Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 586. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 861  —  586. mál.




Skýrsla



Íslandsdeildar VES-þingsins fyrir árið 2005.

1. Inngangur.
    Vestur-Evrópusambandið (VES) er varnarbandalag Vestur-Evrópuríkja og var stofnað með Brussel-sáttmálanum árið 1948. Stofnun Atlantshafsbandalagsins (NATO) árið 1949 skyggði nokkuð á starfsemi VES en með breyttri skipan öryggis- og varnarmála í kjölfar endaloka kalda stríðsins jókst mikilvægi stofnunarinnar til muna. Með Maastricht-sáttmálanum árið 1991 var VES falin útfærsla og framkvæmd varnarmálahluta sameiginlegrar utanríkis- og öryggismálastefnu Evrópusambandsins (ESB). Næstu ár efldist VES verulega og gegndi æ stærra hlutverki í öryggismálum Evrópu. Auk þess sem sambandinu var ætlað að annast framkvæmd á fyrirhuguðum varnarmálahluta ESB átti það að gegna hlutverki Evrópustoðar NATO. Af þessum sökum var litið á VES sem hlekkinn á milli NATO og utanríkis- og varnarmála ESB.
    Frá því á leiðtogafundi Bretlands og Frakklands í St. Malo í desember árið 1998 hefur Evrópusambandið tekið að sér stærra hlutverk á sviði öryggismála álfunnar. Þar var ákveðið að ESB kæmi sér upp sjálfstæðum hernaðarmætti og í framhaldinu var ákveðið á leiðtogafundum ESB í Köln árið 1999 að stefna bæri að því að ESB tæki við flestum verkefnum VES fyrir árslok árið 2000. Nú er svo komið að utanríkismálastjóri ESB gegnir einnig stöðu framkvæmdastjóra VES og í fastaráði VES sitja fulltrúar í stjórnmála- og öryggismálanefnd ESB.
    Árið 2000 staðfestu leiðtogar ESB að NATO yrði áfram grundvöllur sameiginlegra varna ríkja sambandsins, en jafnframt að nauðsynlegt væri að koma á nýjum pólitískum og hernaðarlegum stofnunum er gerðu Evrópuríkjunum kleift að efna til hernaðaraðgerða undir forustu ESB þegar bregðast þyrfti við alþjóðlegum vanda. Samkvæmt ákvörðunum leiðtoga aðildarríkja ESB hefur nauðsynlegum stofnunum þegar verið komið á fót innan „annarrar stoðar“ ESB.
    Þróunin í átt að sjálfstæðum hernaðarmætti ESB hefur gert það að verkum að hlutverk VES í öryggis- og varnarmálum álfunnar hefur minnkað verulega. Jafnframt var í yfirlýsingu leiðtogafundar NATO kveðið á um mikilvægi þátttöku evrópsku NATO-ríkjanna utan ESB í öryggis- og varnarsamstarfi á vegum ESB og að NATO-ríkin utan ESB fengju aðgang að búnaði NATO.

