild NATO-þingsins Einar Oddur Kristjánsson, formaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Guðmundur Árni Stefánsson, varaformaður, þingflokki Samfylkingarinnar, og Magnús Stefánsson, þingflokki Framsóknarflokks. Varamenn voru Kjartan Ólafsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Dagný Jónsdóttir, þingflokki Framsóknarflokks, og Ágúst Ólafur Ágústsson, þingflokki Samfylkingarinnar. Á fundi Íslandsdeildar 20. febrúar 2005 var Guðmundur Árni Stefánsson kjörinn formaður og Einar Oddur Kristjánsson varaformaður. Hinn 3. október 2005 var Össur Skarphéðinsson kosinn til setu í Íslandsdeildinni. Á fundi Íslandsdeildar sama dag var Össur kjörinn formaður og Einar Oddur endurkjörinn varaformaður.
    Andri Lúthersson var ritari Íslandsdeildar til 1. september en þá tók Belinda Theriault við starfinu.
    Samkvæmt samþykktum þingsins geta fulltrúar aðildarríkja tekið þátt í starfi allra nefnda þess. Skipting Íslandsdeildar í nefndir árið 2005 var þannig:

Stjórnarnefnd: Einar Oddur Kristjánsson.
Til vara: Guðmundur Árni Stefánsson og
Össur Skarphéðinsson frá 3. október.
Stjórnmálanefnd: Einar Oddur Kristjánsson.
Til vara: Kjartan Ólafsson.
Varnar- og öryggismálanefnd: Magnús Stefánsson.
Til vara: Dagný Jónsdóttir.
Félagsmálanefnd: Guðmundur Árni Stefánsson og
Össur Skarphéðinsson frá 3. október.
Til vara: Ágúst Ólafur Ágústsson.
Efnahagsnefnd: Magnús Stefánsson.
Til vara: Dagný Jónsdóttir.
Vísinda- og tækninefnd: Guðmundur Árni Stefánsson og
Össur Skarphéðinsson frá 3. október.
Til vara: Ágúst Ólafur Ágústsson.
Miðjarðarhafshópur: Einar Oddur Kristjánsson og Guðmundur Árni Stefánsson, og Össur Skarphéðinsson frá 3. október.

4.     Fundir sem Íslandsdeild sótti á árinu.
    NATO-þingið heldur tvo þingfundi árlega, vorfund og svo ársfund að hausti. Auk þess fundar stjórnarnefnd sérstaklega ár hvert, ýmist í lok mars eða byrjun apríl. Á svokölluðum febrúarfundum heldur stjórnarnefndin fund með framkvæmdastjóra NATO og Norður-Atlantshafsráðinu, auk þess sem stjórnmálanefnd, efnahagsnefnd og varnar- og öryggismálanefnd halda sameiginlegan fund. Nefndir og undirnefndir þingsins halda reglulega námsstefnur og fundi á milli þingfunda. Jafnframt stendur varnar- og öryggismálanefnd árlega fyrir kynnisferð til eins eða fleiri aðildarríkja bandalagsins til að skoða ýmis hernaðarmannvirki og búnað. Á árinu voru haldnar tvær Rose Roth námsstefnur.
    Árið 2004 tók Íslandsdeildin þátt í febrúarfundunum í Brussel og fundi stjórnarnefndar sem haldinn var í Ósló, vor- og ársfundum þingsins í Bratislava og Feneyjum, auk fjölda nefndarfunda utan þingfunda.

