Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 01. febrúar 2007, kl. 15:19:14 (4173)


133. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2007.

stjórn fiskveiða.

459. mál
[15:19]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf):

Herra forseti. Úthlutun á svokölluðum byggðakvóta er alltaf erfið og kallar oft og tíðum á miklar deilur og sárindi vegna þess hvernig þessum takmörkuðu gæðum er úthlutað eins og oft vill verða þegar verið er að úthluta takmörkuðum gæðum, ég tala ekki um þegar settar eru sérstakar eða sértækar reglur sem eru kannski mismunandi eftir byggðarlögum eða þeim sem njóta úthlutunar byggðakvóta.

Mér sýnist, ef við förum yfir frumvarp það sem hér liggur fyrir, að verið sé að reyna að bregðast að einhverju leyti við þeim óánægjuröddum sem heyrst hafa með úthlutun á byggðakvóta og kannski ekki síður er verið að reyna að bregðast við athugasemdum sem hafa komið frá umboðsmanni Alþingis á úthlutun þessara gæða.

Að sjálfsögðu er ekki komið að því að þetta verði staðreynd fyrir byggðarlög í vanda. Væntanlega er búið að úthluta eftir eldri reglum fyrir fiskveiðiárið 2006/2007. Við erum því að tala um að samkvæmt þessu lagafrumvarpi yrði úthlutað þá á fiskveiðiárinu 2007/2008 eða frá 1. september næstkomandi. Jafnvel þótt frumvarpið verði gert að lögum fljótlega held ég að þau komi ekki til með að hafa áhrif fyrr en kemur að fiskveiðiáramótum sem eru 31. ágúst eða 1. september á þessu ári.

Úthlutun eins og þessi á verðmætum sem skipta verulegu máli, sama hvernig á þau er litið, hvort við lítum á heildarverðmæti þeirra gæða sem verið er að úthluta upp á 2 milljarða króna á ári, ef við horfum til leigumarkaðarins eins og hann hefur verið undanfarið, þá eru það ekki litlir fjármunir. Þetta skiptir miklu máli fyrir þá aðila sem fá úthlutun því verið er að reyna að úthluta byggðakvóta til aðila sem orðið hafa fyrir einhvers konar áföllum eða byggðarlögin orðið fyrir einhverjum áföllum. Það munar miklu að fá forgjöf í formi byggðakvóta til að koma sér af stað því þá þarf ekki að leigja hann á þessum frjálsa og hamingjusama leigumarkaði sem er á Íslandi.

Ef staðreyndin verður sú að farið verður að úthluta byggðakvóta til þriggja ára í senn í stað þess að úthluta honum til eins árs er í raun ein einstök ákvörðun sem tekin er um úthlutun á 12.000 tonnum jafngildi verðmæta upp á 6 milljarða kr. á núverandi leiguverði. Það eru ekki lítil verðmæti þegar verið er að úthluta þeim í einu lagi í eitt skipti á þriggja ára fresti. Svona til gamans, ef við miðum við verð á aflahlutdeildum í dag í varanlegu aflamarki, ætli við séum ekki að tala um, þótt mönnum þyki þessi pakki lítill, verðmæti upp á yfir 20 milljarða kr. sem eign. Ríkið er því með þann pakka í höndunum og notar hann til jöfnunar, ef við getum orðað það sem svo, eða til að aðstoða sveitarfélög sem orðið hafa fyrir áföllum.

Það er í raun ekkert í frumvarpinu sem segir að úthluta skuli 12.000 tonnum í byggðakvóta. Það var heldur ekki í lögunum eins og þau standa í dag, en í þeim er sagt að ráðherra skuli hafa til ráðstöfunar aflaheimildir sem nema allt að 12.000 lestum af óslægðum botnfiski í þorskígildum talið, sem hann getur ráðstafað þannig. Síðan kemur skilgreining á því hvernig hann getur ráðstafað þeim.

