Sala áfengis og tóbaks

Fimmtudaginn 01. febrúar 2007, kl. 16:57:53 (4184)


133. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

26. mál
[16:57]
Hlusta

Flm. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Sigurjón Þórðarson kemur inn á punkt sem mjög eðlilegt er að velta fyrir sér, þ.e. varðandi prósentuna og hvað verði um sterkara áfengi. Það yrði væntanlega selt með svipuðum hætti og núna. Væntanlega mundi ÁTVR semja um aðstöðu líkt og gert er núna um sölu á sterkara víni. En þetta er málefnaleg athugasemd sem sjálfsagt er að ræða. Þetta er gert til þess að stíga styttri skref í einu og ná betri sátt, að leggja málið fram með þessum þætti. En þetta er svo sannarlega nokkuð sem sjálfsagt er að fara yfir.

Varðandi hinn punktinn sem hv. þingmaður nefndi, þ.e. áfengisgjöldin, þá er það ekkert leyndarmál að þau eru mjög há miðað við það sem gerist í öðrum löndum. Þó má segja ríkisvaldinu, þ.e. ríkisstjórnum undanfarinna ára, til hróss að gjaldið hefur ekki hækkað í mörg ár. Raunlækkunin er mikil og munurinn hefur minnkað. Hann var mun meiri og þá fyrst og fremst á léttvíni og bjór. Gjaldið hefur eitthvað hækkað á sterku vínunum.

Umgengni um áfengi hefur líka breyst afskaplega mikið á undanförnum árum og áratugum. Tölur sýna að menn hafa farið úr sterkum drykkjum yfir í léttari vín sem ég tel jákvæða þróun og augljóst að menn nota vín meira með mat o.s.frv.

Það sem hv. þingmaður nefndi er rakið svolítið í greinargerðinni. Ég held að vísu að þar séu tveggja ára gamlar tölur sem kunna að hafa breyst, en það væri frekar til batnaðar fyrir Íslendinga. En þetta eru allt saman málefnalegar athugasemdir frá hv. þingmanni og ég þakka honum fyrir þær.