a.    Febrúarfundir.
    Dagana 20.–21. febrúar 2005 var efnt til svonefndra febrúarfunda NATO-þingsins í Brussel. Fundirnir að þessu sinni voru sérstakir að því leyti að venjubundinn fundur fulltrúa NATO-þingsins með Norður-Atlantshafsráðinu (NAC) fór ekki fram vegna opinberrar heimsóknar George Bush Bandaríkjaforseta til Brussel og fundar utanríkisráðherra Atlantshafsbandalagsríkja þar í borg. Var því aðeins um tvo fundardaga að ræða í stað þriggja eins og venja er til.
    Febrúarfundina sóttu af hálfu Íslandsdeildar Einar Oddur Kristjánsson formaður, Guðmundur Árni Stefánsson varaformaður og Magnús Stefánsson, auk Andra Lútherssonar ritara. Fyrirkomulag fundanna var venjubundið, þ.e. embættismenn Atlantshafsbandalagsins og Evrópusambandsins héldu erindi um afmörkuð málefni og gáfu svo þingmönnum færi á að beina til þeirra spurningum. Þá áttu fulltrúar NATO-þingsins fund með utanríkismálanefnd Evrópuþingsins. Auk þess var efnt til opinnar umræðu fulltrúa NATO-þingsins í lok venjubundinnar dagskrár.
    Á fundi NATO-þingsins 20. febrúar ræddi Günther Altenburg, aðstoðarframkvæmdastjóri NATO og yfirmaður stjórnmáladeildar bandalagsins, samskipti NATO við löggjafa ásamt Jean Fournet, aðstoðarframkvæmdastjóra NATO og yfirmanni almannasamskipta bandalagsins. Síðar sama dag ræddi Gerhard W. Back, hershöfðingi, meginaðgerðamarkmið bandalagsins.
    Fundur NATO-þingsins 21. febrúar fór fram í Evrópuþinginu. Þar fengu þingmenn kynningu frá yfirmanni andhryðjuverkaaðgerða Evrópusambandsins, Gijs de Vries. Hann ræddi um árangur og áskoranir í samvinnu Atlantshafsríkjanna í baráttunni gegn hryðjuverkaógninni.
    Á fundunum fór fram mikil umræða um framtíðarhlutverk bandalagsins, sérstaklega í ljósi ágreinings aðildarþjóðanna vegna stríðsins í Írak. Þrátt fyrir ágreining á því sviði hafa bandalagsþjóðir þó starfað vel saman á öðrum sviðum á þessum sama tíma, t.d. í Afganistan og á Balkanskaga.

