Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 366. máls.

Þskj. 420  —  366. mál.



Frumvarp til laga

um starfsmannaleigur.

(Lagt fyrir Alþingi á 132. löggjafarþingi 2005–2006.)




I. KAFLI
Gildissvið.
1. gr.

Gildissvið.

    Lög þessi gilda um starfsmannaleigur á innlendum vinnumarkaði.
    Með starfsmannaleigu er átt við þjónustufyrirtæki sem samkvæmt samningi leigir út starfsmenn sína gegn gjaldi til að sinna störfum á vinnustað notendafyrirtækis undir verkstjórn þess síðarnefnda.

II. KAFLI
Skráning og tilkynning.
2. gr.
Skráning.

    Hver sá sem vill veita starfsmannaleiguþjónustu hér á landi skal tilkynna um það til Vinnumálastofnunar átta virkum dögum áður en starfsemi hefst í fyrsta skipti.
    Í tilkynningu til Vinnumálastofnunar skv. 1. mgr. skal koma fram nafn fyrirtækis, kennitala og heimilisfang ásamt nafni fyrirsvarsmanns þess, kennitala hans og heimilisfang. Þegar starfsmannaleigan hefur staðfestu í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu eða í EFTA-ríki skulu koma fram upplýsingar um staðfestu fyrirtækis í heimaríki og nafn fyrirsvarsmanns fyrirtækis, heimilisfang í heimaríki og virðisaukaskattsnúmer eða önnur sambærileg heimild um starfsemina sem sýnir fram á að fyrirtæki starfi löglega sem starfsmannaleiga í heimaríkinu samkvæmt lögum þess ríkis.
    Vinnumálastofnun skal halda skrá yfir þá sem hafa tilkynnt sig samkvæmt lögum þessum og birta hana með aðgengilegum hætti.
    Öðrum en þeim sem eru á skrá hjá Vinnumálastofnun er óheimilt að veita starfsmannaleiguþjónustu hér á landi.
    Starfsmannaleigum sem ekki hafa staðfestu á Evrópska efnahagssvæðinu eða í EFTA-ríki er óheimilt að veita hér þjónustu án staðfestu nema samningar sem Ísland á aðild að heimili slíkt.

3. gr.
Sérstakur fulltrúi.

    Starfsmannaleiga sem veitir þjónustu á Íslandi samtals lengur en tíu virka daga á hverjum tólf mánuðum skal hafa fulltrúa hér á landi.
    Starfsmannaleiga skal tilkynna Vinnumálastofnun um nafn fulltrúa fyrirtækisins hér á landi ásamt kennitölu hans og lögheimili eða dvalarstað hér á landi átta virkum dögum áður en starfsemi þess hefst hér á landi. Skipti fyrirtækið um fulltrúa á meðan það hefur starfsemi hér á landi skal tilkynna um skiptin án ástæðulausrar tafar.
    Fulltrúi starfsmannaleigunnar ber ábyrgð á að veita stjórnvöldum upplýsingar samkvæmt lögum þessum, sem og þær upplýsingar sem starfsmannaleigu er skylt að veita á grundvelli 2. gr. laga nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, með síðari breytingum. Enn fremur skal hann hafa umboð til að taka við stjórnvaldsákvörðun eða eftir atvikum birtingu stefnu þannig að bindandi sé að lögum fyrir starfsmannaleiguna. Þessar skyldur fulltrúans skulu haldast tólf mánuðum eftir að starfsemi starfsmannaleigunnar er lokið hér á landi.
    Starfsmannaleigu skv. 1. mgr. er óheimilt að veita þjónustu hér á landi hafi hún látið hjá líða að tilkynna um fulltrúa til Vinnumálastofnunar eða um skipti á fulltrúa.

4. gr.
Tilkynningarskylda.