2. VES-þingið.
    VES-þingið var stofnað árið 1954 og kom fyrst saman ári síðar þegar verulegar breytingar voru gerðar á stofnsáttmála VES, m.a. til að veita Ítalíu og Þýskalandi aðild að sambandinu. Á VES-þinginu koma saman alls 370 þjóðkjörnir þingmenn. Stór hluti þeirra, eða 115 þingmenn, er frá stofnaðildarríkjum VES sem eru alls tíu talsins, Belgía, Bretland, Frakkland, Grikkland, Holland, Ítalía, Lúxemborg, Portúgal, Spánn og Þýskaland. Sambandsaðild (e. affiliate member) eiga átta ný ESB-ríki, Pólland, Tékkland, Ungverjaland, Slóvakía, Litháen, Eistland, Lettland og Slóvenía. Aukaaðild (e. associate member) að þinginu eiga þau þrjú evrópsku aðildarríki NATO sem ekki eiga aðild að ESB, þ.e. Ísland, Noregur og Tyrkland. Sambandsaukaaðild (e. affiliate associate member) að VES-þinginu eiga Rúmenía og Búlgaría. Áheyrnaraðild (e. observer countries) eiga þau ESB-ríki sem fylgt hafa hlutleysisstefnu í utanríkismálum, auk Danmerkur. Þá hafa tvö ný ESB-ríki stöðuna sambandsáheyrnaraðili (e. affiliate observer countries), þ.e. Malta og Kýpur. Króatía hefur samstarfssamning (e. affiliate associate partner country) við VES-þingið og fulltrúar þjóðþinga Albaníu, Makedóníu, Bosníu og Hersegóvínu og Serbíu og Svartfjallalands hafa stöðu sérlegra gesta (e. special guests). Loks hafa fulltrúar rússneska þingsins og úkraínska þingsins stöðu fastagesta (e. permanent guests).
    VES-þingið hefur aðsetur í París. Tveir þingfundir eru haldnir árlega, oftast í júní og desember. Hlutverk þingsins er að fjalla um málefni er falla undir starfssvið VES, þ.e. öryggis- og varnarmál álfunnar. Þingið fjallar auk þess um ársskýrslu VES og fjárhagsáætlun. Það fjallar um málefni sem eru efst á baugi í nefndum þingsins, ályktar um skýrslur nefnda, gerir tillögur til ráðherraráðs VES og beinir fyrirspurnum til þess. Skjöl þingsins eru gefin út á ensku og frönsku en umræður fara fram á tungumálum aðildarríkjanna. Málefnanefndir VES- þingsins eru sex: varnarmálanefnd, stjórnmálanefnd, tækni- og geimvísindanefnd, fjármála- og stjórnsýslunefnd, þingskapanefnd og nefnd um almannatengsl. Íslandsdeildin á eitt sæti í hverri nefnd. Á þinginu starfa, auk málefnanefnda, forsætisnefnd (Presidential Committee) og stjórnarnefnd (Standing Committee). Þessar nefndir taka ákvarðanir á milli þinga, sú fyrrnefnda einkum hvað varðar skipulagningu og stjórn þingsins, sú síðarnefnda á pólitíska sviðinu. Venja er að formenn landsdeilda sitji í þessum nefndum. Í forsætisnefnd sitja enn fremur forseti þingsins, tíu varaforsetar þess (einn frá hverju aðildarríkjanna), nefndaformenn og þeir fyrrverandi forsetar þingsins sem enn kunna að eiga þar sæti. Í stjórnarnefnd sitja allt að þrír fulltrúar til viðbótar frá hverju aðildarríki, alls 30 manns til viðbótar við forsætisnefnd. Ísland á einn fulltrúa í hvorri nefnd. Nefndir þingsins halda alla jafna 4–5 fundi á ári utan þingfundanna.
    Starfsemi og umræður á VES-þinginu má greina í þrjá meginflokka. Í fyrsta lagi er þingið vettvangur þingmannavíddar Vestur-Evrópusambandsins og skv. 9. gr. endurskoðaða Brussel-sáttmálans frá 1954 er VES-þingið ráðherraráði VES innan handar og ráðgefandi. VES-þingið hefur eftirlit með framkvæmd sameiginlegra varnarskuldbindinga sem kveðið er á um í 5. gr. sáttmálans. Í 9. gr. sáttmálans kemur fram að „ráðherraráð Vestur-Evrópusambandsins skal birta árlega skýrslu um starfsemi sína [...] til þingmannasamkundu sem samanstendur af fulltrúum aðildarríkja Brussel-sáttmálans [...]“. Starfsemi VES-þingsins er þannig bundin í milliríkjasáttmála og er það því ein þriggja evrópskra þingmannasamkundna sem slíkt á við um. Hinar tvær eru Evrópuráðsþingið og Evrópuþingið. Í öðru lagi hefur VES-þingið haft það hlutverk, í kjölfar yfirtöku Evrópusambandsins á verkefnum VES árið 2000, að vera tímabundið öryggis- og varnarmálaþing Evrópu og vettvangur þinglegrar meðferðar á sameiginlegri stefnu ESB í öryggis- og varnarmálum. Í þriðja lagi hefur VES-þingið eftirlit með milliríkjasamstarfi á sviði hergagnaframleiðslu og rannsókna- og þróunarstarfs í hergögnum sem sinnt er af WEAG og WEAO, tveimur fjölþjóðastofnunum sem starfa undir væng Vestur-Evrópusambandsins.
