Sala áfengis og tóbaks

Fimmtudaginn 01. febrúar 2007, kl. 17:22:25 (4187)


133. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

26. mál
[17:22]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég er nú ekki að óska eftir annarri bjórumræðu sem stóð held ég í 20 eða 30 ár með síendurteknum frumvörpum á þinginu. En þar var svo sannarlega farið í gegnum áfengismálin frá a til ö. Það var gert.

Ég tel að þeir sem samþykktu bjórinn að lokum hafi gert það vitandi vits og vitað nokkurn veginn hvað þeir voru að gera, enda voru ýmsar hliðarráðstafanir í tengslum við það gerðar. Vegna þess að umræðunni var stýrt þannig. Það var ekki látið eins og eitthvert smámál væri á ferðinni heldur var þetta liður í umræðu um áfengisvandamálin en ekki einhverja tiltekna hagsmuni úti í bæ.

Ég skal hlífa flutningsmanni, hinum eina sem hér er staddur, við fráleitum beiðnum um afstöðu til tiltekinna mála. Ég nefni bara fjögur, sem sé fyrir utan það aðgengi sem hér stendur til að auka, þá nefni ég verð, aldursmörk og auglýsingar. Hver er afstaða hans til þessara þriggja hluta? Hann hefur þegar lýst því yfir að hann vantreysti íslenskri þjóð til að velja sér sjálf önnur vímuefni en áfengi og tóbak. Hann hefur sem sé vantrú á íslenskri þjóð með það.

En ég vil fá að vita um afstöðu hans til þessara þátta hinna. Hvaða hugmyndir gerir hann sér? Hann nefnir áfengisgjaldið í frumvarpi sínu. Hvaða hugmyndir gerir hann sér um áfengisverð hér á landi? Hvað telur hann um aldursmörk við áfengiskaup? Hver er afstaða hans til þeirra ólöglegu auglýsinga sem nú eru farnar af stað og þess þrýstings sem aukin smásala á vegum einkaaðila mundi skapa á frekari auglýsingar á áfengi, sterku áfengi, bjór, léttvíni og gosvíni?