    Starfsmannaleiga sem hyggst veita þjónustu hér á landi samtals lengur en tíu virka daga á hverjum tólf mánuðum skal veita Vinnumálastofnun eftirfarandi upplýsingar átta virkum dögum áður en þjónustan er veitt í hvert skipti:
     a.      yfirlit yfir starfsmenn sem starfa á vegum fyrirtækisins hér á landi þar sem fram kemur fjöldi þeirra, nöfn, heimilisföng í heimaríki, ríkisfang og starfsréttindi eftir því sem við á,
     b.      yfirlit yfir þann tíma sem áætlað er að starfsmenn fyrirtækisins muni dveljast hér á landi þegar um erlenda starfsmenn er að ræða,
     c.      gildi atvinnuleyfa starfsmanna í heimaríki þegar um er að ræða starfsmenn sem eru ekki ríkisborgarar ríkja á Evrópska efnahagssvæðinu eða EFTA-ríkja og
     d.      aðrar þær upplýsingar sem Vinnumálastofnun kann að óska eftir til þess að ganga úr skugga um að starfsmannaleiga veiti sannanlega þjónustu hér á grundvelli 36. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eða stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu og að um sé að ræða starfsmenn þess, svo sem afrit af þjónustusamningum og ráðningarsamningum.
    Vinnumálastofnun skal áframsenda upplýsingar skv. a–c-lið 1. mgr. til Útlendingastofnunar eftir því sem við getur átt.

III. KAFLI
Almenn ákvæði.
5. gr.
Óheimil gjaldtaka.

    Starfsmannaleigu er óheimilt að krefjast greiðslna, semja um eða taka við greiðslum frá starfsmönnum sínum fyrir að bjóða eða veita þeim vinnu, hvort sem er við upphaf ráðningarsambands eða síðar.

6. gr.

Takmörkun á útleigu.


    Starfsmannaleigu sem hefur ráðið til sín starfsmann er hefur áður starfað hjá öðru fyrirtæki er óheimilt að leigja út starfsmanninn til þess fyrirtækis fyrr en sex mánuðir eru liðnir frá því að ráðningarsambandi hans við það fyrirtæki lauk.

7. gr.
Ráðning til notendafyrirtækis.

    Starfsmannaleigu er óheimilt að takmarka rétt starfsmanns sem leigður hefur verið til notendafyrirtækis til að stofna síðar til ráðningarsambands við það fyrirtæki.

8. gr.
Skriflegir ráðningarsamningar.

    Starfsmannaleiga skal gera skriflega ráðningarsamninga við starfsmenn sína. Samningur skal vera í tvíriti og heldur hvor aðili sínu eintaki. Jafnframt skal veita skriflegar upplýsingar um það verkefni sem starfsmaður er sendur til að vinna við hverju sinni áður en vinnan hefst.

IV. KAFLI
Eftirlit og viðurlög.
9. gr.
Eftirlit.

    Vinnumálastofnun skal hafa eftirlit með framkvæmd laga þessara og reglugerða settra samkvæmt þeim.
    Berist Vinnumálastofnun rökstudd kvörtun um að starfsmannaleiga hafi brotið gegn ákvæðum laganna ber stofnuninni að kanna málið frekar. Komist stofnunin að þeirri niðurstöðu að starfsmannaleiga hafi brotið gegn ákvæðum laga þessara skal hún krefjast þess með hæfilegum fyrirvara að starfsmannaleigan starfi í samræmi við lög.

10. gr.
Upplýsingar í þágu eftirlits.

    Starfsmannaleiga skal veita Vinnumálastofnun þær upplýsingar er stofnunin telur nauðsynlegar til að fylgjast með framkvæmd laga þessara, þ.m.t. um ráðningarsamninga og ráðningarkjör.
    Starfsmönnum Vinnumálastofnunar er óheimilt að nota aðstöðu sína til að afla sér annarra upplýsinga um starfsemina en þeirra sem eru nauðsynlegar eða kunna að vera nauðsynlegar í þágu eftirlitsins. Enn fremur er þeim óheimilt að láta öðrum í té upplýsingar um starfsemina, starfsmenn eða aðra aðila, ef þeir hafa fengið vitneskjuna vegna starfa sinna og ástæða er til að ætla að henni skuli haldið leyndri.

11. gr.
Tímabundin stöðvun á starfsemi.

    Hafi Vinnumálastofnun krafist þess með hæfilegum fyrirvara að starfsmannaleiga fari að lögum og úrbætur hafa ekki verið gerðar, þegar sá frestur er liðinn sem gefinn var, getur Vinnumálastofnun krafist þess að lögregla stöðvi vinnu tímabundið eða loki starfsemi starfsmannaleigunnar tímabundið þangað til úrbætur hafa verið gerðar.

12. gr.
Kæruheimild.