b.    Fundur stjórnarnefndar.
    Laugardaginn 2. apríl 2005 fundaði stjórnarnefnd NATO-þingsins á Nordica-hótelinu í Reykjavík. Fundinn sátu af hálfu Íslandsdeildar Guðmundur Árni Stefánsson, formaður, og Magnús Stefánsson, í fjarveru Einars Odds Kristjánssonar varaformanns, auk Andra Lútherssonar ritara. Í upphafi fundar bauð Guðmundur Árni Stefánsson fulltrúa stjórnarnefndarinnar velkomna til Íslands og lofaði fundarmönnum gagnlegum fundi og fróðlegri og skemmtilegri skoðunarferð um Snæfellsnes degi síðar. Því næst tóku við venjubundin stjórnarnefndarstörf.
    Fyrst var rætt um hugsanlega aukna þátttöku bandarískra þingmanna í starfi NATO-þingsins. Eftir fjörugar umræður varð það úr að í tengslum við Transatlantic Forum fundina yrði að minnsta kosti tveimur klukkustundum varið í skoðanaskipti milli evrópskra og bandarískra þingmanna einvörðungu þar sem farið yrði yfir málefni er varða Atlantshafsstrenginn.
    Því næst tók Simon Lunn framkvæmdastjóri til máls og flutti aðfaraorð að ársskýrslu sinni. Fór hann yfir helstu atriði starfs NATO-þingsins og hvaða breytingar hefðu orðið á undanförnum árum og missirum. Þá lagði hann áherslu á nokkur málefni þar sem þingið hefði beitt sér og mundi gera það áfram á komandi árum. Í fyrsta lagi væru það málefni Kosovo-héraðs og Balkanskaga, í öðru lagi væri það mikilvægi Miðjarðarhafssvæðisins, í þriðja lagi væri það ástand mála í Kákasus og Mið-Asíulýðveldunum og loks samskiptin við Rússland og rússneska þingið. Að auki nefndi hann opinberar heimsóknir forseta NATO-þingsins. Öll þessi málefni væru afar mikilvæg og tilhneigingin væri sú að nefndir NATO-þingsins hefðu metnað til að sinna þessum málaflokkum af mikilli kostgæfni. Oftar en ekki kallaði þetta á mikið álag á fámennt starfslið NATO-þingsins og aukin fjárútlát og sagði Lunn að menn yrðu að átta sig á þessum atriðum áður en málefnanefndirnar – sem hafa samkvæmt þingsköpum frumkvæði að verkefnum – ákveða að takast á hendur ný verkefni. Þá vék Lunn sérstaklega að nýliðinni heimsókn fulltrúa stjórnarnefndarinnar til Kabúl og sagði að mikill árangur hefði náðst í þeirri ferð.
    Eftir erindi Lunns tók forsetinn til máls og þakkaði starfsfólki NATO-þingsins afar góð störf. Hann fór yfir helstu áhersluatriðin í starfi sínu sem forseti og nefndi heimsóknir sínar til Miðausturlanda, Kákasusríkjanna og Bandaríkjanna. Sagði hann að málefni NATO væru í brennidepli nú um stundir og að rödd þingmannasamkundunnar yrði að heyrast á öllum vígstöðvum. Það væri því ekki tilviljun að hann hefði afráðið að vera mikið á faraldsfæti á vegum NATO-þingsins á næstunni.
    Eftir ræðu forsetans var orðið gefið laust. Guðmundur Árni Stefánsson tók þá til máls og sagði að hann styddi fyllilega þau markmið og áætlanir sem forsetinn hefði lagt fram og lagði jafnframt áherslu á að ekki mætti draga úr vægi Miðjarðarhafsnefndarinnar sem skilað hefði miklum árangri undanfarin ár og mikils væri vænst af á næstunni.
    Mikið var rætt um samskipti NATO-þingsins við Rússlandsþing en á undanförnum árum hefur nokkuð verið kvartað yfir skeytingarleysi Rússa á vettvangi NATO auk mikillar andúðar í garð Eystrasaltsríkjanna. Almennt var álitið að mál hefðu þokast í betri átt á síðasta ári, ekki síst vegna íhlutunar forseta NATO-þingsins og framkvæmdastjórans. Auk málefna Rússlands var mikið rætt um hlutverk NATO í Írak, málefni Afganistans og hlutverk NATO- þingsins, auk annarra mála sem borið hafði hátt á vettvangi Atlantshafsbandalagsins. Þá var og nokkur umræða um tiltekin verkefni og ferðir málefnanefndanna og hvaða stefnu þau mál væru að taka. Niðurstaðan af því varð sú að í raun gætu forsetinn og fastanefnd NATO-þingsins ekki komið í veg fyrir að tilteknar nefndir hyggi á ferðir eða fundi í fjarlægum löndum eftir að vinnuáætlanir nefndanna eru samþykktar af stjórnarnefnd ár hvert en hins vegar gæti fastanefndin beint tilmælum til formanna nefndanna um að leita allra leiða til að koma í veg fyrir tvíverknað og óþarfa álag á starfsfólk. Lothar Ibrügger, gjaldkeri þingsins, tók einnig til máls í lok umræðunnar og staðfesti þetta mat forsetans. Að því loknu staðfesti stjórnarnefndin vinnuáætlanir málefnanefndanna fimm.
    Að því búnu var nokkur umræða um verkefni þau sem forseti þingsins, Pierre Lellouche, hefði tekist á hendur og kom fram nokkur gagnrýni á hve margar opinberar ferðir væru fram undan. Lellouche sagðist skilja áhyggjur manna af ferðum og fjárútlátum en ítrekaði jafnframt að franska þingið bæri þungann af kostnaði við þær auk þess sem ferðalög þessi væru ekki að nauðsynjalausu, afar mikilvægt væri t.d. að sinna Miðjarðarhafsríkjunum og þá sér í lagi Miðausturlöndum og arabaheiminum. Það hefði hann gert og hygðist gera það áfram með stuðningi stjórnarnefndarinnar. Þá var einnig vikið að innri málefnum NATO og skýrslu sem bandalagið ynni að um framtíð þess. Voru fulltrúar þingsins á því að NATO-þingið yrði að hafa rödd í því ferli og var forsetanum falið að leita leiða til þess. Þá var og rætt um hvernig NATO-þingið sjálft ætti að fjalla um framtíð bandalagsins og ákveðið að stjórnmálanefndin mundi fjalla um hana í almennri skýrslu aðalskýrsluhöfundar, hollenska þingmannsins Berts Koenders, sem lögð yrði fram á vorþinginu í Ljúblíana og staðfest á ársfundinum í Kaupmannahöfn.
    Því næst voru teknar fyrir umsóknir Norður-Afríkuríkjanna Alsírs og Máritaníu um aukaaðild Miðjarðarhafsríkja að NATO-þinginu. Eftir nokkrar umræður voru umsóknir ríkjanna tveggja samþykktar. Áður hafði Marokkó fengið slíka aðild.
    Næsti dagskrárliður var samskiptin við Hvíta-Rússland. Fyrir fundinum lá bréf frá þingmönnum í Hvíta-Rússlandi þar sem farið var fram á aukin samskipti við NATO-þingið. Forsetinn sagði að jafnvel þótt menn á Vesturlöndum vildu gjarnan sjá pólitískar breytingar í Hvíta-Rússlandi og stuðla að slíkum breytingum væri afar mikilvægt að gera ekkert sem túlkast gæti sem stuðningur við einræðisstjórn Lúkasjénkós forseta. Líflegar umræður urðu um málið og menn almennt á því að það væri vandmeðfarið. Erfitt væri að rétta Hvíta-Rússlandi sáttahönd án þess að það væri mistúlkað af þarlendum stjórnvöldum. Niðurstaðan var sú að forsetinn mundi rita forseta hvítrússneska þingsins bréf þar sem fram kæmi að stjórnarnefndin hefði fjallað um málið en að án áþreifanlegs árangurs hvað lýðræðisumbætur varðaði gæti NATO-þingið ekki breytt afstöðu sinni til þátttöku Hvíta-Rússlands á vettvangi NATO-þingsins. Staðan yrði samt endurmetin að hálfu ári liðnu. Þá var einnig ákveðið að félagsmálanefndin mundi fjalla um Hvíta-Rússland á sérstökum fundi sem haldinn yrði í Vilníus og þangað yrði boðið fulltrúum stjórnar og stjórnarandstöðu Hvíta-Rússlands. Því næst var fjallað um ósk Fyrrverandi Júgóslavíulýðveldisins Makedóníu um að formlegu nafni landsins yrði breytt í Lýðveldið Makedónía í skjölum NATO-þingsins. Nokkrir fulltrúar vildu ganga lengra og verða við ýtrustu kröfum Makedóníubúa, sem um árabil hafa viljað að landið kallaðist Makedónía á alþjóðavettvangi, en í ljósi þess að Grikkir, sem hafa alfarið hafnað þessari kröfu Makedóníubúa, gátu ekki sent fulltrúa sína á fundinn í Reykjavík var ákveðið að hætta við það og fresta málinu til næsta fundar. Eftir stutta umfjöllun um svör framkvæmdastjóra NATO við ályktunum ársfundarins í Feneyjum var vikið að fjármálum NATO-þingsins. Lothar Ibrügger, gjaldkeri þingsins, flutti framsögu og þar kom fram að fjármálin væru í góðu lagi en að með auknum metnaði málefnanefnda þingsins þyrfti skrifstofan í sífellu að beita strangari aðhaldsaðgerðum. Ef framhald yrði á þessu yrðu aðildarríkin að hækka framlög sín. Að þessari umfjöllun lokinni tóku við umræður um fundi sem fram undan væru. Eftir venjubundin stjórnarnefndarstörf var efnt til stuttrar opinnar umræðu.

