Sala áfengis og tóbaks

Fimmtudaginn 01. febrúar 2007, kl. 16:33:16 (4178)


133. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

26. mál
[16:33]
Hlusta

Flm. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Það má færa rök fyrir því að ekki sé vel farið með tímann að ræða þetta mál, jafnmikilvægt og það er, á sama tíma og Íslendingar eru að spila mikilvægan leik í heimsmeistaramótinu í handknattleik, en svo ber að vera. (Gripið fram í.) Við verðum að láta vinnuna hafa forgang, eins og hv. þingmaður kallar hér fram í.

Þetta mál tengist breytingu ýmissa lagaákvæða sem varða sölu áfengis og tóbaks og þeir sem flytja það ásamt undirrituðum eru hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson, Birgir Ármannsson, Bjarni Benediktsson, Sigurður Kári Kristjánsson, Arnbjörg Sveinsdóttir, Pétur H. Blöndal, Birkir J. Jónsson, Einar Már Sigurðarson, Katrín Júlíusdóttir, Guðrún Ögmundsdóttir, Gunnar Örlygsson, Ásta Möller og Sigurrós Þorgrímsdóttir.

Í stuttu máli gengur frumvarpið út á það að nútímavæða þá verslunarhætti sem hér er um að ræða. Eins og menn þekkja erum við í þeirri sérkennilegu stöðu að vera með ríkiseinokunarverslun á ákveðnum tegundum. Þetta á sér nokkra sögu, í rauninni er hún frá bannárunum og þeim tíma þegar menn treystu því og trúðu að höft og einokun ríkisins væru allra meina bót. Ótrúlegustu vörur voru undir einokun ríkisvaldsins og sem betur fer hafa menn á flestum sviðum, nema kannski þessu, horfið frá því. Það sér auðvitað hver maður að ef við hefðum horfið frá þessu fyrr mundi ekki hvarfla að nokkrum einasta manni að breyta því aftur í fyrra horf, enda veit ég ekki til þess að nokkur maður sé baráttumaður fyrir því að fá ríkiseinokunarsölu á hinum ýmsu hlutum sem voru undir ríkiseinokun áður fyrr. Sá sem hér stendur getur haft rangt fyrir sér, kannski eru einhverjir hérna í salnum sem eru í alvöru fylgjandi slíku, og ég býst fastlega við að þeir aðilar séu þá mjög til vinstri í stjórnmálum. Það verður bara mjög gaman að skiptast á skoðunum við slíkt afturhald. Ef slíkir aðilar eru á svæðinu gefa þeir sig vonandi fram.

Eins og ég nefndi var hér einkaleyfi á síldarsölu, einkaleyfi á viðtækjum og auðvitað einkaréttur til útvarpsreksturs. Síðan voru höft og einokun á sölu bifreiða og símtækja. Það er ekki lengra síðan en svona 15 ár að ríkið var með einokun á því að flytja inn eldspýtur. Það voru alls konar hlutir með svona sérkennilegar reglur og höft eins og — ég man ekki þá tíð en mér skilst að einhvern tíma hafi þurft að hafa sérstakar verslanir sem seldu mjólk. Ef menn fara í haftaárin geta þeir fundið allt milli himins og jarðar, og ekki til eftirbreytni. Ég vona að enginn þingmaður vilji fara aftur í slíkt.

Hvað sem því líður erum við með svolítið sérkennilegt fyrirkomulag hér á landi hvað þessa hluti varðar vegna þess að ríkið hefur framselt leyfi sitt eða samið við einkaaðila um að selja þessar vörur víðs vegar um landið. Mér sýnist — ég held að ég geti fullyrt að ef menn fara út á landsbyggðina sé almenna reglan sú að þar er ekki ríkisverslun heldur er um að ræða verslun í höndum einkaaðila. Mér sýnist það almenna reglan. Ég keyri stundum austur fyrir fjall og get nefnt staði eins og Hveragerði, Selfoss, ég held bæði Hellu og Hvolsvöll, Vík í Mýrdal, Kirkjubæjarklaustur, ég held að þetta séu allt saman staðir þar sem ÁTVR-verslanir, þ.e. verslanir með þessa vöru, eru inni í bensínstöðvum eða öðru slíku rými. Að vísu fæ ég hér upplýsingar frá þingmanni kjördæmisins um að slíkt sé ekki á Selfossi og ég trúi alveg þingmanninum þegar hann segir það. Það hlýtur að vera rétt hjá honum enda þekkir hann örugglega mjög vel til þar.

Engin rök hef ég heyrt sem mæla með því að ríkið standi í þessu. Ef menn hafa áhyggjur eins og margir hafa — og sem er sjálfsagt að hafa — af útbreiðslu þessarar vöru sem svo sannarlega er um margt sérstök og viðkvæmari en margt annað og sérstaklega mikilvægt að fari ekki til ungmenna undir aldri er að sjálfsögðu hægt að koma í veg fyrir slíkt án þess að verslunin sé ríkisrekin. Það er þekkt frá öðrum löndum, og einkaaðilar höndla t.d. með sígarettur og annað slíkt en þurfa að framfylgja þar ströngum reglum sem ég held að flestir ef ekki allir séu sammála að eigi algjörlega rétt á sér.