    VES-þingið hefur verið afgerandi þátttakandi í umræðunni um hvernig staðið verði að evrópsku þingi er hafi öryggis- og varnarmál til umfjöllunar. VES-þingið hefur lagt til að komið verði á fót öryggis- og varnarmálaþingi Evrópu þar sem þjóðkjörnir þingmenn hefðu eftirlit með starfsemi stofnana ESB á sviði öryggis- og varnarmála. Annað væri ótækt þar eð mál er lúti að beitingu herafla og útgjalda til öryggis- og varnarmála væru bundin við þjóðríkin, þau þyrftu að njóta samþykkis þjóðþinga og þar af leiðandi væri það hlutverk fjölþjóðlegrar þingmannasamkundu sem í sætu fulltrúar þjóðþinganna að ræða slík mál.
    Hin sameiginlega öryggis- og varnarmálastefna ESB lýtur ekki stefnu framkvæmdastjórnar bandalagsins sem slíks heldur er um milliríkjamálefni að ræða. Er þetta grundvallaratriði og hafa fulltrúar VES-þingsins því lagt ofuráherslu á að það séu þjóðþing aðildarríkjanna sem hafi eftirlit með þessum málaflokki en ekki Evrópuþingið. Það sé grundvallaratriði að fjölþjóðlegar þingmannasamkundur sem hafa bein tengsl við umbjóðendur, þ.e. kjósendur í aðildarríkjunum, endurspegli mikilvæg milliríkjamálefni. Reynslan af slíkum þingmannasamkundum hafi verið afar farsæl og nægi þar að nefna, auk VES-þingsins, NATO-þingið, Evrópuráðsþingið og þingmannasamkundu Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu.
    Hins vegar er staðan sú að hvorki VES-þinginu né Evrópuþinginu hefur verið gefinn kostur á að tryggja nægilega hið þinglega eftirlit með starfsemi ESB á sviði öryggis- og varnarmála sem getið er um í endurskoðaða Brussel-sáttmálanum. Þar með er talin sú grundvallarskylda ráðherraráðs VES að birta þinginu ársskýrslu um starfsemina og að svara ályktunum þingsins og fyrirspurnum þingmanna.
    Þrátt fyrir umfangsmiklar stofnana- og skipulagsbreytingar í Evrópu á undanförnum árum er VES-þingið enn sem komið er eina evrópska þingmannasamkundan sem gefur þjóðkjörnum þingmönnum færi á að fylgjast með og ræða sameiginleg öryggis- og varnarmál álfunnar. Þingið er vettvangur sem leiðtogar Evrópuríkja nýta til að skýra frá stefnumiðum sínum. Þá viðheldur VES-þingið nánum tengslum við rússnesku dúmuna og býður jafnframt þingmönnum frá Albaníu, Bosníu og Hersegóvínu, Serbíu og Svartfjallalandi, Makedóníu og Úkraínu til funda.
    Á árinu 2005 varð áframhald á lífseigri umræðu um framtíðarhorfur VES-þingsins og um stofnanatengsl Vestur-Evrópusambandsins við Evrópusambandið og Atlantshafsbandalagið en sem kunnugt er hafa miklar og örar breytingar átt sér stað á sviði öryggis- og varnarmála í Evrópu síðustu ár. Þessi umræða varð sérstaklega hávær í tengslum við þjóðaratkvæðagreiðslur Frakka og Hollendinga um nýja stjórnarskrá ESB, sem báðar þjóðirnar höfnuðu. Stjórnarskráin hefði haft þónokkur áhrif á stöðu varnar- og öryggismála innan ESB en samkvæmt stjórnarskrárdrögunum var staða þjóðþinganna veik, t.d. á sviði öryggis- og varnarmála. Eftir að niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslnanna í Frakklandi og Hollandi lá fyrir ákváðu leiðtogar Evrópusambandsins að fresta frekari ákvörðunartöku varðandi stjórnarskrána og taka sér umhugsunartíma um framtíð sambandsins. Austurríkismenn lýstu því yfir við upphaf forsetatíðar sinnar í ESB í ársbyrjun 2006 að þeir hefðu áhuga á að endurvekja stjórnarskrárferlið en lítill áhugi virðist vera á því innan sambandsins.
    Ljóst er að ESB taldi útkomuna vera mikið áfall fyrir pólitíska þróun sambandsins og á fundinum kom glögglega fram að framhaldið væri að mestu óráðið. Á hinn bóginn mátti einnig greina að menn töldu að þessi nýja staða væri til þess fallin að greiða fyrir því að niðurstaða í helstu baráttumálum VES-þingsins undanfarin ár og missiri, þ.e. aukin þátttaka og hlutur þjóðþinga í lýðræðislegu eftirliti með öryggis- og varnarmálastefnu ESB, yrði farsælli en ella.

