Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 01. febrúar 2007, kl. 15:39:03 (4174)


133. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2007.

stjórn fiskveiða.

459. mál
[15:39]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Hér erum við að ræða frumvarp hæstv. sjávarútvegsráðherra um ráðstöfun á aflaheimildum samkvæmt ákvæðum 10. gr. laga, um stjórn fiskveiða, svokallað ákvæði um að úthluta megi aflaheimildum til byggða sem af einhverjum ástæðum standa höllum fæti, til minni byggðarlaga sem lent hafa í vanda svo sem samdráttar í sjávarútvegi og háð eru veiðum eða vinnslu á botnfiski.

Og b-liður, hljóðar svo, með leyfi forseta:

„b. Til byggðarlaga sem orðið hafa fyrir óvæntri skerðingu á heildaraflaheimildum fiskiskipa sem gerð hafa verið út og landað hafa afla í viðkomandi byggðarlögum og skerðingin hefur haft veruleg áhrif á atvinnuástand í byggðarlögunum. Heimilt er að ráðstafa aflaheimildum samkvæmt þessum lið til allt að þriggja ára í senn.“

Þetta er meginefni frumvarpsins, hæstv. forseti.

Ákvæðið sem við erum að ræða er í raun hálfgert viðurlagaákvæði fiskveiðistjórnarlaganna, þ.e. þessu ákvæði er ætlað að bregðast við vanda sem kemur upp í byggðarlögum þaðan sem aflaheimildir hafa farið og þar sem atvinnuástand hefur versnað, byggðarlögum sem eru háð veiðum og vinnslu á botnfiski og þurfa sérstaklega á því að halda til þess að viðhalda þar byggð eða til þess að koma viðhaldi í byggðarlögum til góða vegna þess að ákveðnar skerðingar hafa átt sér stað sem hafa veruleg áhrif á atvinnuástandið. Við þekkjum þessar aðferðir. Þær hafa verið notaðar á undanförnum árum, til dæmis varðandi algjört hrun í rækjuveiðum, hrun í skelfiskveiðum o.s.frv. þó að þær reglur hafi reyndar verið mismunandi svolítið eftir landsvæðum. Jafnvel er hægt að benda á að í sumum byggðarlögum hafa menn ekki notið jafnræðis að fullu eins og varðandi skelfiskveiðar svo ég nefni til dæmis samanburð á milli Arnarfjarðar og Breiðafjarðar. Í Arnarfirði kom upp svokölluð kadmínmengun. Eigi að síður duttu veiðarnar niður og höfðu áhrif á atvinnuástandið.

Eins og ég sagði í upphafi máls, hæstv. forseti, þá er þetta viðurlagaákvæði, þ.e. um að taka frá ákveðnar aflaheimildir til að úthluta til þess að hafa áhrif á það ástand sem skapast þegar útgerðarmenn hafa ráðstafað afla úr byggðum og þær sitja eftir kvótalausar eða ef aflabrestur hefur orðið á tegundum öðrum sem hafa ráðið miklu um atvinnu í viðkomandi byggðarlögum, rækjuútgerðarstöðum og -vinnslustöðum og þar sem hörpudiskur er mikilvægur svo eitthvað sé nefnt.

Hér er lagt til að 12.000 lestir í þorskígildum verði notaðar í þetta og verður að segjast alveg eins og er að þessi pottur hefði gjarnan mátt vera stærri ef við ætlum raunverulega að nota hann sem úrræði til þess að takast á við vanda í mörgum byggðum sem hafa orðið fyrir skakkaföllum eftir að hafa misst frá sér veiðiréttinn við sölu aflaheimilda úr byggð eða flutning útgerðarfélaga frá byggðarlagi þannig að aflaheimildirnar hafi þaðan horfið, vegna samþjöppunar í útgerðarrekstri o.s.frv.

