Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 588. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 863  —  588. mál.




Skýrsla



Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins fyrir árið 2005.

1.     Inngangur.
    Evrópuráðsþingið er vettvangur fulltrúa þjóðþinga 46 aðildarríkja Evrópuráðsins og gegnir veigamiklu hlutverki í starfsemi þess, enda hugmyndabanki stofnunarinnar. Á þinginu sitja 315 fulltrúar og jafnmargir til vara. Ólíkt ráðherranefndinni, þar sem hvert ríki hefur eitt atkvæði, fer fjöldi fulltrúa á þinginu eftir stærð þjóðar. Þingið starfar í tíu málefnanefndum og 24 undirnefndum þeirra. Þá sitja forseti, 20 varaforsetar og fimm formenn flokkahópa í forsætisnefnd þingsins, sem hefur umsjón með innri málefnum þess, og sami hópur skipar stjórnarnefnd ásamt formönnum landsdeilda. Loks starfa á þinginu sex flokkahópar. Þingið kemur saman ársfjórðungslega, að jafnaði í lok janúar, apríl, júní og september. Mikilvægi þingsins felst einkum í því að:
          eiga frumkvæði að aðgerðum og beina tillögum til ráðherranefndarinnar,
          hafa eftirlit með efndum fjölþjóðlegra skuldbindinga og þrýsta á um skjótar aðgerðir og
          vera samráðsvettvangur þingmanna aðildarríkjanna og efla þannig tengsl þjóðþinga.
    Hlutverk Evrópuráðsins er að standa vörð um hugsjónir aðildarríkjanna um mannréttindi og lýðræði og stuðla að efnahagslegum og félagslegum framförum í öllum aðildarríkjum. Til þess beitir ráðið sér fyrir samningu og samþykkt bindandi fjölþjóðasáttmála. Ályktanir Evrópuráðsins og fjölþjóðasáttmálar sem þar eru samþykktir hafa haft víðtæk áhrif í álfunni allri. Fjölmargir sáttmálar ráðsins á ýmsum sviðum þjóðlífsins eru mikilvægar mælistikur fyrir þjóðir sem eru að koma á lýðræði og réttarríki, en mælistikur Evrópuráðsins gilda einnig fyrir aðrar fjölþjóðastofnanir og -samtök. Þar ber að sjálfsögðu hæst mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.
    Á þingfundum eru skýrslur málefnanefnda ræddar og ályktað á grundvelli þeirra. Ályktunum, tilmælum eða áliti er því næst vísað til ráðherranefndarinnar sem fjallar um þær og framkvæmir til samræmis við þær ef þurfa þykir, annaðhvort með beinum aðgerðum eða lagasetningu í þjóðþingum. Evrópuráðsþingið á því oft frumkvæði að samningu fjölþjóðlegra sáttmála sem eru lagalega bindandi fyrir aðildarríkin. Þá er Evrópuráðsþingið umræðuvettvangur fyrir stjórnmál, efnahagsmál, félagsmál, mannréttindamál, umhverfismál, menningar- og menntamál, og eina samevrópska fjölþjóðastofnunin þar sem þingmenn Vestur-, Mið- og Austur-Evrópu starfa saman á jafnréttisgrundvelli. Ólíkt Evrópuþinginu eru fulltrúar á Evrópuráðsþinginu þjóðkjörnir þingmenn og hafa störf þingsins því beina skírskotun til starfa þjóðþinganna sjálfra. Þingfundir Evrópuráðsþingsins, þar sem menn starfa saman á jafnræðisgrundvelli, bera saman bækur sínar og skiptast á hugmyndum, eru því afar mikilvægir. Hefur þetta farsæla samstarf hraðað mjög þeirri öru lýðræðisþróun sem orðið hefur í Mið- og Austur-Evrópu á undangengnum árum. Þá hefur reynslan sýnt að þjóðir sem hafa skýr markmið í störfum sínum innan þingsins og kappkosta við að ná þeim geta haft áhrif langt umfram stærð og pólitískt bolmagn. Sú staðreynd varpar skýru ljósi á mikilvægi, og ekki síður möguleika, Evrópuráðsþingsins fyrir íslenska hagsmuni, ekki síst í ljósi þess að Evrópuráðið og þingmannasamkunda þess er eina samevrópska fjölþjóðastofnunin þar sem Ísland nýtur fullrar aðildar.

2.    Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins.
    Fram til 1. október 2005 voru aðalmenn Íslandsdeildar Sólveig Pétursdóttir, formaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Siv Friðleifsdóttir, varaformaður, þingflokki Framsóknarflokks, og Össur Skarphéðinsson, þingflokki Samfylkingarinnar. Varamenn voru Birgir Ármannsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Birkir J. Jónsson, þingflokki Framsóknarflokks, og Margrét Frímannsdóttir, þingflokki Samfylkingarinnar. Í upphafi 132. löggjafarþings var kjörin ný Íslandsdeild. Þar voru aðalmenn Birgir Ármannsson, formaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Siv Friðleifsdóttir, varaformaður, þingflokki Framsóknarflokks, og Margrét Frímannsdóttir, þingflokki Samfylkingarinnar. Varamenn voru Einar Oddur Kristjánsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Birkir J. Jónsson, þingflokki Framsóknarflokks, og Guðrún Ögmundsdóttir, þingflokki Samfylkingarinnar.
    Ritari Íslandsdeildar var Andri Lúthersson, en 1. september 2005 tók Arna Gerður Bang alþjóðaritari við því starfi. Utan hefðbundinna funda Evrópuráðsþingsins sjálfs hélt Íslandsdeildin einn fund.

