Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 448. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Prentað upp.

Þskj. 873  —  448. mál.
Leiðrétting.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um stjórn fiskveiða, nr. 38 15. maí 1990, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta sjávarútvegsnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jón B. Jónasson frá sjávarútvegsráðuneyti, Örn Pálsson frá Landssambandi smábátaeigenda, Ólaf Örn Ólafsson, bæjarstjóra í Grindavík, og Sigurð Líndal. Þá bárust nefndinni umsagnir frá ríkisskattstjóra, Hafrannsóknastofnuninni, Grindavíkurkaupstað, Fiskistofu, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Vélstjórafélagi Íslands, Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Alþýðusambandi Íslands, Fjórðungssambandi Vestfirðinga, Byggðastofnun, Sjómannasambandi Íslands og Landssambandi smábátaeigenda.
    Í frumvarpi þessu er í fyrsta lagi lagt til að 6. gr. laganna falli brott en hún lýtur að dagakerfi fyrir krókabáta sem fellur niður í lok þessa fiskveiðiárs. Í öðru lagi er lagt til að sett verði hámark á samanlagða krókaaflahlutdeild fiskiskipa í eigu einstakra aðila, einstaklinga eða lögaðila, eða í eigu tengdra aðila. Í þriðja lagi er lagt til að unnt verði að flytja aflamark milli fiskiskipa með einfaldari hætti en nú tíðkast. Í fjórða lagi er lagt til að gerðar verði tvær tímabundnar lagabreytingar vegna þeirra erfiðleika sem upp hafa komið í veiðum og vinnslu á úthafsrækju.
    Fram komu athugasemdir um að prósentuhlutföllin í 2. gr. frumvarpsins væru of há. Aflaheimildir smábátaflotans ættu sér sterkar sögulegar rætur í einstaklingsútgerð og mikilvægt væri að veiðiheimildir smábátanna söfnuðust ekki á örfáa báta. Meiri hlutinn getur tekið undir það og leggur til að prósentuhlutföll verði lækkuð þannig að hámark á samanlagða krókaaflahlutdeild verði 4% í þorski, 5% í ýsu og 5% af heildarverðmæti krókaaflahlutdeildar þeirra tegunda sem krókaaflahlutdeild er úthlutað í. Hér er komið að hluta til móts við umsögn stjórnar Landssambands smábátaeigenda. Þá leggur meiri hlutinn til að þeir aðilar sem hugsanlega eru komnir upp yfir fyrrnefnd viðmiðunarmörk fái aðlögunartíma til 1. september 2009 til að flytja af skipum sínum krókaaflahlutdeildir í þeim tegundum sem þarf til þess að rúmast innan ramma ákvæðisins.
    Til stendur að endurútgefa lögin um stjórn fiskveiða. Af því tilefni leggur meiri hlutinn til að gerðar verði nokkrar lagatæknilegar breytingar auk þess sem lagt er til að eitt atriði verði áréttað, sbr. eftirfarandi skýringar við 2. lið í breytingartillögum:
     a.      Málsliðurinn, sem lagt er til að bætist við, er nú í ákvæði XXIII til bráðabirgða en ákvæðið mun að öðru leyti falla niður við fyrirhugaða endurútgáfu. Nauðsynlegt er að hafa áfram heimild til sérveiða, svo sem ígulkera-, sæbjúgna- og hrognkelsaveiða fyrir krókaaflamarksbátana.
     b.      Um er að ræða tvenns konar lagfæringar vegna endurútgáfunnar: Annars vegar er lagt til að núverandi lokamálsliður 6. mgr. 11. gr. falli brott þar sem þau tímamörk sem þar eru tilgreind eru liðin en samkvæmt þessum málslið var óheimilt í fimm ár frá gildistöku laganna að flytja aflahlutdeild, sem rekja mátti til uppbótar, frá skipi. Hins vegar þykir rétt að flytja ákvæði V til bráðabirgða inn í megintexta laganna þar sem ákvæðið er ótímabundið og er lagt til að bæta því við 6. mgr. 11. gr. Samkvæmt því þarf samþykki þeirra aðila sem samningsveð eiga í skipinu 1. janúar 1991 til flutnings aflaheimildar af því.
     c.      Rétt þykir að skylda skipstjórnarmanna til að taka eftirlitsmenn um borð verði áréttuð.
     Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerðar eru tillögur um í sérstöku þingskjali.
    Jóhann Ársælsson og Magnús Þór Hafsteinsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 3. mars 2006.



Guðjón Hjörleifsson,


form., frsm.


Magnús Stefánsson.


Kjartan Ólafsson.



Einar Oddur Kristjánsson.


Siv Friðleifsdóttir.