Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 221. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 936  —  221. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um upplýsingarétt um umhverfismál.

Frá umhverfisnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Pál Hreinsson prófessor í lögum við Háskóla Íslands og Sigríði Auði Arnardóttur frá umhverfisráðuneyti. Með frumvarpinu er innleidd tilskipun 2003/4/EB frá 28. janúar 2003 um almennan aðgang að upplýsingum um umhverfismál og niðurfellingu á tilskipun ráðsins 90/313/EB sem var tekin inn í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 123/2003 hinn 26. september 2003.
    Tilskipun 2003/4/EB hefur það að markmiði að innleiða fyrstu stoð Árósasamningsins í löggjöf Evrópubandalagsins en sá hluti samningsins lýtur að almennum aðgangi að upplýsingum um umhverfismál. Tilskipunin var tekin inn í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 123/2003. Markmið frumvarpsins er að tryggja almenningi aðgang að upplýsingum um umhverfismál sem stjórnvöld hafa yfir að ráða eða geymdar eru fyrir þeirra hönd, til að stuðla að sterkari vitund um málefni á umhverfissviði, frjálsum skoðanaskiptum og aukinni þátttöku almennings í töku ákvarðana um umhverfismál. Í 2. og 3. gr. frumvarpsins er tekið fram um hverja frumvarpið gildir og til hvaða upplýsinga það nær.
    Í fylgiskjali með frumvarpinu eru talin upp dæmi um ýmis sérákvæði um þagnarskyldu. Nefndin telur tímabært að þagnarskylduákvæði verði samræmd og inntak þeirra skýrt.
    Nefndin leggur til eftirfarandi breytingar á frumvarpinu:
     1.      Gerð er tillaga um að í stað orðanna „mengun matvæla“ í 4. tölul. 3. gr. komi „mengun í fæðukeðjunni“ í samræmi við orðalag tilskipunarinnar en þar segir í f-lið 2. gr. „contamination of the food chain“.
     2.      Lagt er til að frestur skv. 2. málsl. 2. mgr. 6. gr. verði sjö virkir dagar og að frestur skv. 2. málsl. 1. mgr. 12. gr. verði 15 virkir dagar.
     3.      Lagt er til að í upptalningu í a-lið 1. tölul. 18. gr. um breytingu á upplýsingalögum verði bætt við orðunum steindir, steingervingar og bergmyndanir.
     4.      Lögð er til breyting á 3. mgr. 4. tölul. 18. gr. um breytingu á höfundalögum þannig að orðalag samræmist betur ákvæðum þeirra laga.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Ásta R. Jóhannsdóttir, Jón Kr. Óskarsson, Kolbrún Halldórsdóttir og Mörður Árnason skrifa undir álitið með fyrirvara þess efnis að innleiða ætti allar stoðir Árósasamningsins í íslenskan rétt og áskilja þau sér rétt til að leggja fram breytingartillögur við frumvarpið.
    Sigurjón Þórðarson sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er hann samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 13. mars 2006.



Guðlaugur Þór Þórðarson,


form., frsm.


Ásta R. Jóhannesdóttir,


með fyrirvara.


Kristinn H. Gunnarsson.



Mörður Árnason,


með fyrirvara.


Kjartan Ólafsson.


Kolbrún Halldórsdóttir,


með fyrirvara.



Sigurrós Þorgrímsdóttir.


Jón Kr. Óskarsson,


með fyrirvara.