3.    Þingfundur Evrópuráðsþingsins 2005.
a.    Fyrsti hluti þingsins.
    Dagana 24.–28. janúar fór fyrsti hluti þingfundar Evrópuráðsþingsins árið 2005 fram í Strassborg. Fundinn sóttu af hálfu Íslandsdeildar Sólveig Pétursdóttir formaður, Siv Friðleifsdóttir varaformaður og Margrét Frímannsdóttir, auk Andra Lútherssonar ritara. Þess má geta að þetta var í annað sinn í röð sem Íslandsdeildin var eina landsdeildin á þingfundinum sem eingöngu var skipuð konum. Nýr forseti Evrópuráðsþingsins var kjörinn á þingfundinum og var René van der Linden, formaður flokkahóps kristilegra hægrimanna, einn í framboði, en eins og kunnugt er hafa gilt óskrifaðar heiðursmannareglur um að forsetaembættið fari frá einum flokkahópi til annars. Er kjörtímabilið eitt ár og getur forsetinn verið endurkjörinn tvisvar sinnum. Í setningarræðu sinni sagði van der Linden að hann vonaðist til að geta lagt sitt af mörkum til að bæta samskipti Evrópusambandsins og Evrópuráðsins og að hvetja ESB til að nýta betur sérfræðiþekkingu og starfsstöðvar Evrópuráðsins í þeim málaflokkum sem ráðið hefur skapað sér mikla sérstöðu í. Þá hvatti hann ESB til að gerast fullur aðili að mannréttindasáttmála Evrópu með það að markmiði að í Evrópu verði eitt samræmt lagaumhverfi. Þá varaði hann við aukinni andstöðu meðal Evrópuþjóða gegn innflytjendum og aukinni kynþáttahyggju sem vart hefði orðið á umliðnum árum og sagði að Evrópuráðið væri rétti vettvangurinn til að takast á við slík vandamál. Þá vék van der Linden einnig að leiðtogafundi Evrópuráðsins og sagðist binda miklar vonir við að hann yrði mikill aflvaki í starfsemi ráðsins. Góður rómur var gerður að ræðu forsetans nýkjörna. Í upphafi þingfundar minntust þingmenn fórnarlamba flóðahamfaranna í Asíu í desember með einnar mínútu þögn. Af helstu málum sem rædd voru á þinginu að þessu sinni má nefna umræðuna um sambúð Evrópu og Bandaríkjanna, flóðahamfarirnar í Asíu og framlag Evrópuráðsríkja til uppbyggingar eftir hörmungarnar, friðarhorfur í Miðausturlöndum, og drög að sáttmála um varnir gegn hryðjuverkum.
    Einna hæst bar þó opinbera heimsókn nýkjörins Úkraínuforseta, Viktors Júsjenkós, til Strassborgar en hann ávarpaði þingið þriðjudaginn 25. janúar og var þann dag appelsínuguli liturinn ríkjandi í og við Evrópuráðshöllina. Í ávarpi sínu sagði Júsjenkó að ekki yrði aftur snúið frá því lýðræðisferli sem hefði hafist í Úkraníu um jólahátíðina. „Oraníubyltingin“ í Úkraínu tókst vegna þess að evrópsk gildi um lýðræði, réttarríkið og mannréttindi höfðu náð fótfestu í landinu og þakkaði hann Evrópuráðinu sérstaklega fyrir ríkulegt framlag sitt til lýðræðisþróunar í Úkraínu. Greinilegt var af ræðu forsetans að aðild að ESB væri höfuðmarkmið nýrra stjórnvalda en þó tók forsetinn skýrt fram að af aðild yrði ekki fyrr en Úkraínumenn hefðu gert hreint fyrir sínum dyrum. Sagði hann jafnframt að Úkraínumenn vildu traust og trúnað í samskiptum sínum við Rússa og koma á gagnkvæmum samningum á milli þjóðanna. Það væri alveg ljóst að Úkraína yrði að útkljá öll mál sín við Rússa áður en að af aðild að ESB yrði. Í hagrænu tilliti sagði Júsjenkó að í augum Evrópubúa hefði Úkraína verið eins og sofandi fíll en fullyrti að eftir nokkur ár yrði komið á fullkomið nútímahagkerfi í landinu. Sagði hann að ríkisstjórnin væri búin að semja framkvæmdaáætlun sem þegar væri farið starfa eftir og samkvæmt henni yrðu Úkraínumenn aðilar að Alþjóðaviðskiptastofnuninni í lok þessa árs. Júsjenkó var óvæginn í garð fyrrverandi stjórnvalda og gagnrýndi framgöngu þeirra harkalega og var honum tíðrætt um gildi mannréttinda. Sagðist hann túlka sigur sinn sem sigur lýðræðisins og ætlaði hann sér að sameina þjóðina og tryggja framgang lýðræðis og mannréttinda í landinu, en bað jafnframt um aðstoð Evrópuráðsins við að byggja upp sams konar löggjöf í Úkraínu og tíðkast í Vestur-Evrópu.
    Ekki minni athygli vakti ræða Mikheils Saakashvilis, forseta Georgíu, sem hafði, líkt og Júsjenkó, ávarpað Evrópuráðsþingið skömmu eftir að hann tók við völdum eftir rósabyltinguna í Georgíu 2003. Forsetinn hóf mál sitt á því að þakka Evrópuráðsþinginu fyrir mikilvægt framlag sitt til að efla lýðræðisþróun í Georgíu og skuldbindingar sínar á mannréttindasviðinu. Sagði hann að jafnvel þegar grundvallarmannréttindum hefði verið ógnað í landinu hefði Evrópuráðsþingið aldrei hvikað í viðleitni sinni heldur komið fram við Georgíubúa á jafningjagrundvelli og haft þá skýru sýn að upp rynni dagur sem öllu mundi breyta. Georgía væri nú jafningi á meðal bræðraþjóða í Evrópu. Saakashvili sagði að Georgía væri nú land örra breytinga og þjóðin yrði að meta styrk sinn og veikleika með raunsæjum hætti. Í því fælist meðal annars að taka yrði á ýmsum þáttum sem gætu talist vera pólitískt viðkvæmir. Sagði hann að sömu aðilar og léðu rósabyltingunni mátt sinn og megin kölluðu nú á skjótan árangur – og fullljóst var af máli forsetans að hveitibrauðsdagar nýrra stjórnvalda eru að baki. Í ræðunni sagði forsetinn að það væri ekki markmið sitt að lofsama nýfengið lýðræði í Georgíu heldur frekar að upplýsa Evrópuráðsþingið um að vegferð landsins væri í átt að stöðugleika og lýðræði að vestur-evrópskri fyrirmynd og að ekki væri hægt að snúa af þeirri leið. Saakashvili notaði ræðu sína á Evrópuráðsþinginu til að ýta úr vör nýrri áætlun um frið. Sagði hann að þjóðarsál Georgíu væri sprottin úr lýðræði og að rósabyltingin hefði í raun verið tímabær áminning um þá ríku lýðræðishefð. Af þessum ástæðum hefði svo mikill árangur náðst á því eina ári sem liðið væri frá stjórnarskiptunum. Nefndi hann að barist hefði verið gegn útbreiddri spillingu innan lögreglunnar, peningaþvætti stöðvað og komið í veg fyrir að trúarhópar sættu áreitni. Þá sagði hann að frá því að nýja stjórnin tók við hefðu fjárlög ríkisins þrefaldast, ellilífeyrir verið tvöfaldaður og grynnkað á skuldum ríkisins. Þá hefðu stjórnvöld beitt sér fyrir opnun almannafjölmiðla og væri Georgía fyrsta landið í þeim hluta Evrópu sem svo hefði gert, auk þess sem ríkið væri nú að efla innviði landsins, vegi og annað. Þá vék Saakashvili að átökum og blóðsúthellingum þeim sem litað hefðu georgíska sögu. Sagði hann að þjóðin hefði þjáðst mikið og að átökin sem á tíðum hefðu sundrað landinu skildu eftir sig djúp sár. Sagði hann að það hryggði sig ákaflega að horfa upp á aðstæður fólksins í Suður-Ossetíu og Abkasíu. Sumir töluðu um þau átök sem „frosnar deilur“ en sú skilgreining kæmi hins vegar ekki til skila áþján og hungri fólksins sem þar býr. Fyrir ári hefði hann heitið því að sameina Georgíu alla og fyrsti liður í þeirri áætlun væri að gera Georgíu að ríki sem einkenndist af góðri stjórnsýslu og gagnsæi. Gæti hann nú fullyrt að allnokkur árangur hefði náðst. Nú yrði að beina kröftum að því að koma á varanlegum friði í Suður-Ossetíu sem væri í raun lítið en afar mikilvægt svæði sem hefði verið í gleymsku allt of lengi. Georgísk stjórnvöld hefðu nú ákveðið að hrinda í framkvæmd áætlun um frið í Suður-Ossetíu sem grundvallaðist á því að þjóðin hlyti sjálfsákvörðunarrétt. Í því fælist að Suður-Ossetar öðluðust rétt til að kjósa héraðsstjórnir með beinum hætti, þ.m.t. framkvæmdarvald og löggjafarþing, sem ákvarðaði um alla mikilvæga málaflokka, menningarmál, félagsmál, hagstjórn o.s.frv. Og Suður-Ossetum bæri stjórnarskrárbundinn réttur til að hafa fulltrúa sína í stjórn Georgíu, hvað varðaði dómskerfið, stjórnlagakerfið og á georgíska þinginu. Georgía yrði að vera öflug og sameinuð og það þýddi að allir sætu við sama borð. Það yrði tryggt með grundvallarréttindum Suður-Ossetum til handa – rétti þeirra til að tala sitt tungumál og hafa eigin menntastefnu. Sagði forsetinn að Suður-Ossetar hefðu sögulegan rétt til hagsældar og stöðugleika sem nú þegar ríkti í Georgíu og útlistaði þær aðgerðir sem Georgíustjórn hygðist hrinda í framkvæmd á næstu þremur árum, fyrsta áfanga friðaráætlunarinnar. Samkvæmt þeirri áætlun ætti Evrópuráðið að vera vettvangur hins formlega friðarferlis. Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (ÖSE) ætti að hafa eftirlit með friðarferlinu, Evrópusambandið mundi tryggja friðinn og Bandaríkin mundu styðja friðarferlið. Sagðist hann jafnframt vilja bjóða Rússum að verða uppbyggilegur bandamaður í þessu friðarferli.
    Í fyrirspurnatíma forsetans spurðu rússneskir þingmenn hann frekar um friðaráætlun Georgíumanna og hlutverk rússneskra stjórnvalda í því. Sagði hann að það væri hreinlega skylda hlutaðeigandi aðila að beita sér fyrir því að markmið friðarferlisins næðust. Ítrekaði hann að hann sæi fyrir sér að Rússar yrðu hlutlausir aðilar að friðarferlinu og hvatti þá til að koma til móts við Georgíustjórn í þessu máli. Jafnframt sagði hann að svo virtist vera sem Rússlandsstjórn væri enn að nýta allar leiðir til að halda ítökum sínum í Suður-Ossetíu, m.a. með því að búa svo um hnútana að háttsettir menn úr löggæslu og her væru skipaðir í valdamiklar stöður í Suður-Ossetíu og einnig með útgáfu vegabréfa til Suður-Osseta sem þeir síðan skilgreindu sem rússneska þegna. Þetta væri afar miður en samt sem áður hefði hann trú á að Georgíumenn og Rússar næðu að yfirvinna þessa örðugleika. Sagði hann að Georgía væri ekki lengur lítið hérað sem lægi í skugga Rússlands. Georgía væri fullgilt evrópskt þjóðríki sem bæði Rússa um að verða bandamaður sinn.
    Fundinn ávörpuðu eftirtaldir: Alcee L. Hastings, forseti ÖSE-þingsins; Claude Frey, formaður framkvæmdaráðs Norður-Suður-miðstöðvarinnar; Viktor Júsjenkó, forseti Úkraínu; Marek Antoni Nowicki, frá embætti umboðsmanns í Kosovo-héraði; Mikheil Saakashvili, forseti Georgíu; Jan Truszczynski, utanríkisráðherra Póllands, sem fer með formennsku í ráðherraráði Evrópuráðsins; Michel Barnier, utanríkisráðherra Frakklands; Terry Davis, framkvæmdastjóri Evrópuráðsins; og Yvette Stevens, forstöðumaður mannúðarskrifstofu Sameinuðu þjóðanna (OCHA).