3.    Íslandsdeild VES-þingsins árið 2005.
    Samkvæmt starfsreglum VES-þingsins (gr. 17.1) á Alþingi í krafti aukaaðildar sinnar rétt á að senda þrjá fulltrúa á fundi VES-þingsins. Aukaaðilar geta samkvæmt núverandi reglum þingsins tekið ríkan þátt í störfum þess og hafa málfrelsi á þingfundum. Þeir njóta þó ekki fullra réttinda og hafa ekki atkvæða- eða tillögurétt á þingfundum. Sú hefð hefur hins vegar skapast að fulltrúar aukaaðildarríkja geta lagt fram tillögur og breytingartillögur í þinginu, að því gefnu að fulltrúar aðildarríkja skrifi einnig undir þær. Fulltrúar aukaaðildarríkja hafa ekki heldur rétt til að tala á móðurmáli sínu á fundum þingsins. Á hinn bóginn hafa aukaaðilar rétt til að taka til máls og greiða atkvæði í nefndum og gera breytingartillögur. Þannig geta aukaaðilar haft áhrif á þær tillögur og skýrslur sem ræddar eru á þingfundum þegar þær eru í mótun. Aukaaðilar geta einnig beint fyrirspurnum til ráðherraráðs.
    Í upphafi árs 2005 voru aðalmenn Íslandsdeildar Bjarni Benediktsson, formaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Guðjón Hjörleifsson, varaformaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks, og Bryndís Hlöðversdóttir, þingflokki Samfylkingarinnar. Varamenn voru Drífa Hjartardóttir, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Guðmundur Hallvarðsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, og Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingflokki Samfylkingarinnar.
    Hinn 3. október 2005 voru eftirfarandi þingmenn kosnir til setu í Íslandsdeild: Guðjón Hjörleifsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Einar Már Sigurðarson, þingflokki Samfylkingarinnar, og Gunnar Örlygsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks. Eftirfarandi þingmenn voru kosnir til vara: Kjartan Ólafsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Björgvin G. Sigurðsson, þingflokki Samfylkingarinnar, og Guðmundur Hallvarðsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks. Á fundi Íslandsdeildar 5. október 2005 var Guðjón Hjörleifsson kjörinn formaður og Gunnar Örlygsson varaformaður. Andri Lúthersson var ritari Íslandsdeildar VES-þingsins til 2. september þegar Stígur Stefánsson tók við starfinu.

