Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 731. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 1338  —  731. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um opinberan stuðning við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun.

Frá meiri hluta iðnaðarnefndar.



    Nefndin hefur fengið á sinn fund Kristján Skarphéðinsson og Svein Þorgrímsson frá iðnaðarráðuneytinu, Aðalstein Þorsteinsson og Herdísi Sæmundsdóttur frá Byggðastofnun, Magnús Friðgeirsson, stjórnarformann Iðntæknistofnunar og Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins, Ingólf Þorbjörnsson frá Iðntæknistofnun, Vilhjálm Egilsson frá Samtökum atvinnulífsins, Svein Hannesson frá Samtökum iðnaðarins, Halldór Jónsson frá Háskóla Íslands, Bjarka Brynjarsson og Þorkel Sigurlaugsson frá Háskólanum í Reykjavík, Aðalstein Óskarsson frá Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða, Tryggva Finnsson frá Atvinnuþróunarfélagi Þingeyinga, Róbert Jónsson og Örn Þórðarson frá Atvinnuþróunarsjóði Suðurlands, Geir Guðmundsson, Pál Árnason, Höllu Jónsdóttur og Ingibjörgu Óskarsdóttur frá Iðntæknistofnun, Hafstein Pálsson, Benedikt Jónsson og Atla Hjartarson frá Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins, Berglindi Hallgrímsdóttur frá Impru, Ögmund Knútsson frá Rannsóknastofnun Háskólans á Akureyri, Hans Guðmundsson frá Rannís, Guðmar Guðmundsson frá Sambandi upplýsingatæknifyrirtækja, Elinoru Sigurðardóttur frá Landssambandi hugvitsmanna, Hilmar Pétursson frá CCP hf., Stefán Úlfarsson frá Alþýðusambandi Íslands, Davíð Þorláksson frá Viðskiptaráði Íslands, Jón Steindór Valdimarsson frá Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins, Þórð Skúlason og Sigurð Óla Kolbeinsson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Berg Ágústsson frá Nýsköpunarstofu Vestmannaeyja, Runólf Ágústsson frá Viðskiptaháskólanum á Bifröst, Júlíus Kristinsson frá ORF–líftækni, Loga Kristjánsson frá Verkfræðingafélagi Íslands, Björn Karlsson frá Tæknifræðingafélagi Íslands og Jón Ágúst Þorsteinsson frá Samtökum sprotafyrirtækja og Marorku.
    Jafnframt bárust nefndinni skriflegar umsagnir um málið frá Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins, Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins, Atvinnuþróunarfélagi Þingeyinga hf., verkfræðingum hjá Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins, Reykjavíkurborg, Atvinnuþróunarsjóði Suðurlands, Fjórðungssambandi Vestfirðinga, Byggðastofnun, Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða, verkfræðingum hjá Iðntæknistofnun, Verkfræðingafélagi Íslands, Alþýðusambandi Íslands, Rannsóknarmiðstöð Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Iðntæknistofnun og sameiginleg umsögn frá Samtökum atvinnulífsins, Samtökum iðnaðarins, Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Samtökum ferðaþjónustunnar, Samtökum verslunar og þjónustu, Samtökum fjármálafyrirtækja, Samtökum fiskvinnslustöðva, Samorku og Samtökum atvinnurekenda í raf- og tölvuiðnaði. Einnig komu umsagnir frá Samtökum sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, Atvinnuþróunarfélagi Eyjafjarðar, Tæknifræðingafélagi Íslands, Háskólanum í Reykjavík, Viðskiptaráði Íslands, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Sambandi sveitarfélaga á Austurlandi, Orkustofnun, Nýsköpunarstofu Vestmannaeyja, Landsvirkjun, Bændasamtökum Íslands, Vegagerðinni, Eyþingi – Sambandi sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum, Háskóla Íslands, Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi og Atvinnuráðgjöf Vesturlands, Hólaskóla, Framleiðnisjóði landbúnaðarins, talsmanni neytenda, tækninefnd Vísinda- og tækniráðs, ORF-líftækni.
    Í frumvarpinu er lagt til að þrjár stofnanir verði sameinaðar í eina stofnun, Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Stofnanirnar sem sameinaðar verða eru Byggðastofnun, Iðntæknistofnun Íslands og Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins. Öll aðkoma iðnaðarráðuneytisins að tæknirannsóknum, nýsköpun og atvinnuþróun verður þar með samræmd og felld í eina stofnun í þeim tilgangi að efla sóknarkraft og tryggja hámarksárangur starfseminnar.
