Sala áfengis og tóbaks

Fimmtudaginn 01. febrúar 2007, kl. 17:24:34 (4188)


133. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

26. mál
[17:24]
Hlusta

Flm. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er svolítið sérstakt. Fyrst byrjar hv. þingmaður að fara yfir hvað það sé sérstakt að í greinargerðinni sé farið inn á fleira en það sem tengist frumvarpinu. Það sé nú ekki lítið sérstakt. Hvað menn séu eiginlega að gera og það sé ekkert samhengi í þessu. Hv. þingmaður benti réttilega á að þar er fjallað um áfengisgjaldið.

Hv. þingmanni fannst í upphafi ræðu sinnar að þetta væri fyrir neðan hellur, algjörlega fyrir neðan allar hellur hvernig mönnum dytti þetta í hug. Af því svo sannarlega væri ekkert í frumvarpinu sem tengdist áfengisgjaldinu.

Nú veit ég að Samfylkingin skiptir oft um skoðun, en hv. þingmaður tók u-beygju í ræðunni og nú fer hann fram á að ekki sé hægt að ræða þetta mál nema menn svari öllu öðru sem honum finnst tengjast áfengismálum.

Hv. þingmaður fór sjálfur yfir það hvað fram kemur varðandi áfengisgjaldið í greinargerðinni. Hann gerði það, virðulegi forseti. Fór ágætlega yfir það. Ég skil því ekki hvað hv. þingmaður er að koma hingað og spyrja síðan í kjölfarið þar sem hann byrjaði í ræðunni að fara yfir það. Nefndi ágætishluti eins og þá að skynsamlegt væri hugsanlega að færa þetta yfir á svipað stig og er á Norðurlöndunum og þá væntanlega til lækkunar, en líklega er ekki verið að tala um Noreg því Norðmenn eru með hærri áfengisgjöld en Íslendingar. En svo er það að vísu nokkuð misjafnt annars staðar á norrænu löndunum hvernig þetta er.

Það er ekkert sem bendir til þess, ef við tölum um auglýsingar, að ef menn mundu breyta þessu á þeim stöðum þar sem á eftir að breyta, að meiri þrýstingur yrði á auglýsingar. Það er mikill þrýstingur á auglýsingar. Við höfum fundið fyrir því. Það má færa rök fyrir því að fara eigi yfir þessi auglýsingamál og hin svokölluðu kostunarmál mjög gaumgæfilega. Það er alveg efni í sérumræðu en það tengist ekki þessu (Forseti hringir.) máli.