    Heimilt er að kæra ákvarðanir Vinnumálastofnunar til félagsmálaráðuneytis innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðunina. Kæra telst nægilega snemma fram komin ef bréf um ákvörðunina hefur borist ráðuneytinu eða verið afhent pósti áður en fresturinn er liðinn.
    Félagsmálaráðuneytið skal leitast við að kveða upp úrskurð innan tveggja mánaða frá því að ráðuneytinu berst mál til úrskurðar.
    Að öðru leyti fer um málsmeðferð samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga.

13. gr.
Viðurlög.

    Brot gegn lögum þessum eða reglugerðum settum samkvæmt þeim varða sektum nema þyngri refsing liggi við að öðrum lögum.
    Sektir renna í ríkissjóð.
    Með mál út af brotum á lögum þessum eða reglugerðum settum samkvæmt þeim fer að hætti opinberra mála.

V. KAFLI
Ýmis ákvæði.
14. gr.
Reglugerðarheimild.

    Félagsmálaráðherra er heimilt að setja reglugerð um nánari framkvæmd laga þessara.

15. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Starfsmannaleiga sem þegar er starfandi á innlendum vinnumarkaði skal uppfylla skilyrði 2. og 3. gr. eigi síðar en 1. febrúar 2006.


16. gr.
Breytingar á öðrum lögum.

    Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á öðrum lögum:
     1.      Lög um réttarstöðu starfsmanna sem starfa tímabundið á Íslandi á vegum erlendra fyrirtækja, nr. 54/2001:
                  a.      Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
                 i.      Á eftir orðunum „að því er varðar lágmarkslaun“ í 1. tölul. 1. mgr. kemur: og aðra launaþætti.
                 ii.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                         Greiðslur sem sérstaklega tengjast starfinu skulu reiknast inn í lágmarkslaun starfsmanns. Fyrirtæki, sbr. 2. gr., er þó óheimilt að reikna greiðslur vegna kostnaðar sem það hefur lagt út fyrir vegna ferða starfsmanns, gistingar og uppihalds, inn í kröfur um lágmarkslaun skv. 1. tölul. 1. mgr. 3. gr.
                  b.      Heiti laganna verður: Lög um starfskjör starfsmanna sem starfa tímabundið á Íslandi á vegum erlendra fyrirtækja.
     2.      Lög um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 97/2002, með síðari breytingum:
                  a.      Í stað 4. mgr. 7. gr. laganna koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                     Óheimilt er að veita dvalar- og atvinnuleyfi samkvæmt lögum þessum vegna starfa hjá starfsmannaleigum.
                     Félagsmálaráðherra getur með reglugerð sett nánari ákvæði um tímabundin atvinnuleyfi.
                  b.      Í stað ákvæðis til bráðabirgða kemur nýtt ákvæði, svohljóðandi:
                     Ákvæði a-liðar 14. gr. tekur þó ekki gildi að því er varðar rétt ríkisborgara Eistlands, Lettlands, Litháens, Póllands, Slóvakíu, Slóveníu, Tékklands og Ungverjalands til að starfa hér á landi fyrr en 1. maí 2006, sbr. þó 36. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpi þessu eru lagt til að sett verði lög er fjalla um starfsemi starfsmannaleigna hér á landi. Enn fremur er lagt til að gerðar verði nauðsynlegar breytingar á lögum nr. 54/2001, um réttarstöðu starfsmanna sem starfa tímabundið á Íslandi á vegum erlendra fyrirtækja, og lögum nr. 97/2002, um atvinnuréttindi útlendinga.
    Félagsmálaráðherra skipaði þriggja manna starfshóp til að fjalla um stöðu starfsmannaleigna á íslenskum vinnumarkaði í ágúst árið 2004. Í starfshópnum áttu sæti fulltrúar Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins, auk fulltrúa félagsmálaráðuneytis. Starfshópnum var meðal annars ætlað að skoða sérstaklega starfsumhverfi starfsmannaleigna sem hafa staðfestu í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins en kjósa að veita þjónustu hér á landi á grundvelli 36.–39. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Enn fremur var starfshópnum ætlað að kanna nauðsyn þess að sett yrðu sérlög eða lagaákvæði í þegar gildandi löggjöf um starfsemi starfsmannaleigna hér á landi. Samstaða náðist innan starfshópsins um setningu sérlaga um starfsmannaleigur og urðu fulltrúar aðila ásáttir um þau atriði er fram koma í frumvarpi þessu.
    Hér á landi hefur ekki verið í gildi sérstök löggjöf um starfsmannaleigur enda óhætt að fullyrða að slík starfsemi hafi almennt ekki tíðkast á innlendum vinnumarkaði nema í mjög litlum mæli. Á undanförnum missirum hefur hins vegar færst í vöxt að íslensk fyrirtæki nýti sér þjónustu starfsmannaleigna. Félagsmálaráðuneytið hefur farið ítarlega yfir stöðu mála varðandi starfsmannaleigur hér á landi og erlendis. Félagsmálaráðherra aflaði meðal annars upplýsinga frá vinnumálaráðherrum í ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu um gildandi löggjöf og reglur um starfsmannaleigur í einstökum ríkjum. Jafnframt fól ráðherra Rannsóknarsetri vinnuréttar og jafnréttismála við Viðskiptaháskólann á Bifröst að vinna greinargerð um starfsmannaleigur. Greinargerðin var afhent ráðherra 6. október sl. þar sem m.a. kom fram hvaða kostir væru fyrir hendi að því er varðar stöðu starfsmannaleigna hér á landi.
    Eftir þá ítarlegu umfjöllun sem að framan greinir og vinnu starfshóps félagsmálaráðherra sem skipaður var fulltrúum aðila vinnumarkaðarins og félagsmálaráðuneytis var eins og fyrr segir talin ástæða til að setja tilteknar lágmarksreglur um starfsemi starfsmannaleigna hér á landi.
    Á íslenskum vinnumarkaði er meginreglan sú að starfsmenn eru ráðnir ótímabundið beint til vinnuveitanda enda ríkir hér ákveðinn sveigjanleiki í ráðningum sem ætlað er að auðvelda fyrirtækjum að bregðast við sveiflum í starfsemi þeirra. Frumvarpi þessu er ekki ætlað að breyta þeirri óskráðu reglu. Það er sameiginlegur vilji félagsmálaráðherra, Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins að ótímabundnir ráðningarsamningar starfsmanna beint við vinnuveitendur sína verði áfram ríkjandi ráðningarform hér á landi.
    Gert er ráð fyrir að hver sá sem ætlar að veita þjónustu starfsmannaleigu hér á landi tilkynni um starfsemi sína til Vinnumálastofnunar átta virkum dögum áður en starfsemin hefst í fyrsta skipti hér á landi. Vinnumálastofnun er síðan ætlað að halda skrá yfir þá sem hafa tilkynnt um starfsemi sína en öðrum starfsmannaleigum er ekki heimilt að stunda hér starfsemi. Enn fremur er starfsmannaleigum sem veita þjónustu á Íslandi samtals lengur en tíu virka daga á hverjum tólf mánuðum gert að hafa hér sérstakan fulltrúa sem kemur fram fyrir fyrirtækið gagnvart stjórnvöldum. Þá er starfsmannaleigum ætlað að gefa Vinnumálastofnun tilteknar upplýsingar um starfsemi sína hér á landi.
    Almenn ákvæði er að finna um starfsemi starfsmannaleigna hér á landi. Þar á meðal er lagt til að starfsmannaleigum verði óheimilt að krefjast greiðslna frá starfsmönnum sínum fyrir að bjóða eða veita þeim vinnu, hvort sem er við upphaf ráðningarsambands eða síðar. Enn fremur er gert ráð fyrir að starfsmannaleigu sé óheimilt að leigja út starfsmann til fyrirtækis sem hann hefur áður starfað hjá fyrr en sex mánuðir eru liðnir frá því að ráðningarsambandi hans við það fyrirtæki lauk. Jafnframt er talið mikilvægt að starfsmannaleigu verði óheimilt að takmarka rétt starfsmanns sem leigður hefur verið til notendafyrirtækis til að stofna síðar til ráðningarsamnings við það fyrirtæki. Er Vinnumálastofnun ætlað að hafa eftirlit með framkvæmd laganna.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Lagt er til að frumvarpið gildi um starfsmannaleigur á innlendum vinnumarkaði, hvort sem þær hafa staðfestu á Íslandi, í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu eða í EFTA-ríki. Hugtakið „starfsmannaleiga“ hefur ekki áður verið skilgreint í íslenskum lögum en gert er ráð fyrir því að frumvarpið taki til þjónustufyrirtækja sem gera samninga við önnur fyrirtæki um að leigja út starfsmenn sína gegn gjaldi til að sinna störfum á vinnustað notendafyrirtækis. Fer vinnan fram undir verkstjórn notendafyrirtækisins.