b.    Annar hluti þingsins.
    Dagana 25.–29. apríl fór vorfundur Evrópuráðsþingsins fram í Strassborg. Fundinn sóttu af hálfu Íslandsdeildar Sólveig Pétursdóttir formaður, Birkir J. Jónsson, og Margrét Frímannsdóttir, auk Andra Lútherssonar ritara. Að venju voru fjölmörg áhugaverð mál til umræðu og af þeim má nefna skýrslu breska þingmannsins Kevins McNamara um aðstæður fanga Bandaríkjastjórnar í Guantanamó-herstöðinni. Í skýrslunni, sem samþykkt var nær einróma á þinginu, var Bandaríkjastjórn gagnrýnd harðlega fyrir meðferð á föngum sem haldið hefði verið um árabil í herstöðinni þrátt fyrir talsverða gagnrýni víða á alþjóðavettvangi. Í texta skýrslunnar sagði að Bandaríkjamenn hefðu farið á svig við eigin skuldbindingar á sviði mannréttinda og að Evrópuráðið liti slíkt alvarlegum augum. Voru bandarísk stjórnvöld jafnframt hvött til að tryggja mannréttindi fanganna í Guantanamó og bæta aðstæður þeirra. Þá hvatti þingheimur til þess að lagaleg staða fanganna yrði skilgreind hið fyrsta, meðal annars með hliðsjón af Genfarsáttmálunum sem Bandaríkin væru aðilar að.
    Annað mál sem vakti óskoraða athygli á þinginu var skýrsla svissneska þingmannsins Dicks Marty um líknardráp. Er um afar umdeilt mál að ræða og til marks um það hefur skýrslan verið í meðförum Evrópuráðsþingsins á þriðja ár en verið tvívegis dregin til baka áður en hún var lögð fram á þingfundi til afgreiðslu. Þá hefur umræðu um málið verið frestað tvívegis. Að þessu sinni hafði skýrslu Svisslendingsins verið breytt á þann veg að þingmenn Evrópuráðsins mátu hana þingtæka og eftir langar og miklar umræður voru ályktunardrögin felld í atkvæðagreiðslu. Athygli vakti hins vegar að flestallar þeirra u.þ.b. 60 breytingartillagna sem fram höfðu verið lagðar voru samþykktar áður en ályktunin sjálf var felld. Meginatriði ályktunarinnar voru þau að skýrsluhöfundur leitaðist við að skilgreina þær aðstæður og þær forsendur sem þurfi til að líknardráp teljist lögmætt og hvatti til þess að Evrópuráðsríki legðu fram skýra stefnu í þeim málum. Voru dæmi rakin í skýrslunni um hvernig þessum málum væri háttað í tilteknum aðildarríkjum Evrópuráðsins, þar á meðal Hollandi og Sviss. Þá hvatti skýrsluhöfundur til þess að réttindi sjúklinga yrðu skýrt skilgreind sem og réttindi og skyldur lækna og hjúkrunarstarfsfólks. Í skýrslunni var lögð áhersla á að í aðildarríkjum Evrópuráðsins færi fram opin umræða um þennan mikilvæga en jafnframt viðkvæma málaflokk og að sú umræða tæki mark af menningarbundnum og trúarlegum aðstæðum þjóða og þjóðarbrota. Segja má að umræðan um líknardráp hafi snert fulltrúa á Evrópuráðsþinginu afar djúpt, óháð flokkspólitískum áherslum, sem alla jafna ráða mestu um pólitískar umræður á þinginu.
    Nokkuð var rætt um þriðja leiðtogafund Evrópuráðsins sem haldinn var 16.–17. maí. Fundurinn var í Varsjá en Pólverjar fóru með formennsku í Evrópuráðinu fyrri part ársins. Á fundinum var rætt um hvernig skilgreina bæri framtíðarhlutverk Evrópuráðsins í hinni fjölskrúðugu stofnanaflóru Evrópu. Lögð var áhersla á að skýra hlutverk og starfssvið Evrópuráðsins í samhengi við t.a.m. Evrópusambandið og Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (ÖSE). Þá undirrituðu þjóðarleiðtogar Evrópuráðsríkjanna þrjá nýja sáttmála um peningaþvætti, mansal og baráttu gegn hryðjuverkum.
    Málefni er standa Íslendingum afar nærri voru tekin til umræðu á vorþinginu. Þriðjudaginn 26. apríl voru til umræðu skýrslur um orkumál og endurnýjanlega orkugjafa. Var greinilegt að afar mikill áhugi er á þessum málaflokki sem vaxið hefur mjög í alþjóðlegri umræðu undanfarin ár og missiri. Sólveig Pétursdóttir, formaður Íslandsdeildar, tók þátt í umræðunum og sagði í innleggi sínu að ábyrg nýting auðlinda væri forsenda hagsældar, velferðar og öryggis. Þá kom fram að umræðan um endurnýjanlega orkugjafa hefði farið hátt á undanförnum missirum og umhverfisvitund fólks í Evrópu sem og annars staðar væri að aukast. Hvað aðildarríki Evrópuráðsins varðaði væri hins vegar fullljóst að þjóðir væru í mismunandi aðstöðu þegar kæmi að endurnýjanlegum orkugjöfum. Á hitt bæri þó að líta að flest ríki hefðu ákveðna möguleika til að nýta mun betur þá kosti sem þeim stæðu til boða og hvetja ætti þau til þeirra verka. Var þá vikið að aðstæðum á Íslandi og þeim árangri sem náðst hefði hér. Ísland væri afar ríkt af endurnýjanlegum orkugjöfum og stefna stjórnvalda hefði um áratugabil verið að nýta endurnýtanlega orkugjafa. Væri nú svo komið að yfir 70% af orku sem framleidd væri í landinu væri endurnýjanleg, sem væri einstakt í veröldinni. Til samanburðar væri hlutfall endurnýtanlegra orkugjafa í Evrópusambandsríkjunum 25 aðeins rúmlega 10% af heildarorkuframleiðslu árið 2002. Þá var einnig sagt frá frumkvæði Íslendinga og samstarfsaðila þeirra á sviði vetnisframleiðslu. Í vetnissamfélagi framtíðarinnar lægju miklir möguleikar til hagsbóta fyrir komandi kynslóðir. Árangur Íslands væri til marks um að allar þjóðir, stórar sem smáar, gætu lagt sitt af mörkum til að leysa úr aðsteðjandi vanda á sviði orkumála, með samstarfi aðila á sviði vísinda, viðskipta og stjórnmála.
    Sólveig Pétursdóttir tók einnig þátt í umræðum um kjarnorkuáætlanir Írana og viðbrögð alþjóðasamfélagsins. Í ræðunni sagði Sólveig að útbreiðsla gereyðingarvopna ásamt alþjóðlegri hryðjuverkastarfsemi væri einhver mesta ógnin sem að alþjóðasamfélaginu stafaði um þessar mundir. Stjórnvöld í Íran hefðu sýnt það á undanförnum árum að þau hikuðu ekki við að fara á svig við alþjóðlegar skuldbindingar sínar á sviði kjarnorkumála og hefðu, ásamt Norður-Kóreu, valdið miklum áhyggjum á alþjóðavettvangi. Sagði Sólveig að saga alþjóðasamskipta síðustu ára og missira ætti að sýna fram á að sókn ríkja í gereyðingarvopn væri þeim síst til framdráttar. Í ræðunni fagnaði Sólveig tilraunum Frakklands, Þýskalands og Bretlands til að fá Írani að samningaborðinu og jafnframt ákvörðun Bandaríkjastjórnar um að styðja frumkvæðið. Sagði Sólveig menn vonast til að Íranir bættu ráð sitt. Hins vegar væri rétt að minna á að utanríkisstefna klerkastjórnarinnar í Teheran væri í algerri andstöðu við Evró-Atlantshafsríki og að hún hefði til þessa notað vægast sagt misjafnar aðferðir til að verja málstað sinn. Minnti hún og á að Íranir hefðu lengi leitast við að valda óstöðugleika í mörgum ríkjum Miðausturlanda og að stjórnvöld í Íran styddu leynt og ljóst hryðjuverk sem spilltu fyrir friðarferlinu fyrir botni Miðjarðarhafs.
    Sólveig sagði að um þessar mundir virtist hins vegar vera tækifæri til að ná samkomulagi við Írani. Stjórnmálaástandið í landinu og efnahagslífið væri með þeim hætti að tækifæri til samninga gætu verið í sjónmáli. Vesturlönd ættu að einbeita sér að því að nota efnahagsmátt sinn til að styðja við bakið á umbótaöflum í Íran. Þannig gætu aukin viðskipti og erlendar fjárfestingar, sem eru af afar skornum skammti, dregið úr sókn Írana í gereyðingarvopn. Á sama tíma yrði alþjóðasamfélagið að viðhalda pólitískum þrýstingi sínum á stjórnvöld í Íran.
    Fundinn ávörpuðu eftirtaldir: Svetozar Marovic, forseti Serbíu og Svartfjallalands; Claude Mandil, framkvæmdastjóri Alþjóðaorkumálastofnunarinnar (IEA); Jean-Claude Juncker, forsætisráðherra Lúxemborgar, sem fór með formennsku í ráðherraráði ESB fyrri hluta ársins 2005; Adam Daniel Rotfield, utanríkisráðherra Póllands, sem fór með formennsku í ráðherraráði Evrópuráðsins fyrri hluta ársins 2005; og Terry Davis, framkvæmdastjóri Evrópuráðsins.

