Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 403. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 1229  —  403. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 88/1991, um aukatekjur ríkissjóðs, með síðari breytingum.

Frá minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Frumvarpið felur í sér gríðarlegar hækkanir á nokkrum gjöldum sem innheimt eru fyrir veitta þjónustu á vegum stofnana ríkisins. Þessar hækkanir koma fyrst og fremst við nýja Íslendinga og útlendinga sem koma hingað til lengri eða skemmri dvalar. Þannig hækkar gjald vegna umsóknar um íslenskan ríkisborgararétt um 640% eða úr 1.350 kr. í 10.000 kr. og gjald vegna tilkynningar um íslenskan ríkisborgararétt hækkar um 270% eða úr 1.350 kr. í 5.000 kr. Þá verður eftirleiðis tekið gjald fyrir afgreiðslu umsóknar um dvalar- og búsetuleyfi, en það er nýmæli í frumvarpinu, og getur gjaldið verið allt frá 2.000 kr. og upp í 8.000 kr. Ekki hafa verið lagðar fram neinar upplýsingar né útreikningar á því hvort fyrirhuguð gjaldtaka sé í samræmi við líklegan kostnað við þá þjónustu sem veitt er.
    Í heildina er áætluð tekjuaukning ríkissjóðs vegna þessa frumvarps 38–39 millj. kr. Hér er einfaldlega um skattahækkun að ræða og það er til marks um stefnu og hugarfar meiri hlutans á þingi, sem birtist í þessu máli sem öðrum, að hann telur helst hægt að sækja slíkar hækkanir í vasa nýrra Íslendinga en stór hluti þeirra vinnur hér á landi í láglaunastörfum.
    Minni hlutinn er andvígur frumvarpinu og mun greiða atkvæði gegn því.

Alþingi, 25. apríl 2006.



Ingibjörg Sólrún Gísladóttir,


frsm.


Lúðvík Bergvinsson.


Ögmundur Jónasson.