Um 2. gr.


    Gert er ráð fyrir að hver sá sem ætlar að veita þjónustu starfsmannaleigu hér á landi tilkynni um starfsemi sína til Vinnumálastofnunar átta virkum dögum áður en starfsemin hefst í fyrsta skipti. Á þetta bæði við um fyrirtæki sem hefja rekstur hér á landi og þau sem kjósa að veita þjónustu yfir landamæri á grundvelli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eða stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu. Að öðrum kosti er þeim óheimilt að leigja út starfsmenn til notendafyrirtækja.
    Í tilkynningu til Vinnumálastofnunar skal koma fram nafn fyrirtækis, kennitala og heimilisfang ásamt nafni fyrirsvarsmanns þess, kennitala hans og heimilisfang. Þegar um er að ræða starfsmannaleigu með staðfestu í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu eða í EFTA-ríki verður ekki gerð krafa um heimilisfesti fyrirtækis hér á landi heldur er átt við heimilisfang í heimaríki. Enn fremur er mikilvægt að upplýsingar um staðfestu í heimaríki fylgi en það er skilyrði að hlutaðeigandi lögaðili eigi þegar staðfestu í einu ríki innan aðildarríkis að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið áður en hann veitir þjónustu í öðru aðildarríki. Er litið svo á að þjónustan sé veitt frá þeim stað þar sem fyrirtækið er skráð með staðfestu enda einungis gert ráð fyrir að því sé heimilt að stunda starfsemi sína tímabundið í öðru aðildarríki. Lagt er til að starfsmannaleigum sem hvorki hafa staðfestu á Evrópska efnahagssvæðinu né í EFTA-ríki verði óheimilt að veita hér þjónustu án staðfestu nema að samningar sem Ísland á aðild að heimili slíkt. Ákvæði þessu er hins vegar ekki ætlað að breyta túlkun stjórnvalda á 10. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga, um að fyrirtækjum sé heimilt við sérstakar aðstæður að senda hingað sérhæfða starfsmenn sína tímabundið á grundvelli þjónustusamninga.
    Þá er gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun haldi skrá yfir þá sem hafa tilkynnt um starfsemi sína til stofnunarinnar. Skal skráin birt með aðgengilegum hætti, til dæmis á heimasíðu stofnunarinnar, enda er öðrum starfsmannaleigum ekki heimilt að stunda hér starfsemi.

Um 3. gr.


    Ákvæðið fjallar um skyldu starfsmannaleigna sem veita þjónustu á Íslandi samtals lengur en tíu virka daga á hverjum tólf mánuðum til að hafa hér á landi fulltrúa. Ástæða fyrir þessari skyldu er að um er að ræða sérstaklega viðkvæma starfsgrein þegar litið er til eðlis starfseminnar og þar með stöðu starfsmannanna. Þykir því nauðsynlegt að stjórnvöld, sem og aðilar vinnumarkaðarins, geti haft samband við ákveðinn aðila sem komi fram fyrir hönd starfsmannaleigu sem hefur starfsstöð sína erlendis en gert er ráð fyrir að fyrirsvarsmenn innlendra fyrirtækja verði fulltrúar þeirra. Er þannig gert ráð fyrir að fulltrúinn beri ábyrgð á að stjórnvöldum séu veittar upplýsingar sem eru nauðsynlegar til að hafa eftirlit með starfseminni lögum samkvæmt, sem og þær upplýsingar sem starfsmannaleigu er skylt að veita á grundvelli 2. gr. laga nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, með síðari breytingum.
    Starfsmannaleigu er gert að tilkynna um fulltrúa sinn til Vinnumálastofnunar með tilkynningu þar sem fram kemur nafn hans ásamt kennitölu og lögheimili eða dvalarstað hans hér á landi. Ekki eru gerðar sérstakar kröfur um að fulltrúinn hafi fasta búsetu á Íslandi en gert er ráð fyrir að hann hafi hér dvalarstað meðan starfsemin fer fram hér á landi. Hafi fulltrúinn lögheimili hér á landi skal það tekið fram. Skipti fyrirtækið um fulltrúa meðan starfsemin stendur yfir skal jafnframt tilkynna um skiptin til stofnunarinnar. Starfsmannaleigu er óheimilt að starfa hér á landi hafi hún látið hjá líða að tilkynna um fulltrúa hér á landi.

