Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 651. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 1275  —  651. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ólöfu Emblu Einarsdóttur og Sigfús I. Sigfússon frá viðskiptaráðuneyti. Þá bárust nefndinni umsagnir frá Sambandi íslenskra tryggingafélaga, SÍB – Samtökum starfsmanna fjármálafyrirtækja, Viðskiptaráði Íslands, ríkisskattstjóra, Seðlabanka Íslands, Félagi löggiltra endurskoðenda, Kauphöll Íslands hf., Persónuvernd, ríkislögreglustjóra, Fjármálaeftirlitinu, Samtökum banka og verðbréfafyrirtækja (SBV) og Lögmannafélagi Íslands.
    Frumvarpinu er ætlað að innleiða ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2005/ 60/EB. Tilskipuninni er ætlað að taka á vandamálum peningaþvættis sem er fylgifiskur aukinnar alþjóðlegrar glæpastarfsemi, svo sem fíkniefnaviðskipta, mansals og hryðjuverka. Í athugasemdum við frumvarpið segir að vegna þess hve umfangsmiklar breytingar hafa orðið á alþjóðlegum reglum um aðgerðir gegn peningaþvætti hafi verið farin sú leið að semja frumvarp til nýrra heildarlaga. Vísast nánar til þess sem fram kemur í athugasemdunum.
    Nefndin leggur til að gerðar verði eftirfarandi breytingar á frumvarpinu:
     1.      Lagðar eru til tvær breytingar á 4. gr. Annars vegar að orðinu „viðvarandi“ verði bætt við a-lið til að undirstrika að átt sé við samninga sem ætlað er að gildi til lengri tíma. Hins vegar er lagt til að á eftir b-lið 1. mgr. komi nýr stafliður um að kanna þurfi áreiðanleika viðskiptamanns fari gjaldeyrisviðskipti hans yfir 1.000 evrur. Þetta er sett inn til að nálgast sjónarmið SBV, sbr. umsögn þeirra.
     2.      Lagðar eru til breytingar á 5. gr. Í fyrsta lagi eru lagðar til breytingar á 1. málsl. 1. mgr. til að taka af allan vafa um að ákvæðið eigi bæði við um viðvarandi samningssamband og einstök viðskipti. Í öðru lagi eru lagðar til breytingar á 3. mgr. til að taka af öll tvímæli um hvernig kennsl skuli borin á þriðja mann með því að vísa í a- og b-lið 1. mgr.
     3.      Lagt er til að bætt verði við tilvísun til III. og IV. kafla í 1. málsl. 7. gr. til frekari skýringar á gildissviði ákvæðisins.
     4.      Lagðar eru til breytingar á 1. málsl. 1. mgr. 9. gr. til að taka af allan vafa um að ákvæðið eigi bæði við um viðvarandi samningssamband og einstök viðskipti.
     5.      Lagt er til að á eftir 15. gr. komi ný grein. Ákvæði hennar eru í samræmi við heimildarákvæði í 14.–16. gr. tilskipunar 2005/60/EB. Þegar frumvarpið var lagt fram var gert ráð fyrir reglugerðarheimild til að heimila tilkynningarskyldum aðila að reiða sig á áreiðanleikakönnun þriðja aðila. Markmið ákvæðisins er að auðvelda tilkynningarskyldum aðilum að mæta auknum kröfum laganna með því að veita þeim heimild til að nýta sér upplýsingar sem þegar hefur verið aflað um viðskiptamann. Nefndin telur rétt að hafa ákvæðið í lagatextanum sjálfum.
     6.      Lögð er til breyting á fyrri málslið 3. mgr. 16. gr. til að taka af allan vafa um að ákvæðið eigi jafnframt við þegar lögmaður veitir ráðgjöf um hvort höfða eigi dómsmál eða komast hjá dómsmáli. Tillaga þessi tekur mið af ábendingu Lögmannafélags Íslands um að gæta samræmis við 2. mgr. 9. gr.
     7.      Lagðar eru til tvenns konar breytingar á 26. gr. Sú fyrri lýtur að því að bæta við tilvísun til III. kafla í 1. mgr. en við umfjöllun málsins var bent á að þá tilvísun vantaði. Sú síðari lýtur að því að undirstrika að til að gera megi lögaðila sekt þurfi brot að hafa verið framið í þágu hans.
     8.      Lagt er til að 3. tölul. 27. gr. verði felldur brott þar sem efnisatriði hans koma fram í nýrri grein sem bætist við á eftir 15. gr.
     9.      Lögð er til breyting á 29. gr. um að gildistöku 12. gr. verði frestað til að koma til móts við beiðni SBV um aðlögunartíma til að undirbúa framkvæmd samkvæmt þessu ákvæði.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með fyrrnefndum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Ögmundur Jónasson skrifar undir álit þetta með fyrirvara.
    Jóhanna Sigurðardóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 4. maí 2006.



Pétur H. Blöndal,


form., frsm.


Jónína Bjartmarz.


Ingibjörg Sólrún Gísladóttir.



Guðjón Ólafur Jónsson.


Birgir Ármannsson.


Ingvi Hrafn Óskarsson.



Ögmundur Jónasson,


með fyrirvara.


Lúðvík Bergvinsson.