c.    Þriðji hluti þingsins.
    Dagana 20.–24. júní fór sumarfundur Evrópuráðsþingsins fram í Strassborg. Sóttu hann af hálfu Íslandsdeildar Sólveig Pétursdóttir, formaður, Össur Skarphéðinsson og Siv Friðleifsdóttir, auk Belindu Theriault, starfandi ritara.
    Sólveig Pétursdóttur átti fund með mannréttindafulltrúa Evrópuráðsins, Alvaro Gil-Robles, í tilefni af heimsókn hans til Íslands síðar um sumarið, þar sem hann kynnti sér stöðu mannréttindamála á Íslandi. Í kjölfar heimsóknarinnar skrifaði hann skýrslu um Ísland. Rætt var um heimsóknina og dagskrá hennar og fékk Gil-Robles ábendingar hjá formanni Íslandsdeildar um hugsanlega viðmælendur og málefni sem vert væri að kynna sér. Ræddu þau m.a. um stöðu jafnréttismála, heimilisofbeldi, mansal, stöðu flóttamanna og fangelsismál. Þá var rætt almennt um starf mannréttindafulltrúans og taldi Sólveig nauðsynlegt að auka sýnileika hans á Evrópuráðsþinginu. Fjallað er um heimsóknina í lok þessarar skýrslu.
    Fjölmörg áhugaverð mál voru til umræðu á júnífundinum, en stærsta málið var skýrsla þingmannanna David Atkinson frá Bretlandi og Rudolf Binding frá Þýskalandi um hvernig Rússum gengur að uppfylla skyldur sínar sem aðildarríki Evrópuráðsins. Skýrslan var mjög gagnrýnin á framferði rússneskra yfirvalda. Viðurkennt var að Rússar stæðu frammi fyrir erfiðum vandamálum sem ógnuðu stöðugleika í landinu, en lögð var áhersla á að taka yrði á slíkum vandamálum með lausnum sem samrýmdust grundvallargildum Evrópuráðsins. Skýrsluhöfundar hrósuðu Rússum fyrir aðgerðir á nokkrum sviðum, en töldu almennt ekki nóg að gert og að í sumum tilvikum væru Rússar hreinlega á rangri leið. Í ályktun þingsins var nýleg kosningalöggjöf gagnrýnd sem og ástandið á fjölmiðlamarkaðnum þar sem frjálsa og óháða fjölmiðla vantaði. Lagðar voru fram margar tillögur til úrbóta. Þá var fjallað ítarlega um mannréttindamál í Rússlandi. Varðandi afnám dauðarefsinga var farið fram á það að rússnesk stjórnvöld fullgiltu án tafar 6. viðauka við mannréttindasáttmála Evrópu. Þá var farið fram á að Rússar lykju undirskriftar- og staðfestingarferli landamærasamnings við Lettland og að aðstoð Rússa við stjórnvöld í Hvíta-Rússlandi yrði háð þeim skilyrðum að mannréttindi verði virt.
    Jaap de Hoop Scheffer, framkvæmdastjóri NATO, ávarpaði þingið. Hann lagði áherslu á mikilvægi lýðræðis til að mæta verkefnum 21. aldar. Hann ræddi hvernig NATO hefði byggt upp net samstarfsríkja á sviði öryggismála sem næði ekki aðeins til Evrópu heldur líka til Kákasus og Mið-Asíu. Til lengri tíma litið væri mikilvægt að fá einnig Bosníu og Hersegóvínu og Serbíu og Svartfjallaland til samstarfs. Þá færi fram mikilvægt starf við að byggja upp samstarf við Miðausturlönd. Í umræðum í kjölfar ræðunnar spurði Össur Skarphéðinsson um nýleg ummæli framkvæmdastjórans þegar hann var staddur í Ísrael þess efnis að leitað væri leiða til að svara óskum Palestínumanna um viðræður við NATO. De Hoop Scheffer sagði að NATO væri að styrkja samstarf sitt við ríki Norður-Afríku, Maghreb-svæðið, Ísrael og Jórdaníu (sk. Mediterranean dialogue). Í kjölfar heimsóknar framkvæmdastjóra NATO til Ísrael heimsótti starfsmannastjóri NATO nýlega Palestínumenn til að upplýsa þá um Miðjarðarhafssamstarfið. Óvíst væri á þessu stigi um framhaldið, en hann hefði gefið sendiherrum NATO-ríkja í Brussel skýrslu um málið og því yrði fylgt eftir. Hann lagði áherslu á að NATO hefði engin bein afskipti af málefnum svæðisins og leitaði ekki eftir slíku hlutverki.
    Þingmaðurinn de Puig frá Spáni lagði fram skýrslu um lýðræðislegt eftirlit með stofnunum sem sinna öryggismálum. Í skýrslunni var fjallað um þær ógnir sem ríki nútímans standa frammi fyrir og hvernig mæta mætti slíkum ógnum án þess að gengið yrði um of á frelsi borgaranna. Lögð var áhersla á að aðgerðir leyniþjónustu, lögreglu, landamæravarða og herja yrði alltaf að eiga sér stoð í lögum og lúta lýðræðislegu eftirliti sem sé í höndum þjóðþings. Össur Skarphéðinsson tók til máls um skýrsluna og þakkaði höfundi hennar góð störf. Hann sagði að mörg ríki hefðu samþykkt lög eftir hryðjuverkaárásirnar í New York sem juku mjög vald öryggisstofnana og taldi að ekki hefði tekist að tryggja viðunandi lýðræðislegt eftirlit með valdhöfum í kjölfar nýrrar löggjafar. Hann sagði brýnt að finna jafnvægi milli þess sem nauðsynlegt væri að gera til að tryggja öryggi okkar og að virða mannréttindi. Hann lagði áherslu á að ákvæðum mannréttindasáttmála Evrópu yrði fylgt í baráttunni gegn hryðjuverkum og skipulagðri glæpastarfsemi. Löggjöf yrði að vera gagnsæ, borgarar yrðu að geta komið kvörtunum á framfæri og gera yrði þjóðþingum kleift að sinna skyldum sínum á sviði lýðræðislegs eftirlits.
    Össur Skarphéðinsson lagði fram drög að skýrslu um starfsmannaleigur á fundi nefndar um fólksflutninga og flóttamenn. Vakti skýrslan mikinn áhuga í nefndinni og verður hún væntanlega lögð fram á þingfundi Evrópuráðsins.
    Fundinn ávörpuðu eftirtaldir: Jose de Venicia, formaður ráðgjafaráðs friðarsamtaka asískra þinga og forseti filippseyska þingsins; Chaudhry Amir Hussain, forseti friðarsamtaka asískra þinga og forseti pakistanska þingsins; Adnan Terzic, formaður ráðherraráðs Bosníu og Hersegóvínu.