4.    Þátttaka Íslandsdeildar í starfsemi VES-þingsins á árinu.
    VES-þingið kemur sem fyrr segir saman tvisvar á ári til reglulegs þingfundar. Nefndir þingsins halda auk þess fundi nokkrum sinnum á ári. Á árinu tók Íslandsdeild þátt í báðum hlutum þingfundarins.

a.    Fyrri hluti 50. fundar VES-þingsins.
    Dagana 6.–8. júní var fyrri hluti 51. fundar VES-þingsins haldinn í París. Fundinn sóttu af hálfu Íslandsdeildar Bjarni Benediktsson formaður, Guðjón Hjörleifsson varaformaður og Þórunn Sveinbjarnardóttir, í fjarveru Bryndísar Hlöðversdóttur, auk Andra Lútherssonar ritara. Umræður um framkvæmd evrópsku öryggismálaáætlunarinnar (e. European Security Strategy), samskipti ESB og ríkja í austurvegi, varnarþætti baráttunnar gegn hryðjuverkastarfsemi, og afstöðu þjóðþinga aðildarríkja Evrópusambandsins til stjórnarskrár ESB voru öðrum málum fyrirferðarmeiri á júnífundinum. Þá er óhætt að segja að umræður um þessi mál og fleiri sem og ávörp tignargesta sem fundinn sóttu hafi tekið mið af tíðindunum af þjóðaratkvæðagreiðslunum í Frakklandi og Hollandi um stjórnarskrá ESB. Ljóst er að ESB taldi útkomuna mikið áfall fyrir pólitíska þróun sambandsins og á fundinum kom glögglega fram að framhaldið væri að mestu óráðið. Á hinn bóginn mátti einnig greina að menn töldu að þessi nýja staða væri til þess fallin að greiða fyrir því að niðurstaða í helstu baráttumálum VES-þingsins undanfarin ár og missiri, þ.e. aukin þátttaka og hlutur þjóðþinga í lýðræðislegu eftirliti með öryggis- og varnarmálastefnu ESB, yrði farsælli en ella.
    Fundurinn hófst á því að forseti VES-þingsins, belgíski þingmaðurinn Stef Goris, ávarpaði þingheim. Í ræðu sinni sagði Goris að nýleg tíðindi frá Frakklandi og Hollandi og ákvörðun þýsku stjórnarinnar um að flýta kosningum hefðu þau áhrif að ESB væri í nokkurri tilvistarkreppu sem gæti veikt Evrópusamvinnuna til lengri tíma litið. Sagði hann að VES-þingið hefði ákveðnar áhyggjur af þessari þróun mála, ekki síst í ljósi aðstæðna og viðvarandi ógna á alþjóðavettvangi. Nefndi hann til að mynda stöðuna í Miðausturlöndum og Darfúr-héraði þessu til stuðnings, auk baráttunnar gegn hryðjuverkum. Sagði hann enn fremur að menn yrðu að fylgjast afar náið með þróuninni næstu missirin og hvaða áhrif hún hefði á framþróun evrópsku öryggis- og varnarmálastefnunnar og verkefni á hennar vegum, sérstaklega með tilliti til þess hver útkoman yrði í sambandi við ákvæði Brussel-sáttmálans um sameiginlegar varnir.
    Luc Frieden, varnarmálaráðherra Lúxemborgar, sem fór með formennsku í ESB fyrri hluta ársins, flutti ávarp á fyrsta degi þingsins og sagði þar m.a. að það væri ábyrgðarlaust af leiðtogum ESB-ríkjanna að hunsa útkomuna úr þjóðaratkvæðagreiðslunum um stjórnarskrána í Frakklandi og Hollandi en að sama skapi væri vandasamt að bregðast við án þess að skaða Evrópusamvinnuna. Það sem Evrópa kallaði eftir á þessum tímapunkti væru betri og fyllri skýringar, aukin samskipti og aukin orðræða um málefni álfunnar milli borgara í ESB-ríkjunum. Menn yrðu að flýta sér hægar en gert hefði verið hingað til og virða skoðanir grasrótarinnar. Hvað öryggismálaþáttinn varðaði væri ljóst að Evrópubúar byggju við sama umhverfi nú og fyrir hálfu ári eða ári síðan. Ógnir á borð við hryðjuverk og gereyðingarvopn væru viðvarandi og aldrei fyrr hefði ytra öryggi verið jafnnátengt innra öryggi ríkja. Ekkert eitt ESB-ríki gæti tekist á við aðsteðjandi ógnir eitt síns liðs og því væri fullljóst að samvinna á þessu sviði mundi síst minnka þrátt fyrir