c.    Vorfundur.
    Dagana 27.–31. maí 2005 var vorfundur NATO-þingsins haldinn í Ljúblíana. Fundinn sóttu af hálfu Íslandsdeildar Guðmundur Árni Stefánsson formaður, Magnús Stefánsson og Kjartan Ólafsson í forföllum Einars Odds Kristjánssonar, auk Andra Lútherssonar, ritara Íslandsdeildar. Guðmundur Árni sat fundi stjórnarnefndar, samstarfsnefndar NATO-þingsins og Rússlandsþings og félagsmálanefndar. Þá tók Magnús Stefánsson þátt í fundum varnar- og öryggismálanefndar og efnahagsnefndar. Kjartan Ólafsson sótti fundi stjórnmálanefndarinnar. Á fundum málefnanefndanna voru ræddar skýrslur og ýmsum ráðamönnum, fræðimönnum og öðrum gestum var boðið að ávarpa fundina.
    Á fundi stjórnmálanefndarinnar voru ræddar skýrslur um hlutverk Atlantshafsbandalagsins í uppbyggingu eftir stríðsátök og öryggis- og varnarmál við Persaflóa. Miklar og líflegar umræður urðu á fundinum, sérstaklega um breytta stöðu NATO og framtíðarhlutverk bandalagsins.
    Í varnar- og öryggismálanefnd voru til umræðu skýrslur um aðgerðir NATO utan hefðbundins athafnasvæðis bandalagsins og um áframhaldandi hlutverk NATO á Balkanskaga. Auk þess var rædd skýrsla um efndir Atlantshafsbandalagsríkjanna með hliðsjón af skuldbindingum þeirra sem kenndar eru við leiðtogafundinn í Prag.
    Í félagsmálanefnd voru til umræðu skýrslur um minnihlutahópa í Suður-Kákasus og óstöðugleika á því svæði og um samskipti NATO og Kasakstans, auk skýrslu um kjarna-, efna- og lífefnavopn og leiðir til að bregðast við hugsanlegum árásum þar sem slík vopn væru notuð. Í lok fundarins var stutt umfjöllun um svör framkvæmdastjóra NATO við ályktunum nefndarinnar í Feneyjum, þar á meðal ályktun Guðmundar Árna Stefánssonar um ólöglega barnasölu.
    Í efnahagsmálanefnd voru til umræðu skýrslur um efnahagsþróunina í Miðausturlöndum og ríkjum Norður-Afríku og um stjórnsýslulegar afleiðingar „áhættusamfélagsins“, auk skýrslu um efnahagsundrið í Kína og áhrif þess á efnahagslíf Atlantshafsríkja.
    Í vísinda- og tækninefnd voru til umræðu skýrslur um öryggi kjarnorkuúrgangs í norðvesturhluta Rússlands, og skýrsla um loftslagsbreytingar við norðurheimskautið og áhrif þeirra á Atlantshafssamfélagið. Þá var enn fremur til umræðu skýrsla um áhrif nanótækni á öryggismál.
    Á vorfundinum var einnig efnt til sjötta fundar samstarfsnefndar NATO-þingsins og rússneska þingsins. Samstarfið á þessum vettvangi er ekki eins náið og í samstarfsnefnd NATO og rússneskra stjórnvalda en þrátt fyrir það hefur verið álitið að nokkur árangur hafi náðst af starfinu, sérstaklega við að auka persónuleg samskipti og traust milli fulltrúa NATO-þingsins og rússneskra starfsbræðra þeirra. Líkt og á undangengnum fundum lá fyrir fundinum skýrsla formanns rússnesku landsdeildarinnar, Lubov Sliska, og fjallaði hún um hlutverk Rússlandsstjórnar við að leysa úr svæðisbundnum ógnum á Suður-Kákasussvæðinu. Að mestum hluta var umræðum varið í að greina frá þróun mála í Nagorno-Karabak, efnahagsframförum í Aserbaídsjan, fyrirætlunum Rússlandshers í herstöðvunum í Georgíu og baráttunni gegn hryðjuverkaöflum í Kákasus. Nokkur skoðanaskipti urðu á fundinum og sem fyrr voru fulltrúar Eystrasaltsríkjanna gagnrýnir á utanríkismálastefnu Rússlandsstjórnar. Þó var það mál manna að fundurinn hefði verið gagnlegur og uppbyggilegur og að samstarfsnefndin væri mikilvægur vettvangur til skoðanaskipta fulltrúa þjóðþinga sem funduðu á jafnræðisgrundvelli.
    Fundur stjórnarnefndarinnar í Ljúblíana var með hefðbundnu sniði. Fyrri hluta fundar stjórnaði einn varaforseta þingsins, Bert Koenders, í fjarveru forsetans franska, Pierre Lellouche. Í upphafi fundar þakkaði Koenders íslensku landsdeildinni fyrir höfðinglegar móttökur á síðasta fundi nefndarinnar í Reykjavík í apríl og sagði fulltrúa NATO-þingsins hlakka einkar mikið til þess að vera við ársfundinn í Reykjavík haustið 2007.