Hæstv. forseti. Ég lít svo á að vegna þess hvernig kvótakerfið er uppbyggt þá skipti mestu máli fyrir hinar dreifðu byggðir sem háðar eru botnfiskvinnslunni og reyna að komast af með því að halda uppi vinnslu í botnfiskveiðum eða að reyna að efla þær á nýjan leik, að úthlutunin á þessum pottum sé að sem mestu leyti í þorski. Hvers vegna segi ég þetta, hæstv. forseti? Það er vegna þess að útgerðum hefur alltaf gengið best að skipta út þorski. Það hefur alltaf verið auðveldast að skipta út þorski og fá þá aðrar tegundir sem byggðarlög eða vinnslustöðvar hafa sérhæft sig í. Þess vegna verð ég að benda á að þessi pottur er í fyrsta lagi allt of lítill til þess að taka á þeim vandamálum sem hafa fylgt kvótakerfinu, þó að hann sé viðurkenning á því að þessi vandi sé til staðar og kvótakerfið hafi valdið þessari byggðaröskun og tilflutningi á atvinnutækifærum eins og við þekkjum öll vítt og breitt um landið, mismunandi eftir árum og tímabilum. Það er staðreynd að tilflutningur aflaheimildanna hefur tekið atvinnu svo til algjörlega frá einum stað og fært hann eitthvert annað. Um þetta eru miklar deilur í þjóðfélaginu og nýjustu deilurnar eru sennilega norður á Akureyri þar sem Akureyringar horfa á tilflutning aflaheimilda frá Akureyri til Reykjavíkur. Enginn veit hver framtíð Akureyringa verður í því. Þóttu þeir nú sterkir í kvótakerfinu fyrir nokkrum árum og fáir á Akureyri leiddu hugann að því að þetta ætti eftir yfir þá að ganga. En svona er nú það. Það sem helst hann varast vann varð að koma yfir hann, og það er innbyggt í kvótakerfið.

Það er spurning hvort menn geti einskorðað þetta við hinar minni sjávarbyggðir þó það sé gert hér. En það er auðvitað fyrst og fremst gert vegna þess að potturinn er það lítill. Hann er það lítill að ef tilflutningur verður á verulegum aflaheimildum eins og gerðist á Vestfjörðum fyrir nokkrum árum síðan — fleiri þúsund tonna færðust burtu með sölu eins fyrirtækis — þá ræður byggðapotturinn illa við það. Þá er ég ekki að gera lítið úr því að hann hafi ekki víða komið að gagni. Ég er ekkert að gera lítið úr því miðað við þær heimildir sem hafa verið til staðar. En þar sem ríkisstjórnin núverandi er svo áformuð um að festa þetta kerfi í sessi með öllum tiltækum ráðum en samt með viðleitni til að bregðast við þá bendi á að þessi pottur er of lítill til að bregðast við þeim vanda sem vissulega getur komið upp í byggðarlögum sem missa frá sér veiðiheimildirnar.

Ég held að þetta sé til bóta, hæstv. forseti, meðan menn hafa þetta gallaða fiskveiðistjórnarkerfi þó ég vænti þess að eftir næstu alþingiskosningar náist samstaða í nýrri ríkisstjórn um að taka verulega á við að lagfæra það og gera á því verulegar breytingar. Það er mín trú að stjórnarandstaðan muni sameiginlega vilja takast á við það, þó ég geri mér grein fyrir því að ekki er einfalt að snúa ofan af kerfi sem er búið að vera í 20 ár. Menn verða að stíga þau skref eftir einhverjum ákveðnum mörkuðum leiðum. Það er ekki tilgangur neins í landinu væntanlega að setja útgerðir á hausinn við tilfærslur á aflaheimildum eða eyðileggja ákveðna staði þó það sé innbyggt í þetta kvótakerfi að eyðileggja atvinnu á ákveðnum stöðum. Það er beinlínis innbyggt. Þess vegna eru menn með þennan viðlagapott upp á 12.000 þorskígildistonn.

Hæstv. forseti. Fagna ég því nú að hv. þm. Halldór Blöndal er hér í salnum. Ég benti á það áðan hvað gæti komið fyrir Akureyri, þ.e. að þaðan flyttust burtu verulegar aflaheimildir og eins og lögin um byggðapottinn, viðlagapottinn sem ég kalla svo, eru uppsett bæði með tilliti til íbúafjölda og þess að við erum hér aðeins að tala um 12.000 þorskígildistonn þá mundu þau illa duga til að bregðast við ástandi sem þar kæmi upp, ef svo færi, hæstv. forseti, að það yrði varanleg staða að aflaheimildirnar færu frá Akureyri sem núna hafa verið fluttar með skipum til Reykjavíkur. Ég bendi á þetta og ég hygg að hv. þm. Jón Gunnarsson hafi einnig bent á það hér áðan að þetta atriði þyrfti að skoða.