Í frumvarpstextanum er þessu orðalagi breytt og ég var satt að segja að vona þegar ég fór í gegnum þetta, að tilgangurinn væri sá að negla frekar niður en orðið er, að þetta skuli fara í þessa ráðstöfun, en svo er ekki. Í stað þess að sagt sé að ráðherra geti ráðstafað þessu á ákveðinn hátt þá heitir það núna í 1. gr. frumvarpsins sem við ræðum, að honum sé heimilt að ráðstafa þessu til byggðarlaga.

Í hvorugum textanum er skylda og ég held satt að segja að það sé hlutur sem væri kannski rétt að velta fyrir sér, að ekki sé verið að rífast um að þetta sé potturinn sem menn ætla að nota í jöfnunaraðferðir og þetta sé potturinn sem menn ætla að nota til útdeilingar til að mæta vanda á mismunandi stöðum og það sé hreint og klárt kveðið um það í lögum að það skuli nota þetta eða ákveðið hlutfall af heildaraflaheimildum í þessu skyni. En ég á eftir að fara betur yfir það. Ég var að glugga í tölur hjá hæstv. ráðherra áðan í skýrslu um hversu mikið hefði verið úthlutað af þessum byggðakvóta. Mér sýndist í fljótu bragði að það væri kannski innan við helmingurinn af þeim 12.000 tonnum sem hefðu farið í því skyni. Það er því til lítils í sjálfu sér að vera að taka frá svona pott í því skyni ef hann er síðan nýttur að hálfu eða kannski minna en það.

Hæstv. ráðherra svaraði því í andsvörum að Byggðastofnun hefði verið meira svona til ráðgjafar en beinn aðili að því að úthluta kvótum. Það er alveg rétt að hinir svokölluðu Byggðastofnunarkvótar fóru minnkandi og áttu að detta út en verið er að framlengja þá kannski aðeins að einhverju leyti með þessu frumvarpi.

En ég held þó að mikilvægt sé að Byggðastofnun, sem á að hafa puttana á púlsinum á því sem er að gerast hér og þar vítt og breitt um landið, verði þá kannski aðeins nær þessu en frumvarpið gerir ráð fyrir.

Ég held að það skipti líka miklu máli hvernig skilgreiningin verður á því hvaða byggðarlög það eru sem koma til greina til úthlutunar. Hvort eigi að miða þar við höfðafjölda upp á 1.500 íbúa eða hvort einhverjir aðrir hlutir eiga að skipta máli. Ég held að það sé eiginlega ekki hægt að ætla að fara að binda sig við einhvern ákveðinn fjölda vegna þess að byggðarlög, þó þau séu orðin stærri en 1.500, geta orðið fyrir verulegum áföllum þegar ein stór útgerð, svo ég tali ekki um að tveir stórir útgerðaraðilar sem hafa verið kannski hryggurinn í atvinnulífi á stað sem er yfir 1.500 íbúa, ákveða að framselja kvóta sinn eða flytja hann í burtu. Það getur ekki síður orðið mikið högg í byggðarlögum þó þau telji fleiri íbúa en 1.500.

