Sala áfengis og tóbaks

Fimmtudaginn 01. febrúar 2007, kl. 16:49:01 (4180)


133. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

26. mál
[16:49]
Hlusta

Flm. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Þuríði Backman fyrir þessar fyrirspurnir. Ég held að það hafi sýnt sig að fleiri aðilar hafa áhuga á að selja þessa vöru og örugglega matvöruverslanir og aðrir þeir sem telja sig geta komið henni á framfæri með góðu móti.

Ég get ekki alveg séð hvernig það mundi tengjast verði á öðrum vörum. Hugmyndin með verslunarmiðstöð er sú að hafa sem mesta þjónustu á einum stað vegna þess að við erum öll að keppa um tímann og þurfum ekki að þeytast mikið. Það gæti líka talist umhverfismál, sem ég veit að eru hv. þingmanni hugleikin, að fólk þurfi ekki að keyra mikið á milli staða. Það er gott að gera keyrt sem minnst og mengað sem minnst ef út í það er farið. Og þótt ég segi það í gamansömum tón þá er það ekki bara gamanmál heldur snýr það einnig að alvarlegri málum.

Varðandi þróunina þá finnst mér í sjálfu sér ekki óeðlilegt að ÁTVR fari slíka leið frekar en að gera langtímasamning með leiguhúsnæði og setja upp ríkisverslanir á hverjum einasta stað.

Hv. þingmaður nefndi Hveragerði, þar sem menn tókust mjög á um þetta. Þar tókust menn á um þá hagsmuni. Þar var verslunarkjarni sem hafði áhuga á að fá þetta til að styrkja starfsemi sína. Farið var í útboð á þessu, ef ég man rétt, og bensínstöð sem hlaut hnossið. Þar hafa menn væntanlega séð hag sinn í því.

Ég sé ekki réttlætisrökin í því að láta suma fá slíka verslun en ekki aðra og nefndi Mjóddina en kannski er dæmið frá Hveragerði ágætt líka.