    Fjármál NATO-þingsins voru fyrsti dagskrárliður fundarins. Voru þar kynntar áætlanir um að breyta reikniformúlu sem notuð er til að ákveða fastagjöld aðildarríkjanna og koma mun til framkvæmda árið 2006. Til hliðsjónar hefur verið haft að fastagjöld eigi að endurspegla verga þjóðarframleiðslu ríkjanna betur en þau gera nú. Að öðru leyti kom fram að fjárhagsstaðan væri góð um þessar mundir en að venju fylgdu varnaðarorð um að málefnanefndir ættu ekki að færast of mikið í fang því að því fylgdi mikill ófyrirséður kostnaður og álag á starfsfólk. Nokkur umræða var um breytingar á embætti forseta þingsins, sérstaklega með tilliti til aukins fjölda ferða og verkefna sem hann hefði tekist á hendur. Síðar á fundinum var umræðunni haldið áfram þar sem forsetinn svaraði gagnrýni í sinni garð og minnti á að ferðir sínar væru að mestu greiddar af franska þinginu. Að lokum var ákveðið að verkáætlun forsetans yrði borin undir forsætisnefndina til samþykktar.
    Nokkur umræða varð einnig um niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar í Frakklandi um stjórnarskrá Evrópusambandsins sem var felld. Forsetinn, Pierre Lellouche, hafði verið í París að fylgjast með þjóðaratkvæðagreiðslunni og mætti því seint til fundarins. Var forsetanum mikið niðri fyrir þegar hann sneri frá París og sagði að franska stjórnkerfið hefði orðið fyrir þungu áfalli.
    Næsti dagskrárliður var endurnýjun umboðs varaforseta NATO-þingsins. Formaður ítölsku sendinefndarinnar fór fram á að fundurinn tæki afstöðu til tillagna sinna um að stuðla að aukinni nýliðun í embættum varaforsetanna með því að breyta tímamörkum sem gilda um setu í embættum (forseta, varaforseta, gjaldkera og formanna málefnanefnda) og færa þau til þess að allir sætu jafnlengi í embættum þessum nema gjaldkeri sem situr í sex ár. Miklar umræður urðu um þetta mál og margar skoðanir komu fram. Lellouche taldi að innan stjórnarnefndarinnar væri ekki samstaða og taldi óráðlegt að greiða atkvæði um tillögur Ítalans.
    Næst á dagskrá var beiðni Makedóníubúa um að breyta formlegu nafni landsins í skjölum NATO-þingsins. Umræða um þetta hafði átt sér stað á stjórnarnefndarfundinum í Reykjavík í apríl þar sem ákveðið var að bíða með ákvörðun þar til sjónarmið Grikkja kæmu fram. Grikkir sögðust á fundinum í Ljúblíana andsnúnir því að breyta nafni landsins í skjölum NATO-þingsins og varð niðurstaðan sú að ræða málið aftur á næsta ári.
    Að þessum dagskrárlið loknum voru beiðnir þjóðþinga Jórdaníu og Ísraels um aukaaðild Miðjarðarhafsríkja að NATO-þinginu samþykktar eftir nokkra umræðu. Þá var tekin fyrir ósk þings heimastjórnar Palestínu um áheyrnaraðild og hún samþykkt að loknum miklum umræðum. Einnig var kosið um hvort veita ætti palestínska þinginu aukaaðild en sú tillaga var felld.
    Þá var tekin fyrir og samþykkt beiðni Úkraínumanna um leyfi til að stækka sendinefnd sína. Auk þess var beiðni Evrópuráðsþingsins um formlega stöðu hjá NATO-þinginu til jafns við ÖSE-þingið og VES-þingið samþykkt. Undir þessum dagskrárlið urðu að lokum nokkrar umræður um tillögu forsetans um að auka réttindi fulltrúa Evrópuþingsins á NATO-þinginu.
    Þingfundur NATO-þingsins var haldinn þriðjudaginn 31. maí. Fundinn ávörpuðu Pierre Lellouche, forseti NATO-þingsins, France Cukjati, forseti slóvenska þingsins, Dimitrij Rupel, utanríkisráðherra Slóveníu, Janez Jansa, forsætisráðherra Slóveníu, og Jaap de Hoop Scheffer, framkvæmdastjóri NATO. Fundurinn samþykkti yfirlýsingar um Úsbekistan og Darfúr-hérað og veitti þjóðþingum Alsír, Ísrael, Jórdaníu og Máritaníu Miðjarðarhafsaukaaðild að NATO-þinginu. Þá var samþykkt að veita þingi heimastjórnar Palestínu og Evrópuráðsþinginu áheyrnaraðild að NATO-þinginu.
    Síðari hluti þingfundarins var með óhefðbundnu sniði en þá var efnt til gagnvirkrar kynningar sem nefndist „Black Hawk Down“. Kynningin var sett þannig fram að átt hefði sér stað ímynduð árás hryðjuverkamanna með geislavirkri sprengju á höfuðstöðvar NATO í Brussel. Fundarmenn voru leiddir í gegnum árásina og viðbrögð yfirvalda af færustu sérfræðingum og var fulltrúum NATO-þingsins gefinn kostur á að spyrja spurninga á meðan ferlið átti sér stað. Kynningin tók alls um fjórar klukkustundir og var afar gagnleg og áhugaverð.

