Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 01. febrúar 2007, kl. 14:14:28 (4153)


133. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2007.

stjórn fiskveiða.

432. mál
[14:14]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Málin eru nú aðeins að skýrast með svörum hæstv. sjávarútvegsráðherra. Mér skildist helst á honum að það væru þessir útgerðarmenn eða þeir sem væru að reka stangveiðibátana á Vestfjörðum sem væru í bölvuðu basli með það að útlendingarnir fiskuðu svo mikið að það væri fiskur afgangs sem þeir vildu geta selt í fiskvinnslustöðvarnar fyrir vestan.

Ég spyr: Hvert er vandamálið? Í dag geta þessir menn skráð bátana á atvinnuveiðar, menn geta bara leigt sér kvóta á móti þessum fiski, það þarf ekkert að breyta lögum til þess. Nema tilgangurinn sé sá sem mér sýnist orðið einna helst á svörum hæstv. ráðherra, að það þurfi að búa til nýjan flokk báta á atvinnuveiðum, sérsniðinn flokk báta á atvinnuveiðum sem hægt er að sníða akkúrat að þörfum þessara ferðaþjónustufyrirtækja, þ.e. undanþágubátar frá ýmsum ákvæðum sem aðrir bátar á atvinnuveiðum þurfa að uppfylla.

Mér þætti vænt um ef hæstv. ráðherra gæti svarað því hvort það sé tilgangurinn með þessari lagasetningu vegna þess að í dag er ekkert vandamál fyrir þá sem eru með þessa báta að fara einfaldlega með bátana inn í atvinnukerfið, leigja á þá aflaheimildir á móti þeim fiski sem þeir vilja selja. Það þarf enga lagabreytingu til þess. Er þá ekki nóg að það standi eftir seinni hluti 1. gr. um að ráðherra geti með reglugerð sett sérstakar reglur fyrir þessa báta? Enda sýnist mér það vera tilgangurinn en ekki sá að það þurfi sérstaklega að setja ákvæði um að þessir bátar fari inn í sömu reglur og bátar sem veiða í atvinnuskyni.

Enda eftir svörum hæstv. ráðherra á ekki að gera það, það eiga að gilda aðrar reglur um skipstjóra, það eiga að gilda aðrar reglur um skráningar, það eiga að gilda aðrar reglur um tilkynningu, væntanlega aðrar reglur um skoðanastofur, aðrar reglur um Fiskistofu o.s.frv., o.s.frv. Þess vegna held ég að hæstv. ráðherra skuldi okkur svör við því hvort þetta sé megintilgangur frumvarpsins.