Sala áfengis og tóbaks

Fimmtudaginn 01. febrúar 2007, kl. 17:26:45 (4189)


133. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

26. mál
[17:26]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson, flutningsmaður málsins, er greinilega kominn á flótta. Hann er farinn að draga stjórnmálaflokkana inn í málið, stjórnmálaflokkur minn á að vera með tilteknum hætti.

Nú ætti ég kannski að eyða öllum þessum tíma sem ég hef í að lýsa stjórnmálaflokki hans á móti til að umræðan verði algjörlega marklaus. Það sem ég ósköp einfaldlega bað hv. þm. Guðlaug Þór Þórðarson um að gera var að lýsa í stuttu máli í andsvari, eða í ræðu á eftir, afstöðu sinni til áfengismálanna almennt.

Ég nefndi fjögur atriði. Þar á meðal var verðið, aðgengismálin í stærri pakka en hér eru nefnd, auglýsingarnar og áfengiskaupaaldurinn.

Ég legg áherslu á að þegar menn flytja svona tillögu, einn maður eða fjórtán, verða þeir að gefa okkur heildarmyndina og einn punktur af heildarmyndinni er sá hvaða afstöðu menn hafa til ólöglegra vímu- og fíkniefna. Því maður sem kemur hér og segir að það sé vantrú á íslenskri þjóð að spyrja spurninga um áfengisvandann, sem á þessa sömu þjóð hefur herjað í 11 aldir, verður líka að gera grein fyrir því hvers vegna hann hefur þá sannfæringu að þjóðin þoli ekki að standa frammi fyrir öðrum vímuefnum. Ég er ekki að boða það hér að opna eigi fyrir þau, enda er það ekki gert í nágrannalöndunum. En ég tel að í grundvallaratriðum verði menn að standa klárir á þessu, ekki síst þegar þeir sveifla í kringum sig frelsisfánanum af því sjálfsöryggi, að ég segi ekki þótta, sem 1. flutningsmaðurinn af þeim fjórtán hefur gert hér í dag.