d.    Ársfundur.
    Dagana 11.–15. nóvember 2005 var ársfundur NATO-þingsins haldinn í Kaupmannahöfn. Fundinn sóttu af hálfu Íslandsdeildar Össur Skarphéðinsson, formaður, Einar Oddur Kristjánsson og Magnús Stefánsson, auk Belindu Theriault, ritara Íslandsdeildarinnar. Formaður og ritari sóttu fund stjórnarnefndar NATO-þingsins og fund samstarfsnefndar með Rússum. Seta þingmanna í málefnanefndum skiptist þannig að Magnús Stefánsson tók þátt í fundum varnar- og öryggismálanefndar og efnahagsnefndar, Einar Oddur Kristjánsson sótti fundi stjórnmálanefndar og Össur Skarphéðinsson sat fundi félagsmálanefndar og vísinda- og tækninefndar. Formaður og ritari sátu þingfundinn síðasta daginn en aðrir nefndarmenn voru þá farnir heim til skyldustarfa á Alþingi.
    Í stjórnmálanefndinni voru ræddar skýrslur um Atlantshafsbandalagið og öryggismál á Persaflóa og hvernig tryggja eigi hlutverk og þýðingu Atlantshafsbandalagsins. Auk þess var rædd skýrsla um öryggissamvinnu Atlantshafsbandalagsins og Evrópusambandsins.
    Í varnar- og öryggismálanefnd voru ræddar skýrslur um aðgerðir NATO utan varnarsvæðis og áframhaldandi hlutverk Atlantshafsbandalagsins í öryggismálum á Balkanskaga, auk skýrslu um árangur vegna skuldbindinganna frá Prag um hernaðargetu.
    Í félagsmálanefnd voru ræddar skýrslur um NATO og Kasakstan og um leit að efna-, lífefna-, geislunar- og kjarnorkuvopnum þar sem gefið var tæknilegt yfirlit. Auk þess var rædd skýrsla um minnihlutahópa í Suður-Kákasus og þeirri spurningu varpað fram hvort þeir dragi úr stöðugleika. Í umræðum félagsmálanefndar um Kasakstan greindi Össur Skarphéðinsson frá reynslu sinni úr nýlegri ferð þangað á vegum Evrópuráðsþingsins. Hann taldi að þótt Kasakar væru á réttri leið ættu þeir enn langt í land með lýðræðisumbætur. Hann nefndi t.d. ofsóknir gegn stjórnarandstöðuflokkum og tangarhald stjórnarinnar á fjölmiðlum máli sínu til stuðnings.
    Í efnahagsmálanefnd voru ræddar skýrslur um efnahagslegar umbreytingar í Miðausturlöndum og Norður-Afríku og kínverska efnahagsundrið og áhrif þess á efnahag Norður-Atlantshafsríkja. Auk þess var rædd skýrsla um verslun og efnahagslega samvinnu Rússlands og Kína. Í þeirri skýrslu var gefið yfirlit um stöðu, vandamál og væntingar.
    Í vísinda- og tækninefnd voru ræddar skýrslur um öryggi efna til gerðar gereyðingarvopna í Rússlandi og áhrif nanótækni á öryggisþætti. Auk þess var rædd skýrsla um loftslagsbreytingar á norðurslóðum og þau krefjandi verkefni sem þær leiða til fyrir samfélög við Norður- Atlantshaf.
    Nefndirnar fengu til sín fjölmarga sérfræðinga sem fluttu erindi og svöruðu fyrirspurnum. Þar má nefna Martin Perry frá bresku veðurfræðistofunni sem ræddi loftslagsbreytingar, Hikmet Cetin, borgaralegan fulltrúi NATO í Afganistan, sem ræddi um ástand mála þar í landi, Kai Ede sendiherra sem ræddi ástandið í Kosovo, William C. Potter frá Miðstöð rannsókna gegn útbreiðslu kjarnavopna (Center for nonproliferation studies) sem ræddi samninginn gegn útbreiðslu kjarnavopna, Jakob Scharf, aðstoðarlögreglustjóra og yfirmann dönsku lögreglunnar, sem ræddi um verndun borgaranna gegn hryðjuverkum, ráðherrann Giorgi Baramidze, sem ræddi umbætur í Georgíu síðustu tvö ár, og Robert Bell, varaforseta SAIC (Science Applications International Corporation), sem ræddi sameiginlega fjármögnun verkefna NATO. Þessa fyrirlestra eða útdrætti úr þeim er hægt að nálgast á alþjóðasviði.
    Þingfundur var haldinn þriðjudaginn 16. nóvember. Erindi fluttu Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, Recep Tayyip Erdogan, forsætisráðherra Tyrklands, Jan de Hoop Scheffer, framkvæmdastjóri NATO, og Pierre Lellouche, forseti NATO-þingsins. Sjálfkjörið var í öll laus embætti á þinginu.
    Ályktanir sem höfðu verið til umfjöllunar í nefndum þingsins voru teknar til umfjöllunar og afgreiddar. Listi yfir samþykktar ályktanir er fylgiskjal með skýrslu þessari.

