Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 353. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 868  —  353. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 38 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

Frá sjávarútvegsnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jón B. Jónasson og Arndísi Steinþórsdóttur frá sjávarútvegsráðuneyti, Örn Pálsson frá Landssambandi smábátaeigenda og Friðrik J. Arngrímsson frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna. Þá bárust nefndinni umsagnir frá Vélstjórafélagi Íslands, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Hafrannsóknastofnuninni, Sjómannasambandi Íslands, Landssambandi smábátaeigenda og Landssambandi íslenskra útvegsmanna.
    Í frumvarpi þessu er lagt til að fallið verði frá sérreglum varðandi úthlutun á 3.000 lestum af þorski skv. 9. gr. a laganna og fiskiskipum sem þessarar úthlutunar hafa notið verði í staðinn úthlutað aflahlutdeild frá og með fiskveiðiárinu 2006/2007 samkvæmt nánar tiltekinni reiknireglu í ákvæði til bráðabirgða.
    Nefndin er sammála því að umræddri úthlutun verði breytt í aflahlutdeild en leggur til að reiknireglunni verði breytt þannig að í stað þess að miða eingöngu við það meðaltal sem úthlutað hefur verið á grundvelli viðkomandi réttar á fiskveiðiárunum 1999/2000–2005/2006, þá verði einnig litið til þess hversu mikið hver réttur gefur án tillits til aflamarksstöðu fiskiskips og sá kostur valinn sem meira gefur í aflahlutdeild. Þetta val leiði hins vegar ekki til aukins heildaraflamagns þorsks sem ráðstafað er til þessarar sérstöku úthlutunar.
    Með tilliti til framanritaðs leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Ákvæði til bráðabirgða orðist svo:
    Í upphafi fiskveiðiárs 2006/2007 skal úthluta aflahlutdeild í þorski þeim fiskiskipum sem réttur skv. 9. gr. a er bundinn við þegar lögin taka gildi. Reiknigrunnur hvers úthlutunarréttar samkvæmt bráðabirgðaákvæði þessu skal vera hvort sem hærra reynist; aflamark, sem úthlutun á grundvelli viðkomandi réttar gefur án tillits til aflamarksstöðu fiskiskips eða aflamark sem er meðaltal þess aflamarks sem úthlutað hefur verið á grundvelli viðkomandi réttar á fiskveiðiárunum 1999/2000–2005/2006, að báðum árum meðtöldum. Þó skal skerða reiknigrunn hvers úthlutunarréttar hlutfallslega þannig að heildarreiknigrunnurinn verði ekki hærri en meðaltal úthlutana fyrrgreindra fiskveiðiára að teknu tilliti til lækkunar leyfilegs heildarafla þorsks milli fiskveiðiáranna 1999/2000 og 2005/2006. Aflahlutdeild hvers fiskiskips skal síðan reiknuð út frá reiknigrunni sem hlutfall af úthlutuðu aflamarki fiskveiðiársins 2005/2006 í þorski. Að lokinni þessari úthlutun skal aflahlutdeild allra fiskiskipa í þorski endurreiknuð með hliðsjón af þeim breytingum sem af þessari úthlutun leiðir. Heimilt er ráðherra að setja nánari reglur um framkvæmd þessa ákvæðis, þar á meðal um flutning réttar milli fiskiskipa.

    Jón Bjarnason áheyrnarfulltrúi er samþykkur áliti þessu með fyrirvara.
    Jóhann Ársælsson og Magnús Þór Hafsteinsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 3. mars 2006.



Guðjón Hjörleifsson,


form., frsm.


Magnús Stefánsson.


Kjartan Ólafsson.



Jón Gunnarsson,


með fyrirvara.


Einar Oddur Kristjánsson.


Siv Friðleifsdóttir.



Kristján L. Möller,


með fyrirvara.