Nýmælin í frumvarpinu, eins og hæstv. ráðherra kom fram með í framsögu sinni, eru að sveitarstjórnum er ætlað meira hlutverk en áður. Ég verð þó að segja að ákveðinn efi er í mínum huga þegar ég les í gegnum frumvarpstextann að það sé í raun svo, einfaldlega vegna þess að sagt er að sveitarstjórnir annist úthlutun aflaheimilda sem komi í hlut einstakra byggðarlaga, til einstakra fiskiskipa og sendi tilkynningu þar um til Fiskistofu. En svo segir síðar í textanum að það sé ráðherra sem algjörlega ráði þessu. Ráðherra á að setja reglugerð um almenn samræmd skilyrði fyrir allt landið um úthlutun þessara aflaheimilda til fiskiskipa. Almenn samræmd skilyrði fyrir allt landið þýðir að sömu reglur gilda fyrir alla. Um hvað ætlar hæstv. ráðherra að setja reglugerð? Jú, hann ætlar að setja reglugerð um stærð skipanna sem koma til greina, gerð þeirra, skráningarstaðinn, á hvaða skráningartíma eignarhald skipa kemur og heimilisfesti á útgerðaraðilanum. Hann ætlar að setja reglur um löndun og vinnslu afla á grundvelli úthlutaðra aflaheimilda, reglur um framkvæmd úthlutunar, sem væntanlega er það sem sveitarfélögin eiga að fá í sinn hlut. Hann ætlar að setja reglur um brottfall aflaheimilda, framsal og skipti á aflaheimildum.

Í raun og veru segir hæstv. ráðherra að sveitarstjórnirnar fái meira vald til að úthluta byggðakvóta en á hinn bóginn ætlar ráðherrann sér að setja reglur um allt með hvaða hætti sveitarfélögin megi úthluta. Ég sé því ekki annað en að sveitarfélögin séu bara verkfæri í hendi hæstv. sjávarútvegsráðherra og hann geti ráðið því nánast algjörlega hvernig úthlutun á byggðakvóta verður.

Talað er um að ef vera á með samræmd skilyrði fyrir allt landið þá verði að mæta athugasemdum sem umboðsmaður Alþingis gerði við fyrri úthlutanir. En mér sýnist samt sem áður í frumvarpstextanum að verið sé að reyna að komast fram hjá því að einhverju leyti líka vegna þess að talað er um að setja almenn samræmd skilyrði fyrir allt landið en um leið er settur fyrirvari. Þar segir að ráðherra geti ákveðið samkvæmt tillögum sveitarstjórnar að sett verði tiltekin viðbótarskilyrði fyrir úthlutun aflaheimilda til fiskiskipa í einstökum byggðarlögum. Í rauninni gilda almennar reglur sem eru afar víðtækar um alla hluti en hins vegar á að vera hægt að bæta við viðbótarskilyrðum, hvernig sem þau eru hugsuð. Því er verið að skilja eftir ákveðið svigrúm til geðþóttaákvarðana, sýnist mér, eins og kannski hefur verið gagnrýnt svolítið með úthlutun á byggðakvóta hingað til.

Annað sem kemur fram í frumvarpinu er að setja á á laggirnar sérstaka úrskurðarnefnd þar sem sjávarútvegsráðherra skipar þrjá aðila til fjögurra ára. Í nefndinni verði þrír aðilar, einn frá sjávarútvegsráðuneyti, einn frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og einn frá Byggðastofnun. Þetta verði úrskurðarnefnd sem eigi að úrskurða um kærur þar sem einhver kærir úthlutun sveitarstjórna á byggðakvóta. Verið er að reyna að stytta kærufrestinn eins mikið og hægt er og kærufrestur til úrskurðarnefndar á að vera tvær vikur frá tilkynningu sveitarstjórnar um úthlutun. Nefndin á að reyna að klára að leggja fram úrskurð sinn innan tveggja mánaða frá því að kæra kemur fram.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort það sé réttur skilningur hjá mér að komi fram kæra þá fresti kæran úthlutun. Ef aðili kærir til úrskurðarnefndar úthlutun sem sveitarfélag hefur gert hljóti kæran að fresta þeirri úthlutun þangað til úrskurður nefndarinnar liggur fyrir.