stjórnarskrárkosningarnar. Hins vegar væri það forgangsverkefni hinnar pólitísku forustu ESB að koma verkefnum af hugmyndastigi og til framkvæmda. Þetta hefði verið forgangsmál Lúxemborgar í formennskutíð sinni hjá ESB og slíkt yrði áfram að vera. Þá sagði Frieden frá helstu verkefnum á vegum evrópsku öryggis- og varnarmálastefnunnar síðustu mánuði og nefndi dæmi frá Bosníu og Hersegóvínu, lýðveldinu Kongó og samstarfi ESB og NATO í málefnum Súdans. Að endingu vék ráðherrann að starfi VES-þingsins og sagðist vonast til að hið mikilvæga starf sem þar færi fram yrði Evrópu til heilla hér eftir sem hingað til. Ljóst væri að öryggis- og varnarmálastefna ESB væri innantóm ef hún nyti ekki stuðnings þjóðþinga ESB-ríkjanna.
    Að venju ávörpuðu sérfræðingar og ráðamenn fundinn og svöruðu spurningum þingmanna. Luc Frieden, varnarmálaráðherra og fjármálaráðherra Lúxemborgar, ávarpaði fundinn. Aðrir ræðumenn voru Stjepan Mesic, forseti Króatíu, Yuliya Tymoshenko, forsætisráðherra Úkraínu, og Goshvar Bakhshaliyeva, fyrsti varaforseti þings Aserbaídsjan. Þá flutti John Holmes, sendiherra Bretlands í París, ávarp fyrir hönd Jack Straw, utanríkisráðherra Bretlands, en Bretar fóru með formennsku í ESB síðari hluta ársins 2005. Auk þess ávörpuðu fundinn þeir Francois Roelants du Vivier, formaður utanríkis- og varnarmálanefndar belgíska þingsins, og Frank Asbeck, forstöðumaður gervihnattamiðstöðvar ESB í Torrejón.
    Bjarni Benediktsson, formaður Íslandsdeildar, flutti ræðu í umræðum um skýrslu þýska þingmannsins Berts Höfers um framkvæmd evrópsku öryggis- og varnarmálastefnunnar. Í ræðu sinni rifjaði Bjarni upp atburði síðustu tveggja vikna og hvernig niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar í Frakklandi og Hollandi hefði vakið upp áleitnar spurningar um stöðu Evrópusambandsins og framtíðarþróun þess. Leiðtogar ESB-ríkjanna væru enn að reyna að átta sig á stöðunni. Sagði Bjarni að sannleikurinn væri sá að Evrópusambandið hefði færst of mikið í fang á of skömmum tíma og farið þannig fram úr pólitískum vilja grasrótarinnar, kjósenda í ESB-ríkjunum. Á hinn bóginn væri það bersýnilega jákvætt hve mikinn áhuga Evrópubúar hefðu á málefnum ESB. Það væri því á ábyrgð pólitískra leiðtoga sambandsins að nýta þennan aukna áhuga almennings og haga viðbrögðum ESB til samræmis við almannaviljann. Niðurstaða slíks ferlis yrði mun farsælla Evrópusamband. Bjarni sagði að niðurstöður atkvæðagreiðslnanna hefðu áhrif á alla þætti ESB, þ.m.t. öryggis- og varnarmálaþáttinn og tók undir með skýrsluhöfundi að evrópska öryggisáætlunin væri afar metnaðarfullt skjal. Margt af því sem þar kæmi fram lýsti ríkum vilja ESB til að láta að sér kveða á alþjóðavettvangi og sagðist Bjarni sammála flestum þeim markmiðum og leiðum sem þar væru boðaðar. Hins vegar hefði hann fyrirvara á þeirri tilhneigingu höfunda skjalsins að vega að Atlantshafsbandalaginu. NATO væri og hefði ávallt verið meginvettvangur öryggis- og varnarmálaumræðu ríkja Atlantshafssamfélagsins og á sama tíma og hann fagnaði auknum vilja og metnaði ESB á þessu sviði varaði hann við tilraunum til að veikja NATO. Í lokin ræddi Bjarni um tiltekin efnisatriði skýrslunnar, til að mynda væri nauðsyn á að skilgreina betur hvað höfundar evrópsku öryggismálaáætlunarinnar ættu við með „fyrirbyggjandi aðgerðum“ og einnig að skortur væri á skýrri sýn um hlutverk þjóðþinga í áætluninni. Að lokum beindi Bjarni máli sínu að útbreiðslu gereyðingarvopna sem væri, auk alþjóðlegrar hryðjuverkastarfsemi, mesta ógn samtímans.