Mörg rök mæla hins vegar með þessu, eins og ég hef verið að nefna og kemur fram í greinargerð með frumvarpinu. Ein eru þau að eðli máls samkvæmt er þetta svona, einkaaðilum er treyst fyrir þessu. Það er einn einkaaðili með slíka verslun á höfuðborgarsvæðinu, nánar tiltekið í Kópavogi, og svo fjölmargir aðilar víðs vegar um landsbyggðina. Ýmist er salan inni í bensínstöðvum eða matvöruverslunum og ýmsum verslunum, og haldið þar sér. Ef menn vilja hafa þann háttinn á að hafa þetta út af fyrir sig og þess vegna með sérstakan afgreiðslutíma er sjálfsagt að koma slíku fyrir í lögum um þetta. Það er vel þekkt annars staðar.

Í öðru lagi er aðilum eins og verslunarmiðstöðvum og byggðarlögum mismunað eftir staðsetningu útibúanna. Það er svolítið magnað þegar maður skoðar heimasíðu ÁTVR — ég held að það sé mjög mikill metnaður í starfsfólki ÁTVR, þar setji menn markið hátt og bjóði upp á ýmsa þjónustu, veisluþjónustu, vínsmökkunarþjónustu, vínsmökkunarnámskeið í samvinnu við aðra aðila og það er sérstakt markmið fyrirtækisins að kenna Íslendingum góða vínmenningu. Það skiptir hins vegar máli fyrir bæði verslunarmiðstöð og byggðarlög hvort þau bjóða upp á þessa þjónustu. Við þekktum það áður þegar útibúin voru færri að þetta var gríðarlega mikið hagsmunamál og mikið slegist um þetta. Kannski héldu menn að þessi tíð væri liðin en svo er því miður ekki. Það er vel þekkt í mínu kjördæmi, þ.e. ég lít á Reykjavík sem mitt kjördæmi þó að það sé nánar tiltekið Reykjavík suður, að þar var — (ÞBack: Höfuðborgarsvæðið.) (Gripið fram í.) Ég held mig við Reykjavík en jú, jú, ég get alveg tekið höfuðborgarsvæðið og landið allt ef út í það er farið — þar kom einmitt upp staða þar sem eigendur og hagsmunaaðilar í einni verslunarmiðstöð í Reykjavík voru ósáttir við að ÁTVR væri tekin út úr þeirri verslunarmiðstöð og sett inn í blómabúð. Það segir sig sjálft að þetta skaðar samkeppnishæfni þeirrar verslunarmiðstöðvar, það er alveg deginum ljósara. Aðilar þar voru mjög ósáttir við þetta. Síðan urðu þeir enn ósáttari þegar í ljós kom hvað átti að koma í staðinn, en það er annað mál. Hér ræður ríkið hreinlega og hefur áhrif á samkeppnisstöðu verslunarmiðstöðva. Síðan er auðvitað spurningin af hverju við bindum milljarðana sem eru í þessu ríkisfyrirtæki, þessari ríkisverslun. Það er erfitt að sjá rökin fyrir því.

Þetta frumvarp er hins vegar mjög hógvært skref. Það gerir ráð fyrir því að fleiri aðilum verði heimilt að selja léttvín og bjór í verslunum. Það liggur alveg fyrir og er auðvitað engin spurning að þetta mál verður að veruleika einhvern tímann, það er bara spurning hvenær það gerist. Ef einhver hefur þá vantrú á íslenskri þjóð að hún geti ekki höndlað það að verslunarhættir með þessa vöru séu sambærilegir og í þeim löndum sem við berum okkur saman við hljóta þeir hinir sömu að hafa áhyggjur af ferðum Íslendinga til útlanda. Þar lendum við bara í þessu, virðulegi forseti, í flestum löndum sem maður fer til að það eru öðruvísi viðskiptahættir með þessa vöru en er hér.

Reyndar er það svo að við Íslendingar höfum smátt og smátt fikrað okkur í átt til frelsis með mjög góðum árangri. Við höfum sem betur fer lagt hugmyndum um ríkissölu og ríkiseinokun á mjög mörgum sviðum. Þetta er eitt af þeim sviðum sem við erum bara ekki búin að fara með alla leið. Sá sem hér stendur er, eins og held ég flestir ef ekki allir, algjörlega meðvitaður um að það er ekki sama hvernig farið er með þessa vöru. Við verðum að hafa aðgát og sannarlega styrkja forvarnir og sömuleiðis gera þær ráðstafanir sem þarf til að koma í veg fyrir að ungmenni, ég tala nú ekki um börn, geti komist í þessa vöru. Aðgát skal höfð þegar um er að ræða áfengi, sama hvort það er létt eða sterkt. Það tengist því ekkert hvort við þurfum að hafa sérstaka ríkiseinokunarverslun sem höndlar bara með þetta og það sér hver maður. Enda er staðan sú, eins og ég nefndi, virðulegi forseti, að margir einkaaðilar höndla með þetta, þ.e. í smásölunni, ég tala nú ekki um þegar komið er að öðru sem tengist þessu.

Þetta frumvarp, virðulegi forseti, er flutt núna í fjórða sinn. Það er breiður hópur á bak við það úr öllum þingflokkum nema Vinstri grænum og að vísu frá frjálslyndum en síðast þegar ég vissi höfðu hins vegar þingmenn Frjálslynda flokksins lýst yfir stuðningi við það. Það er vonandi að það komist í nefnd og menn geti rætt þetta málefnalega þar og vonandi svo hér í þingsal.