Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 731. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 1339  —  731. mál.




Breytingartillögur



við frv. til l. um opinberan stuðning við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun.

Frá meiri hluta iðnaðarnefndar (BJJ, DrH, BjarnB, SKK, ÁMöl).



     1.      Við 3. gr. Við bætist ný málsgrein sem orðist svo:
                 Nýsköpunarmiðstöð Íslands skal skiptast í tvö megin fagsvið, tækniþróunarsvið sem fer með málefni Íslenskra tæknirannsókna, sbr. 5. gr., og ráðgjafarsvið sem fer með önnur málefni stofnunarinnar. Ábyrgð á faglegum málefnum þessara sviða skal vera á hendi framkvæmdastjóra sem forstjóri ræður til fimm ára í senn.
     2.      Á eftir 5. gr. komi ný grein sem orðist svo:

Ráðgjafarnefnd.

             Við Íslenskar tæknirannsóknir skal vera starfandi ráðgjafarnefnd sem iðnaðarráðherra skipar til þriggja ára í senn. Tveir nefndarmanna skulu vera fulltrúar íslensks iðnaðar og tilnefndir af Samtökum iðnaðarins, tveir skulu vera fulltrúar annarra atvinnugreina sem tengsl hafa við lögboðna starfsemi Íslenskra tæknirannsókna, tilnefndir af Samtökum atvinnulífsins, tveir skulu vera fulltrúar tæknirannsókna innan háskóla og tilnefndir af samstarfsnefnd háskólastigsins, tveir skulu vera fulltrúar iðnaðarmanna og tilnefndir af Alþýðusambandi Íslands, einn skal tilnefndur af nýsköpunarnefnd Vísinda- og nýsköpunarráðs, einn tilnefndur af Verkfræðingafélagi Íslands, einn tilnefndur af menntamálaráðherra og einn skipar ráðherra án tilnefningar. Nefndin kýs sér formann. Forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands skal sitja fundi nefndarinnar. Hlutverk nefndarinnar er að vera ráðherra og forstjóra ráðgefandi um fagleg málefni sem tengjast stefnumótun í tæknirannsóknum, vali á helstu verkefnum og vera tengiliður hennar við hagsmunaaðila.
     3.      Við 9. gr. (er verði 10. gr.). Fyrri málsliður 1. mgr. orðist svo: Tækniþróunarsjóður er sérstakur sjóður sem heyrir undir iðnaðarráðherra.
     4.      Við 18. gr. (er verði 19. gr.). Greinin orðist svo:
                 Nýsköpunarmiðstöð Íslands er heimilt, að fengnu samþykki ráðherra, að eiga eignarhluti í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum, svo og fyrirtækjum er starfa að sérhæfðri ráðgjöf, rannsóknum og þróun, sem rekin eru í formi hlutafélaga eða annars konar formi með takmarkaðri ábyrgð félagsmanna.
     5.      Við 19. gr. (er verði 20. gr.). Orðið „Tækniþróunarsjóðs“ falli brott.
     6.      Við bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, IV, svohljóðandi:
                 Iðnaðarráðherra skal skipa nefnd sem meta skal rekstrarform Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, þ.e. hvort annað rekstrarform en beinn ríkisrekstur kunni að vera heppilegra fyrir starfsemi stofnunarinnar í heild eða að hluta. Nefndin skal ljúka störfum fyrir árslok 2008.