b.    Síðari hluti 50. fundar VES-þingsins.
    Dagana 5.–7. desember fór seinni hluti 50. fundar VES-þingsins fram í París. Fundinn sóttu af hálfu Íslandsdeildar Guðjón Hjörleifsson formaður og Einar Már Sigurðarson varaformaður, auk Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur, starfandi ritara.
    Helstu skýrslur sem fyrir þinginu lágu að þessu sinni fjölluðu um lýðræðislegt eftirlit með evrópsku öryggis- og varnarstefnunni, þinglegar umræður og almenningsálit í tengslum við aukna samþættingu Evrópusambandsríkja, friðargæslu í Afríku sunnan Sahara og evrópskan markað fyrir varnarútbúnað. Auk þess var skýrsla um eftirlit á hafsvæðum og strandlengjum Evrópuríkja rædd og farið yfir hvernig hægt væri að auka samstarf Evrópuríkja á því sviði. Auk þess var rædd skýrsla um Althea-verkefni Evrópusambandsins á Balkanskaga. Óvissan í kjölfar þess að Frakkar og Hollendingar höfnuðu stjórnarskrá Evrópusambandsins hafði mikil áhrif á allar umræður á fundinum og var margoft lögð áhersla á að sameiginleg utanríkis- og öryggisstefna sambandsins gæti ýtt ferlinu af stað að nýju auk þess sem áframhaldandi þróun hennar þyrfti ekki að stöðvast þótt ný stjórnarskrá tæki ekki gildi.
    Fundurinn hófst á því að fráfarandi forseti VES-þingsins, belgíski þingmaðurinn Stef Goris, ávarpaði þingheim. Goris kallaði m.a. eftir því að stofnaður yrði í Brussel varanlegur vettvangur fyrir þingmenn á þjóðþingum Evrópusambandsins til að ræða m.a. öryggis- og varnarmál. Goris sagði einnig að þótt öryggis- og varnarmál yrðu færð formlega undir stjórn Evrópusambandsins mundu þingmenn á þjóðþingum aðildarríkjanna samt sem áður vilja koma að þeim málum.
    Günther Platter, varnarmálaráðherra Austurríkis, flutti einnig ávarp á fyrsta degi fundarins en Austurríkismenn tóku við formennsku í ESB um áramótin. Platter lagði höfuðáherslu á að dýpka yrði samvinnu hernaðarlegra og borgaralegra stofnana, sérstaklega í tengslum við viðbrögð við náttúruhamförum. Í þessu sambandi benti hann á að um 600 hermenn hefðu verið sendir til flóðasvæðanna í Suðaustur-Asíu en varla hefði verið tekið eftir þeim vegna skorts á samvinnu Evrópuríkjanna.
    Auk þess flutti sendiherra Breta í París, John Holmes, ræðu fyrir hönd Jack Straw utanríkisráðherra Breta. Í ræðunni var lögð áhersla á útvíkkun öryggis- og varnarstefnu Evrópusambandsins í formennskutíð Breta þrátt fyrir þau vandamál sem upp komu í tengslum við stjórnarskrá ESB. Sveitir á vegum ESB eru nú ekki aðeins að störfum á Balkanskaga heldur einnig í Kongó, á landamærum heimastjórnarsvæðis Palestínumanna og Egyptalands og í Aceh-héraði á Indónesíu.

