Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 695. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 1266  —  695. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um eftirlit með aðgangi barna að kvikmyndum og tölvuleikjum.

Frá menntamálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Val Árnason og Jón Vilberg Guðjónsson frá menntamálaráðuneyti. Umsagnir bárust um málið frá Barnaverndarstofu, Ríkisútvarpinu, Smáís – samtökum myndréttarhafa á Íslandi, SVÞ – samtökum verslunar og þjónustu og Heimili og skóla – landssamtökum foreldra.
    Í frumvarpinu er lagt til að Kvikmyndaskoðun ríkisins verði lögð niður og að ábyrgðaraðilar, þ.e. framleiðendur, útgefendur, sýningaraðilar og smásöluaðilar kvikmynda og tölvuleikja, beri sjálfir kostnað af að koma upp og reka skoðunarkerfi fyrir kvikmyndir og tölvuleiki. Gert er ráð fyrir að ábyrgðaraðilarnir setji sér verklagsreglur að fyrirmynd erlendra skoðunarkerfa og að verklagsreglurnar taki til stjórnunar aðgangs að kvikmyndahúsum og afhendingar kvikmynda og tölvuleikja á sölustöðum og í myndbandaleigum. Einnig verður Barnaverndarstofu falið töluvert hlutverk við framkvæmd laganna.
    Í 5. gr. frumvarpsins er að finna ákvæði um eftirlit, stöðvunarúrræði og endurmat ábyrgðaraðila og Barnaverndarstofu. Nefndin leggur til smávægilegar breytingar á greininni sem lúta einkum að uppröðun málsgreina og orðalagsbreytingum til að varpa skýrara ljósi á hlutverk Barnaverndarstofu og samspil hennar við lögreglu.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:

              
    5. gr. orðist svo:
    Barnaverndarstofa hefur eftirlit með því að ákvæðum laga þessara sé framfylgt. Í því skyni er Barnaverndarstofu heimilt að láta fara fram úttekt á verklagsreglum skv. 1. mgr. 3. gr. og framkvæmd þeirra. Slík úttekt skal vera á kostnað þess ábyrgðaraðila sem í hlut á hverju sinni.
    Nú fær Barnaverndarstofa vitneskju eða rökstudda ábendingu um að niðurstaða mats á sýningarhæfni kvikmyndar eða tölvuleiks sé í andstöðu við 1. mgr. 2. gr., óásættanleg með hliðsjón af barnaverndarsjónarmiðum skv. 1. mgr. 3. gr. eða mat skv. 2. mgr. 2. gr. hafi ekki farið fram og er henni þá heimilt að mæla fyrir um stöðvun sýningar og dreifingar kvikmyndarinnar eða tölvuleiksins tímabundið í þrjá sólarhringa, með tilkynningu til ábyrgðaraðila. Barnaverndarstofu er heimilt að kveðja til lögreglu til að veita aðstoð við að framfylgja banni við sýningu og dreifingu kvikmyndar eða tölvuleiks.
    Á meðan sýningar- og dreifingarbann varir skal fara fram sameiginlegt endurmat ábyrgðaraðila og Barnaverndarstofu á sýningarhæfni kvikmyndar eða tölvuleiks. Ef ágreiningur er um niðurstöðu endurmats ræður afstaða fulltrúa Barnaverndarstofu. Sú ákvörðun telst endanleg og verður ekki kærð til æðra stjórnvalds.
    Leiði endurmat til þess að sýningarhæfni kvikmyndar eða tölvuleiks skuli takmarkast við eldri áhorfendur en upphaflegt mat kvað á um gildir sýningar- og dreifingarbann skv. 2. mgr. Barnaverndarstofu er heimilt að veita ábyrgðaraðila allt að vikufrest til að innkalla og endurmerkja öll eintök kvikmyndar eða tölvuleiks og hvers konar umbúðir og kynningarefni til samræmis við niðurstöðu endurmatsins.
    Brot gegn 2. gr. laga þessara varða sektum eða fangelsi allt að sex mánuðum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum.
    Um rannsókn og meðferð mála vegna meintra brota á 2. gr. fer að hætti laga um meðferð opinberra mála. Þegar lögreglu hefur borist kæra fyrir brot gegn 1. eða 2. mgr. 2. gr. laga þessara skal lögregla þegar í stað tilkynna Barnaverndarstofu um málavexti. Barnaverndarstofa leggur sjálfstætt mat á hvort beita beri stöðvunarheimild 2. mgr.
    Heimilt er að gera upptæka kvikmynd eða tölvuleik ef sýning, sala eða dreifing hans fer í bága við ákvæði laga þessara. Hið upptæka skal vera eign ríkissjóðs.

    Björgvin G. Sigurðsson, Hjálmar Árnason og Mörður Árnason voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 3. maí 2006.



Sigurður Kári Kristjánsson,


form., frsm.


Sigurrós Þorgrímsdóttir.


Dagný Jónsdóttir.



Kjartan Ólafsson.


Einar Már Sigurðarson.


Atli Gíslason.