e.    „Transatlantic Forum“.
    Dagana 5. og 6. desember 2005 efndi NATO-þingið og Atlantshafsráð Bandaríkjanna, ásamt National Defence University, til fundar um helstu málefni Atlanthafssamstarfsins í Washington D.C. Fundurinn nefndist „Transatlantic Forum“, hann fór fram í húsakynnum National Defence University (NDU) í McNair-virki í Washington og var þetta í fjórða sinn sem slíkur fundur var haldinn. Þátttakendur voru þingmenn nokkurra aðildarríkja og aukaaðildarríkja NATO-þingsins auk embættismanna og sérfræðinga í alþjóðamálum. Fundinn sóttu af hálfu Íslandsdeildar Össur Skarphéðinsson, formaður, auk Belindu Theriault ritara.
    Segja má að megintilgangur „Transatlantic Forum“ sé að gera fulltrúum NATO-þingsins kleift að ræða sameiginleg málefni er varða öryggi og varnir Evrópu og Bandaríkjanna við þá aðila í bandaríska stjórnkerfinu sem næst eru ákvörðunartökuferlinu. Þátttaka hefur verið afar góð á þessum fundum og umræður hreinskiptnar og upplýsandi. Fundurinn var skipulagður á þann hátt að nokkur svið alþjóðamála sem hátt hafði borið á undangengnum missirum voru tekin fyrir. Þar má nefna utanríkismálastefnu Bandaríkjastjórnar, varnarviðbúnað og hernaðargetu, baráttuna gegn hryðjuverkastarfsemi, samstarf NATO og ESB, samstarfsríki NATO, stöðu mála í Afganistan og Írak, kjarnorkuáætlun Írana og samskiptin yfir Atlantshafið. Tilhögun fundanna var sú að bandarískir sérfræðingar héldu framsögur um málefnin og svöruðu svo spurningum þingmanna og annarra þátttakenda á fundinum.
    Á fundinum kom fram ólík afstaða margra evrópskra og bandaríska þingmanna um hvernig beri að heyja baráttuna gegn alþjóðlegri hryðjuverkastarfsemi. Bandarískir þingmenn telja almennt að útbreiðsla lýðræðis í Miðausturlöndum sé ein af helstu forsendum baráttunnar en leggja minni áherslu á áhrif fátæktar og annarra félagslegra þátta en evrópsku þingmennirnir. Þingmenn beggja vegna Atlantsála lögðu þó áherslu á mikilvægi þess að ráðist yrði gegn undirliggjandi ástæðum hryðjuverka þótt lítil samstaða væri um hverjar þær væru. Einnig var rætt um mikilvægi breytinga á heröflum aðildarríkjanna og hlutverk NATO vegna breytinga á áherslum bandalagsins, m.a. vegna baráttunnar gegn hryðjuverkum en einnig vegna viðbragða þess við náttúruhamförum. Fundarmenn ræddu einnig afstöðu Rússlands til ýmissa mála sem vörðuðu hagsmuni NATO og Kína og voru sammála um að bandalagsþjóðunum stæði ógn af Íran.
    Össur Skarphéðinsson, formaður Íslandsdeildarinnar, kvaddi sér hljóðs á fundinum og spurði sérfræðinga sem sátu fyrir svörum m.a. hvort ekki væri þörf á herþotum á Íslandi ef þeirra væri þörf í Bandaríkjunum vegna heimavarna. Össur lagði einnig fram spurningu um áhrif McCain-breytingatillögunnar sem leggur bann við pyntingum allra sem eru í haldi bandarískra hersveita. Auk þess spurði Össur hvernig Bandaríkjastjórn hygðist bregðast við tilraunum Írana til þess að koma sér upp kjarnorkuvopnum.