Alþingi, 21. febr. 2006.



Guðjón Hjörleifsson,


form.


Einar Már Sigurðarson.


Gunnar Örlygsson,


varaform.

Fylgiskjal.


Ályktanir, tilmæli, tilskipanir og ákvarðanir VES-þingsins árið 2005.


Fyrri hluti 50. þingfundar, 6.–8. júní:
     1.      ákvörðun nr. 29, um ákvörðun 27 og tilskipun 120: atkvæðisréttur áheyrnaraðila og aukaaðila í málefnanefndum VES-þingsins,
     2.      tilmæli nr. 759, um framkvæmd evrópsku öryggisáætlunarinnar – svar við ársskýrslu ráðherraráðsins,
     3.      tilmæli nr. 760, um öryggissamstarf ESB og grannríkjanna í austri,
     4.      tilmæli nr. 761, um Evrópsku innkaupaáætlunina (tæknivörur) (ETAP) – svar við ársskýrslu ráðherraráðsins,
     5.      tilmæli nr. 762, um möguleika Evrópuríkja til hagnýtingar miðlægra gagnaneta,
     6.      tilmæli nr. 763, um varnarþætti baráttunnar gegn alþjóðlegri hryðjuverkastarfsemi,
     7.      ályktun nr. 126, um þróun alþjóðlegs þingmannasamstarfs við ríki Balkanskaga,
     8.      tilmæli nr. 764, um þróun á sviði öryggis- og varnarmálastefnu ESB og höfuðmarkmið 2010 – svar við ársskýrslu ráðherraráðsins,
     9.      tilmæli nr. 765, um þróunina í Stór-Miðausturlöndum,
     10.      tilmæli nr. 766, um afvopnunaráætlanir og hömlur gegn útbreiðslu gereyðingarvopna og notkun gervitungla í þeim tilgangi.

Síðari hluti 50. þingfundar, 5.–7. desember:
     1.      ályktun nr. 127, um þinglegar umræður og almenningsálit um Evrópusamruna,
     2.      tilmæli nr. 767, um framhald á evrópsku öryggis- og varnarstefnunni,
     3.      tilmæli nr. 768, um friðargæslu í Afríku sunnan Sahara,
     4.      tilmæli nr. 769, um evrópskan vopnamarkað,
     5.      tilmæli nr. 770, um framtíð evrópsks iðnaðar sem tengist vörnum á sjó,
     6.      tilmæli nr. 771, um eftirlit með hafsvæðum og strandlengjum Evrópu,
     7.      tilskipun nr. 121, um þjóðþing og Althea-verkefnið,
     8.      ályktun nr. 128, um þjóðþing og Althea-verkefnið,
     9.      tilmæli nr. 774, um samvinnu í aðgerðum á milli Evrópusambandsins og NATO,
     10.      tilmæli nr. 775, um baráttuna gegn alþjóðlegri hryðjuverkastarfsemi og verkefni henni tengd fyrir Evrópu.