Vegalög

Þriðjudaginn 30. janúar 2007, kl. 17:30:52 (4030)


133. löggjafarþing — 62. fundur,  30. jan. 2007.

vegalög.

437. mál
[17:30]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Aðeins varðandi það sem ég spurði hæstv. ráðherra um í ræðu minni og hann fjallaði um núna, 28. gr. gagnvart skipulagslögunum. (Gripið fram í.) Þó að ég taki þetta dæmi úr Borgarnesi þar sem tvenn gatnamót voru gerð á hringveginn við það skipulag sem þar var gert og við þær fyllingar sem þar voru gerðar, væntanlega vestan við þjóðveginn ef ég er ekki of áttavilltur þarna, til að byggja upp verslunarhúsnæði og þjónustumiðstöðvar, fjölfarnar leiðir — ég man bara ekki nákvæmlega hvar það var, hvort það var á fundi í samgöngunefnd eða annars staðar, þar sem ég ræddi þetta við fulltrúa Vegagerðarinnar — og kom þar auðvitað fram að hagsmunir Vegagerðarinnar og bæjarfélagsins við þessi gatnamót voru ólíkir.

Þar sem þetta skarast svo mikið sem raun ber vitni, annars vegar hagsmunir sveitarfélagsins og hins vegar hagsmunir Vegagerðarinnar, og alveg sérstaklega með tilliti til umferðaröryggis, vil ég taka skýrt fram að á þessum fjölfarna vegi þegar maður kemur til Borgarness eru þetta gatnamót sem menn smeygja sér inn á ótt og títt. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort honum finnist eðlilegt að þetta sé á þann hátt sem þarna er. Ég geri mér alveg grein fyrir skipulagslögunum og að endanlegt val er alltaf hjá sveitarfélögunum eins og kemur fram í athugasemd með þessari grein, en hefur verið rætt um þörfina á að skoða hvort hagsmunir Vegagerðarinnar og almennings gagnvart umferðaröryggi verði teknir jafnvel fram yfir hagsmuni viðkomandi sveitarfélags í þessu tilfelli?