Um 4. gr.


    Lagt er til að starfsmannaleiga sem hyggst veita þjónustu sína hér á landi samtals lengur en tíu virka daga á hverjum tólf mánuðum veiti Vinnumálastofnun tilteknar upplýsingar í hvert skipti sem þjónustan er veitt. Er gert ráð fyrir að upplýsingarnar séu sendar til Vinnumálastofnunar átta virkum dögum áður en starfsemin fer fram. Þessi tilkynningarskylda á bæði við um íslenskar starfsmannaleigur og starfsmannaleigur með staðfestu í öðrum ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu eða í EFTA-ríkjum. Tilgangur ákvæðis þessa er að Vinnumálastofnun verði gert kleift að hafa yfirsýn yfir stöðuna á innlendum vinnumarkaði að því er varðar starfsemi starfsmannaleigna hér á landi, sem og fjölda erlendra starfsmanna er starfa hjá slíkum fyrirtækjum. Gert er ráð fyrir að starfsmannaleigur þurfi ekki jafnframt að tilkynna um starfsmenn sína til Útlendingastofnunar skv. 110. gr. reglugerðar nr. 53/2003, um útlendinga, með síðari breytingum, enda er lagt til að Vinnumálastofnun sendi viðeigandi upplýsingar áfram til Útlendingastofnunar. Engu síður geta starfsmannaleigur þurft að sækja um EES-dvalarleyfi vegna starfsmanna sinna til Útlendingastofnunar samkvæmt lögum nr. 96/2002, um útlendinga.

Um 5. gr.


    Gert er ráð fyrir að starfsmannaleigu verði óheimilt að krefjast greiðslna, semja um eða taka við greiðslum frá starfsmönnum sínum fyrir að bjóða eða veita þeim vinnu. Á bannið við hvort sem er við upphaf ráðningar eða á síðari stigum og þá jafnframt þegar ráðningu er slitið. Þetta er í samræmi við venjur á íslenskum vinnumarkaði enda hefur ekki tíðkast að vinnuveitendur taki fé af fólki þegar þeir ráða það til starfa eða síðar á ráðningartímanum.

Um 6. gr.


    Ákvæðið fjallar um takmörkun á útleigu á starfsmönnum til fyrirtækja sem þeir hafa áður verið í beinu ráðningarsambandi við. Er þar með komið í veg fyrir að fyrirtæki segi upp starfsmönnum til þess eins að ráða þá óbeint aftur í gegnum starfmannaleigu. Lagt er til að sex mánuðir þurfi að líða frá því að ráðningarsamningi starfsmanns við notendafyrirtæki lauk og þar til að starfsmannaleigu sem hann hefur ráðið sig til starfa er heimilt að leigja hann út til þess fyrirtækis.

Um 7. gr.


    Lagt er til að starfsmannaleigu verði óheimilt að takmarka rétt starfsmanns sem leigður hefur verið til notendafyrirtækis til að stofna síðar til ráðningarsambands við það fyrirtæki, að teknu tilliti til ákvæða um uppsagnarfrest. Þessu ákvæði er meðal annars ætlað að stuðla að beinum ótímabundnum ráðningum þannig að sjái notendafyrirtæki hag sinn í að ráða hlutaðeigandi starfsmann til sín með hefðbundnum hætti er starfsmannaleigunni óheimilt að koma í veg fyrir að starfsmaðurinn geti tekið starfinu.

Um 8. gr.


    Í ljósi sérstöðu starfsmanna starfsmannaleigna þótti ástæða til að kveða á um að ráðningarsamningar milli starfsmannaleigna og starfsmanna þeirra skuli vera skriflegir. Er gert ráð fyrir að ráðningarsamningarnir fullnægi skilyrðum tilskipunar Evrópusambandsins nr. 91/533/EBE, um skyldu vinnuveitenda að skýra launþegum frá samningsskilmálum eða ráðningarfyrirkomulagi, sbr. auglýsingu nr. 503/1997 sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda 30. júní 1997. Enn fremur er gert ráð fyrir að starfsmannaleigur upplýsi starfsmenn sína skriflega um þau verkefni sem þeir eru sendir til að vinna við hverju sinni áður en vinnan hefst.