d.    Fjórði hluti þingsins.
    Dagana 3.–7. október fór fjórði hluti þingfundar Evrópuráðsþingsins árið 2005 fram í Strassborg. Fundinn sóttu af hálfu Íslandsdeildar Siv Friðleifsdóttir varaformaður og Guðrún Ögmundsdóttir, auk Örnu Gerðar Bang ritara. Á haustfundi Evrópuráðsþingsins bar einna hæst umræður um hryðjuverk, konur og trúarbrögð í Evrópu, fyrirbyggjandi aðgerðir gegn fuglaflensu og kosning mannréttindafulltrúa Evrópuráðsins. Tomas Hammarberg frá Svíþjóð var kjörinn mannréttindafulltrúi ráðsins.
    Þingið samþykkti ályktun um konur og trúarbrögð í Evrópu þar sem hvatt var til þess að aðildarríki ráðsins beittu sér fyrir því að veita öllum konum búsettum í ríkjunum fulla vernd gegn brotum á rétti sínum sem rekja má til trúarskoðana. Í því samhengi var enn fremur mælst til þess að mótuð yrði sérstök stefna um að koma í veg fyrir brot á réttindum kvenna til lífs, yfirráða yfir líkama sínum, frelsis til flutninga og frelsis til að velja sér maka, þ.m.t. svokallaðir „heiðursglæpir“, þvinguð hjónabönd og löskun á kynfærum kvenna, hvar sem er og af hverjum sem slíkar aðgerðir eru framkvæmdar, hvernig sem þær eru réttlættar og án tillits til þess hvort fórnarlambið hafi samþykkt þær til málamynda; þetta þýðir að trúarbragðafrelsi er takmarkað af mannréttindum.
    Þá hvatti þingið til þess að tryggt yrði að trúfrelsi og virðing fyrir menningu væri ekki notað til að réttlæta brot á réttindum kvenna, þ.m.t. þegar stúlkur undir aldri eru þvingaðar til að láta undan trúarreglum (m.a. reglum varðandi klæðnað), frelsi þeirra til flutninga er skert eða aðgangur að getnaðarvörnum er hindraður af fjölskyldu eða samfélagi.
    Í upphafsávarpi sínu ræddi van der Linden, forseti þingsins, um hryðjuverkaógnina og fagnaði hann miklum áhuga þingsins á hryðjuverkaumræðunni og yfirlýstum vilja þess til að samræma aðgerðir aðildarríkja Evrópuráðsins til að stemma stigu við þeirri ógn sem af alþjóðlegri hryðjuverkastarfsemi hlytist. Van der Linden lagði einnig áherslu á mikilvægi ráðsins við að efla skilning milli ólíkra menningar- og trúarheima. Hann hvatti til þess að ráðið færi þar með forustu enda staða þess kjörin til slíks. Þá bauð hann Ekmeleddin Ihsanoglu, framkvæmdastjóra samtaka um íslamska ráðstefnu, sérstaklega velkominn og lagði áherslu á mikilvægi þátttöku hans í þinginu.
    Fundinn ávörpuðu eftirtaldir: Marian Lupu, forseti þingsins í Moldóvu; Ekmeleddin Ihsanoglu, framkvæmdastjóri samtaka um íslamska ráðstefnu; Asma Jahangir, skýrsluhöfundur frá Sameinuðu þjóðunum um trú og trúfrelsi; Miguel Angel Moratinos, utanríkisráðherra Spánar; Donald J. Johnston, framkvæmdastjóri Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu; Volodymyr Lytvyn, forseti þingsins í Úkraínu; og Elmar Brok, formaður utanríkismálanefndar Evrópuþingsins. Íslandsdeildin tók að venju virkan þátt í þingstörfunum og sótti nefndarfundi í viðkomandi nefndum.

