Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 614. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 1262  —  614. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 78/2002, um niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar, með síðari breytingum.

Frá iðnaðarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðjón Axel Guðjónsson og Sigfús Inga Sigfússon frá iðnaðarráðuneytinu.
    Jafnframt bárust nefndinni skriflegar umsagnir um málið frá Samorku, Rafmagnsveitum ríkisins, Norðurorku, Byggðastofnun, Skagafjarðarveitum, Orkustofnun, Landsvirkjun, Orkuveitu Reykjavíkur, Eyþingi – Sambandi sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum og Samtökum sveitarfélaga á Norðurlandi vestra.
    Í frumvarpinu er lagt til að gerðar verði breytingar á ákvæðum III. kafla laga nr. 78/2002, um niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar, um stofnun nýrra hitaveitna. Lagt er til að heimilað verði að veita styrki til einkaleyfishitaveitna sem yfirtaka starfsemi einkahitaveitna. Tvö skilyrði eru fyrir því að veita styrki til einkaleyfishitaveitna. Annars vegar er þess krafist að um sé að ræða samruna eða yfirtöku hitaveitu með einkaleyfi á dreifikerfi einkahitaveitu. Hins vegar er gerð krafa um að einkahitaveitan standi frammi fyrir kostnaðarsömum aðgerðum vegna endurnýjunar dreifikerfis.
    Nefndin leggur til breytingu á frumvarpinu og lýtur hún að því að bæta við einu skilyrði fyrir því að heimilt verði að veita styrki til einkaleyfishitaveitna. Skilyrðið lýtur að því að dreifikerfi einkahitaveitu dreifi heitu vatni um dreifikerfi sitt til a.m.k. 5 aðgreindra húsveitna. Þá er lagt til að ráðherra sé heimilt að setja nánari skilyrði í reglugerð.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með svofelldri

BREYTINGU:


    1. gr. orðist svo:
    Við 11. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Til starfandi hitaveitna sem hafa einkaleyfi til dreifingar á heitu vatni og stækka veitusvæði sitt með yfirtöku á hitaveitum sem ekki hafa slíkt einkaleyfi, dreifa heitu vatni um dreifikerfi sitt til a.m.k. 5 aðgreindra húsveitna og standa frammi fyrir kostnaðarsömum aðgerðum vegna endurnýjunar dreifikerfis. Ráðherra er heimilt að setja nánari skilyrði í reglugerð.

    Sigurjón Þórðarson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 2. maí 2006.



Birkir J. Jónsson,


form., frsm.


Einar Oddur Kristjánsson.


Guðjón Hjörleifsson.



Helgi Hjörvar.


Jóhann Ársælsson.


Sigurður Kári Kristjánsson.



Gunnar Örlygsson.


Katrín Júlíusdóttir.