f.    Nefndarfundir.
    Fulltrúar Íslandsdeildar sóttu einnig nefndarfundi á árinu, m.a. sótti Magnús Stefánsson fundi efnahagsnefndar NATO-þingsins hjá Efnahags- og framfarastofnuninni (OECD) og Guðmundur Árni Stefánsson og Einar Oddur Kristjánsson sóttu fund Miðjarðarhafsnefndar NATO í Jórdaníu.

Alþingi, 14. febr. 2006.



Össur Skarphéðinsson,


form.


Einar Oddur Kristjánsson,


varaform.


Magnús Stefánsson.




Fylgiskjal.


Yfirlýsingar og ályktanir NATO-þingsins árið 2005.



Vorfundur í Ljúblíana, 27. maí–31. maí:
          Yfirlýsing um Úsbekistan.
          Yfirlýsing um ástandið í Darfúr-héraði í Súdan.

Ársfundur í Kaupmannahöfn, 11.–15. nóvember:
          Ályktun nr. 339, um uppbyggingu alþjóðlegra varna gegn fuglaflensu.
          Ályktun nr. 338, um mótun stefnu Atlantshafsríkja gagnvart Kína.
          Ályktun nr. 340, um að koma Doha-áætluninni áleiðis.
          Ályktun nr 344, um öryggi vegna efna í gereyðingarvopn í Rússlandi.
          Ályktun nr. 336, um að draga úr fyrirvörum einstakra ríkja.
          Ályktun nr. 337, um frekari sameiginlega fjármögnun aðgerða Atlantshafsbandalagsins.
          Ályktun nr. 335, um verndun og aðlögun minnihlutahópa sem framlag til stöðugleika í Suður-Kákasus.
          Ályktun nr. 341, um ummyndun og framtíð Atlantshafsbandalagsins.
          Ályktun nr. 342, um Kosovo.
          Ályktun nr. 343, um Hvíta-Rússland.
          Yfirlýsing nr. 346, um þingkosningar í Aserbaídsjan.
          Yfirlýsing nr. 345, um förgun umframvopna og skotfæra í Úkraínu.