4.    Stjórnarnefnd.
a.    Fundur stjórnarnefndar Evrópuráðsþingsins í Mónakó.
    Hinn 1. september var efnt til stjórnarnefndarfundar Evrópuráðsþingsins í Mónakó. Fundinn sótti af hálfu Íslandsdeildar Siv Friðleifsdóttir varaformaður, auk Örnu Gerðar Bang alþjóðaritara. Fyrir utan venjubundin stjórnarnefndarstörf fór mestur fundartími í ávarp ríkisráðherra Mónakó, Jean-Paul Proust, um stjórnmál og stjórnskipan í Mónakó.
    Fundurinn hófst á því að Stéphane Valeri, forseti ríkisráðs Mónakó, bauð fundargesti velkomna. Forseti Evrópuráðsþingsins, van der Linden, stýrði fundinum og skiptist á skoðunum við Proust um málefni Mónakó. Siv spurði Proust hvort umræða hefði átt sér stað um að breyta þeirri grein í stjórnarskrá Mónakó sem snýr að erfðum krúnunnar, þar sem m.a. kemur fram að synir hafa forgang umfram dætur. Proust svaraði spurningunni á þá leið að hann væri ekki í stöðu að svo stöddu til að svara því hvort slík umræða hefði farið fram.
    Karólína prinsessa, forseti heimssamtakanna Barnavinir (AMADE), var gestur fundarins og tók þátt í umræðu um ofbeldi og misnotkun á börnum og baráttu gegn því. Í ávarpi sínu lagði Karólína áherslu á að þrátt fyrir að fjölmargar stofnanir og alþjóðasamtök hefðu unnið ötullega að því að auka lagalega vernd barna þyrfti að auka hana enn frekar. Hún lagði til að Evrópuráðsþingið og ráðherraráðið ynnu að nýjum ályktunum, tilmælum og sáttmála um málið.
    Að loknum föstum dagskrárliðum stjórnarnefndarfundarins var rætt um skýrslur og ályktunardrög sem fyrir fundinum lágu. Ástæðulaust er að rekja almennar umræður en af þeim málum sem mest kvað að má nefna skýrslu um að koma á framfæri fimmtu kvennaráðstefnunni á vegum Sameinuðu þjóðanna þar sem m.a. á að leggja áherslu á nýjar ógnir sem steðja að réttindum kvenna. Rætt var um að með auknu trúarofstæki hefði orðið ákveðið bakslag sem leitt hefði til þess að staða kvenna hefði versnað á ákveðnum svæðum síðastliðin ár. Síðan kvennaráðstefnan var haldin í Peking árið 1995 hefur lítið verið framkvæmt af ályktunum ráðstefnunnar og var það gagnrýnt.

b.    Fundur stjórnarnefndar Evrópuráðsþingsins í Búkarest.
    Hinn 25. nóvember var efnt til stjórnarnefndarfundar Evrópuráðsþingsins í Búkarest en Rúmenar tóku við formennsku í ráðherraráði Evrópuráðsins í nóvember 2005. Fundinn sótti af hálfu Íslandsdeildar Birgir Ármannsson formaður, auk Örnu Gerðar Bang alþjóðaritara. Fyrir utan venjubundin stjórnarnefndarstörf fór mestur fundartími í ávarp utanríkisráðherra Rúmeníu og formanns ráðherraráðsins, Mihai-Razvan Ungureanu. Fundurinn hófst á því að Nicolae Vacaroiu, forseti neðri deildar rúmenska þingsins, bauð fundargesti velkomna og skiptist á skoðunum við Ungureanu um málefni Rúmeníu.
    Að loknum föstum dagskrárliðum stjórnarnefndarfundarins var rætt um skýrslur og ályktunardrög sem fyrir fundinum lágu. Ástæðulaust er að rekja almennar umræður en af þeim málum sem mest kvað að má nefna skýrslu um afnám síðasta hluta járntjaldsins í Mið-Evrópu og starfsemi Sameinuðu þjóðanna varðandi flóttamenn.

