Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 01. febrúar 2007, kl. 14:07:16 (4149)


133. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2007.

stjórn fiskveiða.

432. mál
[14:07]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil í upphafi máls mótmæla einu sem hæstv. sjávarútvegsráðherra sagði. Hann sagði að við hefðum verið að tala um hina vondu útgerðarmenn. Ég hef ekki tekið eftir því í umræðunni að einhver væri að tala um vonda útgerðarmenn, hins vegar erum við að tala um útgerðarmenn sem hafa fengið sérstakar heimildir umfram aðra, verulega umfram aðra, út á það að vera útgerðarmenn, og þær heimildir hafa verið settar með lögum á Alþingi. Það er þaðan sem heimildir manna í íslensku þjóðfélagi koma til þess að vinna í atvinnugreinum. Ég held að það sé ekki hægt að tala um vonda eða góða útgerðarmenn, við getum bara talað um útgerðarmenn sem vinna eftir þessum lögum og afleiðingarnar af lögunum eru þær sem hér hafa verið gerðar að umræðuefni. Það er málið varðandi samþjöppun aflaheimilda og allt það.

Hæstv. ráðherra vék að því hvað menn mættu veiða til að taka með sér úr landi og hafa utan kvóta og svoleiðis með handvirkum veiðarfærum. Ég spyr: Er hæstv. ráðherra með hugleiðingar um að setja einhverja kílóatakmörkun á það hvað erlendir ferðamenn megi veiða miðað við það sem þeir komast með í flugvélum?

Hæstv. ráðherra talaði einnig um fiskigöngur á grunnslóð og að það væri áhugavert að sjá þær. Ég tek alveg undir það og ég tel reyndar að við höfum eyðilagt það talsvert mikið með því að taka sóknarmarkið af. En ég spyr þá: Ætlar ráðherrann að setja reglur um takmarkað farsvið þessara báta eða sérstök veiðisvæði og afmörkuð þannig að menn hafi nákvæmt yfirlit yfir hvar aflinn er tekinn, er það fyrirhugað?

Að lokum spyr ég um jafnræðisregluna. Íslenskur ferðamaður sem á ekki bát má væntanlega fara með einhverjum kunningja sínum og veiða. Hann virðist ekki mega fara á leigubát. Íslenskur ferðamaður sem á bát og dregur hann á eftir sér á bílnum sínum, hann má fara og veiða á veiðarfæri sem hann dregur. Síðan kemur íslenskur maður sem á bát, hefur á honum handvirka rúllu, hann má líka fara að veiða.

Erum við ekki að komin út í eitthvert fúafen, hæstv. ráðherra, með það hvernig við ætlum að fara í þetta?