Um 9. gr.


    Gert er ráð fyrir að Vinnumálastofnun verði falið það hlutverk að hafa eftirlit með framkvæmd laganna, sem og reglugerða settra samkvæmt þeim. Lagt er til að Vinnumálastofnun bregðist við rökstuddum kvörtunum um að starfsmannaleiga hafi brotið gegn ákvæðum laganna með því að kanna málin frekar. Hver sá sem verður áskynja um að fyrirtæki brjóti gegn lögunum getur beint kvörtun sinni til Vinnumálastofnunar sem metur þá hvort ástæða sé til að aðhafast frekar. Komist stofnunin að þeirri niðurstöðu að starfsmannaleiga hafi brotið gegn lögunum skal hún beina þeim kröfum til fyrirtækisins að það fari að lögum. Stjórnsýslulögin gilda um málsmeðferðina og því gert ráð fyrir að stofnunin veiti hæfilegan frest til úrbóta. Þegar brot teljast alvarleg þykir eðlilegt að fyrirtækjum verði gefinn mjög stuttur frestur í því skyni enda er þá mikilvægt að ástandið verði fært til samræmis við lög án ástæðulauss dráttar.

Um 10. gr.


    Á grundvelli eftirlitsskyldna sinna skv. 9. gr. frumvarpsins er jafnframt gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun geti óskað eftir upplýsingum frá starfsmannaleigum sem stofnunin telur nauðsynlegar til að fylgjast með að farið sé að lögum. Ljóst er að þar geta verið um að ræða ýmsar viðkvæmar upplýsingar þannig að mikilvægt þykir að kveðið sé á um þagnarskyldu starfsmanna Vinnumálastofnunar. Er ákvæðið efnislega samhljóða þeim skyldum er hvíla á starfsmönnum Vinnueftirlits ríkisins við sambærilegar aðstæður.

Um 11. gr.


    Tilgangur þessa ákvæðis er að tryggja að starfsmannaleiga fari að fyrirmælum Vinnumálastofnunar þegar stofnunin hefur komist að því að fyrirtæki hefur brotið lögin og það hafi ekkert aðhafst þrátt fyrir fyrirmæli stofnunarinnar. Þykir nauðsynlegt að slík þvingunarúrræði séu fyrir hendi enda þótt gert sé ráð fyrir að hlutaðeigandi fyrirtæki hafi áður fengið hæfilegan frest til að færa starfsemi sína í samræmi við lög.

Um 12. gr.


    Ákvæðið fjallar um heimild til að kæra ákvarðanir Vinnumálastofnunar til félagsmálaráðuneytis. Gert er ráð fyrir þriggja mánaða kærufresti frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun. Er fresturinn þannig í samræmi við þann kærufrest sem veittur er í 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, með síðari breytingum, en málsmeðferð skal að öðru leyti fara eftir þeim lögum.
    Í 2. mgr. er tilgreindur viðmiðunartími um afgreiðslu mála hjá félagsmálaráðuneytinu sem verður að teljast eðlilegur málshraði þegar litið er til þess að veita skal aðilum kost á tjá sig um málið áður en það er tekið til úrskurðar. Séu mál sérstaklega umfangsmikil og tímafrekt reynist að undirbúa þau og rannsaka með viðunandi hætti er hugsanlegt að afgreiðslutíminn lengist að sama skapi.

Um 13. gr.


    Lagt er til að tekin verði upp viðurlög í formi sekta brjóti starfsmannaleigur gegn lögunum. Er gert ráð fyrir að það sé dómstóla að ákveða sektir og fjárhæð þeirra.

Um 14. gr.


    Ákvæðið veitir félagsmálaráðherra heimild til að setja reglugerð um nánari framkvæmd laga þessara. Markmiðið með slíkri heimild er að kveðið verði skýrar á um framkvæmd laganna ef nauðsyn ber til.

Um 15. gr.


    Ákvæðið þarfnast ekki skýringar.

Um 16. gr.