5.    Nefndastörf og önnur störf.
a.    Skipting Íslandsdeildar í nefndir.
Sameiginleg nefnd með ráðherranefnd: Birgir Ármannsson.
    Til vara: Siv Friðleifsdóttir.
Stjórnarnefnd: Birgir Ármannsson.
    Til vara: Siv Friðleifsdóttir.
Stjórnmálanefnd: Birgir Ármannsson.
    Til vara: Einar Oddur Kristjánsson.
Laga- og mannréttindanefnd: Birgir Ármannsson.
    Til vara: Einar Oddur Kristjánsson.
Jafnréttisnefnd: Margrét Frímannsdóttir.
    Til vara: Guðrún Ögmundsdóttir.
Efnahagsnefnd: Siv Friðleifsdóttir.
    Til vara: Birkir J. Jónsson.
Umhverfis- og landbúnaðarnefnd: Siv Friðleifsdóttir.
    Til vara: Birkir J. Jónsson.
Þingskapanefnd: Birgir Ármannsson.
    Til vara: Einar Oddur Kristjánsson.
Vísinda-, tækni- og menntamálanefnd: Siv Friðleifsdóttir.
    Til vara: Birkir J. Jónsson.
Heilbrigðis- og félagsmálanefnd: Margrét Frímannsdóttir.
    Til vara: Guðrún Ögmundsdóttir.
Nefnd um fólksflutninga og málefni flóttamanna: Margrét Frímannsdóttir.
    Til vara: Guðrún Ögmundsdóttir.

b. Þátttaka í nefndarfundum utan þinga.
    Siv Friðleifsdóttir, varaformaður Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins, sótti fundi efnahagsnefndar í Antalýu í maímánuði og í Lissabon í september. Þá sótti hún fundi umhverfis- og landbúnaðarnefndar í Búkarest í nóvember og í París í desember.

c. Fundur jafnréttisnefndar í Reykjavík.
    Dagana 12.–13. september 2005 hélt jafnréttisnefnd Evrópuráðsþingsins fund í Reykjavík og var Íslandsdeild gestgjafi hans. Fundurinn fór fram á Hótel Loftleiðum og voru þátttakendur um 50, þingmenn, starfsmenn þjóðþinga aðildarríkjanna ásamt sérfræðingum.
    Af 10 málefnanefndum Evrópuráðsþingsins er jafnréttisnefndin yngst, stofnuð árið 1998. Frá upphafi hefur nefndin fjallað um jafnréttismál í víðum skilningi, kvenréttindi og baráttuna gegn ofbeldi á konum. Nefndin hefur barist fyrir aukinni þátttöku kvenna á öllum sviðum samfélagsins. Á síðustu tveimur árum hefur hún beitt sér mjög í málefnum er lúta að mansali og vændi.
    Meðal efnis á fundi jafnréttisnefndarinnar í Reykjavík var samþætting vinnu og fjölskyldulífs og skýrsla um konur og trúarbrögð í Evrópu sem mikil umræða skapaðist um. Einnig áttu sér stað skoðanaskipti milli íslenskra þingmanna og nefndarmanna. Vöktu lög Íslendinga um fæðingarorlof mikla athygli og aðdáun nefndarmanna, auk mikillar þátttöku kvenna í stjórnmálum hér á landi. Umræður voru gagnlegar og góðar og var áhugi nefndarmanna mikill. Þess má geta að fundurinn var framlengdur um klukkustund vegna þessa. Hluti fundarins var að þessu sinni helgaður hlutverki karla í jafnréttisverkefnum. Þar héldu ávörp meðal annarra Árni Magnússon félagsmálaráðherra og Rannveig Guðmundsdóttir, forseti Norðurlandaráðs.
    Af hálfu Íslandsdeildar sóttu fundinn þingmennirnir Sólveig Pétursdóttir, formaður, Siv Friðleifsdóttir, varaformaður og formaður félagsmálanefndar, og Margrét Frímannsdóttir. Aðrir þingmenn sem sóttu fundinn voru Guðlaugur Þór Þórðarson, varaformaður félagsmálanefndar, Kolbrún Halldórsdóttir, Katrín Júlíusdóttir og Þórunn Sveinbjarnardóttir.

c.    Heimsókn mannréttindafulltrúa Evrópuráðsins.
    Mannréttindafulltrúi Evrópuráðsins heimsótti Alþingi hinn 5. júlí 2005. Á móti fulltrúanum tók Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins, Sólveig Pétursdóttir, formaður, Siv Friðleifsdóttir, varaformaður, og Össur Skarphéðinsson, ásamt Belindu Theriault, starfandi ritara. Var mannréttindafulltrúanum boðið til hádegisverðar þar sem staða mannréttindamála á Íslandi var rædd. Líkt og á fundi Sólveigar með mannréttindafulltrúanum fyrr um sumarið ræddu þau meðal annars um stöðu jafnréttismála, heimilisofbeldi, mansal, stöðu flóttamanna og fangelsismál. Þá var rætt almennt um starf mannréttindafulltrúans og taldi Sólveig nauðsynlegt að auka sýnileika hans á Evrópuráðsþinginu.

Alþingi, 3. mars 2006.



Birgir Ármannsson,


form.


Siv Friðleifsdóttir,


varaform.


Margrét Frímannsdóttir.





Fylgiskjal.


Ályktanir, álit og tilmæli Evrópuráðsþingsins árið 2005.


Fyrsti hluti þingfundar, 24.–28. janúar:
          ályktun nr. 1423, um leiðir til að sporna við atvinnuleysi í Evrópuríkjum,
          ályktun nr. 1424, um aukna félagslega samloðun og aukna atvinnu,
          ályktun nr. 1425, um endurskoðun skipunarbréfs málefnanefnda,
          tilmæli nr. 1694, um sambúð Evrópu og Bandaríkjanna,
          ályktun nr. 1421, um sambúð Evrópu og Bandaríkjanna,
          ályktun nr. 1422, um flóðahamfarirnar í Asíu,
          álit nr. 254, um drög að sáttmála um fjárþvætti, fjármögnun hryðjuverkastarfsemi og upptöku fjár sem sprottið er af glæpastarfsemi,
          álit nr. 255, um drög að sáttmála um varnir gegn hryðjuverkum,
          tilmæli nr. 1693, um þriðja leiðtogafund Evrópuráðsins,
          ályktun nr. 1419, um erfðabreytt matvæli,
          ályktun nr. 1420, um friðarhorfur í Miðausturlöndum,
          álit nr. 253, um drög að sáttmála um leiðir til að sporna gegn mansali,
          ályktun nr. 1416, um átökin í Nagorno-Karabak,
          tilmæli nr. 1690, um átökin í Nagorno-Karabak,
          ályktun nr. 1691, um verndun mannréttinda í Kosovo-héraði,
          tilmæli nr. 1418, um kringumstæður handtöku forsvarsmanna Yukos-olíufélagsins,
          tilmæli nr. 1415, um skuldbindingar Georgíu á vettvangi Evrópuráðsins.

