Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 613. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 1331  —  613. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um fiskrækt.

Frá landbúnaðarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Atla Má Ingólfsson lögfræðing frá landbúnaðarráðuneyti, Karl Axelsson hrl., Sigurð Guðjónsson frá Veiðimálastofnun, Óðin Sigþórsson frá Landssambandi veiðifélaga, Ingólf Þorbjörnsson og Hans Unnþór Ólason frá Landssambandi stangaveiðifélaga, Sigurjón Valdimarsson, formann veiðifélags Norðurár, Sigurð Jakobsson frá veiðifélaginu Flóka, Pétur Jónsson, formann veiðifélags Andakílsár, Sigvalda Ásgeirsson, formann veiðifélags Reykjadalsár, Bjarna Júlíusson frá Stangaveiðifélagi Reykjavíkur, Jóhannes Sturlaugsson frá Laxfiskum ehf., Jón Gíslason og Árna Ísaksson frá Landbúnaðarstofnun, Sigurbjörgu Gísladóttur og Kristján Geirsson frá Umhverfisstofnun, Orra Vigfússon, Höllu Björnsdóttur og Steingrím Eiríksson frá Norður- Atlantshafslaxasjóðnum, Matthías Á. Mathiesen, fulltrúa eigenda jarðarinnar Skóga í Borgarfjarðarsveit, Aron Jóhannsson, Helga Þorsteinsson, Hauk Halldórsson frá Félagi eigenda sjávarjarða við austanverðan Eyjafjörð og Sigurgeir Þorgeirsson og Árna Snæbjörnsson frá Bændasamtökum Íslands.
    Umsagnir bárust nefndinni frá Sýslumannafélagi Íslands, Landssambandi veiðifélaga, Landssambandi stangaveiðifélaga, Laxfiskum ehf., Náttúrufræðistofnun Íslands, Umhverfisstofnun og Landvernd.
    Með frumvarpinu er lagt til að sett verði sérlög um fiskrækt, en ákvæði um fiskrækt eru nú í lögum um lax- og silungsveiði, nr. 76/1970. Ákvæði um fiskræktarsjóð verða þó áfram í lögum um lax- og silungsveiði. Frumvarpið er flutt samhliða frumvarpi til laga um varnir gegn fisksjúkdómum, frumvarpi til laga um Veiðimálastofnun, frumvarpi til laga um eldi vatnafiska og frumvarpi til laga um lax- og silungsveiði.
    Nefndin leggur til að orðin „þ.m.t. hafbeitar“ í 2. gr. falli brott þar sem orðalagið er villandi að því leyti að álykta má að hafbeit sé hluti af fiskrækt, en í athugasemdum í frumvarpinu kemur fram að slepping gönguseiða í veiðivötn teljist ekki til hafbeitar, heldur fiskræktar. Um er að ræða tvær skilgreiningar, þ.e. hafbeit og fiskrækt, og leggur nefndin því til að framangreind orð falli brott.
    Nefndin leggur til tvær breytingar á 3. gr. Annars vegar breytingu á 11. tölul. er lýtur að skilgreiningunni á hafbeit. Misræmi er á milli skilgreiningarinnar og skýringar með henni og því er orðalagi breytt. Ekki er um að ræða efnislega breytingu. Hins vegar er lögð til breyting á 26. tölul. á þá leið að villtur fiskstofn verði skilgreindur sem fiskstofn þar sem meiri hluti fisks er klakinn í náttúrulegu umhverfi, elst þar upp og er kominn undan villtum foreldrum. Sú breyting er til samræmis við skilgreiningu á hugtakinu í frumvarpi um lax- og silungsveiði.
    Einnig leggur nefndin til að gildistakan verði færð til 1. júlí 2006 í stað 1. júní og enn fremur að lagfærð verði tilvísun í lögum um verndun Þingvallavatns og vatnasviðs þess, nr. 85/2005.
    Að lokum er lögð til breyting á ákvæði til bráðabirgða þannig að einum fulltrúa frá Félagi eigenda sjávarjarða verði bætt við samráðsnefndina og með því komi fleiri hagsmunaaðilar að henni
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Margrét Frímannsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 4. maí 2006.



Drífa Hjartardóttir,


form., frsm.


Anna Kristín Gunnarsdóttir.


Magnús Stefánsson.



Gunnar Örlygsson.


Guðmundur Hallvarðsson.


Jón Bjarnason.



Guðjón Ólafur Jónsson.


Valdimar L. Friðriksson.