Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 01. febrúar 2007, kl. 14:57:07 (4171)


133. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2007.

stjórn fiskveiða.

459. mál
[14:57]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem við erum að gera með byggðakvótum er að afhenda þessum byggðarlögum fiskveiðirétt alveg eins og hv. þingmaður var að kalla eftir. Ef þetta frumvarp verður að lögum er mjög líklegt að staður eins og Bíldudalur, sem hefur orðið fyrir miklu áfalli, eigi þar með rétt á verulega auknum fiskveiðirétti frá því sem hann hefur í dag. Ég fullyrði líka að það sem gert er ráð fyrir og gerð er grein fyrir í þessu frumvarpi, sem er sú hugmynd að gefa mönnum fiskveiðirétt á grundvelli byggðakvóta til lengri tíma en eins árs í senn, þ.e. til þriggja ára eins og lagt er til í frumvarpinu, er m.a. forsendan fyrir viðreisn staðar eins Bíldudals, því að það er ekki aðeins þannig að menn geti horft til eins árs í senn, menn verða að geta horft lengra fram í tímann. Þetta snýst ekki bara um að hafa réttinn til að veiða, þetta er líka spurning um að menn geti nýtt hann með sem bestum og hagkvæmustum hætti og búið sér til mikil verðmæti úr honum. Verið er að reyna að nálgast þetta með frumvarpinu, þó að ég viti að hv. þingmaður vilji fara aðrar leiðir.

Aðeins varðandi Grímsey. Það voru auðvitað blikur á lofti í Grímsey í haust. Það fór sem betur fer á annan veg en menn óttuðust um tíma. Hins vegar er alveg ljóst að við slíkar aðstæður hefði byggðakvótinn virkað vegna þess að hann gerir ráð fyrir því, hann byggir á tilteknu mati, kerfi, sem deilir út byggðakvótunum í samræmi við tilteknar forsendur þar sem kvótaþróunin er m.a. er lögð til grundvallar. Ef um er að ræða að byggðarlag missi aflaheimildir, fiskveiðirétt, fær það byggðakvóta en hins vegar vinnur það gegn þeim sem hafa verið að afla sér viðbótaraflaheimilda. Það er auðvitað eitt af því sem er gagnrýnt við þennan byggðakvóta en þá verða menn að hafa í huga að eðli hans er að koma til móts við veikari byggðir.