Annar hluti þingfundar, 25.–29. apríl:
          tilmæli nr. 1704, um þjóðaratkvæðagreiðslur og góða stjórnsýslu í Evrópu,
          ályktun nr. 1439, um mengun sjávar,
          ályktun nr. 1438, um frelsi fjölmiðla og starfsskilyrði blaðamanna á stríðshrjáðum svæðum,
          tilmæli nr. 1702, um frelsi fjölmiðla og starfsskilyrði blaðamanna á stríðshrjáðum svæðum,
          tilmæli nr. 1703, um vernd og aðstoð til handa börnum sem sækja um landvistarleyfi,
          tilmæli nr. 1700, um mismunun gagnvart konum á vinnumarkaði,
          tilmæli nr. 1701, um mismunun gagnvart konum og stúlkum í íþróttum,
          ályktun nr. 1437, um flóttamenn og samfélagslega samloðun,
          ályktun nr. 1433, um lögmæti þess að halda stríðsföngum í Guantanamó-herstöðinni,
          tilmæli nr. 1699, um lögmæti þess að halda stríðsföngum í Guantanamó-herstöðinni,
          ályktun nr. 1434, um orkumál í Evrópu,
          ályktun nr. 1435, um samspil orkumála og umhverfismála,
          ályktun nr. 1436, um kjarnorkuáætlanir Írana og viðbrögð alþjóðasamfélagsins,
          tilmæli nr. 1698, um réttindi barna.

Þriðji hluti þingfundar, 20.–24. júní:
          ályktun nr. 1449, um umhverfismál og þúsaldarmarkmiðin,
          ályktun nr. 1450, um Alþjóðabankann, Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og þúsaldarmarkmiðin,
          ályktun nr. 1451, um framlag Evrópubankans til efnahagsþróunar í Mið- og Austur- Evrópu,
          ályktun nr. 1452, um aðstæður í Miðausturlöndum,
          ályktun nr. 1453, um núverandi aðstæður í Kosovo,
          ályktun nr. 1454, um fjölda kvenna og stúlkubarna sem hverfa í Mexíkó,
          ályktun nr. 1455, um skyldur Rússlands sem aðildarríkis að Evrópuráðinu,
          ályktun nr. 1456, um framlag Evrópubankans til efnahagsþróunar í Mið- og Austur- Evrópu,
          ályktun nr. 1457, um eftirfylgni við ályktun 1359 (2004) um pólitíska fanga í Aserbaídsjan,
          ályktun nr. 1458, um ferli stjórnarskrárbreytinga í Armeníu,
          ályktun nr. 1459, um afnám hafta varðandi kosningarétt,
          ályktun nr. 1460, um bætt viðbrögð við þörfum geðsjúkra í Evrópu,
          tilmæli nr. 1706, um fjölmiðla og hryðjuverk,
          tilmæli nr. 1707, um aðstæður í Miðausturlöndum,
          tilmæli nr. 1708, um núverandi aðstæður í Kosovo,
          tilmæli nr. 1709, um fjölda kvenna og stúlkubarna sem hverfa í Mexíkó,
          tilmæli nr. 1710, um skyldur Rússlands sem aðildarríkis að Evrópuráðinu,
          tilmæli nr. 1711, um eftirfylgni við ályktun 1359 (2004) um pólitíska fanga í Aserbaídsjan,
          tilmæli nr. 1712, um eftirfylgni við þriðja leiðtogafundinn,
          tilmæli nr. 1713, um lýðræðislegt eftirlit með stofnunum er sinna öryggismálum í aðildarríkjunum,
          tilmæli nr. 1714, um afnám hafta varðandi kosningarétt,
          tilmæli nr. 1715, um bætt viðbrögð við þörfum geðsjúkra í Evrópu.

Stjórnarnefndarfundur, 1. september:
          tilmæli 1716, um að koma á framfæri fimmtu kvennaráðstefnunni á vegum Sameinuðu þjóðanna,
          tilmæli 1717, um menntun vegna tómstundaiðkunar,
          ályktun 1461, um Kúrlandseiði; olíu og umhverfi.

Fjórði hluti þingfundar, 3.–7. október:
          ályktun nr. 1462, um sameiginlega stefnu við stjórn á búferlaflutningum,
          tilmæli nr. 1718, um sameiginlega stefnu við stjórn á búferlaflutningum,
          tilmæli nr. 1719, um þvingað brotthvarf,
          ályktun nr. 1463, um þvingað brotthvarf,
          ályktun nr. 1464, um konur og trúarbrögð í Evrópu,
          tilmæli nr. 1720, um menntun og trúarbrögð,
          tilmæli nr. 1721, um virkni lýðræðislegra stofnana í Moldóvu,
          ályktun nr. 1465, um virkni lýðræðislegra stofnana í Moldóvu,
          tilmæli nr. 1722, um skyldur og skuldbindingar Úkraínu,
          ályktun nr. 1466, um skyldur og skuldbindingar Úkraínu,
          ályktun nr. 1467, um Efnahags- og framfarastofnun Evrópu (OECD) og hið hnattræna hagkerfi,
          tilmæli nr. 1723, um þvinguð hjónabönd og hjónabönd barna,
          ályktun nr. 1468, um þvinguð hjónabönd og hjónabönd barna,
          tilmæli nr. 1725, um fuglaflensu í Evrópu og fyrirbyggjandi aðgerðir,
          tilmæli nr. 1726, um alvarleg brot á mannréttindum í Líbíu og grimmilega meðferð á heilbrigðisstarfsfólki frá Búlgaríu,
          tilmæli nr 1727, um hraðari málsmeðferð varðandi hæli í aðildarríkjum Evrópuráðsins,
          ályktun nr. 1469, um tungumálaörðugleika við aðgang að heilbrigðisþjónustu í Brussel,
          ályktun nr. 1470, um kostnað við landbúnaðarstefnu ESB (CAP),
          ályktun nr. 1471, um hraðari málsmeðferð varðandi hæli í aðildarríkjum Evrópuráðsins.

Stjórnarnefndarfundur, 25. nóvember:
          ályktun nr. 1472, um að afnema síðasta hluta járntjaldsins í Mið-Evrópu,
          ályktun nr. 1473, um siglingaleiðir í Evrópu: með áherslu á leiðina Dóná-Oder-Saxelfur,
          ályktun nr.1474, um starfsemi Sameinuðu þjóðanna varðandi flóttamenn,
          ályktun nr. 1475, um 50 ára afmæli Evrópuverðlaunanna – uppgjör og útlit,
          tilmæli nr. 1728, um fjárhagslega getu Evrópuráðsþingsins,
          tilmæli nr. 1729, um starfsemi Sameinuðu þjóðanna varðandi flóttamenn,
          tilmæli nr. 1730, um einkarekstur menningarlegra eigna.