    Ákvæðið gerir ráð fyrir tilteknum breytingum á lögum nr. 54/2001, um réttarstöðu starfsmanna sem starfa tímabundið á Íslandi á vegum erlendra fyrirtækja. Þessum breytingum er ætlað að gera lögin skýrari en ákveðins misskilnings hefur gætt við túlkun þeirra. Meðal annars er lagt til að heiti laganna verði breytt þannig að skýrt verði í heiti þeirra að ákvæði þeirra eigi aðallega við um starfskjör starfsmanna erlendra fyrirtækja sem eru sendir tímabundið hingað til lands til að veita þjónustu en starfa að jafnaði utan Íslands. Ýmis önnur lög geta átt við um réttarstöðu þessara starfsmanna, svo sem lög um atvinnuréttindi útlendinga og lög um útlendinga. Enn fremur er leitast við að gera 1. tölul. 1. mgr. 3. gr. skýrari þannig að þar komi fram að átt sé við laun, aðra launaþætti og hlunnindi, svo sem orlofs- og desemberuppbætur, eingreiðslur, flutningskostnað eftir því sem við á, fæðis- og húsnæðishlunnindi. Ákvæði 2. tölul. a-liðar er efnislega samhljóða 2. tölul. 7. mgr. 3. gr. tilskipunar nr. 96/71/EB, um útsenda starfsmenn, og er lagt til að efni ákvæðisins verði bætt við lögin til að tryggja fulla innleiðingu á efni tilskipunarinnar hér á landi.
    Markmið laga um veitingu atvinnuleyfa er að veita atvinnurekendum tækifæri á að manna stöður innan fyrirtækja sinna þegar skortur er á vinnuafli á innlendum vinnumarkaði. Við mat á því hvort skortur er á vinnuafli ber að líta til skuldbindinga íslenskra stjórnvalda samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu. Lengi hefur tíðkast að atvinnurekendur hafi þurft að færa rök fyrir nauðsyn að nota erlent starfsfólk og gera grein fyrir því hvaða tilraunir hafi verið gerðar til þess að ráða fólk sem þegar hefur aðgengi að íslenskum vinnumarkaði. Fellur það í hlut Vinnumálastofnunar að kanna sjálfstætt áður en atvinnuleyfi er veitt hvert atvinnuástandið er á hverjum stað og hvort útséð sé um að vinnuafl fáist innan Evrópska efnahagssvæðisins.
    Að teknu tilliti til framangreindra sjónarmiða og markmiða laganna þykir það ekki samræmast tilgangi laganna að heimila veitingu dvalar- og atvinnuleyfa vegna starfa hjá starfsmannaleigum enda ekki um að ræða ráðningar í tiltekið starf innan sama fyrirtækis í hefðbundnum skilningi þar sem starfsmenn starfsmannaleigna eru að öllu jöfnu leigðir tímabundið milli ólíkra fyrirtækja og jafnvel starfsgreina. Er jafnframt lögð áhersla á að útlendingar sem fá atvinnuleyfi samkvæmt lögum um atvinnuréttindi útlendinga séu ráðnir með hefðbundnum ráðningum sem er meginreglan á íslenskum vinnumarkaði. Ekki er um að ræða breytingu á framkvæmd laganna heldur eru eingöngu settar styrkari stoðir undir stefnu stjórnvalda við veitingu atvinnuleyfa til útlendinga á íslenskum vinnumarkaði.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um starfsmannaleigur.


    Með frumvarpi þessu er lagt til að sett verði lög um starfsmannaleigur og einnig að gerðar verði nauðsynlegar breytingar á lögum nr. 54/2001, um réttarstöðu starfsmanna sem starfa tímabundið á Íslandi á vegum erlendra fyrirtækja, og lögum nr. 97/2002, um atvinnuréttindi útlendinga.
    Í frumvarpinu er lagt til að sett verði almenn ákvæði um starfsemi starfsmannaleigna og um skyldu þeirra til að tilkynna Vinnumálastofnun starfsemi sína og áður en hún hefst. Skal stofnunin halda skrá yfir þær starfsmannaleigur sem tilkynnt hafa starfsemi sína. Í frumvarpinu er m.a. kveðið á um að starfsmannaleigum verði óheimilt að krefjast greiðslna frá starfsmönnum sínum fyrir að bjóða eða veita þeim vinnu, hvort sem er við upphaf ráðningarsambands eða síðar. Vinnumálastofnun hefur eftirlit með framkvæmd laganna.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum mun það leiða til aukinna útgjalda hjá Vinnumálastofnun sem er áætlað að jafngildi kostnaði við einn starfsmann og rúmast sá útgjaldaauki innan fjárhagsramma stofnunarinnar.