Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 651. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 1276  —  651. mál.




Breytingartillögur



við frv. til l. um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



     1.      Eftirfarandi breytingar verði á 4. gr.
                  a.      A-liður orðist svo: Við upphaf viðvarandi samningssambands.
                  b.      Á eftir b-lið 1. mgr. 4. gr. komi nýr stafliður, svohljóðandi: Vegna gjaldeyrisviðskipta að fjárhæð 1.000 evrur eða meira miðað við opinbert viðmiðunargengi eins og það er skráð hverju sinni, hvort sem viðskiptin fara fram í einni færslu eða fleirum sem virðast tengjast hver annarri.
     2.      Eftirfarandi breytingar verði á 5. gr.:
                  a.      1. málsl. 1. mgr. verði svohljóðandi: Áður en samningssambandi er komið á eða áður en viðskipti eiga sér stað skal tilkynningarskyldur aðili gera kröfu um að nýr viðskiptamaður sanni á sér deili með eftirfarandi hætti.
                  b.      3. mgr. verði svohljóðandi:
                     Hafi einstaklingur eða starfsmaður tilkynningarskylds aðila vitneskju um eða ástæðu til að ætla að tiltekin viðskipti fari fram í þágu þriðja manns skal viðskiptamaður í samræmi við a- og b-lið 1. mgr. krafinn upplýsinga um hver sá þriðji maður er.
     3.      1. málsl. 7. gr. verði svohljóðandi: Tilkynningarskyldum aðilum er heimilt að beita ákvæðum 5. og 6. gr. og ákvæðum III. og IV. kafla á grundvelli áhættumats þar sem umfang upplýsingaöflunar og annarra ráðstafana samkvæmt lögum þessum gagnvart hverjum viðskiptamanni byggist á mati á hættu á peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.
     4.      Fyrri málsliður 1. mgr. 9. gr. verði svohljóðandi: Hafi ekki reynst mögulegt að fullnægja skilyrðum 1. og 2. mgr. 5. gr. er óheimilt að framkvæma viðskipti eða stofna til samningssambands við viðkomandi.
     5.      Á eftir 15. gr. kemur ný grein, svohljóðandi, ásamt fyrirsögn:

Upplýsingar frá þriðja aðila.

             Tilkynningarskyldur aðili þarf ekki að kanna áreiðanleika viðskiptamanns skv. 1.-3. mgr. 5. gr. ef samsvarandi upplýsingar um áreiðanleika hans koma fram fyrir tilstilli fjármálafyrirtækis sem hlotið hefur starfsleyfi á Íslandi eða samsvarandi lögaðila sem hlotið hefur starfsleyfi á Evrópska efnahagssvæðinu. Sama gildir um upplýsingar sem koma fram fyrir tilstilli eftirlitsskyldrar lána- eða fjármálastofnunar frá löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins sem gerðar eru sambærilegar kröfur til og í lögum þessum. Endanleg ábyrgð á könnun á áreiðanleika viðskiptamanns skv. 1.–3. mgr. 5. gr. hvílir á viðtakanda upplýsinganna.
             Þriðji aðili sem veitir upplýsingar skv. 1. mgr. skal, ef viðtakandi upplýsinganna óskar eftir því, án tafar gera upplýsingarnar aðgengilegar eða áframsenda afrit af viðeigandi persónuupplýsingum og öðrum viðeigandi gögnum sem sanna hver viðskiptamaður eða raunverulegur eigandi er.
     6.      Fyrri málsliður 3. mgr. 16. gr. verði svohljóðandi: 1. mgr. gildir ekki um upplýsingar sem lögmenn öðlast við athugun á lagalegri stöðu skjólstæðings, þ.m.t. þegar þeir veita ráðgjöf um hvort höfða eigi dómsmál eða komast hjá dómsmáli, eða upplýsingar sem þeir öðlast fyrir, á meðan eða eftir lok dómsmáls, ef upplýsingarnar hafa bein tengsl við dómsmálið.
     7.      Eftirfarandi breytingar verði á 26. gr.:
                  a.      Í stað tilvísunarinnar „skv. II. kafla“ í 1. mgr. komi: skv. II. og III. kafla.
                  b.      2. mgr. verði svohljóðandi:
                     Þegar brot á lögum þessum er framið í starfsemi lögaðila, og í þágu hans, má gera lögaðilanum sekt án tillits til þess hvort sök verður sönnuð á fyrirsvarsmann eða starfsmann lögaðila. Hafi fyrirsvarsmaður eða starfsmaður gerst sekur um brot á lögum þessum má einnig gera lögaðilanum sekt ef brotið var í þágu hans.
     8.      3. tölul. 27. gr. falli brott.
     9.      Á eftir 1. málsl. 29. gr. komi nýr málsliður, svohljóðandi: Ákvæði 12. gr. öðlast gildi 1. janúar 2007.