Annað sem mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um og tengist kannski ekki beint þessu máli og þó gerir það það. Við ræddum fyrir stuttu frumvarp um viðurlög þar sem við ræddum um sviptingu á veiðileyfum, sviptingu á vigtunarleyfum og slíku. Þar lögðum við fulltrúar í stjórnarandstöðunni talsverða áherslu á að sett yrði á laggirnar úrskurðarnefnd. Ef menn vildu kæra sviptingar á veiðileyfi eða vigtunarleyfi lögðum við til að sett yrði á laggirnar sérstök úrskurðarnefnd þar sem slíkar kærur eru teknar fyrir en þær yrðu ekki kærðar til sjávarútvegsráðuneytisins beint sem væri, má segja, yfirmaður eða hliðstætt Fiskistofu sem hefði ákveðið að svipta menn veiðileyfi eða vigtunarleyfi. En hæstv. ráðherra sá því allt til foráttu að setja á laggirnar slíka úrskurðarnefnd í því tilviki. Því langar mig að spyrja hæstv. ráðherra: Hvað hefur breyst fyrst nú er hægt að setja á laggirnar úrskurðarnefnd sem á að geta tekið til tillagna eða úrskurðar stjórnvalds á sveitarstjórnarstigi? En hann vildi ekki taka þátt í því með okkur að þeir sem yrðu fyrir sviptingu veiðileyfa eða vigtunarleyfa gætu skotið slíkum ákvörðunum til úrskurðarnefndar.

Ég held menn hljóti að fara yfir frumvarpið í sjávarútvegsnefnd með fránum augum því við höfum oft og tíðum lent í því, sérstaklega með byggðakvótann, að mjög mismunandi skoðanir eru uppi um hvort vera eigi til byggðakvóti og eins með hvaða hætti honum er úthlutað. Það er eðlilegt því hér erum við að tala um, eins og ég sagði áðan, það mikil verðmæti að auðvitað væri undarlegt ef allir væru sammála um hvernig ætti að útdeila þeim. Við hljótum því að gefa okkur ákveðinn tíma í þetta. Því miður er stuttur tími þar til þingi lýkur en með góðum vilja ætti að vera hægt að koma málinu alla leið í gegnum sjávarútvegsnefnd.

Mér barst til eyrna að sveitarstjórnir væru búnar að fá frumvarpið í hendur. Því langar mig að spyrja hæstv. sjávarútvegsráðherra hvort hann, í ljósi þess hve lítill tími er eftir af þinginu, hafi ákveðið að senda frumvarpið til kynningar eða jafnvel umsagna til sveitarstjórna áður en það væri tekið fyrir í 1. umr. og áður en sjávarútvegsnefnd hefði tekið það fyrir og ákveðið að senda það út til umsagna, eins og þingsköp gera ráð fyrir og verklag á þinginu er. Það kom mér á óvart þegar ég heyrði að einstök sveitarfélög eða bæjarstjórar voru komnir með frumvarpið hendur.

Annað sem mig langar að spyrja um er ákvæði sem bannar framsal aflaheimilda með öllu sem úthlutað er samkvæmt þessari grein. Ég hélt satt að segja að það hefði verið bannað í lögunum eins og þau eru en þegar ég fór í lögin og skoðaði þau sá ég einmitt að það var ekkert ákvæði í lögunum sjálfum sem bannaði framsal á byggðakvótum. Því langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvort mikið hafi verið um sóðaskap í kringum byggðakvótann. Hvort þessi sérteknu gæði sem ríkið var að úthluta til einstakra útgerða — hvort mikið hafi verið um að útgerðir hafi leigt frá sér byggðakvótann eða framselt hann einhverjum öðrum. Fyrst þetta kemur núna inn í lagagreinina veltir maður því óneitanlega fyrir sér hvort mikill sóðaskapur hafi verið í gangi í kringum þetta samkvæmt lögunum eins og þau eru núna.

