Sala áfengis og tóbaks

Fimmtudaginn 01. febrúar 2007, kl. 16:55:42 (4183)


133. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

26. mál
[16:55]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Ég get tekið undir þetta frumvarp. Það er tímabært að endurskoða ríkissölu á áfengi. Mér líst ekki illa á það. En það sem ég velti fyrir mér þessum mörkum um 22% og hvers vegna menn bara leyfi þetta ekki alfarið? Hvers vegna þessi mörk eru dregin til þess að menn sitji uppi með ríkiseinokun á sterku áfengi? Hvernig lítur það út?

En það er annað mál sem ég tel jafnvel stærra í þessu samhengi, þ.e. verðlagið og skattheimtan af áfengi sem er að vísu fjallað um í greinargerðinni. Það kemur efni þessa frumvarps ekki við eftir því sem ég best sé en ég tel verðlagið komið svolítið úr takti við það sem gerist í nágrannaríkjunum.

Ef við ætlum að byggja upp ferðaþjónustu er ekki hægt að selja mat eða áfengi á miklu hærra verði en gerist annars staðar. Menn ætla að taka á hárri verðlagningu með lækkun matarskatts. En ég tel að það verði einnig að líta til þessa þáttar. Ef skattheimtan er kannski stærsti hlutinn af verði vörunnar, væri þá ekki vert að breyta innheimtu þessa gjalds, t.d. að innheimta gjaldið eftir að varan hefur verið seld, t.d. á veitingahúsum?

Veitingahús sem ætlar að bjóða upp á dýr vín þarf að hafa lager og lagerinn felst kannski fyrst og fremst í því að hafa greitt skatta til ríkisins. Þeir eru kannski 80% af verðinu. Lagerinn felst í því að vera búinn að greiða fyrir fram skatta.