Hæstv. forseti. Ef menn ætla virkilega að hafa tök á því að bregðast við þeim vanda sem víða er að koma upp og getur komið upp þá þyrftu þeir að mínu mati að tala um sennilega 30.000 tonn af þorski. Það er reyndar sami pottur og Davíð Oddsson fann norður á Akureyri fyrir síðustu kosningar að fiskifræðingum óspurðum. Þeir höfðu ekki komið auga á að hann væri til í sjónum en fundu hann eftir að Davíð fann hann. Þá fundu þeir hann alveg eins og skot, fiskifræðingar á Hafrannsóknastofnun. Ákaflega merkileg vísindi voru þar stunduð. Þá var hægt að bæta þessu við, þ.e. eftir að hæstv. þáverandi forsætisráðherra Davíð Oddsson sagði norður á Akureyri að bæta mætti við 30.000 tonnum. (Gripið fram í.) Það var auðvitað kosningatrikk. Það vita allir. Nákvæmlega, það var kosningatrikk. (Gripið fram í.) Sjálfstæðisflokkurinn hefur sjaldan búið til annað eins kosningatrikk og þetta sem búið var til af hæstv. fyrrverandi forsætisráðherra, Davíð Oddssyni, norður á Akureyri með 30.000 tonna pottinum í þorski og þegar hann hoppaði einnig inn á línuívilnunina sem frægt var. Ég hugsa að þessi tvö trikk meðal annars hafi orðið til þess að bjarga ríkisstjórninni frá falli ásamt auðvitað því að atkvæði framsóknarmanna nýttust í Reykjavík nánast upp á eitt atkvæði þegar Árni Magnússon komst einn í Reykjavíkurkjördæmi norður, svo ég bara rifji það örlítið upp.

En það er nú kannski ekki efni þessa máls sem við erum að ræða, enda er nóg efni um að ræða í þessu frumvarpi. Innbyggt í þetta kvótakerfi er leiga og sala aflaheimilda. Það er algerlega ljóst að eins og þetta kerfi hefur þróast á undanförnum árum er það orðið yfirburðakerfi fyrir ákveðinn hóp útgerðarmanna. Þann hóp útgerðarmanna sem hafði í upphafi mestar aflaheimildirnar eða hefur tekist á tímabilinu að bæta smátt og smátt við sig aflaheimildum þannig að þeir séu orðnir það stórir í dag að þá munar ekki mikið um leggja út 2.000 krónur fyrir kílóið á varanlegum aflaheimildum, eins og gerist núna í aflamarkskerfinu, 2.000 krónur á kílóið.

Menn geta sem sagt tekið viðbótaraflaheimildir frá einhverjum minni aðila, kannski 200–300 tonn af þorski, á þessu verði, 2.000 krónur kílóið óveitt og óséð í hafinu við Ísland, í sinn viðbótarpott. Hvað gera þeir svo sem þetta gera? Jú, þeir leigja þessar aflaheimildir út. Þeir leigja þær út mörg, mörg ár. Þeir nýta þær ekki fyrir útgerð sína heldur láta þann aðila sem ég benti á í morgun að væri arðsamasta uppfinning kvótakerfisins fyrir þá sem kvótaaflaheimildirnar hafa og fyrir bankana sem taka veðsetningar við að lána út á aflaheimildir, þ.e. leiguliðinn. Vistarbandið hið nýja. Leiguliðinn sem greiðir 170–180 kr. til útgerðaraðilans eða kvótaréttarhafans vegna óveidds fisks í sjónum áður en hann fer að veiða. Það er hann sem stendur undir því og hefur reyndar lítið út úr því en hangir á horriminni í nokkur ár og gefst þá venjulega upp eftir sex, átta ár sem leiguliði. Það er hann sem er arðsamasta fjárfesting útgerðarmannsins í dag og bankans.

Hvers vegna segi ég þetta? Jú, vegna þess að útgerðaraðili sem á kannski 4–5 þús. tonn af þorski í heimildum sínum, stór útgerðaraðili, tekur til sín kannski 100 tonn frá einhverjum minni aðila, kaupir hann upp og kaupir á 200 kr. kílóið. Sagt var áðan að á síðasta ári hefðu 60.000 tonn af þorski verið leyfð, hvorki meira né minna og þar af 20.000 tonn farið á milli manna í varanlegri sölu.

Ég er að benda á aðferðina sem er viðhöfð til að borga niður þessa fjárfestingu sem þeir stóru ráða aðallega við, að kaupa til sín varanlegar aflaheimildir á 2.000 kr. kílóið óveitt og óséð. Það er gert með því að menn setja þetta á leigumarkaðinn, ætla sér ekki að veiða þetta í nokkur ár. Og ef þeir ætla að fá þennan pening allan til baka með leigukerfinu þurfa þessir aðilar sennilega að leigja aflaheimildirnar í 15–18 ár til að fá fjárfestinguna alla til baka. Bara með því að leigja þær. Hafa yfirtekið þær með láni frá bankanum, skuldsett sjávarútveginn — þess vegna eru skuldir sjávarútvegsins alltaf að vaxa í heildina talið — og tekið lán fyrir því að borga 2.000 kr. á varanlegt þorskígildiskíló í sjónum, leigja það svo í 15–18 ár. Ef þeir leigja þetta í 18 ár á 170 kr. kílóið er þeir búnir að ná inn 3.060 kr. fyrir kílóið sem þeir keyptu á 2.000 kall. Þar með er þeir nokkurn veginn búnir að standa undir því að hafa tekið þetta peningalán ef þeir hafa borgað 5% vexti af þeim allan tímann og afborganir. Þá er þeir sem sagt búnir að kvitta þetta út á 18 árum, sýnist mér, gróft reiknað. Þetta er auðvitað spá og háð því að kvótakerfið haldi áfram, sem vonandi verður ekki og verðið sé á þessu róli um 170 kr. Það er nú sennilega orðið hærra, um 180 kr.