Mig langar einnig að spyrja hæstv. ráðherra um eitt enn áður en tíma mínum lýkur. Það er um ákvarðanir og hlutverk sveitarstjórna. Mega sveitarstjórnir, t.d. að áliti hæstv. ráðherra, eftir að frumvarp þetta yrði óbreytt að lögum, kalla eftir því að þeir sem fengju úthlutað byggðakvóta yrðu að leggja kvóta á móti eins og við höfum heyrt um hjá sveitarstjórnum hingað til í úthlutun? Má að einhverju leyti taka þennan byggðakvóta og bjóða hann út innan byggðarlag þannig að þeir sem bjóða best eða leggja mest á móti séu í betri stöðu að fá byggðakvóta en aðrir? Eða hvað er það sem sveitarstjórnir mega gera þegar þær eru að velta fyrir sér úthlutun? Verða þær að fara í einu og öllu að reglugerð ráðherra eins og hún verður, mjög ítarleg um alla hluti? Eða mun hver einasta sveitarstjórn geta óskað eftir viðbótarskilyrðum eða sérákvæðum? Hyggst ráðherra ætla sér að verða við þeim? Og þá er framhaldsspurning í því sambandi: Er úthlutun byggðakvóta ekki aftur komin til skoðunar hjá umboðsmanni Alþingis sem leggur að sjálfsögðu áherslu á að reglur séu almennar og skilyrði séu samræmd fyrir landið allt? Er ekki í raun verið að opna fyrir það, eins og textinn er í frumvarpinu, að áfram verði sérreglur um úthlutanir og reglur um úthlutanir gætu orðið mjög mismunandi milli sveitarfélaga eins og þær reyndar hafa verið undanfarin ár, því að margar aðferðir hafa verið nýttar og notaðar við að úthluta byggðakvótanum hingað til?

Þriggja ára reglan um að úthluta byggðakvóta í þrjú ár er afar skynsamleg ef menn ætla að annað borð að úthluta byggðakvóta. Nýir aðilar eða aðilar sem orðið hafa fyrir áföllum og ætla að reyna að byggja upp atvinnu í heimabyggð geta ekkert gert eingöngu með loforðum um kvóta í eitt ár, eitt fiskveiðiár. Það er alveg sama hversu sterkir þeir eru eða hversu miklar hugmyndir þeir hafa. Það fer enginn að leggja út í miklar fjárfestingar eða hætta miklum fjármunum eingöngu með loforðum um byggðakvóta í eitt ár og einhverjar óljósar hugmyndir um hvort honum verði úthlutað á árunum þar á eftir og með það jafnvel hangandi yfir sér að reglum verði breytt og engin leið sé til þess að treysta á það að leggi menn nú alvörufjármuni í að byggja upp atvinnulíf á stöðum sem orðið hafa fyrir áfalli, sitji þeir ekki uppi eftir eitt ár jafnvel verr settir en þeir voru þegar þeir fóru af stað vegna þess að þeir fengu eingöngu byggðakvóta úthlutað í eitt ár.

Ég held að þau nýmæli sem skipta mestu máli í þessu sé spurningin um að byggðakvóti sem á að koma að einhverjum notum — að hægt verði að skrifa undir skuldbindandi yfirlýsingu af hálfu hæstv. ráðherra um að fyrirtæki eða byggðarlag geti treyst því að sá byggðakvóti sem verið er að úthluta á þeim tíma sé til úthlutunar í þrjú ár. Ég held að þetta muni gjörbylta grundvelli fyrir þá sem reyna á einhvern hátt að byggja upp atvinnu sem byggir á byggðakvóta. Mikið átak er fyrir aðila að hefja fiskvinnslu á stað þar sem fiskvinnsla hefur dottið niður og munar öllu að geta fengið kvóta sem er þetta mikils virði til að ná sér í viðbótarkvóta sem verður til þess að menn geta byggt upp atvinnu aftur á stöðum þar sem atvinna hefur horfið einhverra hluta vegna, annaðhvort vegna þess að fiskstofnar hafa látið á sjá, einstaka tegundir hafa látið undan síga eða vegna þess að menn hafa lent í hremmingum í rekstri og ekki náð að reka fyrirtæki sín.