    Meiri hlutinn leggur áherslu á meginmarkmið frumvarpsins sem er að auka árangur þeirrar starfsemi iðnaðarráðuneytisins sem rekin er í þágu nýsköpunar og þróunar íslensks atvinnulífs.
    Breyttar aðstæður í atvinnulífinu gera það að verkum að nauðsynlegt er að endurskoða skipulag þeirra stofnana sem hafa það verkefni að stuðla að nýsköpun og atvinnuþróun í landinu. Hin síharðnandi krafa um aukna samkeppnishæfni og meiri árangur gerir það að verkum að óhjákvæmilegt er að endurmeta starfsemi og aðferðir í þessum málaflokki. Með því að þrjár stofnanir verði sameinaðar í eina verður stuðningur við atvinnuþróun efldur. Verkefnin eru fjölþætt og krefjast þess að við þau starfi fólk með víðtæka þekkingu og reynslu á þessu sviði. Stærri og öflugri stofnun með breiðari þekkingu starfsmanna er líklegri til að ná betri árangri en fleiri og minni einingar. Við breytinguna verða tæknirannsóknir endurskipulagðar með nýjum áherslum. Þeim er ætlað að mynda hið faglega bakland nýsköpunarstarfs í þágu fyrirtækja og þróunar atvinnulífsins. Þjónusta Impru hjá Iðntæknistofnun fyrir frumkvöðla og sprotafyrirtæki á skýra samleið með þjónustu Byggðastofnunar fyrir atvinnuþróunarfélögin víðs vegar um landið og er ætlunin að efling þeirrar þjónustu greiði fyrir yfirfærslu þekkingar frá vísinda- og rannsóknarsamfélaginu til fyrirtækja hvarvetna á landinu. Þetta mun leiða til aukins jöfnuðar þar sem aðgengi að stuðningsþjónustu fyrir þróun atvinnulífsins verður hin sama um allt land.
    Sameining þessarar grunnþjónustu iðnaðarráðuneytisins í kjarnastarfsemi í þekkingarsetrum kallar á mun víðtækari samþættingu á stuðningsumhverfi atvinnulífsins. Þar mun samstarf við háskólakennslu, háskólarannsóknir, starfsemi tæknifyrirtækja og hvers konar nýsköpunarfyrirtækja gegna veigamiklu hlutverki svo og samstarf við aðra stoðþjónustu eins og atvinnuþróunarfélög og ráðgjafa, t.d. tengda ferðaþjónustu og landbúnaði.
    Meiri hlutinn leggur til eftirfarandi breytingar á frumvarpinu.
     1.      Lagt er til að ný málsgrein bætist við 3. gr. Með breytingunni er komið til móts við ábendingar sem komið hafa fram varðandi skipulag stofnunarinnar.
     2.      Þá er lagt til að við bætist ný grein sem verði 6. gr. Í greininni er fjallað um ráðgjafarnefnd við Íslenskar tæknirannsóknir. Mikilvægt er að fag- og hagsmunaaðilar geti haft áhrif á faglega stefnumótun og faglegar áherslur fyrir tæknirannsóknir stofnunarinnar.
     3.      Einnig er lagt til að í stað þess að Tækniþróunarsjóður sé vistaður hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands þá heyri hann beint undir iðnaðarráðherra eins og nú er. Í umsögnum var m.a. bent á að hætt væri við hagsmunaárekstrum ef sjóðurinn heyrði beint undir Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Með breytingunni er lagt til að stjórnsýsluleg tengsl verði ekki á milli Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og Tækniþróunarsjóðs.
     4.      Lagt er til að breytingar verði gerðar á 18. gr. Bent hefur verið á að mikilvægt sé að auðvelda flutning verkefna frá stofnuninni á almennan markað. Það verður best gert með því að veita stofnuninni heimild til að eiga (t.d. tímabundið) í fyrirtækjum sem taka við verkefnum hennar.
     5.      Loks er lagt til að við bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða. Í ákvæðinu er fjallað um nefnd sem fjalla skal um rekstrarform Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands. Nefndin getur kannað hvort hlutafélagaformið henti betur fyrir rekstur stofnunarinnar allrar eða hluta hennar en ábendingar hafa komið fram um þann kost sem heppilegt rekstrarform fyrir stofnunina.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 29. maí 2006.



Birkir J. Jónsson,


form., frsm.


Drífa Hjartardóttir.


Bjarni Benediktsson,


með fyrirvara.



Sigurður Kári Kristjánsson,


með fyrirvara.


Ásta Möller,


með fyrirvara.