Þetta geta þeir gert sem eru orðnir stórir fyrir í greininni. Vegna þess að þeir geta verið að bæta við sig ákveðnum hluta án þess að þurfa beinlínis að leggja í að veiða hann. Með því að setja hann á leigumarkaðinn þá þarf engu að skipta úr leigunni. Sjómenn fá ekki neitt. Fiskvinnslufólkið fær ekki neitt. Þetta eru peningar sem renna beint í vasann frá leiguliðanum, manninum sem er kominn með hið nýja vistarband, rennur í vasa þess sem hefur heimildirnar og hann greiðir auðvitað sínum banka lánið og vexti af láninu til baka á mörgum árum. Þannig er þetta hægt. Minni útgerðaraðilar sem eiga kannski 100 tonn geta hugsanlega verið hjakkast við að bæta við sig kannski 5 tonnum á ári eða eitthvað svoleiðis, ef þeir ætla að gera þetta með sama lagi og hinir.

Það er því algerlega ljóst, hæstv. forseti, og ég bendi á það í þessari umræðu, að sá byggðapottur sem hér er verið að tala um er of lítill til að takast á við það vandamál sem er innbyggt í kvótakerfið. Hann er bara of lítill til þess. Samt sem áður tel ég að þessi byggðakvóti sé til bóta og mun ekki leggjast gegn því að þau atriði séu lagfærð sem ég tel að geti verið til bóta miðað við núverandi kerfi, en það þýðir ekki loforð mitt við að viðhalda þessu kerfi. Það skal vera alveg á hreinu. Svona er það, hæstv. forseti, og þess vegna er það svo að inn í kerfið í heild sinni er innbyggð samþjöppun. Samþjöppun á hendur þeim stóru. Það er ekki við þá að sakast og það er ekki svo að við sem höfum verið að mæla athugasemdir við útfærsluna á kvótakerfinu höfum verið að tala um vonda útgerðarmenn, eins og hér var sagt af sjávarútvegsráðherra í morgun.

Við erum að tala um þá útgerðarmenn sem vinna eftir þeim vondu lögum sem ríkisstjórnin hefur fest í sessi. Mönnum er ætlað að vinna eftir þessu. Ef við Guðjón Hjörleifsson værum báðir á fullu í útgerð værum við líka að vinna eftir þessum lögum, hæstv. forseti. Þannig er það. Það eru nefnilega sömu umferðarlög fyrir alla Íslendinga og sömu kvótalög fyrir alla Íslendinga. Menn þurfa því að sitja uppi með það. Þess vegna spila menn á reglurnar eins og þær eru. Það er innbyggt í kvótakerfið að hafa yfirburðastöðu fyrir þá stóru. Þeir geta bara stækkað. Þeir minni minnka og hverfa út úr greininni og gerast leiguliðar.

Við það að fá alltaf inn nýja og nýja leiguliða á nokkurra ára fresti þá viðhalda menn arðsömustu eigninni í sjávarútvegi, sem er leiguliðinn. Vistarbandsmaðurinn sem greiðir þeim sem forgjöfina fengu endalausan arð af vinnu sinni. Endalausan arð. Þetta er hið nýja vistarband sem Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur hafa komið á í þessari atvinnugrein hér á landi.

Það verður aldrei af þeim tekið að þeir flokkar eru vistarbandsflokkar eins og þetta er uppsett. Það verður aldrei af þeim tekið. Þeir hafa búið til hið nýja vistarband og munu sitja uppi með það að þannig er það. Skiptir engu máli hvaða trúarbrögð menn hafa í Sjálfstæðisflokki eða Framsóknarflokki, eða hvaðan þeir eru af landinu. Þetta er staðreyndin sem menn sitja uppi með.

Nú er ég að hugsa um, hæstv. forseti, að labba til vinar míns og fá mér í nefið.